Úrskurður yfirskattanefndar

  • Tekjufærsla skattstjóra
  • Launauppgjöf
  • Kröfugerð ríkisskattstjóra

Úrskurður nr. 196/2002

Gjaldár 2001

Lög nr. 75/1981, 7. gr. A-liður 1. tölul., 95. gr. 1. mgr., 96. gr. 1. og 3. mgr.  

Skattstjóri tekjufærði hjá kæranda launagreiðslu frá X ehf. sem var í samræmi við launauppgjöf félagsins og upplýsingar í staðgreiðslukerfi skatta. Kærandi neitaði að hafa móttekið umrædda greiðslu. Yfirskattanefnd taldi að tilefni hefði verið til þess að ríkisskattstjóri aflaði frekari upplýsinga og gagna frá X ehf. um launagreiðslur til kæranda. Þar sem þess var ekki gætt af hálfu ríkisskattstjóra var hin kærða tekjufærsla skattstjóra felld niður.

I.

Málavextir eru þeir að samkvæmt launauppgjöf fyrir tekjuárið 2000 hafði kærandi launatekjur frá Z hf. að fjárhæð 2.972.861 kr. auk fæðishlunninda að fjárhæð 58.121 kr. eða samtals 3.030.982 kr. Þá nam iðgjald í lífeyrissjóð 118.915 kr. og iðgjald vegna viðbótarlífeyrissparnaðar 45.489 kr. samkvæmt launauppgjöfinni. Þessar fjárhæðir voru forskráðar í skattframtal kæranda árið 2001, sbr. lið 2.1 og reiti 162 og 160, og gerði kærandi engar athugasemdir við hinar forskráðu fjárhæðir. Auk þessa lá fyrir launauppgjöf X ehf. fyrir tekjuárið 2000 þar sem laun til kæranda voru tilgreind 346.967 kr., auk ökutækjastyrks að fjárhæð 1.250 kr., eða samtals 348.217 kr. Samkvæmt launauppgjöfinni nam iðgjald í lífeyrissjóð 1.879 kr. Þessar fjárhæðir voru ekki forskráðar. Ekki voru launatekjur þessar eða frádráttur tilgreindur í skattframtali kæranda árið 2001. Umræddar fjárhæðir launa og starfstengdra greiðslna samtals 3.030.982 kr. samkvæmt launamiða frá Z hf. og samtals 348.217 kr. samkvæmt launamiða frá X ehf. komu heim og saman við fjárhæðir samkvæmt staðgreiðsluskrá.

Með bréfi, dags. 27. júlí 2001, tilkynnti skattstjóri kæranda með vísan til 1. mgr. 95. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, að þær breytingar hefðu verið gerðar á skattframtali hans árið 2001 að í samræmi við innsendan launamiða frá X ehf. hefðu launagreiðslur að fjárhæð 346.967 kr. verið færðar til tekna í reit 21 í skattframtalinu og ökutækjastyrkur að fjárhæð 1.250 kr. færður til tekna í reit 22. Þá hefði frádráttarfjárhæð vegna greidds iðgjalds í lífeyrissjóð í reit 162 í skattframtalinu verið hækkað um 1.879 kr. til samræmis við launamiða frá X ehf. Um skattskyldu greindra tekna vísaði skattstjóri til 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981.

Með kæru, dags. 16. ágúst 2001, kærði kærandi álagningu opinberra gjalda sinna gjaldárið 2001 til skattstjóra. Vísaði kærandi til bréfs skattstjóra, dags. 27. júlí 2001, og tók fram að hann hefði hvorki fengið laun að fjárhæð 346.967 kr. né ökutækjastyrk að fjárhæð 1.250 kr. frá X ehf. Hann hefði engan launamiða fengið frá þessu fyrirtæki. Tók kærandi fram að hann hefði verið kominn í aðra vinnu hjá Z hf. og hafið þar störf um áramótin 1999/2000.

Skattstjóri tók kæru kæranda til úrlausnar með kæruúrskurði, dags. 15. nóvember 2001, og hafnaði henni. Tók skattstjóri fram að í framhaldi af kæru kæranda, dags. 16. ágúst 2001, hefði skattstjóri haft samband við umræddan launagreiðanda, fyrirtækið X ehf., sem staðfest hefði að greind laun hefðu verið greidd kæranda, sbr. staðfestingu fyrirtækisins sem skattstjóri lét fylgja kæruúrskurði sínum.

II.

Með kæru, dags. 8. desember 2001, hefur kærandi skotið kæruúrskurði skattstjóra, dags. 15. nóvember 2001, til yfirskattanefndar. Í kærunni felst sú krafa að tekjufærsla skattstjóra á launum frá X ehf. að fjárhæð 346.967 kr. og ökutækjastyrk að fjárhæð 1.250 kr. verði felld niður. Staðhæfir kærandi að hann hafi ekki fengið umrædd laun og ökutækjastyrk og fer fram á að málið verið skoðað að nýju. Telur kærandi ekki standast að unnt sé að færa laun í skattframtal án þess að viðkomandi skattaðila sé gefinn kostur á að gera áður athugasemdir. Þá sé bréf fyrirtækisins, sem skattstjóri vísi til í kæruúrskurði sínum, naumast næg staðfesting þess að hann hafi móttekið umræddar greiðslur. Þá segir svo í kærunni: „Mér finnst að X eigi að borga þennan skatt meðan málið er skoðað eða hafa þeir sýnt launamiða sem ég hef undirritað við móttöku sem ég gerði alltaf þegar ég fékk útborgað launamiði sem mér barst í pósti hálfu ári eftir að ég hætti hjá fyrirtækinu sem ég finn ekki núna. Þeir ættu að hafa þennan launamiða undirritaðan af mér hefði ég fengið þessa peninga sem ég fullyrði að var ekki.“

III.

Með bréfi, dags. 18. janúar 2002, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Málavextir eru þeir að með vísan til 1. mgr. 95. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, færði skattstjóri kæranda laun og ökutækjastyrk frá X, kt. 621193-2449, samtals að fjárhæð kr. 348.217, til tekna, sbr. bréf skattstjóra dagsett 27. júlí 2001. Kærandi kærði álagningu opinberra gjalda 2001 og kvaðst aldrei hafa fengið greiðslu þessa. Skattstjóri hafði því samband við umræddan launagreiðanda. Launagreiðandinn kvað umrædd laun hafa verið greidd til kæranda, sbr. skriflega yfirlýsingu launagreiðandans dagsetta 14. nóvember 2001. Kröfu kæranda var því hafnað.

Kærandi hefur nú kært úrskurð skattstjóra og ítrekar kröfu sína. Kærunni fylgja engin gögn né skýringar máli kæranda til stuðnings.

Launauppgjöf greiðanda er gerð samkvæmt þeirri lagaskyldu sem kveðið er á um í 1. mgr. 92. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Þegar litið er til þýðingar launauppgjafar að lögum verður að telja að launamiði og yfirlýsing launagreiðanda séu rétt, þrátt fyrir andmæli kæranda, enda hefur kærandi ekki lagt fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.

Þess er krafist að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.“

IV.

Ágreiningsefni máls þessa er sú ákvörðun skattstjóra að færa kæranda til tekna í skattframtali árið 2001 launatekjur að fjárhæð 346.967 kr. og ökutækjastyrk að fjárhæð 1.250 kr. eða samtals 348.217 kr. samkvæmt launauppgjöf frá X ehf., sbr. tilkynningu skattstjóra, dags. 27. júlí 2001, sem hann staðfesti með kæruúrskurði sínum, dags. 15. nóvember 2001. Kærandi heldur því fram að hann hafi ekki fengið umræddar greiðslur og telur að skattstjóri hafi ekki sýnt nægilega fram á það. Þá gerir kærandi athugasemd við málsmeðferð skattstjóra, enda kemur fram í kæru að kærandi telur að skattstjóra hafi borið að gefa honum kost á að koma að athugasemdum sínum áður en hann tók greinda ákvörðun og tilkynnti kæranda þar um með bréfi sínu, dags. 27. júlí 2001. Eins og fram er komið voru umræddar tekjur kæranda tilgreindar á launamiða frá X ehf. Samkvæmt þessu lá fyrir skattstjóra launauppgjöf launagreiðanda sem gerð var samkvæmt þeirri lagaskyldu sem kveðið er á um í 1. mgr. 92. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Ákvæði þetta er grundvöllur upplýsingaskyldu í þessum efnum. Þá kom fram í upplýsingakerfi skattyfirvalda vegna staðgreiðslu opinberra gjalda að greiðslur þessar hefðu verið inntar af hendi. Eins og málið lá fyrir skattstjóra samkvæmt því, sem hér hefur verið rakið, verður ekki fundið að því, hvað launatekjur 346.967 kr. snertir, að skattstjóri hafi farið með breytinguna á skattframtalinu eftir 3. málsl. 1. mgr. 95. gr. laga nr. 75/1981 og þannig litið svo á að óyggjandi upplýsingar væru fyrir hendi í skilningi ákvæðisins, enda er það í samræmi við úrskurðaframkvæmd. Samkvæmt þessu verður tekjufærsla skattstjóra á launum 346.967 kr. ekki felld úr gildi á þeim grundvelli að málsmeðferð skattstjóra hafi verið áfátt. Hvað varðar tekjufærslu á ökutækjastyrk að fjárhæð 1.250 kr. samkvæmt launauppgjöf frá X ehf. voru, þrátt fyrir það sem hér hefur verið rakið, ekki skilyrði til að fara með breytinguna eftir 3. málsl. 1. mgr. 95. gr. laga nr. 75/1981, enda var óhjákvæmilegt að skattstjóri krefði kæranda um ökutækjaskýrslu (RSK 3.04) og gæfi honum kost á að gera grein fyrir hugsanlegum frádrætti á móti ökutækjastyrknum, sbr. reit 32 í skattframtali, áður en hann tæki ákvörðun um þennan þátt málsins, sbr. 1. og 3. mgr. 96. gr. laga nr. 75/1981. Vegna þessa annmarka á meðferð málsins ber að fella úr gildi tekjufærslu skattstjóra á ökutækjastyrk 1.250 kr.

Eins og fram er komið byggði skattstjóri hina umdeildu tekjufærslu á ætluðum vanframtöldum launum kæranda 346.967 kr. frá X ehf. á launauppgjöf félagsins, sbr. tilkynningu skattstjóra, dags. 27. júlí 2001. Í kæru til skattstjóra, dags. 16. ágúst 2001, mótmælti kærandi því að hafa fengið umræddar greiðslur frá fyrirtækinu. Bar hann því einkum við að hann hefði verið kominn í aðra vinnu um áramótin 1999/2000, þ.e. hjá Z hf. Í kæruúrskurði skattstjóra, dags. 15. nóvember 2001, kemur fram að vegna kærunnar hafi skattstjóri haft samband við X ehf. og fyrirtækið staðfest með bréfi, dags. 14. nóvember 2001, að kærandi hafi móttekið umrædd laun. Staðfesting þessi, sem liggur fyrir í málinu, var send kæranda með kæruúrskurðinum. Í staðfestingunni kemur fram „að laun sem skráð eru á innsendum launamiðum á fyrrverandi starfsmann okkar, A eru móttekin af hans hálfu“. Í kæru til yfirskattanefndar, dags. 8. desember 2001, staðhæfir kærandi enn að hann hafi ekki móttekið umræddar greiðslur.

Það bar undir kæranda að leiða líkur að því að fyrirliggjandi launauppgjöf X ehf. hafi verið röng. Í tilefni af kæru kæranda, dags. 16. ágúst 2001, leitaði skattstjóri eftir staðfestingu fyrirtækisins á launauppgjöf til kæranda. Lagði fyrirtækið fram staðfestingu, dags. 14. nóvember 2001, eins og fram er komið. Að framkominni kæru kæranda og eins og málið lá fyrir skattstjóra samkvæmt framansögðu verður að telja að hann hafi séð til þess að málið væri nægjanlega upplýst áður en hann leiddi það til lykta með kæruúrskurði sínum, dags. 15. nóvember 2001, sbr. rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í kæru til yfirskattanefndar, dags. 8. desember 2001, virðist kærandi einkum byggja á því að sýna verði fram á með launakvittunum frá honum að hann hafi móttekið umræddar greiðslur frá X ehf. Samkvæmt þessu stendur staðhæfing gegn staðhæfingu. Eins og málið er lagt fyrir yfirskattanefnd samkvæmt þessu verður að telja að tilefni hafi verið til þess að ríkisskattstjóri aflaði frekari upplýsinga og gagna frá launagreiðanda um umræddar launagreiðslur til kæranda, sbr. sérstaklega síðari málsl. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. a-lið 2. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum, enda er vandséð hvaða gögn kærandi gat sjálfur lagt fram til sönnunar á þeirri staðhæfingu sinni að hann hefði ekki móttekið greiðslur þessar. Þar sem þessa hefur ekki verið gætt af hálfu embættisins þykir að svo vöxnu máli bera að fella hina kærðu tekjufærslu skattstjóra niður.

Samkvæmt framansögðu eru hinar kærðu tekjufærslur launa og ökutækjastyrks kæranda samtals 348.217 kr. í skattframtali árið 2001 felldar niður. Jafnframt ber að fella niður tilfærða fjárhæð iðgjalds í lífeyrissjóð 1.879 kr. Með úrskurði þessum er engin efnisafstaða tekin til ágreiningsefnisins.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Hinar kærðu tekjufærslur skattstjóra samtals 348.217 kr., auk frádráttar 1.879 kr. í reit 162, eru felldar niður.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja