Úrskurður yfirskattanefndar

  • Rekstrarkostnaður

Úrskurður nr. 1090/1998

Gjaldár 1997

Lög nr. 75/1981, 31. gr. 1. tölul. 1. mgr.  

Fallist á kröfu kæranda, sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfara, um gjaldfærslu kaupa á geislaplötum og kasettum sem kærandi kvaðst nota við leikfimikennslu á vegum tilgreindra aðila.

I.

Kæruefnið í máli þessu, sem barst yfirskattanefnd með kæru, dags. 22. janúar 1998, er ákvörðun skattstjóra um að fella niður gjaldfærð kaup á geislaplötum og kassettum 42.463 kr. í rekstrarreikningi kæranda fyrir árið 1996, sbr. tilkynningu skattstjóra, dags. 24. júlí 1997, og kæruúrskurð, dags. 23. desember 1997. Kærandi er sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfari og byggði skattstjóri ákvörðun sína á því að umrædd kaup á geislaplötum og kassettum teldust persónuleg útgjöld hennar sem ekki væru frádráttarbær frá rekstrartekjum samkvæmt 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Tók skattstjóri m.a. fram að svo virtist sem í hefðbundinni sjúkraþjálfun væri ekki notuð tónlist og væri jafnvel fullyrt af sjúkraþjálfurum að slíkt áreiti í starfi þeirra væri ekki æskilegt.

Í kæru til yfirskattanefndar kemur fram af hálfu umboðsmanns kæranda að tilgreindar rekstrartekjur kæranda samkvæmt rekstrarreikningi hennar fyrir árið 1996 séu ekki eingöngu til komnar vegna sjúkraþjálfunar. Hluti tekna kæranda sé vegna kennslu í leikfimi og sundleikfimi og við þá kennslu sé notuð tónlist. Kaup á geislaplötum og kassettum til nota við kennsluna séu því gjöld til öflunar tekna í skilningi 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Með bréfi, dags. 29. maí 1998, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur.

Þrátt fyrir að kostnaður sá sem um er deilt í máli þessu kunni að einhverju leyti að hafa haft þýðingu fyrir öflun rekstrartekna, verður að telja að fyrst og fremst sé um að ræða útgjöld sem falla undir persónulegan kostnað kæranda.“

II.

Af hálfu kæranda er komið fram að á árinu 1996 hafi hún auk hefðbundinnar sjúkraþjálfunar haft með höndum leikfimikennslu á vegum tilgreindra aðila. Kveður hún kaup sín á geislaplötum og kassettum einvörðungu til komin vegna þessara starfa sinna sem krefjist notkunar tónlistar. Að virtum þessum skýringum kæranda og fram lögðum gögnum, sbr. bréf umboðsmanns hennar til yfirskattanefndar, dags. 9. janúar 1998, þykir skattstjóri ekki hafa skotið nægum stoðum undir breytingu sína. Að þessu virtu er fallist á kröfu kæranda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja