Úrskurður yfirskattanefndar

  • Teknategund
  • Fyrning

Úrskurður nr. 35/2001

Gjaldár 1999

Lög nr. 75/1981, 7. gr. B-liður, 11. gr., 13. gr., 32. gr.  

Sameignarfélagið A, sem byggði og seldi fasteignir, var ósjálfstæður skattaðili. Á árinu 1998 lauk A sf. við byggingu húsnæðis og var hluti þess seldur en hluti leigður út. Í málinu gerði kærandi, sem var einn af eigendum félagsins, kröfu um að á móti hagnaði A sf. af sölu húsnæðisins yrði honum heimilað að fyrna þann hluta fasteignarinnar sem A sf. leigði út á árinu 1998. Yfirskattanefnd benti á að sala húsnæðisins hefði fallið undir atvinnurekstur A sf. og þannig hefði verið farið með söluna í skattskilum félagsins. Yrði því að telja að um tekjur af reglubundinni starfsemi félagsins væri að ræða sem ekki yrði farið með samkvæmt lagaákvæðum um söluhagnað eigna. Var kröfu kæranda hafnað.

I.

Málavextir eru þeir að skattframtali kæranda árið 1999 fylgdi ársreikningur A sf., sem er ekki sjálfstæður skattaðili, þar sem kom fram að kærandi væri einn af fimm eigendum félagsins. Á samræmingarblaði (RSK 4.05) með skattframtali sínu taldi kærandi sér til tekna einn fimmta hluta af hagnaði félagsins, 2.907.230 kr., og færði sérstaka fyrningu fasteignar að fjárhæð 2.219.435 kr. til frádráttar á móti hagnaði af sölu félagsins á atvinnuhúsnæði.

Hinn 28. júlí 1999 tilkynnti skattstjóri kæranda með vísan til 1. mgr. 95. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, að hann hefði fellt niður fyrningu þá, sem kærandi hefði fært til frádráttar á móti hagnaði af sölu atvinnuhúsnæðis. Kvað skattstjóri ákvörðunina byggða á því að um væri að ræða tekjur af atvinnustarfsemi kæranda en ekki hagnað af sölu atvinnuhúsnæðis samkvæmt 11. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Af þessu leiddi að hreinar tekjur af atvinnustarfsemi kæranda hækkuðu úr 1.937.474 kr. í 4.156.909 kr.

Með kæru til skattstjóra, dags. 27. ágúst 1999, kærði umboðsmaður kæranda álagningu opinberra gjalda á kæranda og krafðist þessa að skattframtali kæranda yrði breytt í fyrra horf og opinber gjöld lögð á hann að nýju í samræmi við það. Í kærunni kom fram að A sf. hefði byggt atvinnuhúsnæði að X í Reykjavík. Hluti húsnæðisins hefði verið seldur en hluti þess leigður út. Umboðsmaðurinn bar því við að hin selda eign félli undir skilgreiningu 11. gr. laga nr. 75/1981, þó svo að fyrningartími hefði ekki verið hafinn. Sá hluti eignarinnar, sem áfram væri í eigu A sf., hefði því verið fyrndur sérstakri fyrningu á móti hinum skattskylda söluhagnaði samkvæmt 13. gr. nefndra laga.

Með kæruúrskurði, dags. 1. febrúar 2000, hafnaði skattstjóri kröfu kæranda með svofelldum forsendum:

„Að mati skattstjóra eiga ... ákvæði 11. gr. laga nr. 75/1981 við um sölu á eignum, sem nýttar hafa verið til öflunar tekna og fyrndar áður en sala þeirra fór fram. Skattstjóri telur ljóst að framangreint húsnæði var ekki nýtt til öflunar tekna áður en sala þess fór fram heldur telst bygging þess og sala vera þáttur í reglulegri starfsemi félagsins enda liggur fyrir að félagið A sf., í eigu kæranda, starfar við byggingu og sölu eigna, sbr. upplýsingar í ársreikningi og skráningu vegna virðisaukaskatts.

Heimildarákvæði 13. gr. sömu laga um fyrningu eigna um fjárhæð sem nemur skattskyldum söluhagnaði, og fyrnanlegar eru skv. 32. gr., eiga því ekki við í þessu sambandi.“

II.

Með kæru, dags. 30. apríl 2000, hefur umboðsmaður kæranda skotið kæruúrskurði skattstjóra, dags. 1. febrúar 2000, til yfirskattanefndar. Umboðsmaður kæranda gerir kröfu um að skattframtali kæranda verði breytt í fyrra horf og opinber gjöld lögð á að nýju í samræmi við það auk þess að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með síðari breytingum. Í kærunni er gerð grein fyrir málavöxtum en síðan segir meðal annars svo:

„[Skattstjóri telur] að 11. gr. laga nr. 75/1981 eigi eingöngu við ef eignin hefur aflað tekna og verið fyrnt áður en salan á sér stað. Ef svo væri, væri orðalag greinarinnar á annan hátt og þar stæði væntanlega eitthvað í þá átt, að hagnaður af sölu eigna, sem fyrntar hefðu verið í atvinnurekstri, í stað sem heimilt er að fyrna.

Það kemur hvergi fram í framangreindum greinum skattalaga nr. 75/1981 að fyrningartími þeirrar eignar (eignarhluta), sem seldur er skuli hafinn til að fyrna megi aðra eigna á móti söluhagnaði, aðeins að fyrning hennar sé heimil skv. 32. gr. og undir það hlýtur hin selda eign að falla. Hvernig hefði verið farið með söluhagnað af húsnæði, sem fyrirtæki hefði byggt yfir starfsemi sína, selt áður en starfsemin flutti inn í það og keypt annað húsnæði. Hefði ekki mátt fyrna hið nýja húsnæði á móti söluhagnaði, sem myndaðist vegna sölu þess sem byggt var, þar sem fyrirtækið tók það aldrei í notkun í eiginlegri merkingu?

Í raun og veru kemur ekki fram í 11. gr., að tilgangur starfseminnar megi ekki vera sá að byggja og selja atvinnuhúsnæði (og hafa þannig af því tekjur), eins og skattstjóri túlkar greinina. Við sölu á hluta húseignarinnar í hvaða tilfelli sem er, er fyrning á móti söluhagnaði aðeins frestun á skattlagningu.“

Með bréfi, dags. 15. júní 2000, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“

III.

Skattframtali kæranda fylgdi sem fyrr segir ársreikningur A sf. fyrir árið 1998. Samkvæmt rekstrarreikningi námu rekstrartekjur 193.279.939 kr. og rekstrarkostnaður 167.342.303 kr. Af rekstrartekjum námu tekjur af seldum íbúðum 186.271.200 kr., þar af 52.471.200 kr. vegna X í Reykjavík. Af rekstrarkostnaði nam kostnaðarverð selds húsnæðis alls 153.763.069 kr., þar af 34.070.518 kr. vegna X í Reykjavík. Á meðal fastafjármuna í efnahagsreikningi sínum færði A sf. 12.372.712 kr. vegna þess hluta fasteignarinnar að X sem félagið leigði út á árinu 1998. Var þar um að ræða kostnaðarverð þess hluta 12.755.374 kr. af frádreginni almennri fyrningu 382.661 kr.

Í málinu gerir kærandi kröfu um að á móti hagnaði A sf. af sölu X verði honum heimilað að fyrna þann hluta fasteignarinnar sem félagið leigði út á árinu 1998, sbr. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Samkvæmt tilvitnuðu ákvæði er skattaðila heimilt að fyrna eignir, sem fyrnanlegar eru samkvæmt 32. gr., um fjárhæð sem nemur skattskyldum söluhagnaði samkvæmt 11. gr. á því ári sem hagnaðurinn færist til tekna.

Samkvæmt gögnum málsins lauk A sf. við byggingu atvinnuhúsnæðisins að X í Reykjavík á árinu 1998. A sf. seldi hluta húsnæðsins en leigði hluta þess út. Af hálfu kæranda er byggt á því að reglur um söluhagnað í lögum nr. 75/1981 eigi við um þann hluta húsnæðisins sem var seldur. Samkvæmt ársreikningi A sf. er félagið byggingarverktaki og eru tekjur þess fyrst og fremst til komnar vegna sölu á fasteignum sem eru byggðar af félaginu. Samkvæmt þessu féll sala á umræddu húsnæði undir atvinnurekstur A sf. og þannig var farið með söluna í skattskilum sameignarfélagsins. Með hliðsjón af því verður ekki fallist á að tekjur A sf. af sölu fasteignarinnar að X teljist til söluhagnaðar samkvæmt 11. gr. laga nr. 75/1981, enda tekur ákvæðið eingöngu til eigna sem heimilt er að fyrna samkvæmt 32. gr. laganna, heldur verður að telja að um tekjur af reglubundinni starfsemi félagsins sé að ræða sem verður ekki farið með samkvæmt ákvæðum um söluhagnað eigna. Af þessu leiðir að sú heimild 13. gr. laga nr. 75/1981 til sérstakrar fyrningar fyrnanlegra eigna á móti skattskyldum söluhagnaði samkvæmt 11. gr. laganna á ekki við í tilviki kæranda. Samkvæmt framansögðu verður að hafna kröfu kæranda.

Af hálfu kæranda hefur verið gerð krafa um að honum verði úrskurðaður málskostnaður úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998. Samkvæmt úrslitum málsins þykja ekki vera fyrir hendi lagaskilyrði til þess að ákvarða kæranda málskostnað. Kröfu þess efnis er því hafnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfum kæranda er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja