Úrskurður yfirskattanefndar

  • Söluhagnaður af hlutabréfum
  • Samruni hlutafélaga

Úrskurður nr. 186/2003

Gjaldár 2000

Lög nr. 75/1981, 17. gr., 56. gr. 1. mgr., 101. gr. 3. mgr.  

Kærandi færði til gjalda í rekstrarreikningi sínum mismun á kaupverði hlutabréfa í B hf. og andvirðis hlutabréfanna þegar samruni B hf. við annað hlutafélag, C hf., átti sér stað. Í úrskurði yfirskattanefndar kom fram að ganga yrði út frá því að umræddur samruni hefði verið í samræmi við 1. mgr. 56. gr. laga nr. 75/1981. Kæmi því ekki til álita að um tap af sölu eigna væri að ræða, enda fælist í ákvæðinu að hlutabréfaskipti í tengslum við sameiningu hlutafélaganna teldust ekki sala samkvæmt 17. gr. sömu laga. Var kröfu kæranda hafnað.

I.

Kæruefni í máli þessu, sem barst yfirskattanefnd með kæru, dags. 29. apríl 2002, er niðurfelling skattstjóra á gjaldaliðnum „Yfirteknir Ógreiddir vextir frá 1998“ að fjárhæð 328.873 kr. í rekstrarreikningi kæranda fyrir árið 1999 sem fylgdi innsendu skattframtali kæranda árið 2000, sbr. úrskurð skattstjóra, dags. 12. febrúar 2002. Af hálfu kæranda er þess krafist að gjaldfærsla þessi verði tekin til greina.

II.

Málavextir eru þeir að af hálfu kæranda, sem er einkahlutafélag, var ekki talið fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 2000. Við almenna álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2000 sætti kærandi af þeim sökum áætlun skattstjóra á skattstofnum, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Með ódagsettu bréfi, sem mun hafa borist skattstjóra 12. desember 2000, fór kærandi fram á að meðfylgjandi skattframtal félagsins árið 2000 yrði lagt til grundvallar álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2000 í stað áætlunar. Í bréfi kæranda kom m.a. fram að kærandi hefði yfirtekið allar eignir og skuldir firmans A. Með bréfi ríkisskattstjóra, dags. 10. janúar 2001, var skattstjóra falin afgreiðsla á erindi gjaldanda, sbr. 3. mgr. 101. gr. laga nr. 75/1981.

Áður en skattstjóri tók erindi kæranda til afgreiðslu óskaði hann með bréfi, dags. 11. september 2001, eftir upplýsingum og gögnum varðandi tiltekna liði innsends skattframtals. Meðal annars skyldi gjaldaliðurinn „Yfirteknir Ógreiddir vextir frá 1998“ að fjárhæð 328.873 kr. skýrður og rökstuddur, en ekki yrði séð að vaxtagjöld frá árinu 1998 gætu talist frádráttarbær rekstrarkostnaður hjá kæranda skv. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981 á árinu 1999. Í svarbréfi kæranda, dags. 12. desember 2001, sagði um greindan lið að um væri að ræða gengistap vegna samruna B hf. og C hf. Vísaði kærandi í þessu sambandi til meðfylgjandi gagna. Svarbréfi kæranda fylgdu m.a. ljósrit af sölunótu Kaupþings hf., dags. 9. júní 1997, vegna kaupa A á hlutabréfum í B hf. að nafnverði 136.986 kr. á 499.999 kr. og bréfi C hf., dags. 27. janúar 2000, um afhendingu nýrra hlutabréfa í C hf. í skiptum fyrir hlutabréf í B hf. vegna sameiningar félaganna. Þá fylgdi bréfi kæranda uppgjör vegna yfirtöku kæranda á eignum og skuldum A. Í yfirliti þessu var kaupverð eigna tiltekið 11.732.378 kr., þar á meðal hlutabréf í B hf. – C hf. (nafnverð 136.986 kr.) að fjárhæð 499.999 kr. og í D hf. (nafnverð 318.266 kr.) að fjárhæð 402.606 kr., svo og kom fram að greiðsla hefði farið fram með yfirtöku skulda að fjárhæð samtals 11.732.378 kr. Í yfirlitinu var gerð sú grein fyrir yfirteknum ógreiddum vöxtum frá 1998 að fjárhæð 328.873 kr. að um væri að ræða mismun fjárhæðanna 499.999 kr. („Kaupverð B“) og 171.126 kr. („Innköllun og skipt í C bréf“).

Með úrskurði, dags. 12. febrúar 2002, féllst skattstjóri á að byggja álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2000 á hinu innsenda skattframtali að gerðum nokkrum breytingum. Tók skattstjóri þó fram að ýmis atriði varðandi yfirfærslu eigna og skulda frá einkafirmanu A til kæranda orkuðu tvímælis og væru í hæsta máta óvenjuleg. Varðandi kæruefnið í þessu máli var niðurstaða skattstjóra svofelld:

„Gjaldaliðurinn „Yfirteknir Ógreiddir vextir frá 1998“ að fjárhæð kr. 328.873 hefur verið felldur niður sem gjöld á rekstrarreikningi. Eins og umræddur liður hefur verið skýrður, þ.e. að um sé að ræða gengistap vegna samruna B hf. við C hf., verður ekki talið að sýnt sé fram á af hálfu gjaldanda að um frádráttarbæran rekstrarkostnað skv. 1. tl. 31. gr. laga nr. 75/1981 hafi verið að ræða. Hreinar tekjur á skattframtali hækka í kr. 331.565.“

III.

Með kæru, dags. 29. apríl 2002, hefur kærandi skotið úrskurði skattstjóra, dags. 12. febrúar 2002, til yfirskattanefndar vegna þeirrar breytingar skattstjóra á skattframtali kæranda árið 2000 að fella niður gjaldaliðinn „Yfirteknir ógreiddir vextir frá 1998“ að fjárhæð 328.873 kr. Fallist sé á það með skattstjóra að umrædd yfirfærsla eigna og skulda frá firmanu A til kæranda hafi verið óvenjuleg, en um neyðarráðstöfun hafi verið að ræða vegna samskipta nefnds firma við Hagstofu Íslands og skattstjóra, svo sem nánar er rakið.

Í kærunni er gerð sú grein fyrir kæruefninu að kaupverð á hlutabréfum í B hf. árið 1999 hafi verið 499.999 kr. eins og komi fram í meðfylgjandi kaupsamningi, en nafnverð hafi verið 136.986 kr. Í desember 1999 hafi C hf. tekið yfir B hf. og í stað hlutabréfa sinna í síðarnefnda félaginu hafi kærandi fengið hlutabréf í C hf. að nafnvirði 53.409 kr. en markaðsverði 171.126 kr. samkvæmt sölugenginu 3,2. Gengistap 328.873 kr. hafi verið fært til gjalda á móti gengishagnaði sem tekjufærður hafi verið sem söluhagnaður vegna innkallaðra hlutabréfa D hf. að fjárhæð 759.665 kr. Sá hagnaður hafi orðið til á sama tíma og á sama hátt samkvæmt meðfylgjandi ljósriti. Innköllunarverð hlutabréfaeignar kæranda í D hf. hafi verið 1.113.931 kr. og að teknu tilliti til kaupverðs hlutabréfanna samkvæmt kaupsamningi 570.982 kr. hafi gengishagnaður numið 795.665 kr.

Áréttað er í kærunni að þessi viðskipti hafi verið gerð með sama hætti á sama ári og sömu bókhaldsaðferðum, annars vegar vegna innköllunar hlutabréfa D hf. og hins vegar vegna innköllunar hlutabréfa B hf. Því sé farið fram á að tekið verði á gengistapi félagsins eins og gengishagnaði. Að því er varðar heiti gjaldaliðarins „Yfirteknir Ógreiddir vextir frá 1998“ er tekið fram að réttara heiti hefði verið „Gengistap vegna yfirtöku C hf. á B hf.“ En kaupin hafi verið gerð 1998 og samþykkt snemma árs 1999 og vitað hefði verið um einhvern hagnað vegna D hf. en minna vitað um B hf. Þar sem samið hafi verið um leið um vaxtagjöld vegna skulda hafi þessi texti verið sem minnispunktur stofnanda kæranda.

IV.

Með bréfi, dags. 17. maí 2002, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Þess er krafist að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“

V.

Eins og fram er komið er deiluefnið í máli þessu niðurfelling skattstjóra á gjaldaliðnum „Yfirteknir Ógreiddir vextir frá 1998“ að fjárhæð 328.873 kr. í rekstrarreikningi kæranda fyrir árið 1999. Af hálfu kæranda er komið fram að þrátt fyrir heiti gjaldaliðarins sé ekki um vaxtakostnað að ræða heldur gjaldfærslu mismunar á kaupverði hlutabréfa í B hf., svo sem það var ákvarðað við kaup kæranda á eignum firmans A, og andvirðis hlutabréfanna þegar samruni B hf. og C hf. átti sér stað í desember 1999. Að virtum gögnum málsins, sbr. m.a. bréf C hf., dags. 27. janúar 2000, þykir bera að ganga út frá því að samruni þessi hafi verið í samræmi við skilyrði 1. mgr. 56. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Virðist sjónarmið kæranda vera það að við umræddan samruna og hlutabréfaskipti í sambandi við hann hafi komið fram tap eða verðmætisrýrnun á hlutabréfaeign kæranda sem draga megi frá því sem kærandi telur vera hliðstæða hækkun á verði eignarhluta síns í D hf. Af þessu tilefni skal tekið fram að samkvæmt gögnum málsins, m.a. kvittun fyrir hlutabréfakaupum, dags. 27. október 1999, sem fylgir kæru til yfirskattanefndar, seldi kærandi þann dag E ehf. hlutabréf sín í D hf. Í skattskilum kæranda er tekjufærður hagnaður af sölunni að fjárhæð 795.665 kr. sem ákvarðaður er sem mismunur á söluverði 1.113.931 kr. og nafnverði 318.266 kr., en tekið skal fram að í framlögðu uppgjöri vegna yfirtöku eigna og skulda firmans A er kaupverð umræddra hlutabréfa tiltekið 402.606 kr. Hlutabréf þau í C hf., sem kærandi fékk fyrir eignarhluta sinn í B hf., voru hins vegar í eigu kæranda í árslok 1999. Er því ekki um sambærileg tilvik að ræða, enda felst í ákvæðum 1. mgr. 56. gr. laga nr. 75/1981 að afhending hlutabréfa kæranda í B hf., sem kærandi lét af hendi við nefnd hlutabréfaskipti vegna sameiningar þess hlutafélags og C hf., telst ekki sala samkvæmt 17. gr. laganna. Kemur því ekki til álita að um tap af sölu eigna sé að ræða að því er varðar nefnd hlutabréf. Að þessu athuguðu og þar sem ekki verður séð að lagagrundvöllur sé fyrir kröfu kæranda að öðru leyti, er kröfu hans í máli þessu hafnað.

Tekið skal fram að í máli þessu er ekki deilt um fjárhæð söluhagnaðar fyrrnefndra hlutabréfa í D hf. Hins vegar kann að vera að kærandi hafi í uppgjöri sínu á skattskyldum söluhagnaði af seldum hlutabréfum ofákvarðað söluhagnað, sbr. 17. gr. laga nr. 75/1981. Er kæranda bent á heimild ríkisskattstjóra samkvæmt 3. mgr. 101. gr. laga nr. 75/1981, telji hann tilefni til að leita eftir breytingu á þessum þætti skattskila sinna.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja