Úrskurður yfirskattanefndar

  • Þungaskattur
  • Bifreiðagjald

Úrskurður nr. 158/2003

Bifreiðagjald og þungaskattur 2001 og 2002

Lög nr. 3/1987, 4. gr. A-liður, 7. gr. A-liður 3. mgr., 12. gr., 16. gr. (brl. nr. 68/1996)   Lög nr. 39/1988, 1. gr., 4. gr. d-liður, 7. gr. 3. mgr. (brl. nr. 37/2000)  

Talið að kæranda bæri í samræmi við lög að standa skil á bifreiðagjaldi og föstu gjaldi þungaskatts vegna tilgreindra greiðslutímabila árin 2001 og 2002, enda þótti ekki geta skipt máli um gjaldskyldu þótt upplýst væri að mistök skráningaraðila hefðu valdið því að kæranda var ekki ákvarðað bifreiðagjald og fast gjald þungaskatts vegna viðkomandi tímabila á gjalddaga þeirra. Var kröfu kæranda um niðurfellingu á umræddum gjöldum hafnað að því frátöldu að endurákvörðun bifreiðagjalds greiðslutímabilið janúar-júní 2001 var felld niður þar sem kærandi hafði áður staðið skil á bifreiðagjaldi fyrir það tímabil.

I.

Með kæru, dags. 2. október 2002, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar tveimur úrskurðum ríkisskattstjóra, dags. 22. ágúst 2002, annars vegar um endurákvörðun bifreiðagjalds vegna bifreiðarinnar T á 1. og 2. gjaldtímabili árið 2001 og 1. gjaldtímabili árið 2002 og hins vegar um endurákvörðun þungaskatts vegna sömu bifreiðar á 1. og 2. gjaldtímabili árið 2001 og 1. gjaldtímabili árið 2002. Af hálfu kæranda er þess krafist að endurákvarðanir ríkisskattstjóra verði felldar niður.

II.

Málavextir eru þeir að með bréfum, dags. 19. mars 2002, boðaði ríkisskattstjóri kæranda endurákvörðun bifreiðagjalds og fasts gjalds þungaskatts vegna bifreiðarinnar T fyrir tímabilið 20. apríl 2001 til 30. júní 2002. Vísaði ríkisskattstjóri til erindis, sem borist hefði embættinu, þar sem fram kæmi að álagningu bifreiðagjalds og þungaskatts vantaði frá úttekt númera bifreiðarinnar hinn 20. apríl 2001 til 30. júní 2002. Samkvæmt skráningu í ökutækjaskrá hefði kærandi eignast bifreiðina T hinn 24. nóvember 2000 og hefðu skráningarnúmer ökutækisins verið lögð inn sama dag. Þau hefðu verið tekin úr innlögn 20. apríl 2001, en vegna mistaka hefði það ekki verið skráð í ökutækjaskrá og bifreiðagjald og þungaskattur því ekki verið lagt á strax við úttekt númera. Um gjaldskyldu bifreiðagjalds skírskotaði ríkisskattstjóri til 3. gr. laga nr. 39/1988, um bifreiðagjald, með áorðnum breytingum, þar sem fram kæmi að ef bifreiðir sem hefðu verið undanþegnar bifreiðagjaldi skv. d-lið 4. gr. laganna væru settar á skráningarmerki að nýju skyldi greiða bifreiðagjald í hlutfalli við þann tíma sem eftir væri af gjaldtímabilinu og hæfist gjaldskyldan frá og með afhendingu skráningarmerkis. Félli gjald vegna skráðra bifreiða sem skráningarmerki væru sett á að nýju í eindaga við afhendingu skráningarmerkis. Að því er varðar þungaskatt vísaði ríkisskattstjóri til ákvæðis 4. gr. A-liðar laga nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, með áorðnum breytingum, eins og nánar var rakið í bréfinu, og tók fram að samkvæmt A-lið 7. gr. sömu laga skyldi lækka eða endurgreiða þungaskatt að réttri tiltölu hefði skattskyld bifreið verið afskráð sem ónýt eða skráningarmerki bifreiðar verið afhent Skráningarstofunni hf. til geymslu. Um breytingaheimild vísaði ríkisskattstjóri til 12. gr. laga nr. 3/1987, að því er varðaði endurákvörðun þungaskatts, og til þeirrar lagagreinar, sbr. 3. mgr. 7. gr. laga nr. 39/1988, að því er varðaði endurákvörðun bifreiðagjalds. Í boðunarbréfi vegna bifreiðagjalds kom fram að fyrirhugað væri að endurákvarða bifreiðagjald vegna framangreinds ökutækis tímabilið 20. apríl 2001 til loka 1. gjaldtímabils 2002, nánar tiltekið 6.784 kr. vegna 1. gjaldtímabils 2001, 17.056 kr. vegna 2. gjaldtímabils 2001 og 18.748 kr. vegna 1. gjaldtímabils 2002. Í boðunarbréfi vegna þungaskatts kom fram að fyrirhuguð væri ákvörðun þungaskatts vegna sama tímabils að fjárhæð 30.900 kr. vegna 1. gjaldtímabils 2001, 77.679 kr. vegna 2. gjaldtímabils 2001 og 77.680 kr. vegna 1. gjaldtímabils 2002.

Kærandi andmælti boðuðum breytingum á bifreiðagjaldi og þungaskatti með bréfi, dags. 2. apríl 2002. Kom fram hjá kæranda að hann teldi að um mistök hefði verið að ræða og að skráningarnúmer bifreiðarinnar hefðu legið í geymslu hjá Skráningarstofunni hf. þann tíma sem um væri að ræða. Hefði bifreiðin staðið óhreyfð vegna bilunar á þessum tíma, en hann minnti að hann hefði lagt inn skráningarnúmerin daginn eftir að hann hefði tekið þau út á árinu 2001. Þá mótmælti kærandi því að hafa ekki fengið tilkynningu fyrr um að greiða umrædd gjöld „áður en fjárhæðin hækkaði upp úr öllu valdi“. Mótmælti kærandi ennfremur því að hafa fengið innheimtubréf vegna hinna umdeildu gjalda og tók fram í því sambandi að honum þætti undarlegt að innheimtubréfið væri dagsett degi fyrr en boðunarbréf ríkisskattstjóra.

Ríkisskattstjóri boðaði að nýju endurákvörðun bifreiðagjalds og þungaskatts með tveimur bréfum, dags. 7. maí 2002. Í bréfunum var vísað til þess að kærandi hefði andmælt boðuðum breytingum með bréfi sem hefði borist ríkisskattstjóra þann 4. apríl 2002. Hefði starfsmaður ríkisskattstjóra haft samband í kjölfarið við kæranda símleiðis og bent honum á að hann þyrfti til stuðnings fullyrðingu sinni um að hafa lagt skráningarnúmer bifreiðarinnar inn til geymslu hjá Skráningarstofunni hf. „að leiðrétta skráningu númeranna hjá Skráningarstofu hf. ef um ranga skráningu af þeirra hálfu væri að ræða“. Hefði ekkert heyrst frá kæranda síðan.

Með úrskurði, dags. 22. ágúst 2002, hratt ríkisskattstjóri í framkvæmd boðaðri ákvörðun bifreiðagjalds vegna bifreiðarinnar T fyrir 1. og 2. gjaldtímabil 2001 og 1. gjaldtímabil 2002. Álagt bifreiðagjald samkvæmt úrskurðinum nam alls 42.588 kr. Í úrskurðinum rakti ríkisskattstjóri málavexti og rök fyrir ákvörðun gjaldsins með hliðstæðum hætti og í boðunarbréfi. Þá komu boðaðar ákvarðanir þungaskatts vegna bifreiðarinnar fyrir 1. og 2. gjaldtímabil 2001 og 1. gjaldtímabil 2002, samtals að fjárhæð 186.259 kr., til framkvæmda með úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 22. ágúst 2002, þar sem málavextir voru raktir og rök færð fyrir ákvörðun þungaskatts á sama hátt og í boðunarbréfi. Í úrskurðunum kom fram að engin svör hefðu borist frá kæranda vegna boðunarbréfa, dags. 7. maí 2002, né hefðu orðið neinar breytingar á skráningu í ökutækjaskrá.

III.

Með kæru, dags. 2. október 2002, hefur kærandi skotið framangreindum úrskurðum um endurákvörðun á bifreiðagjaldi og þungaskatti bifreiðarinnar T, dags. 22. ágúst 2002, til yfirskattanefndar. Í kærunni segir að reyndar hafi komið í ljós að skráningarnúmer bifreiðarinnar hefðu ekki verið lögð inn til geymslu að nýju. Hafi kærandi fundið þau í bifreið félaga síns sem tekið hefði að sér að leggja þau inn. Þetta breyti því þó ekki að bifreiðin T hefði staðið ónotuð vegna bilunar allan þann tíma sem málið snúist um og geti fjölmörg vitni staðfest það. Bendir kærandi á að hann hafi fengið endurgreitt bifreiðagjald og þungaskatt vegna fyrri hluta árs 2001 og hafi þetta valdið því að hann hefði talið að skráningarnúmer bifreiðarinnar hefðu verið lögð inn, eins og ætlunin hefði verið. Kveðst kærandi ekki geta sætt sig við að vera nú krafinn um þessi gjöld fyrir eitt og hálft ár, en hugsanlegt væri að greiða fyrir fyrri hluta árs 2002, þ.e. tímabilið þegar fyrsta bréf ríkisskattstjóra hefði borist.

IV.

Með bréfi, dags. 13. desember 2002, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Að úrskurðir ríkisskattstjóra verði staðfestir með vísan til forsendna þeirra og því sem fram kemur í umsögn þessari.

I. Um lagaheimildir og lagaskil.

Áður en farið verður yfir einstök atriði sem fram koma í kæru gjaldanda vill ríkisskattstjóri árétta eftirfarandi:

Þann 20. apríl 2001 voru skráningarnúmer ökutækisins T tekin úr innlögn en vegna mistaka var það aldrei skráð í ökutækjaskrá og bifreiðagjöld og þungaskattur aldrei lögð á. Þannig vantaði álagningu bifreiðagjalda og þungaskatts fyrir tímabilið 20. apríl 2001 til 30. júní 2002.

Í 3. gr. laga nr. 39/1988, um bifreiðagjald, segir að „Gjald vegna nýskráðra bifreiða skal greiða í hlutfalli við skráningartíma þeirra á gjaldtímabilinu og telst gjaldskyldan vera frá afhendingu skráningarmerkis.“

Þá segir í 4. gr. A lið laga nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, sbr. síðari breytingar, að „Af bifreiðum, sem nota annan orkugjafa en bensín og eru allt að 4000 kg að leyfðri heildarþyngd, skal greiða fast gjald þungaskatts sem hér segir: 94.273 kr. af fólksbifreiðum að eigin þyngd allt að 999 kg, 113.163 kr. af fólksbifreiðum að eigin þyngd 1.000-1.499 kg og 136.675 kr. af fólksbifreiðum að eigin þyngd 1.500-1.999 kg. Af bifreiðum þyngri en 2.000 kg skal gjaldið hækka um 7.819 kr. fyrir hver 200 kg.“

II. Einstök atriði í kæru gjaldanda, kröfur um niðurfellingu á ákvörðun ríkisskattstjóra.

Kærandi hélt því fram að númer ökutækisins hefðu verið lögð inn 21. apríl 2001. Sú innlögn kom ekki fram í ökutækjaskrá og engin gögn staðhæfðu það. Kom síðar í ljós að númerin höfðu ekki verið lögð inn þennan dag. Kærandi heldur því fram að ökutækið hafi staðið ónotað, bilað og án númera á umræddu tímabili þ.e. 20. apríl 2001 til 30. júní 2002.

Í 3. mgr. A lið 7. gr. laga nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, sbr. síðari breytingar, segir „Lækka skal eða endurgreiða þungaskatt að réttri tiltölu hafi skattskyld bifreið verið afskráð sem ónýt eða skráningarmerki bifreiðar verið afhent Skráningarstofunni hf. til geymslu.“ Þá segir í sömu málsgrein „Þá skal ríkisskattstjóri lækka eða endurgreiða fast gjald að réttri tiltölu ef sýnt er fram á það með fullnægjandi hætti að bifreið hafi ekki verið í notkun hér á landi í a.m.k. þrjátíu daga samfellt vegna viðgerðar á viðurkenndu verkstæði, þó ekki hærri fjárhæð en sem nemur gjaldi í þrjátíu daga.“

Þá segir í 1. mgr. d lið 4. gr. laga nr. 39/1988, um bifreiðagjald, sbr. síðari breytingar, að undanþegnar bifreiðagjaldi séu „Bifreiðir þegar skráningarmerki hafa verið afhent skráningaraðila til varðveislu. Undanþága þessi miðast við dagsetningu innlagnar skráningarmerkja. Jafnframt skal ríkisskattstjóri fella niður bifreiðagjald af ónýtum bifreiðum sem sannanlega hafa ekki verið í notkun á gjaldtímabilinu.“

Fyrir liggur í málinu að skráningarmerki ökutækisins voru ekki lögð inn hjá Umferðarstofu hf. til geymslu á tímabilinu 20. apríl 2001 til 30. júní 2002. Þó bifreiðin hafi staðið ónotuð og án númera, jafngildir það ekki afhendingu númeranna til varðveislu hjá skráningaraðila. Bifreiðin hefur ekki verið afskráð ónýt skv. upplýsingum úr ökutækjaskrá og engin gögn eru til staðar er sýna fram á það að bifreiðin hafi verið ónýt og sannanlega ekki í notkun umrætt tímabil. Þá hefur ekki verið lagt fram vottorð frá viðurkenndu verkstæði sem staðfest gæti viðgerð á ökutækinu og þ.a.l. hugsanlega leitt til lækkunar á föstu gjaldi þungaskatts sem numið gæti allt að þrjátíu dögum. Af framangreindu er ljóst að skilyrði 3. mgr. A. liðar 7. gr. laga nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, sbr. síðar breytingar og 1. mgr. d. liðar 4. gr. laga nr. 39/1988, um bifreiðagjald, sbr. síðari breytingar, til lækkunar eða endurgreiðslu þungaskatts og bifreiðagjalda eru ekki uppfyllt.

Kærandi telur mistök við skráningu hjá Skráningarstofunni hafa orðið þess valdandi að hann fékk endurgreiddan þungaskatt og bifreiðagjöld fyrrihluta árs 2001. Við skoðun ríkisskattstjóra á hreyfingum í þungaskatti og bifreiðagjaldi kemur í ljós að er kærandi tók út númer ökutækisins, þann 20. apríl 2001, greiddi hann bifreiðagjald á 1. gjaldtímabili 2001. Engin álagning átti sér stað á móti þessari greiðslu vegna áðurnefndra mistaka við skráningu og fékk kærandi því greiðslu þessa endurgreidda þann 27. nóvember 2001 ásamt inneignarvöxtum. Engar sambærilegar færslur er að finna í þungaskatti.

Ríkisskattstjóri fer fram á að úrskurðir ríkisskattstjóra verði staðfestir með vísan til forsendna þeirra, auk þeirra röksemda sem fram koma í kröfugerð ríkisskattstjóra, þar sem framkomin gögn og málsástæður varðandi kæruefnið gefa ekki tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.“

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 17. desember 2002, var kæranda sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og honum gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar.

Með bréfi, dags. 2. janúar 2003, hefur kærandi gert grein fyrir athugasemdum sínum. Kveðst hann líta á það sem kvittun fyrir innlögn skráningarnúmera að fá endurgreiddan þungaskatt vorið 2001. Þá gerir kærandi athugasemd við það hversu seint mistök Skráningarstofu hafi uppgötvast. Loks ítrekar kærandi að bifreiðin hafi staðið ónotuð allan tímann og tekur fram að fjölmörg vitni geti staðfest það.

V.

Samkvæmt gögnum málsins festi kærandi kaup á bifreiðinni T hinn 24. nóvember 2000. Þann dag voru skráningarmerki bifreiðarinnar lögð inn til geymslu hjá Skráningarstofunni hf., sem annaðist skráningu ökutækja og hélt ökutækjaskrá, sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 78/1997, um skráningu ökutækja, en merkin voru tekin út aftur hinn 20. apríl 2001. Er kærandi tók út skráningarmerkin munu þau mistök hafa átt sér stað hjá skráningaraðila að ekki var fært í ökutækjaskrá að skráningarmerkin hefðu verið tekin í notkun. Vegna geymslu skráningarmerkja hjá skráningaraðila var bifreiðagjald samkvæmt lögum nr. 39/1998, um bifreiðagjald, með áorðnum breytingum, og fast gjald þungaskatts samkvæmt A-lið 4. gr. laga nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, með áorðnum breytingum, ekki ákvörðuð vegna ökutækisins á gjalddaga gjalda þessara fyrir greiðslutímabilið janúar-júní 2001, sbr. d-lið 4. gr. laga nr. 39/1988 og 1. málsl. 3. mgr. A-liðar 7. gr. laga nr. 3/1987, og vegna framangreindra mistaka skráningarstofu var hvorki ákvarðað bifreiðagjald vegna greiðslutímabilanna júlí-desember 2001 og janúar-júní 2002 né fast gjald þungaskatts vegna sömu greiðslutímabila. Þá er komið fram að við móttöku skráningarmerkja 20. apríl 2001 greiddi kærandi bifreiðagjald vegna greiðslutímabilsins janúar-júní 2001, svo sem er í samræmi við ákvæði 5. mgr. 5. gr. laga nr. 39/1988, en gjaldið var endurgreitt honum í nóvember það ár. Eftir því sem fram kemur í kröfugerð ríkisskattstjóra, dags. 13. desember 2002, greiddi kærandi hins vegar ekki fast gjald þungaskatts vegna nefnds tímabils.

Þar sem óumdeilt er í máli þessu að skráningarmerki bifreiðarinnar T voru ekki afhent skráningaraðila til varðveislu á nýjan leik eftir að kærandi fékk þau afhent 20. apríl 2001 geta undanþáguákvæði d-liðar 4. gr. laga nr. 39/1988 og 1. málsl. 3. mgr. A-liðar 7. gr. laga nr. 3/1987 ekki átt við í tilviki kæranda. Þá verður ekki séð og hefur ekki verið haldið fram af hálfu kæranda að önnur undanþáguákvæði nefndra laga eigi við í málinu. Samkvæmt þessu og í samræmi við almenn ákvæði um gjaldskyldu til bifreiðagjalds í lögum nr. 39/1988, sbr. 1.-3. gr. þeirra laga, bar kæranda að standa skil á því gjaldi, svo og föstu gjaldi þungaskatts, sbr. A-lið 7. gr. laga nr. 3/1987, vegna þeirra greiðslutímabila sem í málinu greinir, enda þykir ekki geta skipt máli um gjaldskyldu þótt upplýst sé að mistök skráningaraðila hafi valdið því að kæranda var ekki ákvarðað bifreiðagjald og fast gjald þungaskatts vegna framangreindra greiðslutímabila á gjalddaga þeirra.

Í 12. gr. laga nr. 3/1987, sbr. a-lið 15. gr. laga nr. 68/1996, er kveðið á um heimild ríkisskattstjóra til að endurákvarða fast gjald þungaskatts ef í ljós kemur að ökutæki hafi verið í röngum gjaldflokki, ranglega skráð í ökutækjaskrá eða að fast gjald þungaskatts hafi ekki verið réttilega á lagt. Í 16. gr. laganna segir að heimild til endurákvörðunar skatts samkvæmt 12. gr. nái til þungaskatts síðustu sex ára sem næst eru á undan því ári þegar endurákvörðun fari fram. Verði skattskyldum aðila eigi um það kennt að þungaskattur hafi verið vanálagður sé þó eigi heimilt að endurákvarða honum skatt nema vegna síðustu tveggja ára sem næst eru á undan því ári sem endurákvörðun fer fram á. Telja verður að endurákvörðunarheimildir þessar taki til bifreiðagjalds með hliðstæðum hætti, sbr. 3. mgr. 7. gr. laga nr. 39/1988, sbr. 8. gr. laga nr. 37/2000, þar sem segir að um málsmeðferð að öðru leyti en greini í 1. og 2. mgr. lagagreinarinnar fari samkvæmt lögum nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, með síðari breytingum, sbr. einnig athugasemdir með 8. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 37/2000.

Samkvæmt því sem rakið hefur verið verður að telja að ríkisskattstjóri hafi réttilega ákvarðað bifreiðagjald vegna greiðslutímabilanna júní-desember 2001 og janúar-júní 2002 með hinni kærðu endurákvörðun, svo og fast gjald þungaskatts vegna greiðslutímabilanna janúar-júní og júlí-desember 2001 og janúar-júní 2002. Eins og fram er komið stóð kærandi skil á bifreiðagjaldi fyrir greiðslutímabilið janúar-júní 2001 hinn 20. apríl 2001. Samkvæmt því voru ekki efni til endurákvörðunar bifreiðagjalds vegna þess greiðslutímabils og er endurákvörðun ríkisskattstjóra felld niður að því leyti, en tekið skal fram að ekki verður séð að endurgreiðsla bifreiðagjalds til kæranda í nóvember 2001 sé vegna ákvarðana skattyfirvalda og verður því ekki talið að hún geti orðið tilefni ákvörðunar bifreiðagjalds vegna nefnds greiðslutímabils að nýju. Að öðru leyti er kröfum kæranda í máli þessu hafnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Endurákvörðun bifreiðagjalds greiðslutímabilið janúar-júní 2001 fellur niður. Að öðru leyti er kröfum kæranda um niðurfellingu á bifreiðagjöldum og þungaskatti hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja