Úrskurður yfirskattanefndar

  • Lækkunarheimild vegna tvísköttunar

Úrskurður nr. 623/1998

Gjaldár 1997

Lög nr. 75/1981, 117. gr. 3. mgr.  

Ríkisskattstjóri lækkaði tekjuskatt og útsvar kæranda hér á landi um hlutfall tekna hans á Grænlandi af heildartekjum hans á tekjuárinu á grundvelli heimildar í 3. mgr. 117. gr. laga nr. 75/1981. Yfirskattanefnd taldi ekki tilefni til athugasemda við þá ákvörðun ríkisskattstjóra þar sem ekki yrði talið að lækkun samkvæmt framangreindri heimild gæti leitt til hagstæðari niðurstöðu fyrir skattaðila en leiða myndi af deilireglu samkvæmt tvísköttunarsamningum.

I.

Málavextir eru þeir að með bréfi, dags. 28. júlí 1997, tilkynnti skattstjóri kæranda með vísan til 96. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, að hann hefði lagt opinber gjöld á tekjur kæranda á Grænlandi frá árinu 1996 við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1997. Benti skattstjóri kæranda á að snúa sér til ríkisskattstjóra með erindi varðandi niðurfellingu á álögðum gjöldum af umræddum tekjum.

Með bréfi, dags. 30. júlí 1997, óskaði kærandi eftir því við embætti ríkisskattstjóra að hann lækkaði opinber gjöld kæranda gjaldárið 1997 af tekjum sem hann hefði haft á Grænlandi með tilliti til skattgreiðslna hans þar. Ríkisskattstjóri féllst á erindið, sbr. bréf hans, dags. 21. október 1997. Lækkaði ríkisskattstjóri álögð gjöld kæranda um samtals 380.396 kr. Vísaði ríkisskattstjóri í þessu sambandi til 3. mgr. 117. gr. laga nr. 75/1981.

Með kæru til yfirskattanefndar, dags. 27. október 1997, gerir umboðsmaður kæranda þá kröfu að opinber gjöld kæranda verði lækkuð um 516.460 kr. sem sé sú fjárhæð er hann hafi greitt í skatta á Grænlandi. Telur umboðsmaður kæranda opinber gjöld kæranda of hátt ákvörðuð skv. úrskurði ríkisskattstjóra. Telur hann kæranda greiða 52,59% skatt af tekjum á Grænlandi og persónuafslátt hans verða fyrir skerðingu sem nemi 61,9228% en dvalartími kæranda á Grænlandi hafi aðeins verið um 3,5 mánuðir.

Með bréfi, dags. 30. janúar 1998, krefst ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda staðfestingar á úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 21. október 1997.

II.

Kærandi bar ótakmarkaða skattskyldu hér á landi tekjuárið 1996 samkvæmt 1. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og bar því að greiða tekjuskatt af öllum tekjum sínum hvar sem þeirra er aflað, þar með töldum greiðslum frá Grænlandi sem skattlagðar voru í því landi, og eignarskatt af öllum eignum sínum hvar sem þær voru.

Enginn tvísköttunarsamningur er í gildi milli Íslands og Grænlands. Samkvæmt 3. mgr. 117. gr. laga nr. 75/1981, er ríkisskattstjóra heimilt, samkvæmt umsókn aðila eða ábendingu skattstjóra, að lækka tekjuskatt og eignarskatt skattaðila hér á landi með hliðsjón af skattgreiðslum hans erlendis, sé eigi fyrir hendi tvísköttunarsamningur við viðkomandi ríki, hafi skattaðili verið skattskyldur er hér á landi samkvæmt 1. og 2. gr. laganna og greitt til opinberra aðila í öðru ríki skatta af tekjum sínum og eignum sem skattskyldar eru hér á landi. Með úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 21. október 1997, var fallist á beiðni kæranda um lækkun opinberra gjalda með vísan til ofangreindrar 117. gr.

Ríkisskattstjóri beitti framangreindri lækkunarheimild vegna skattgreiðslna erlendis á þann hátt að hann lækkaði tekjuskatt og útsvar kæranda hér á landi um hlutfall tekna kæranda á Grænlandi af heildartekjum hans tekjuárið 1996, þ.e. 61,94%. Samkvæmt þessari aðferð varð lækkunarfjárhæðin 380.396 kr., enda reyndi ekki á það að fjárhæðin takmarkaðist við skattgreiðslur erlendis þar sem þær voru hærri eða 516.460 kr. eins og fram er komið. Ekki er tilefni til athugasemda við þessa ákvörðun ríkisskattstjóra, enda verður ekki talið að lækkun samkvæmt framangreindri heimild geti leitt til hagstæðari niðurstöðu fyrir skattaðila en leiða myndi af deilireglu samkvæmt tvísköttunarsamningum.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja