Úrskurður yfirskattanefndar

  • Skattlagning hjóna
  • Málsmeðferð skattstjóra

Úrskurður nr. 19/2002

Gjaldár 1997

Lög nr. 75/1981, 96. gr. 4. mgr. (brl. nr. 145/1995, 16. gr.)   Stjórnsýslulög nr. 37/1993, 13. gr.  

Skattstjóri endurákvarðaði opinber gjöld A til hækkunar og leiddi sú ákvörðun til breytinga á barnabótaauka og vaxtabótum B, maka A. Þar sem umræddar breytingar á barnabótaauka og vaxtabótum leiddu beint af þeim breytingum sem skattstjóri gerði á skattskilum A í samræmi við bein lagafyrirmæli um bætur þessar var talið að óþarft hefði verið að leita eftir afstöðu B til breytinganna. Var kröfu B um ómerkingu á breytingum skattstjóra því hafnað.

I.

Kærður er úrskurður ríkisskattstjóra um endurákvörðun opinberra gjalda kærenda gjaldárið 1997, dags. 27. mars 2001. Með úrskurði sínum hækkaði ríkisskattstjóri rekstrartekjur kæranda, A, og lækkaði frádráttarbæran rekstrarkostnað vegna rekstrarársins 1996. Þá bætti ríkisskattstjóri 25% álagi á vantalda skattstofna, sbr. 2. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Af úrskurði ríkisskattstjóra leiddi að barnabótaauki og vaxtabætur kærenda lækkuðu, sbr. skattbreytingaseðla, dags. 27. mars 2001.

Í kæru til yfirskattanefndar, dags. 27. júní 2001, er þess krafist af hálfu umboðsmanns kærenda að breytingar ríkisskattstjóra varðandi lækkun á rekstrarkostnaði í skattskilum kæranda, A, vegna rekstrarársins 1996, verði felldar niður. Þá er sérstaklega krafist niðurfellingar álags. Hvað snertir kæranda, B, er þess krafist að breytingar ríkisskattstjóra á barnabótaauka og vaxtabótum verði ómerktar. Þá er krafist greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum. Er þess óskað að yfirskattanefnd ákvarði þann kostnað að álitum.

II.

Málavextir eru þeir að kærandi, A, er sjálfstætt starfandi … . Með skattframtali hans árið 1997 fylgdi ársreikningur fyrir árið 1996. Með bréfi, dags. 29. ágúst 2000, krafði ríkisskattstjóri kæranda, A, um gögn og skýringar til staðfestingar á tilgreindum gjaldaliðum í rekstrarreikningi fyrir árið 1996. Þá óskaði ríkisskattstjóri eftir skýringum á misræmi á fjárhæðum í tilgreindum færslum í bókhaldi og útgefnum reikningum, auk þess sem ríkisskattstjóri fór fram á að kærandi legði fram tvo reikninga með tilgreindum númerum þar sem þeir hefðu ekki fundist í bókhaldsgögnum hans.

Umboðsmaður kærenda lagði fram umbeðin gögn og þær skýringar, sem hann taldi þörf á, með bréfi, dags. 21. september 2000. Í framhaldi af því boðaði ríkisskattstjóri kæranda, A, þann 19. október 2000 þær breytingar, sem um er deilt í málinu, og endurákvörðun opinberra gjalda gjaldárið 1997. Umboðsmaður kærenda mótmælti boðuðum breytingum ríkisskattstjóra með bréfi, dags. 1. nóvember 2000. Með úrskurði um endurákvörðun, dags. 27. mars 2001, tilkynnti ríkisskattstjóri kæranda, A, að hann hefði hrundið boðuðum breytingum í framkvæmd og endurákvarðað áður álögð opinber gjöld hans gjaldárið 1997 í samræmi við það, sbr. og meðfylgjandi skattbreytingaseðil, dags. 27. mars 2001. Þá tilkynnti ríkisskattstjóri kæranda, B, um lækkun á áður ákvörðuðum barnabótaauka og vaxtabótum með skattbreytingaseðli, dags. 27. mars 2001.

III.

Nánar eru ágreiningsefni málsins þessi:

1. Rekstrarkostnaður bifreiðar:

Ríkisskattstjóri lækkaði gjaldfærðan rekstrarkostnað bifreiðar um 163.720 kr. eða úr 183.720 kr. í 20.000 kr. Tók ríkisskattstjóri fram, sbr. úrskurð um endurákvörðun, dags. 27. mars 2001, að samkvæmt framlögðum gögnum varðandi gjaldfærðan rekstrarkostnað bifreiðar hefði bifreiðin X, sem hefði verið eina bifreiðin í eigu fjölskyldu kærenda árið 1996, eingöngu verið notuð í þágu atvinnurekstrarins þann tíma sem rekstur hefði verið stundaður á því ári. Fengi það ekki staðist að engin einkanot hefðu verið af bifreiðinni fyrri helming ársins, auk þess sem ekki yrði séð að mikill akstur ætti að fylgja rekstri kæranda, A. Þá hefði kærandi ekki lagt fram gögn þar sem gerð væri grein fyrir skiptingu rekstrarkostnaðar bifreiðarinnar milli einkanota og rekstrarnota, s.s. rekstraryfirlit fólksbifreiðar (RSK 4.03).

Í bréfi umboðsmanns kærenda, dags. 1. nóvember 2000, kom fram að aksturserindi kæranda, A, hefðu falist í daglegum ferðum innanbæjar í banka, pósthús og vöruafgreiðslu, auk þess sem kærandi hefði stundum þurft að aka til Akureyrar og Reykjavíkur í því skyni að kaupa inn vörur og sækja námskeið til endurmenntunar. Z Íslands héldi á hverju ári tvær ráðstefnur sem kærandi sækti til að halda sér við. Þá sækti kærandi einnig árlegan vorfyrirlestur á vegum Z Norðurlands. Hefði kærandi ekki gjaldfært neinn ferðakostnað vegna þessara ferða utan rekstrarkostnaðar bifreiðarinnar. Auk framangreinds hefði kærandi í apríl 1996 sótt námskeið í postulínsinnleggi í Reykjavík, en staðfesting um það væri meðfylgjandi bréfinu. Á árinu 1996 hefði kærandi því tvisvar sinnum ekið til Reykjavíkur vegna rekstrarins og hefði ekin vegalengd numið u.þ.b. 800 til 900 km í hvort skiptið. Ekin vegalengd á fund á vegum Z Norðurlands á Akureyri væri u.þ.b. 300 km. Innanbæjarakstur á … vegna rekstrarins kæmi til a.m.k þrisvar sinnum í viku og væri ekin vegalengd í hvert skipti u.þ.b. 4 km. Hefði innanbæjarakstur því numið u.þ.b. 300 km miðað við að kærandi hefði verið í rekstri hálft árið. Samkvæmt framangreindu hefði akstur kæranda á árinu 1996 í þágu rekstrar numið um 2.300 km, en viðmiðunartaxti ríkisskattstjóra fyrir hvern ekinn km árið 1996 hefði verið 34 kr. Mætti samkvæmt því áætla að kostnaður kæranda við rekstur bifreiðarinnar vegna atvinnurekstrarins hefði numið um 78.200 kr. og væri gerð krafa um að sú fjárhæð yrði tekin til greina sem frádráttarbær rekstrarkostnaður samkvæmt 31. gr. laga nr. 75/1981.

Í kæru til yfirskattanefndar, dags. 27. júní 2001, er vísað til skýringa á akstri í þágu atvinnunnar í bréfi, dags. 1. nóvember 2000, og er mótmælt vefengingu ríkisskattstjóra á þeim skýringum. Er ítrekuð krafa um að 78.200 kr. verði heimilaðar til frádráttar tekjum sem rekstrarkostnaður bifreiðar, þ.e. viðurkenndur verði 2.300 km akstur, reiknaður á 34 kr. pr. ekinn km samkvæmt viðmiðun ríkisskattstjóra.

2. Sími og burðargjöld:

Gjaldfærður póst- og símakostnaður nam samtals 24.202 kr. og lækkaði ríkisskattstjóri hann um 11.700 kr. eða í 12.502 kr. með úrskurði sínum um endurákvörðun, dags. 27. mars 2001. Tók ríkisskattstjóri fram að þau fylgiskjöl, sem stæðu að baki þeim hluta kostnaðarins sem felldur hefði verið niður, væru vegna heimilissíma, en reikningarnir hljóðuðu upp á 4.704 kr. og 6.996 kr. Starfsemi kæranda, A, færi fram á starfsstöð rekstrarins. Taldi ríkisskattstjóri að enda þótt um einhver not af heimilissíma hefði verið að ræða vegna rekstrarins væri kostnaðurinn fyrst og fremst venjulegur rekstrarkostnaður heimilis og teldist því ekki frádráttarbær rekstrarkostnaður samkvæmt 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981.

Í bréfi umboðsmanns kærenda, dags. 1. nóvember 2000, kom fram að heimilissíminn væri notaður til að minna sjúklinga kæranda, A, á bókaða tíma og að mæta til eftirlits. Væri heimilissíminn notaður því að auðveldara væri að ná í fólk síðdegis og á kvöldin. Þessu sinntu kærendur því heima. Væri farið fram á að helmingur kostnaðar við heimilissíma yrði viðurkenndur sem rekstrarkostnaður. Í kæru til yfirskattanefndar, dags. 27. júní 2001, kemur fram að kærandi fari ekki fram á að allur kostnaður vegna heimilissíma verði gjaldfærður í rekstrinum, heldur einungis sá hluti hans sem rekja megi til rekstrarins. Í bréfi umboðsmanns kærenda til skattstjóra, dags. 1. nóvember 2000, var farið fram á að helmingur kostnaðar vegna heimilissíma yrði leyfður til gjalda í rekstrarreikningi.

3. Fagbækur, blöð og tímarit:

Ríkisskattstjóri lækkaði þennan gjaldalið um 15.400 kr. eða úr 20.593 kr. í 5.193 kr. Tók ríkisskattstjóri fram að um áskriftargjöld að DV og Morgunblaðinu væri að ræða, en slík útgjöld yrðu að teljast fyrst og fremst persónulegur kostnaður þó svo að um einhver „rekstrarnot“ hefði verið að ræða, sbr. boðunarbréf ríkisskattstjóra, dags. 19. október 2000, og úrskurð um endurákvörðun, dags. 27. mars 2001.

Í bréfi umboðsmanns kærenda, dags. 1. nóvember 2000, kom fram að umrædd dagblöð lægju frammi á biðstofu kæranda, A. Taldi umboðsmaðurinn að ríkisskattstjóri væri með niðurfellingunni í raun að ritskoða það efni sem kærandi gæti boðið sjúklingum sínum upp á. Gæti það ekki gengið að hafna áskrift að þessum dagblöðum þegar ríkisskattstjóri viðurkenndi kostnað vegna kaupa á tímaritinu Nýju lífi. Í kæru til yfirskattanefndar, dags. 27. júní 2001, eru þessi sjónarmið ítrekuð.

4. Álag:

Ríkisskattstjóri bætti 25% álagi á vantalda skattstofna samkvæmt 2. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981 og nam fjárhæð álags 80.936 kr., þ.e. vegna hækkunar tekna um 83.800 kr. og lækkunar rekstrarkostnaðar um alls 239.944 kr. eða vegna hækkunar hreinna tekna af atvinnurekstri í reit 62 í skattframtali árið 1997 úr 142.227 kr. í 465.971 kr. eða um 323.744 kr. Tók ríkisskattstjóri fram að um væri að ræða offærðan rekstrarkostnað og vantaldar tekjur og þar með vantalda skattstofna. Rakti ríkisskattstjóri þær kröfur sem gera yrði til rekstraraðila varðandi þekkingu á lögum og reglum sem giltu um starfsemina svo og um ábyrgð á bókhaldi. Kærandi, A, hefði ekki sýnt fram á að honum yrði ekki kennt um hina vantöldu skattstofna, sbr. 3. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, og ekki væri hægt að sjá að önnur atvik málsins leiddu til þess að falla bæri frá beitingu álags samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar, sbr. úrskurð ríkisskattstjóra um endurákvörðun, dags. 27. mars 2001.

Í kæru til yfirskattanefndar, dags. 27. júní 2001, kemur fram af hálfu umboðsmanns kærenda að álagsbeitingu ríkisskattstjóra sé sérstaklega mótmælt. Málið kunni að varða gjöld sem umdeilanlegt sé hvort teljist til rekstrarkostnaðar. Sum útgjaldanna séu þess eðlis að það kunni að vera breytilegt á milli ára hvort þau tengist atvinnurekstrinum og þá hvort þau teljist til rekstrarkostnaðar. Þyki álagsbeiting harkaleg aðgerð þegar um sé að ræða gjaldfærslu sem skattyfirvöld hafi jafnvel ekki áður gert athugasemdir við. Þá tekur umboðsmaðurinn fram að því sé einnig mótmælt að beita álagi á vantaldar tekjur sem augljóslega séu tilkomnar vegna innsláttarvillna, en kærandi, A, hafi strax viðurkennt mistökin í svari við fyrirspurnarbréfi ríkisskattstjóra.

Í kæru til yfirskattanefndar, dags. 27. júní 2001, mótmælir umboðsmaður kærenda því að opinber gjöld kæranda, B, gjaldárið 1997 hafi verið endurákvörðuð með úrskurði um endurákvörðun, dags. 27. mars 2001, án þess að henni hafi verið boðaðar þær breytingar sem henni hafi verið tilkynnt um á skattbreytingaseðli sem fylgdi úrskurðinum. Krefst umboðsmaðurinn þess að umræddar breytingar á opinberum gjöldum kæranda, B, verði af þessum sökum ómerktar.

IV.

Með bréfi, dags. 14. september 2001, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Hvað varðar kröfugerð varðandi A gerir ríkisskattstjóri þá kröfu að úrskurður ríkisskattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.

Hvað varðar kröfugerð varðandi B þá er um að ræða breytingar á barnabótaauka og vaxtabótum sem leiða af breytingum hjá gjaldstofnum eiginmanns B. Slíkar afleiddar breytingar þarf ekki að boða og því ber að hafna kröfu kæranda um að skattbreyting ríkisskattstjóra verði ómerkt.

Með hliðsjón af framangreindu gerir ríkisskattstjóri þá kröfu að málskostnaðarkröfu kæranda verði hafnað.“

V.

Í kæru til yfirskattanefndar er þess krafist að skattbreytingar þær, sem ríkisskattstjóri tilkynnti kæranda, B, með skattbreytingaseðli með úrskurði sínum um endurákvörðun, dags. 27. mars 2001, verði ómerktar þar sem þær hafi verið framkvæmdar án þess að þær hafi verið boðaðar áður. Telur umboðsmaður kærenda að um sé að ræða brot á ákvæðum 96. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Samkvæmt skattbreytingaseðlum, sem liggja fyrir í málinu, er um að ræða breytingar á barnabótaauka og vaxtabótum hjá kæranda, B, gjaldárið 1997. Í 4. mgr. 96. gr. laga nr. 75/1981, sbr. 16. gr. laga nr. 145/1995, er boðið að sé gerð breyting á framtali eða sköttum eftir álagningu eða fram fari ný skattákvörðun, sbr. 1. og 2. mgr. greinarinnar, skuli skattstjóri gera skattaðila eða þeim sem framtalsskyldan hvílir á viðvart um fyrirhugaðar breytingar og af hvaða ástæðum þær eru gerðar og senda tilkynningu um það skriflega. Breytingar þær á barnabótaauka og vaxtabótum, sem gerðar voru hjá kæranda, B, leiddu beint af þeim breytingum, sem gerðar voru á skattskilum kæranda, A, og ullu hækkun á tekjuskattsstofni hans greint gjaldár, í samræmi við bein lagafyrirmæli um bætur þessar, sbr. þágildandi B- og C-liði 69. gr. laga nr. 75/1981. Að því virtu verður að telja að óþarft hafi verið að leita eftir afstöðu kæranda, B, til breytinga þessara, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og verður að skýra 4. mgr. 96. gr. laga nr. 75/1981 í samræmi við það. Er kröfu um ómerkingu á greindum skattbreytingum kæranda, B, því hafnað. Víkur þá að efnisatriðum málsins.

Samkvæmt 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, er heimilað að draga rekstrarkostnað frá þeim tekjum manna sem stafa af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, „það eru þau gjöld sem eiga á árinu að ganga til að afla teknanna, tryggja þær og halda þeim við ... og það sem varið er til tryggingar og viðhalds eignum þeim sem arð bera í rekstrinum.“ Ákvæði þetta er samkvæmt orðalagi sínu heimildarákvæði og er það því undantekning frá þeirri meginreglu að mönnum sé skylt að greiða tekjuskatt af öllum tekjum sínum, sbr. 1. gr. laganna. Af þessu leiðir að skattaðila ber að sýna fram á að skilyrðum frádráttar samkvæmt ákvæðinu sé fullnægt, sbr. m.a. dóma Hæstaréttar Íslands 30. janúar 1997 í málinu nr. 3/1997 (H 1997:385) og 20. febrúar 1997 í málinu nr. 163/1996 (H 1997:759). Almennur kostnaður vegna heimilis og fjölskyldu og annarra persónulegra þarfa er ekki frádráttarbær.

1. Um rekstrarkostnað bifreiðar:

Meginástæður ríkisskattstjóra fyrir lækkun þessa gjaldaliðar voru þær að kærandi, A, hefði ekki gert fullnægjandi grein fyrir akstri í þágu rekstrar og að akstur í eigin þágu þætti með ólíkindum lítill. Þá hefði kærandi ekki lagt fram gögn um rekstrarkostnað og skiptingu hans milli einkanota og rekstrar. Ennfremur yrði ekki talið að rekstur kæranda krefðist mikils aksturs. Í bréfi, dags. 19. október 2000, tók ríkisskattstjóri fram að af framlögðum gögnum mætti ráða að bifreið kæranda, sem hefði verið sú eina í hans eigu, hefði eingöngu verið notuð í þágu rekstrarins þann hluta ársins sem rekstur var stundaður.

Umboðsmaður kærenda hefur í bréfi, dags. 1. nóvember 2000, gert grein fyrir akstri kæranda, A, vegna rekstrarins á árinu 1996. Aksturinn hefði falist í tveimur ferðum til Reykjavíkur, en akstur í hvorri ferð hafi verið 800-900 km, einni ferð til Akureyrar, en akstur þangað og til baka hafi verið 300 km, auk innanbæjaraksturs sem umboðsmaðurinn taldi að verið hefði u.þ.b. 300 km á því tímabili ársins 1996 sem rekstur var stundaður. Telur umboðsmaðurinn að akstur kæranda, A, í þágu rekstrar hafi verið samtals 2.300 km á árinu 1996.

Meðal framtalsgagna er rekstraryfirlit fólksbifreiðar (RSK 4.03). Þar er heildarakstur umræddrar bifreiðar tilgreindur 19.000 km, þar af er akstur í eigin þágu tilgreindur 13.000 km og akstur í þágu atvinnurekstrar 6.000 km. Kostnaður pr. ekinn km nemur 30,62 kr. samkvæmt rekstraryfirlitinu. Samkvæmt þessu hefur ríkisskattstjóri ranglega byggt á því að gagn þetta og upplýsingar samkvæmt því lægju ekki fyrir. Eru forsendur ríkisskattstjóra varðandi lækkun á gjaldfærðum rekstrarkostnaði bifreiðar því haldlausar. Samkvæmt þessu og með vísan til skýringa kæranda eru ekki efni til annars en að taka kröfu kæranda til greina þannig að byggt verði á 2.300 km akstri í þágu rekstrar. Hins vegar ber að miða við kostnað pr. ekinn km 30,62 kr., sbr. rekstraryfirlit fólksbifreiðar, þannig að frádráttarfjárhæð verður 70.426 kr.

2. Um símakostnað og burðargjöld:

Í úrskurði ríkisskattstjóra um endurákvörðun, dags. 27. mars 2001, er gjaldfærður símakostnaður lækkaður um 11.700 kr. og kemur fram að sú lækkun sé vegna þess að fylgiskjöl sem standi að baki þessum hluta gjaldfærslu á símakostnaði séu vegna heimilissíma kæranda, A. Í boðunarbréfi ríkisskattstjóra, dags. 19. október 2000, kom fram að kostnaður þessi væri fyrst og fremst venjulegur rekstrarkostnaður heimilis „þó svo að einhver rekstrarnot hafi verið af heimilissíma“. Í bréfinu boðar ríkisskattstjóri niðurfellingu, eftir því sem best verður séð af gögnum málsins, á öllum hluta gjaldfærslunnar sem rekja megi til heimilissíma kæranda, enda þótt ríkisskattstjóri viðurkenni að einhver not af heimilissíma kæranda hafi fylgt rekstrinum. Þykir þetta ekki fá staðist. Þá hefur umboðsmaður kærenda útskýrt not kæranda, A, af heimilissímanum. Kemur fram í bréfi, dags. 1. nóvember 2000, að kærandi hafi notað síma á heimili sínu til að hafa samband við sjúklinga sína síðdegis og á kvöldin þar sem auðveldara hafi verið að ná í þá á þeim tíma. Með hliðsjón af eðli starfsemi kæranda, A, og fram komnum skýringum umboðsmanns hans þykir ekki ástæða til að draga í efa að starfseminni hafi fylgt einhver notkun á heimilissíma kæranda. Þykir niðurfelling ríkisskattstjóra að öllu leyti á þeim hluta gjaldfærðs símakostnaðar því ekki eiga við rök að styðjast. Hefur kærandi krafist þess að u.þ.b. helmingur af þeim hluta kostnaðarins, sem ríkisskattstjóri felldi niður, verði viðurkenndur, sbr bréf umboðsmanns kærenda til skattstjóra, dags. 1. nóvember 2000, en telja verður að sú krafa felist í kæru til yfirskattanefndar, dags. 27. júní 2001, varðandi þetta kæruatriði. Verður fjárhæð kostnaðar kæranda, A, vegna heimilissíma þó ekki ákvörðuð nema að álitum og þykir að framangreindu virtu mega fallast á að gjaldfærður símakostnaður hækki um 5.000 kr. frá því sem ríkisskattstjóri ákvað þannig að lækkun gjaldaliðarins nemur 6.700 kr.

3. Um fagbækur, blöð og tímarit:

Eins og fram er komið færði kærandi, A, til gjalda í skattskilum sínum vegna rekstrarársins 1996 kostnað vegna áskriftar að Morgunblaðinu og DV á árinu 1996, en hann gjaldfærði 15.400 kr. vegna þessa. Telja verður að kaup kæranda á dagblöðum séu fyrst og fremst persónulegur kostnaður hans sem ekki verður dreginn frá rekstrartekjum þótt um tilfallandi not kunni að vera að ræða í rekstri vegna afnota sjúklinga af dagblöðunum á biðstofu kæranda. Verður því ekki talið að hér sé um að ræða frádráttarbæran rekstrarkostnað í skilningi 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981. Kröfu kæranda er því hafnað varðandi þetta kæruatriði.

4. Um álag:

Ríkisskattstjóri ákvað að beita 25% álagi á hækkun skattstofna kæranda, A, sbr. 2. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981. Af hálfu kæranda, A, er krafist niðurfellingar álags í kæru til yfirskattanefndar, dags. 27. júní 2001. Kærandi, A, þykir hvorki hafa sýnt fram á að atvik séu með þeim hætti, sem greinir í 3. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, þannig að fella beri álag niður, né að tilefni sé til að falla frá beitingu heimildarákvæða 2. mgr. sömu lagagreinar í tilviki hans. Kröfu um niðurfellingu álags er því hafnað.

Umboðsmaður kærenda hefur gert kröfu um að kærendum verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum. Samkvæmt úrslitum málsins, sem gengið hefur kærendum í hag að hluta, þykir bera að úrskurða kærendum málskostnað á grundvelli framangreinds lagaákvæðis. Af hálfu kærenda hafa ekki verið lagðir fram reikningar um útlagðan kostnað þeirra við meðferð málsins, en ætla verður þó að um slíkan kostnað hafi verið að ræða. Með vísan til framanritaðs og lagaskilyrða fyrir greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði þykir málskostnaður kærenda hæfilega ákveðinn 10.000 kr.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Rekstrarkostnaður bifreiðar ákveðst 70.426 kr. Rekstrarkostnaður vegna síma og burðargjalda hækkar um 5.000 kr., en að öðru leyti er kröfum kærenda hafnað. Málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði ákveðst 10.000 kr.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja