Úrskurður yfirskattanefndar

  • Vaxtabætur

Úrskurður nr. 13/2003

Gjaldár 2001

Lög nr. 75/1981, 69. gr. B-liður (brl. nr. 122/1993, 9. gr.)  

Deilt var um hvort vaxtagjöld af láni, sem kærendur tóku á árinu 2000 og var að verulegu leyti varið til að gera upp yfirdráttarskuldir þeirra við banka, mynduðu rétt til vaxtabóta. Þar sem ekki þóttu efni til annars en að byggja á því að yfirdráttarskuldir kærenda hefðu m.a. myndast vegna fjármögnunar á útborgunarhluta vegna kaupa íbúðarhúsnæðis á árinu 1999 var krafa kærenda tekin til greina.

I.

Kæruefnið í máli þessu er sú ákvörðun skattstjóra, sem hann tók með kæruúrskurði, dags. 7. september 2001, að lækka tilfærð vaxtagjöld af lánum til öflunar íbúðarhúsnæðis í reit 87 í lið 5.2 í skattframtali kærenda árið 2001 um 123.879 kr. vegna tilgreinds láns eða úr 470.687 kr. í 346.808 kr. jafnframt því að fella eftirstöðvar lánsins 1.110.416 kr. úr reit 45 í lið 5.2. Um var að ræða vaxtagjöld af helmingi láns nr. ... frá Landsbanka Íslands hf. sem tekið var á árinu 2000 til 15 ára. Tilfærðar eftirstöðvar af helmingi lánsins í reit 45 í skattframtalinu námu framangreindri fjárhæð 1.110.416 kr. Skattstjóri byggði á því að af hálfu kærenda hefði ekki verið sýnt fram á að umrætt lán hefði verið tekið vegna öflunar á íbúðarhúsnæði til eigin nota samkvæmt 1. mgr. B-liðar 69. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, sbr. fjármögnun íbúðarkaupa kærenda á árinu 1999 sem skattstjóri vék að. Færði skattstjóri greind vaxtagjöld 123.879 kr. og eftirstöðvar láns 1.110.416 kr. í lið 5.5 í skattframtali kærenda árið 2001.

Í kæru til yfirskattanefndar, dags. 7. apríl 2002, krefjast kærendur þess að breytingum skattstjóra verði hnekkt, enda hafi verið sýnt fram á það af þeirra hálfu að umræddur hluti greinds láns frá Landsbanka Íslands hf. hafi verið til öflunar íbúðarhúsnæðis.

II.

Málavextir eru þeir að kærendur töldu ekki fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 2001 og sættu því áætlun skattstjóra á skattstofnum við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2001, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 75/1981. Hinn 3. júlí 2001 barst skattstjóra skattframtal kærenda árið 2001. Skattstjóri tók hið innsenda skattframtal sem kæru, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981, og kvað upp kæruúrskurð hinn 7. september 2001 þar sem hann féllst á að leggja skattframtal kærenda árið 2001 til grundvallar álagningu opinberra gjalda þeirra gjaldárið 2001 í stað áætlaðra skattstofna með umræddum breytingum varðandi vaxtagjöld til ákvörðunar vaxtabóta, auk þess sem skattstjóri synjaði kærendum um slysatryggingu vegna heimilisstarfa sem ekki er ágreiningur um.

Eins og fram er komið tilfærðu kærendur í reit 45 í skattframtalinu meðal skulda til öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota samtals að fjárhæð 7.858.240 kr. helming láns nr. ... frá Landsbanka Íslands hf. 1.110.416 kr. og færðu vaxtagjöld af því að fjárhæð 123.879 kr. í reit 87 meðal annarra vaxtagjalda og nam heildarfjárhæð samkvæmt þeim reit 470.687 kr. Var lán þetta tekið á árinu 2000 vegna kaupa á íbúðarhúsnæði að X-götu. Það húsnæði keyptu kærendur með kaupsamningi, dags. 28. júlí 1999, sbr. fyrirliggjandi gögn. Skattstjóri tók fram í kæruúrskurði sínum að engin grein hefði verið gerð fyrir því hvernig lán þetta tengdist greindum íbúðarkaupum kærenda. Samkvæmt greinargerð með skattframtali árið 2000 hefðu kaup þeirrar íbúðar verið fjármögnuð að fullu á árinu 1999 með peningagreiðslum og lántökum. Sömu lán og þá voru fengin hefðu verið færð í lið 5.2 í skattframtali árið 2001 og engar skuldbreytingar hefðu verið gerðar á þeim. Á árinu 2000 hefðu kærendur hins vegar fjárfest í bifreiðum alls 1.400.000 kr. og íbúð að Y-götu 5.745.684 kr. Kvað skattstjóri líklegast, þegar litið væri til þessara fjárfestinga og annarra skulda í lið 5.5, að lán frá Landsbanka Íslands hf. nr. ..., sem tekið hefði verið á árinu 2000, væri allt vegna þeirra fjárfestinga, enda hefðu engar greiðslur átt sér stað vegna kaupa á X-götu á árinu 2000, sbr. framanritað. Tók skattstjóri fram að til vaxtagjalda, sem veittu rétt til vaxtabóta, teldust vaxtagjöld af lánum, sem sannanlega hefði verið stofnað til vegna kaupa á íbúðarhúsnæði til eigin nota, sbr. nánar 1. og 2. mgr. B-liðar 69. gr. laga nr. 75/1981. Með vísan til framanritaðs taldi skattstjóri að ekki hefði verið sýnt fram á eða gert líklegt að til láns hjá Landsbanka Íslands hf. nr. ... hefði verið stofnað vegna kaupa á íbúð kærenda að X-götu. Kröfum kærenda um vaxtabætur vegna þessa láns væri því synjað.

III.

Með bréfi til skattstjóra, dags. 10. október 2001, fór umboðsmaður kærenda fram á endurupptöku á kæruúrskurði skattstjóra, dags. 7. september 2001, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í bréfinu kom fram sú skoðun umboðsmannsins að skattstjóri hefði, á grundvelli 1. mgr. 96. gr. laga nr. 75/1981, átt að óska eftir skýringum kærenda á umræddri lántöku hjá Landsbanka Íslands hf. áður en hann tók ákvörðun sína með kæruúrskurðinum.

Umboðsmaður kærenda gat þess að kærendur hefðu selt íbúð að Z-götu á árinu 1999 og hefði söluverð hennar verið 10.050.000 kr. (sic). Áhvílandi lán hefðu verið ca. 3.000.000 kr. Á sama ári hefði íbúðin á X-götu verið keypt. Kaupverð hennar hefði verið 10.050.000 kr. Hluti söluandvirðis íbúðarinnar við Z-götu hefði verið notaður til að greiða niður aðrar skuldir en stöfuðu af húsnæðinu. Þegar íbúðin að X-götu hefði verið keypt hefðu verið yfirtekin lán og greiddar út 3,7 milljónir króna. Til að fjármagna útborgun, sölulaun og annan kostnað, sem af flutningunum stafaði, hefðu kærendur verið með yfirdráttarheimild. Í byrjun febrúar á árinu 2000 hefði umrætt lán hjá Landsbankanum verið tekið til að greiða upp yfirdrátt vegna fjármögnunar á húsnæðinu að X-götu. Bréfinu fylgdu ýmis gögn til skýringar umræddu láni, meðal annars yfirlit yfir tékkareikninga kærenda. Hvað varðaði athugasemd skattstjóra um bifreiðakaup kærenda og kaup á fasteigninni Y-götu á árinu 2000 svaraði umboðsmaðurinn því með þeim hætti að misskilningur hefði orðið milli sín og kærenda varðandi kaupverð á bifreiðinni ... . Hefði umrædd bifreið verið keypt á 300.000 kr. en ekki 700.000 kr. eins og tilgreint hefði verið í framtali. Bifreiðin ... hefði hins vegar verið keypt vegna rekstrar kærenda sem þau hefðu tekið við af syni sínum um mitt árið 2000. Bifreiðin hefði verið keypt af félaginu, sem hann rak, með yfirtöku láns í Íslandsbanka hf. og vitnaði umboðsmaðurinn í því sambandi í yfirlit sem fylgdi bréfinu. Kaupin hefðu átt sér stað seinni part ársins og væru þau því engan veginn í tengslum við umrætt lán í Landsbanka Íslands hf. Stöðu þessa yfirtekna láns í Íslandsbanka hf. hefði láðst að geta meðal annarra skulda í reit 168 í skattframtali. Fasteignin Y-gata hefði verið í eigu sonar kærenda og hefðu kærendur keypt hana á uppboði með yfirtöku á lánum. Vitnaði umboðsmaðurinn í kaupsamning, sem væri meðfylgjandi, og einnig til eyðublaðs RSK 3.02, meðfylgjandi skattframtali árið 2001. Kvað umboðsmaðurinn engar peningagreiðslur hafa verið vegna kaupanna og því væri umrædd lántaka ekki í neinu sambandi við þau viðskipti. Að lokum kvaðst umboðsmaður kærenda telja að þeim hefði verið heimilt samkvæmt B-lið 69. gr. laga nr. 75/1981 að telja umrætt lán í Landsbankanum með skuldum vegna öflunar íbúðarhúsnæðis og í raun varlega áætlað.

Með úrskurði, dags. 1. febrúar 2002, endurupptók skattstjóri kæruúrskurð sinn frá 7. september 2001. Féllst skattstjóri á að leiðrétta eignfærslu bifreiðarinnar ... í 300.000 kr. samkvæmt upplýsingum í endurupptökubeiðninni. Vegna athugasemda við málsmeðferð vísaði skattstjóri til þess að þar sem kærendur hefðu ekki talið fram innan tilskilins framtalsfrests árið 2001 hefði skattstjóri ekki verið bundinn af fyrirspurnar- og tilkynningarákvæðum 96. gr. laga nr. 75/1981. Þegar litið væri til þeirra upplýsinga, sem hefðu verið fyrirliggjandi í skattframtali árið 2000 um kaup og sölu íbúða á árinu 1999 og stöðu skulda í árslok 1998 og 1999, yrði ekki séð að tilefni hefði verið til frekari upplýsingaöflunar svo að unnt hefði verið að taka afstöðu til kröfu kærenda um vaxtabætur vegna láns sem tekið var á árinu 2000 hjá Landsbanka Íslands hf. Íbúð kærenda að X-götu hefði verið keypt 28. júlí 1999 og hefðu greiðslur vegna hennar numið 3.697.053 kr. samkvæmt eyðublaði RSK 3.02. Íbúð sína að Z-götu hefðu kærendur selt 8. júní 1999 fyrir 10.600.000 kr. Skuldir kærenda í ársbyrjun 1999 hefðu samtals numið 6.107.983 kr. samkvæmt liðum 5.2 og 5.5 í skattframtali árið 1999. Skuldir þessar hefðu lækkað í 250.833 kr. í árslok 1999, sbr. lið 5.5 í skattframtali 2000. Samkvæmt framanrituðu hefðu kærendur haft til ráðstöfunar á árinu 1999 u.þ.b. 830.000 kr. (að teknu tilliti til 2% sölulauna) af söluverði Z-götu eftir útborgun í X-götu og uppgreiðslu skulda. Skuldir í árslok 1999 samkvæmt lið 5.2 í skattframtali árið 2000 væru einungis þrjú húsbréfalán samtals 6.533.606 kr. sem tekin hefðu verið á árinu og yfirtekin hefðu verið við kaup á X-götu. Í framangreindum útreikningi hefði ekki verið tekinn með sá yfirdráttur sem kynni að hafa verið á tékkareikningum í árslok 1999 og ekki hefði verið færður í skattframtal 2000, en upplýst hefði verið um í bréfi umboðsmanns kærenda, dags. 10. október 2001. Skattstjóri vék síðan að láni nr. ... hjá Landsbanka Íslands hf. Í bréfi umboðsmannsins hefði verið upplýst að lán hjá Landsbanka Íslands hf. nr. ... hefði verið tekið til að greiða upp yfirdrætti á tékkareikningum sem notaðir hefðu verið til að fjármagna útborgun, sölulaun og annan kostnað vegna flutninga og kaupa á íbúð að X-götu og á þeim grunni hefði krafa kærenda um vaxtabætur vegna lánsins byggst. Skattstjóri kvað reikningsyfirlit sem fylgdu með bréfinu hins vegar einungis sýna hreyfingar á reikningi nr. ... frá 14. janúar til 2. febrúar 2000 og á reikningi nr. ... frá 1. janúar til 2. febrúar 2000. Kvaðst skattstjóri telja, þegar litið væri til dagsetninga kaupsamninga og ráðstöfunarfjár kærenda á árinu 1999 í tengslum við íbúðaskipti, sbr. framanritað, að ekki yrði séð að sá yfirdráttur sem kynni að hafa verið á tékkareikningum á árinu 1999 hefði stafað af íbúðarkaupum kærenda. Með vísan til alls framanritaðs væri kröfu kærenda um vaxtabætur vegna láns nr. ... hjá Landsbanka Íslands hf. því synjað.

Varðandi framangreinda bifreið ... kvaðst skattstjóri fallast á að lækka kaupverð bifreiðarinnar í lið 4.2 í skattframtali í 300.000 kr. Bifreiðin ... hefði samkvæmt bifreiðaská verið keypt 16. maí 2000 af fyrirtæki sonar kærenda og væri það fyrirtæki skráður greiðandi og skuldari skuldabréfs hjá Íslandsbanka hf. í árslok 2000. Því kvaðst skattstjóri ekki geta orðið við kröfu kærenda um færslu skuldar vegna bifreiðakaupa í lið 5.5 í skattframtali.

IV.

Með kæru, dags. 7. apríl 2002, hefur umboðsmaður kærenda skotið ofangreindum úrskurði skattstjóra, dags. 1. febrúar 2002, til yfirskattanefndar. Gerð er krafa um að úrskurður skattstjóra verði felldur úr gildi og kærendum heimilað að telja helming láns nr. ... hjá Landsbanka Íslands hf. með skuldum vegna íbúðarhúsnæðis [til eigin nota] og helming vaxtagjalda af því í reit 87 í framtali. Umboðsmaðurinn vitnar í kærunni í áður framkomin rök sem lúta að því að útborgun kærenda á X-götu hafi verið fjármögnuð með yfirdráttarheimild sem greidd hafi verið með umræddu láni. Þá segir svo í kærunni:

„Skattstjóri hefur hafnað þessum rökum og gefið sér forsendur út frá kaupverði íbúðarinnar að Z-götu. Í 69. gr. B laga nr. 75/1981 er sagt hvaða lán myndi rétt til vaxtabóta og er þar m.a. sagt... „lán við lánastofnanir með sjálfskuldarábyrgð til a.m.k. tveggja ára enda séu lánin sannanlega til öflunar á íbúðarhúsnæði til eigin nota.“ Ég tel mig hafa sýnt fram á þetta við skattstjóra og óska eftir því, fyrir hönd framteljanda, að hann fái að telja helming af þessum vaxtagjöldum í reit 87.“

V.

Með bréfi, dags. 14. júní 2002, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Þess er krafist að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður

varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“

VI.

Með úrskurði, dags. 1. febrúar 2002, endurupptók skattstjóri kæruúrskurð sinn, dags. 7. september 2001, vegna beiðni umboðsmanns kærenda þar um, dags. 10. október 2001, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Lýtur krafa kærenda að síðargreinda úrskurðinum, en með þeim úrskurði tók skattstjóri til nýrrar meðferðar fyrri ákvörðun sína um hina umdeildu lækkun vaxtagjalda kærenda í skattframtali árið 2001 til ákvörðunar vaxtabóta í tilefni af framkomnum skýringum og gögnum samkvæmt beiðni, dags. 10. október 2001, um endurupptöku málsins. Eins og málið liggur nú fyrir eru ekki efni til að fjalla um málsmeðferð skattstjóra, sbr. athugasemdir í greindri beiðni um endurupptöku, sem skattstjóri tók til umfjöllunar í úrskurði sínum um endurákvörðun, dags. 1. febrúar 2002, enda er þeim ekki haldið fram í kæru til yfirskattanefndar, að öðru leyti en því að eins og málið ber nú að verður að telja að það sé nægjanlega upplýst af hendi skattstjóra, sbr. rannsóknarskyldu hans samkvæmt rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Ágreiningsefnið í máli þessu lýtur að því hvort helmingur framtalins láns nr. ... frá Landsbanka Íslands hf., sem tekið var á árinu 2000 og tilfært var meðal skulda til öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota í reit 45 í lið 5.2 í skattframtali kærenda árið 2001, að eftirstöðvum 1.110.416 kr. í lok ársins 2000, hafi verið til öflunar slíks húsnæðis eða til annarrar ráðstöfunar og þá jafnframt hvort tilgreind vaxtagjöld af þessum hluta lánsins í reit 87 í framtalinu að fjárhæð 123.879 kr. myndi rétt til vaxtabóta kærenda gjaldárið 2001. Eins og fram er komið varðar málið tengsl þessarar lántöku við kaup kærenda á íbúðarhúsnæði að X-götu, samkvæmt kaupsamningi, dags. 28. júlí 1999.

Með hinum kærða úrskurði, dags. 1. febrúar 2002, hafnaði skattstjóri því að umrætt lán uppfyllti það skilyrði B-liðar 69. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með áorðnum breytingum, að vera vegna kaupa á íbúðarhúsnæði til eigin nota. Skattstjóri tók fram samkvæmt nánari umfjöllun að kærendur hefðu haft til ráðstöfunar á árinu 1999 um það bil 830.000 kr. af söluverði íbúðar að Z-götu, eftir útborgun vegna kaupa á íbúðarhúsnæði að X-götu og uppgreiðslu skulda. Þeirri viðbáru kærenda í beiðni um endurupptöku, dags. 10. október 2001, að útborgunarhluti vegna kaupa á íbúðarhúsnæði að X-götu hefði verið fjármagnaður með yfirdrætti hafnaði skattstjóri á þeim forsendum að ekki yrði séð, þegar litið væri til dagsetninga kaupsamninga og ráðstöfunarfjár, að yfirdráttur samkvæmt framlögðum reikningsyfirlitum hefði stafað af íbúðarkaupum kærenda á árinu 1999. Á umræddum grundvelli taldi skattstjóri því að kærendum hefði ekki tekist að sýna fram á að andvirði umrædds hluta greinds láns frá Landsbanka Íslands hf. hefði verið varið til öflunar íbúðarhúsnæðis. Í kæruúrskurði sínum, dags. 7. september 2001, gerði skattstjóri því skóna að lánsfénu hefði verið varið til bifreiðakaupa og kaupa á íbúð að Y-götu. Þær fjárfestingar skýrðu kærendur með bréfi sínu, dags. 10. október 2001, þar sem kom fram að í meginatriðum hefðu þær verið fjármagnaðar með yfirtöku skulda. Verður ekki séð að skattstjóri hafi byggt á þessu í úrskurði sínum, dags. 1. febrúar 2002.

Samkvæmt 1. mgr. B-liðar 69. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með áorðnum breytingum, á maður sem skattskyldur er samkvæmt 1. gr. laganna og ber vaxtagjöld af lánum, sem tekin hafa verið vegna kaupa eða byggingar á íbúðarhúsnæði til eigin nota, þar með talin kaup á eignarhlut í almennri kaupleiguíbúð samkvæmt 76. gr. laga nr. 97/1993, rétt á sérstökum bótum, vaxtabótum, enda geri hann grein fyrir lánum og vaxtagjöldum af þeim í sérstakri greinargerð með skattframtali í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður.

Samkvæmt 2. mgr. B-liðar 69. gr. laga nr. 75/1981 eru vaxtagjöld, sem mynda rétt til vaxtabóta, vaxtagjöld vegna fasteignaveðlána til a.m.k. tveggja ára eða lána við lánastofnanir með sjálfskuldarábyrgð til a.m.k. tveggja ára, enda séu lánin sannanlega til öflunar á íbúðarhúsnæði til eigin nota. Sama á við þegar um er að ræða lán frá Byggingarsjóði ríkisins sem tekin eru vegna verulegra endurbóta á íbúðarhúsnæði til eigin nota. Vaxtagjöld vegna lána, sem tekin eru til skemmri tíma en tveggja ára, er einungis heimilt að telja með á næstu fjórum árum talið frá og með kaupári ef um er að ræða kaup á íbúð til eigin nota. Sé um nýbyggingu að ræða er heimilt að telja þau með á næstu sjö árum talið frá og með því ári þegar bygging hefst, eða til og með því ári sem húsnæði er tekið til íbúðar ef það er síðar.

Eins og fram er komið seldu kærendur íbúðarhúsnæði að Z-götu, með kaupsamningi, dags. 8. júní 1999, og var söluverð 10.600.000 kr. Samkvæmt gögnum málsins, sbr. og skýringar kærenda í bréfi, dags. 10. október 2001, voru áhvílandi lán á þessari íbúð 2.994.033 kr. í árslok 1998. Auk þessa námu aðrar skuldir kærenda í lok þess árs 3.113.950 kr. við Landsbanka Íslands hf. samkvæmt tilgreindum skuldabréfum. Í lok ársins 1999 námu þær skuldir 250.833 kr. Kaupverð íbúðarhúsnæðisins að X-götu nam 10.050.000 kr., eins og fram er komið. Við kaupin yfirtók kærendur skuldir að fjárhæð samtals 5.498.525 kr., auk útgáfu skuldabréfs að fjárhæð 854.422 kr. Útborgunarhluti nam þannig 3.697.053 kr. Kærendur hafa upplýst, sbr. bréf, dags. 10. október 2001, að hluta söluandvirðis Z-götu hafi verið varið til greiðslu fyrrgreindra lána á árinu 1999. Skattstjóri hefur vísað til þess að þrátt fyrir greiðslu umræddra skulda hafi staðið eftir til ráðstöfunar af söluandvirði umræddrar íbúðar meira en nóg til að standa straum af útborgunarhluta vegna kaupa á íbúðarhúsnæðinu að X-götu. Verður að skilja þessa ályktun skattstjóra sem þátt í vefengingu hans á þeirri staðhæfingu kærenda að umræddur hluti hins umdeilda láns frá Landsbanka Íslands hf. hafi runnið til að standa straum af greindum útborgunarhluta vegna kaupanna á X-götu. Kærendur byggja mál sitt á því að þau hafi verið með yfirdrátt í Landsbanka Íslands hf. vegna fjármögnunar á útborgunarhlutanum og til að standa straum af sölulaunum og öðrum kostnaði vegna flutningsins. Verður að telja að úrlausn málsins velti á því hvort kærendur verði talin hafa sýnt fram á að andvirði lánsins að þessum hluta hafi verið varið til að standa straum af greindum útborgunarhluta og þá vegna uppgreiðslu á nefndum yfirdrætti svo sem skýringar þeirra lúta að.

Ekki liggur fyrir í málinu hverjir voru gjalddagar á nefndum útborgunarhluta, en kaupsamningur er dagsettur 28. júlí 1999. Umrætt lán frá Landsbanka Íslands hf. var tekið 1. febrúar 2000 samkvæmt gögnum málsins og var útborguð lánsfjárhæð 2.154.800 kr. Samkvæmt fyrirliggjandi reikningsyfirlitum nam yfirdráttarskuld kærenda við bankann 1.988.807,31 á þeim tíma samkvæmt tveimur reikningum og var skuldin jöfnuð með láninu. Upphafsstaða samkvæmt yfirlitunum nam samtals 1.906.528,86 kr., en yfirlitin taka yfir hreyfingar frá því um miðjan janúar 2000 til byrjunar febrúar það ár. Samkvæmt þessu liggur fyrir að umræddu lánsfé var að verulegu leyti varið til að gera upp yfirdráttarskuldir kærenda við Landsbanka Íslands hf. Skattstjóri vefengdi að umræddur yfirdráttur stafaði af íbúðarkaupum kæranda á þeim grundvelli að framlögð reikningsyfirlit sýndu aðeins hreyfingar á umræddum tíma á árinu 2000. Teldi skattstjóri ástæðu til að fá frekari gögn um yfirdrátt þennan bar honum að afla þeirra samkvæmt rannsóknarskyldu sinni í stað vefengingar á fyrirliggjandi grundvelli. Að þessu athuguðu þykja ekki efni til annars en að byggja á því að umræddar yfirdráttarskuldir kærenda við bankann hafi meðal annars myndast vegna fjármögnunar á greindum útborgunarhluta. Að því leyti hafa kærendur miðað við fjárhæð sem svarar til helmings greinds láns eða 1.110.416 kr. Þykja ekki efni til að hrófla við þeirri fjárhæð. Að svo vöxnu og þar sem að öðru leyti eru uppfyllt lagaskilyrði fyrir færslu umrædds hluta lánsins og vaxtagjalda af því meðal skulda vegna öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota, sbr. 2. mgr. B-liðar 69. gr. laga nr. 75/1981, er krafa kærenda í máli þessu tekin til greina.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Fallist er á kröfu kærenda í máli þessu.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja