Úrskurður yfirskattanefndar

  • Barnabætur, skerðing vegna tekna

Úrskurður nr. 68/2003

Gjaldár 2002

Lög nr. 75/1981, 69. gr. A-liður  

Kæranda, sem flutti ásamt tveimur börnum sínum til Íslands hinn 14. júní 2001, voru ákvarðaðar barnabætur í hlutfalli við dvalartíma barnanna hér á landi árið 2001. Við ákvörðun skerðingar barnabótanna vegna tekna var einungis miðað við tekjur kæranda sem féllu til á tímabili ótakmarkaðrar skattskyldu hér á landi árið 2001, þ.e. eftir flutning til landsins. Var því engin skerðing reiknuð vegna húsaleigutekna kæranda sem féllu til á þeim hluta ársins 2001 sem hún var búsett erlendis.

I.

Málavextir eru þeir að kærandi flutti ásamt tveimur börnum sínum til Íslands frá Svíþjóð hinn 14. júní 2001. Við almenna álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2002 voru kæranda ákvarðaðar barnabætur að fjárhæð 168.005 kr., sbr. A-lið 69. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með áorðnum breytingum. Kærandi mótmælti ákvörðun barnabóta með kæru til skattstjóra, dags. 28. ágúst 2002, á þeim forsendum að lögheimili hennar í Svíþjóð hluta ársins 2001 gæti ekki skýrt mikla skerðingu á barnabótum hennar við álagningu opinberra gjalda árið 2002.

Skattstjóri tók kæru kæranda til afgreiðslu með kæruúrskurði, dags. 12. nóvember 2002. Í úrskurðinum sagði að barnabætur kæranda gjaldárið 2002 hefðu verið ákvarðaðar samkvæmt 2. mgr. A-liðar 69. gr. laga nr. 75/1981 miðað við það að kærandi hefði flutt til landsins ásamt börnum sínum þann 14. júní 2001. Fjárhæð barnabóta og skerðingarmörk tekna ákvörðuðust í hlutfalli við dvalartíma hér á landi, en kærandi hefði dvalið hérlendis í 201 dag árið 2001 sem þýddi 55,068% af árinu. Hámarks fjárhæð barnabóta einstæðs foreldris með tvö börn yngri en 7 ára hefði verið lækkuð úr 394.870 kr. í 217.449 kr. Skerðingarmörk vegna tekna hefðu verið lækkuð úr 677.364 kr. í 373.014 kr. Yrði ekki annað séð en að ákvörðun barnabóta kæranda gjaldárið 2002 hefði verið í samræmi við ákvæði A-liðar 69. gr. laga nr. 75/1981 og væri kærunni því vísað frá sem tilefnislausri.

II.

Kærandi hefur skotið kæruúrskurði skattstjóra til yfirskattanefndar með kæru, dags. 13. desember 2002. Kærandi mótmælir ákvörðun barnabóta gjaldárið 2002 og tekur fram í því sambandi að leigutekjur, sem hún hafi haft á fyrri hluta ársins 2001, þegar hún hafi verið búsett í Svíþjóð, geti ekki talist með til skerðingar barnabóta.

III.

Með bréfi, dags. 10. janúar 2003, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Samkvæmt upplýsingum á skattframtali kæranda kom hún til landsins frá Svíþjóð 14. júní 2001. Við álagningu opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2002 var skattlagningu kæranda hagað eftir ákvæðum 2. mgr. 70. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, miðað við dvalartíma 201 dag hérlendis á tekjuárinu 2001 og voru henni ákvarðaðar barnabætur á grundvelli A-liðar 69. gr. laga nr. 75/1981. Í 2. mgr. A-liðar 69. gr. segir að fyrir barn sem öðlast heimilisfesti hér á landi á tekjuárinu skuli einungis greiða barnabætur í hlutfalli við dvalartíma þess hér á landi á því ári. Þannig skuli fjárhæð barnabóta skv. 3. mgr. og 4. mgr. og skerðingarmörk vegna tekna, sbr. 4. mgr., ákvarðast í hlutfalli við dvalartímann. Við útreikning og ákvörðun barnabóta kæranda var miðað við dvalartíma hér á landi í 201 dag og tvö börn á framfæri eldri en sjö ára á tekjutímabilinu.

Með tekjuskattsstofni í 4. mgr. A-liðar 69. gr. laga nr. 75/1981 er átt við tekjur skv. II. kafla laganna með nánar tilgreindum undantekningum. Til tekjuskattsstofns í skilningi ákvæðisins teljast samkvæmt því einnig tekjur af útleigu eigna sem ekki tengjast atvinnurekstri. Samkvæmt skattframtali kæranda 2002 nam stofn hennar til tekjuskatts og útsvars 706.995 kr. en auk þess hafði kærandi tekjur af útleigu eigna sem ekki tengjast atvinnurekstri samtals 284.058 kr. Við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2002 nam óskert fjárhæð barnabóta einstæðs foreldris 194.921 kr. með fyrsta barni en 199.949 kr. með hverju barni umfram eitt. Skerðingarmark vegna tekjuskattsstofns einstæðs foreldris nam 677.364 kr. og skerðingarhlutfall var 8% með tveimur börnum af tekjum umfram viðmiðunarmark. Óskert fjárhæð barnabóta með tveimur börnum eldri en sjö ára nam því samtals 394.870 kr. og hlutfölluð miðað við dvalartíma, þ.e. 201 dag af 365 dögum ársins 217.448 kr. Skerðingarmark vegna tekjuskattsstofns kæranda hlutfallað með sama hætti varð 373.014 kr. og reiknaðist 8% tekjuskerðing af tekjuskattsstofni 618.039 kr., þ.e. mismun 991.053 kr. og 373.014 kr., eða 49.443 kr. Þannig ákvarðaðist fjárhæð barnabóta kæranda sem mismunur á 217.448 kr. og tekjuskerðingar 49.443 kr. eða samtals 168.005 kr. Þar sem barnabætur kæranda voru rétt ákvarðaðar af skattstjóra er farið fram á staðfestingu á úrskurði skattstjóra með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 15. janúar 2002, var kæranda sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og henni gefin kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar.

Með bréfi, dags. 21. janúar 2002, hefur kærandi gert grein fyrir athugasemdum sínum. Kærandi tekur fram að hún hafi kært ákvörðun skattstjóra vegna þess að hún hafi talið rangt að skerða barnabætur sínar bæði árin 2001 og 2002.

IV.

Samkvæmt gögnum málsins og skráningu í þjóðskrá Hagstofu Íslands var kærandi búsett í Svíþjóð fyrri hluta árs 2001 og flutti til Íslands 14. júní 2001. Við álagningu opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2002 var stofn til útreiknings tekjuskatts og útsvars ákveðinn 706.995 kr. og var skattlagningu kæranda hagað eftir ákvæðum 2. mgr. 70. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, miðað við dvalartíma 201 dag hérlendis tekjuárið 2001. Við álagninguna var kæranda jafnframt ákvarðaður stofn til fjármagnstekjuskatts 284.058 kr. Af hálfu kæranda er komið fram að þar var um að ræða húsaleigutekjur sem féllu til á þeim hluta árs 2001 sem hún var búsett í Svíþjóð. Vegna þessara tekna bar kærandi á umræddu tímabili takmarkaða skattskyldu samkvæmt 5. tölul. 3. gr. laga nr. 75/1981. Við álagninguna voru kæranda ákvarðaðar barnabætur að fjárhæð 168.005 kr. og hefur verið gerð grein fyrir útreikningi þeirra m.a. í kröfugerð ríkisskattstjóra, dags. 10. janúar 2003, sbr. hér að framan.

Í 1. málsl. 1. mgr. A-liðar 69. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með áorðnum breytingum, segir að með hverju barni innan 16 ára aldurs, sem heimilisfast sé hér á landi og sé á framfæri þeirra sem skattskyldir eru samkvæmt 1. gr. laganna, skuli ríkissjóður greiða barnabætur til framfæranda barnsins. Kveðið er á um fjárhæð barnabóta í 3. og 4. mgr. A-liðar 69. gr. Í 4. mgr. eru jafnframt ákvæði um skerðingu tekjutengdra barnabóta vegna tekna, en í því sambandi ber að líta til tekjuskattsstofns svo sem hann er skilgreindur í 4. málsl. málsgreinarinnar.

Samkvæmt 2. mgr. A-liðar 69. gr. skal fyrir barn sem öðlast heimilisfesti hér á landi á tekjuárinu einungis greiða barnabætur í hlutfalli við dvalartíma þess hér á landi á því ári. Þannig skal fjárhæð barnabóta skv. 3. og 4. mgr. og skerðingarmörk vegna tekna, sbr. 4. mgr., ákvarðast í hlutfalli við dvalartímann.

Óumdeilt er að dvalartími barna kæranda hér á landi á tekjuárinu 2001 var 201 dagur. Við það hefur skattstjóri miðað og gætt framangreindra reglna við ákvörðun barnabóta kæranda gjaldárið 2002 að öðru leyti en því að skerðing vegna tekna var reiknuð á grundvelli tekjuskattsstofns að fjárhæð 991.053 kr., þ.e. bæði tekna sem til féllu á tímabili takmarkaðrar skattskyldu kæranda og tekna á tímabili ótakmarkaðrar skattskyldu tekjuárið 2001. Með vísan til upphafsákvæðis A-liðar 69. gr. laga nr. 75/1981 þykir bera að miða einungis við síðarnefndar tekjur, þ.e. 706.995 kr. í tilviki kæranda. Samkvæmt því ákvarðast barnabætur kæranda 190.730 kr. gjaldárið 2002.

Að því leyti sem kæra til yfirskattanefndar varðar ákvörðun barnabóta kæranda gjaldárið 2001 skal tekið fram að vegna þess gjaldárs liggur ekki fyrir úrskurður skattstjóra sem kæranlegur er til yfirskattanefndar eftir ákvæðum laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Barnabætur kæranda gjaldárið 2002 ákvarðast 190.730 kr.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja