Úrskurður yfirskattanefndar

  • Sambýlisfólk
  • Afturköllun beiðni um samsköttun

Úrskurður nr. 997/1998

Gjaldár 1997

Lög nr. 75/1981, 63. gr. 3. mgr., 64. gr. 1. mgr., 69. gr. C-liður   Lög nr. 37/1993, 13. gr.  

Kærandi og fyrrverandi sambýliskona hans skiluðu sameiginlegu skattframtali árið 1997. Síðar barst skattstjóra skattframtal sambýliskonunnar þar sem hún taldi fram sem einstaklingur fyrir allt tekjuárið 1996. Yfirskattanefnd taldi að sambýliskonunni hefði verið heimilt eins og á stóð að hverfa frá fyrri ósk sinni um samsköttun með kæranda með innsendingu nýs skattframtals. Þar sem skilyrði til samsköttunar hefðu þá ekki lengur verið fyrir hendi hefði orðið að skattleggja kæranda sem einstakling allt árið 1996, svo sem skattstjóri gerði. Voru ekki talin efni til að ómerkja hina umdeildu álagningu þótt skattstjóri hefði ekki gefið kæranda kost á að tjá sig um fyrrgreinda breytingu á afstöðu sambýliskonunnar og tilkynnt honum með formlegum hætti um breytta tilhögun skattlagningar, svo sem yfirskattanefnd taldi þó að rétt hefði verið að gera í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti.

I.

Málavextir eru þeir að kærandi og fyrrverandi sambýliskona hans, B, skiluðu sameiginlegu skattframtali árið 1997, sem dagsett er 29. janúar 1997, og fóru fram á að þau yrðu skattlögð eftir þeim reglum sem gilda um hjón, sbr. heimild þá sem er að finna í 3. mgr. 63. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Með skattframtalinu fylgdi greinargerð um vaxtagjöld vegna lána til öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota (RSK 3.09) að X í Reykjavík, en íbúð þessi var færð til eignar samkvæmt framtalinu. Skuldir samkvæmt greinargerðinni námu 5.270.143 kr. og vaxtagjöld 324.897 kr., sbr. reiti 87 og 45 í framtalinu. Samkvæmt gögnum málsins barst skattstjóra síðar skattframtal sambýliskonunnar, dags. 12. maí 1997, er skattstjóri móttók sama dag, þar sem hún taldi fram sem einstaklingur fyrir allt árið 1996. Í athugasemdadálki skattframtalsins var tekið fram að óskað væri eftir því að framtalið kæmi í stað fyrra skattframtals „vegna sambúðarslita“. Skattframtali þessu fylgdi greinargerð um vaxtagjöld vegna öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota (RSK 3.09) sama efnis og fyrrgreind greinargerð og var um að ræða sömu færslur vegna íbúðar og skulda og vaxtagjalda af þeim og í hinu fyrra sameiginlega skattframtali.

Við almenna álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1997 voru kæranda og fyrrverandi sambýliskonu hans ákvörðuð opinber gjöld sem einstaklingum vegna alls ársins 1996.

Af hálfu umboðsmanns kæranda var álagningunni mótmælt í kæru til skattstjóra, dags. 29. ágúst 1997, og þess krafist „að álagning og greiðsla vaxtabóta verði að öllu leyti byggð á sameiginlegu framtali [kæranda] og sambýliskonu hans, B, enda bjuggu aðilar saman allt árið 1996 og slitu samvistir árið 1997“. Tekið var fram í kærunni að aðilar hefðu skilað sameiginlegu skattframtali og bæði undirritað það. Sú ákvörðun, sem þar kæmi fram, stæði óbreytt af hálfu kæranda. Var því sérstaklega mótmælt að fyrrverandi sambýliskona kæranda mætti breyta þeirri ráðstöfun einhliða og án samþykkis kæranda.

Skattstjóri tók kæruna til úrlausnar með kæruúrskurði, dags. 23. desember 1997, og hafnaði henni. Vitnaði skattstjóri til ákvæða 1. mgr. 64. gr. laga nr. 75/1981, sem hann tók upp óbreytta í kæruúrskurðinum, og vísaði til þess að samkvæmt upplýsingum úr þjóðskrá hefðu kærandi og fyrrverandi sambýliskona hans slitið óvígðri sambúð hinn 29. september 1996 og hefðu ekki verið skráð aftur í sambúð á því ári. Samkvæmt þessu væri ljóst, sbr. lokamálslið ákvæðisins, að sambýliskonu kæranda hefði verið heimilt að afturkalla ósk sína um samsköttun, enda hefði ekki legið fyrir bindandi stjórnsýsluúrskurður af hálfu skattstjóra er heimilaði samsköttun.

II.

Af hálfu umboðsmanns kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til yfirskattanefndar með kæru, dags. 30. desember 1997. Vísað er til kröfugerðar í kæru til skattstjóra, dags. 29. ágúst 1997, og jafnframt til þess að skattstjóri hafi tekið einhliða ákvörðun um að breyta álagningu opinberra gjalda að beiðni fyrrverandi sambýliskonu kæranda með því að fella úr gildi sameiginlegt skattframtal þeirra beggja og án þess að gefa kæranda kost á að andmæla kröfu sambýliskonunnar áður en ákvörðunin var tekin. Þess er getið að kærandi og B hafi verið í sambúð í um það bil fimm ár og átt saman eina dóttur. Þá hafi þau átt íbúð í sameign. Sambúðin hafi rofnað í september 1996 en hafist að nýju 1. janúar 1997.

III.

Með bréfi, dags. 17. apríl 1998, hefur ríkisskattstjóri krafist þess fyrir hönd gjaldkrefjenda að hinn kærði úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

IV.

Krafa kæranda í máli þessu er sú að álagning opinberra gjalda gjaldárið 1997 verði byggð á sameiginlegu skattframtali kæranda og sambýliskonu hans, B, dags. 29. janúar 1997. Það skattframtal, sem undirritað var af báðum aðilum, hafði að geyma beiðni þeirra um skattlagningu eftir þeim reglum sem gilda um hjón, sbr. þá heimild sem er í 3. mgr. 63. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Jafnframt bárust skattstjóra undirrituð en óútfyllt skattframtöl aðilanna þar sem beiðni um samsköttun kom fram í athugasemdadálkum. Eins og fyrr segir barst skattstjóra síðar eða 12. maí 1997 skattframtal sambýliskonunnar, þar sem hún taldi fram sem einstaklingur fyrir allt tekjuárið 1996. Byggði skattstjóri álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1997 á því skattframtali og skattlagði kæranda jafnframt sem einstakling allt tekjuárið 1996. Er sjónarmið kæranda það að skattstjóra hafi verið óheimilt með einhliða ákvörðun að líta fram hjá fyrirliggjandi sameiginlegu skattframtali samkvæmt beiðni sambýliskonunnar án þess að gefa kæranda kost á að tjá sig um þá ráðstöfun. Skattstjóri byggir á því, sbr. kæruúrskurð hans, dags. 23. desember 1997, að sambýliskonunni hafi verið heimilt að afturkalla beiðni sína um samsköttun, enda hefði ekki legið fyrir bindandi stjórnvaldsákvörðun af hendi skattstjóra er heimilaði slíka sköttun. Virðist skattstjóri byggja á niðurlagsákvæði 1. mgr. 64. gr. laga nr. 75/1981.

Samkvæmt 3. mgr. 63. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, eiga karl og kona, sem búa saman í óvígðri sambúð og eiga sameiginlegt lögheimili, rétt á að telja fram og vera skattlögð sem hjón sem samvistum eru, ef þau hafa átt barn saman eða konan er þunguð eða sambúðin hefur varað samfleytt í a.m.k. eitt ár, enda óski þau þess bæði skriflega við skattyfirvöld. Verður að virða atvik í máli þessu svo að sambýliskonan hafi með innsendu skattframtali sínu hinn 12. maí 1997 horfið frá fyrri ósk sinni um samsköttun með kæranda sem borin hafði verið fram á grundvelli áðurnefndrar 3. mgr. 63. gr. laga nr. 75/1981. Eins og á stóð verður að telja að henni hafi verið þetta heimilt. Samkvæmt þessu voru ekki lengur fyrir hendi skilyrði til sköttunar samkvæmt 3. mgr. 63. gr. laga nr. 75/1981 og af því leiddi að skattlagningu á kæranda varð að haga með þeim hætti sem skattstjóri ákvað. Á hinn bóginn verður að taka undir það með kæranda að eins og málið lá fyrir skattstjóra hefði verið rétt í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti, sbr. og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að skattstjóri gæfi kæranda kost á að tjá sig um fyrrgreinda breytingu á afstöðu sambýliskonunnar og tilkynnti honum með formlegum hætti um breytta tilhögun skattlagningar. Þrátt fyrir þennan annmarka á málsmeðferð skattstjóra þykja þó ekki næg efni til að ómerkja hina umdeildu álagningu af þeim sökum. Samkvæmt þessu er kröfu kæranda hafnað.

Í kæru til skattstjóra, dags. 29. ágúst 1997, kom sérstaklega fram að kærandi mótmælti því að honum voru ekki ákvarðaðar neinar vaxtabætur við almenna álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1997. Þrátt fyrir framangreinda niðurstöðu þykir hafa sjálfstæða þýðingu að leysa úr því hvort kæranda beri réttur til vaxtabóta gjaldárið 1997. Óumdeilt er að sambúðarslit urðu í september 1996. Samkvæmt gögnum málsins á kærandi ekki íbúðarhúsnæði. Eins og atvikum var farið samkvæmt þessu gat réttur kæranda til vaxtabóta einungis byggst á ákvæðum 7. mgr. C-liðar 69. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, þar sem m.a. er kveðið á um skiptingu vaxtabóta til helminga milli sambýlisfólks sem uppfyllir skilyrði fyrir samsköttun, sbr. 3. mgr. 63. gr. laganna, í lok tekjuárs, enda þótt það óski ekki eftir að vera skattlagt samkvæmt þeirri grein. Vegna fyrrgreindra sambúðarslita var þetta lagaskilyrði ekki uppfyllt í tilviki kæranda í lok tekjuársins. Samkvæmt þessu ber kæranda ekki réttur til vaxtabóta gjaldárið 1997.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja