Úrskurður yfirskattanefndar

  • Sjómannaafsláttur
  • Sjómannsstörf

Úrskurður nr. 74/1997

Gjaldár 1995

Lög nr. 75/1981, 68. gr. B-liður (brl. nr. 85/1991, 10. gr.).  

Í málinu var deilt um rétt manns til sjómannaafsláttar vegna eftirlitsstarfa hans með sjófrystingu um borð í fiskiskipum. Yfirskattanefnd taldi starf mannsins ekki verða fellt undir sjómannsstörf. Auk þess hefði hann ekki verið ráðinn til starfa hjá útgerð. Af þessum sökum var kröfum hans hafnað.

I.

Með kæru, dags. 7. desember 1995, sbr. bréf, dags. 17. janúar 1996, hefur umboðsmaður kæranda skotið kæruúrskurði skattstjóra frá 8. nóvember 1995 til yfirskattanefndar og gert þá kröfu að kæranda verði ákvarðaður sjómannaafsláttur við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1995.

Með kæruúrskurði sínum synjaði skattstjóri kröfu kæranda um sjómannaafslátt með þeim rökum að eftirlitsstörf kæranda við sjófrystingu gætu ekki talist til sjómannsstarfa í skilningi 1. mgr. B-liðar 68. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Fram er komið af hálfu kæranda að hann starfi við eftirlitsstörf á vegum X um borð í fiskiskipum og hafi verið 87 daga á sjó á árinu 1994. Starf kæranda sé að mestu leyti í því fólgið að hafa eftirlit með afla um borð í fiskiskipum. Verði vart annað séð en að kærandi stundi sjómennsku svo sem það orð sé almennt notað. Megi geta þess að kærandi greiði lífeyrisiðgjöld til Lífeyrissjóðs sjómanna. Samkvæmt upphafsmálslið 2. gr. laga nr. 49/1974, um Lífeyrissjóð sjómanna, séu sjóðfélagar allir sjómenn sem ráðnir séu á íslensk skip. Jafnframt sé kærandi lögskráður í skipsrúm þegar hann sinni eftirlitsstörfum sínum.

Með bréfi, dags. 14. júní 1996, hefur ríkisskattstjóri gert þá kröfu fyrir hönd gjaldkrefjenda að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

II.

Kærandi er ráðinn til starfa hjá X m.a. til eftirlits með frystingu sjávarafla um borð í fiskiskipum. Samkvæmt 1. mgr. B-liðar 68. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, skal maður, sem stundar sjómennsku á íslensku skipi eða skipi gerðu út af íslensku skipafélagi, njóta sérstaks afsláttar frá tekjuskatti, sjómannaafsláttar, sem koma skal til frádráttar reiknuðum tekjuskatti af þeim launum sem hann hafði fyrir sjómannsstörf. Samkvæmt 2. mgr. stafliðarins hafa þeir rétt til sjómannaafsláttar sem stunda sjómennsku, sbr. 4. mgr. stafliðarins, og lögskráðir eru í skipsrúm á fiskiskipi. Samkvæmt 4. mgr. stafliðarins skal við ákvörðun dagafjölda sem veitir rétt til sjómannaafsláttar miða við þá daga sem skylt er að lögskrá sjómenn samkvæmt 4. og 5. gr. laga nr. 43/1987, um lögskráningu sjómanna. Er afslátturinn ákvarðaður hlutfallslega þannig að 245 dagar gefa afslátt fyrir alla daga ársins. Þó skal samkvæmt 3. málsl. 4. mgr. stafliðarins aldrei veita afslátt fyrir fleiri daga en sjómaður er ráðinn hjá útgerð.

Eigi verður talið að eftirlitsstörf kæranda verði felld undir sjómannsstörf í skilningi B-liðar 68. gr. laga nr. 75/1981 þótt þau séu innt af hendi um borð í fiskiskipum. Þá hefur kærandi ekki verið ráðinn til starfa hjá útgerð þannig að þegar af þeirri ástæðu verður talið að 3. málsl. 4. mgr. B-liðar 68. gr. laga nr. 75/1981 girði fyrir að honum verði ákvarðaður sjómannaafsláttur gjaldárið 1995. Samkvæmt framansögðu er úrskurður skattstjóra staðfestur.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja