Úrskurður yfirskattanefndar

  • Frádráttur á móti ökutækjastyrk
  • Skattmat ríkisskattstjóra

Úrskurður nr. 123/2004

Gjaldár 2001

Lög nr. 75/1981, 30. gr. 1. mgr. A-liður 1. tölul., 99. gr. 1. mgr.   Lög nr. 37/1993, 22. gr. 1. mgr.   Skattmat fyrir tekjuárið 2000  

Skattstjóri felldi niður frádrátt á móti ökutækjastyrk í skattframtali kæranda árið 2001. Fallist var á með skattstjóra að færslur í akstursdagbók kæranda væru tortryggilegar í ljósi annarra gagna í málinu, m.a. gagna sem skattstjóri aflaði um ferðir bifreiðar kæranda um Hvalfjarðargöng. Var kærandi ekki talinn hafa sýnt fram á að hann hefði að neinu leyti haft kostnað vegna aksturs í þágu launagreiðanda sem heimilt væri að færa til frádráttar á móti fengnum ökutækjastyrk.

I.

Með kæru, dags. 16. apríl 2003, hefur umboðsmaður kæranda skotið til yfirskattanefndar kæruúrskurði skattstjóra, dags. 20. janúar 2003, vegna álagningar opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2001. Með hinum kærða úrskurði féllst skattstjóri á að leggja innsent skattframtal kæranda til grundvallar álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2001 í stað áætlunar áður, en með þeirri breytingu að fella niður tilfærðan frádrátt á móti ökutækjastyrk að fjárhæð 340.680 kr. í reit 32 í skattframtalinu. Gerir kærandi kröfu um að niðurfelling skattstjóra á nefndum frádrætti á móti ökutækjastyrk verði úr gildi felld og að tillit verði tekið til framkominna upplýsinga, framlagðra samninga og greinargerðar kæranda til staðfestingar hinum tilgreinda frádrætti.

II.

Málavextir eru þeir að kærandi, sem er búsettur í X-bæ en starfaði á þeim tíma sem málið varðar sem launþegi í Reykjavík auk þess að hafa með höndum rekstur verslunar í X-bæ, taldi ekki fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 2001 og sætti því áætlun skattstjóra á skattstofnum við almenna álagningu opinberra gjalda það ár, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Með kæru umboðsmanns kæranda, dags. 30. ágúst 2001, var álagningu opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2001 mótmælt og í framhaldi af því var skattframtal kæranda lagt fram með bréfi umboðsmannsins, dags. 31. október 2001. Til staðfestingar tilfærðum frádrætti 340.680 kr. vegna kostnaðar á móti ökutækjastyrk 482.000 kr. fylgdi skattframtalinu ökutækjaskýrsla (RSK 3.04) þar sem akstur í þágu launagreiðanda, Z ehf., var tilgreindur 12.000 km. Jafnframt fylgdi rekstraryfirlit fólksbifreiðar (RSK 4.03) þar sem tilgreindur heildarakstur ökutækisins nam 21.605 km. Þar af akstur í þágu atvinnurekstrarins 4.605 km. Samkvæmt því nam akstur í eigin þágu 5.000 km.

Áður en skattstjóri tók kæruna til úrlausnar, krafði hann kæranda með bréfi, dags. 5. mars 2002, um akstursskýrslur vegna aksturs í þágu launagreiðanda til staðfestingar á frádrætti á móti ökutækjastyrk í reit 32 í skattframtalinu og í framhaldi af því boðaði skattstjóri kæranda með bréfi, dags. 21. mars 2002, niðurfellingu frádráttar á móti ökutækjastyrk á þeim forsendum að umbeðnar akstursskýrslur hefðu ekki borist. Samkvæmt gögnum málsins bárust skattstjóra akstursskýrslur kæranda fyrir árið 2000 hinn 10. apríl 2002. Með bréfi, dags. 25. júlí 2002, gerði skattstjóri ýmsar athugasemdir við akstursskýrslurnar og krafði kæranda um frekari skýringar og gögn áður en hann tæki skattframtal kæranda til úrlausnar. Kvaðst hann hafa aflað sér upplýsinga frá Speli hf. um ferðir umræddrar bifreiðar kæranda, Y, um Hvalfjarðargöng, sem skráðar hefðu verið á veglykil, og borið ferðirnar saman við innsendar akstursskýrslur kæranda. Fann skattstjóri að því að allar mælisstöður í akstursskýrslunum væru tilgreindar í heilum tugum kílómetra. Þá væri mismunur á tilgreindri mælisstöðu í lok ferðar og við upphaf þeirrar næstu oft enginn eða innan við 100 km þó um væri að ræða ferðir með dags eða jafnvel margra daga millibili og bifreiðinni hefði verið ekið nokkrar ferðir um Hvalfjarðargöng á þeim tíma samkvæmt yfirliti frá Speli hf., en vegalengd á milli heimilis kæranda og vinnustaðar hans væri um 50 km. Þá væri skráður einhver akstur frá vinnustað samkvæmt akstursskýrslunum í alls 114 daga á árinu 2000. Samkvæmt listum frá Speli hf. yfir ferðir um Hvalfjarðargöng hefði bifreið kæranda í 79 tilvikum af þessum 114 dögum verið staðsett í X-bæ en ekki í Reykjavík. Kærandi færði í akstursskýrslunum akstur vegna nokkurra lengri söluferða sem ekki fengi staðist þar sem bifreiðinni hefði á sama tíma verið ekið um Hvalfjarðargöng. Þá hefði kærandi fengið greidda dagpeninga vegna ferða erlendis en á sama tíma hefði verið skráður akstur í þágu launagreiðanda samkvæmt akstursskýrslunum. Tók skattstjóri mörg dæmi úr akstursskýrslunum til staðfestingar á aðfinnslum sínum.

Umboðsmaður kæranda greindi frá því í bréfi, dags. 12. ágúst 2002, að kærandi hefði haft þann hátt á við skráningu í akstursskýrslurnar að hann hefði námundað stöðu á kílómetramæli við næsta tug. Að mati kæranda hefði þessi háttur ekki verið honum til hagsbóta þar sem hækkanir og lækkanir hefðu jafnast út innan ársins. Samkvæmt ráðningarsamningi við launagreiðanda hefði kærandi verið skuldbundinn til að hafa bifreið sína til taks á vinnustað í Reykjavík alla vinnudaga ársins. Bifreiðin hefði oft á tíðum verið geymd við vinnustað kæranda í Reykjavík eða við heimili föður kæranda í Reykjavík, en kærandi, sem hefði unnið stjórnunarstörf hjá launagreiðanda sínum, hefði oft unnið langan vinnudag og þá gist í Reykjavík hjá föður sínum. Þegar bifreiðin hefði verið geymd í Reykjavík hefði kærandi auk þess oft ferðast með áætlunarbifreið á milli heimilis og vinnustaðar. Kærandi hefði keypt 40 og síðar 100 ferðir í einu hjá Speli hf. og fengið þá í bifreiðina Y veglykil sem skráði hverja ferð um göngin. Samkvæmt samningi við Spöl hf. væri veglykillinn skráður á bifreiðina Y og væri enn skráður á þá bifreið þótt bifreiðin hefði verið seld. Veglykilinn mætti nota í hvaða bifreið sem væri og hefði kærandi keypt tiltekið magn ferða ásamt öðrum þannig að veglykillinn væri jafnframt notaður af fleirum en kæranda vegna ferða um Hvalfjarðargöng og í öðrum bifreiðum. Auk þess hefði kærandi notað aðra veglykla þegar hann hefði ekið um göngin þannig að yfirlit, sem skattstjóri hefði aflað sér frá Speli hf., væri ekki nema að hluta tengt ferðum kæranda um Hvalfjarðargöngin. Við framtalsgerð hefði kæranda láðst að gera grein fyrir endurgreiðslum þeirra sem notuðu veglykilinn í bifreiðinni Y ásamt kæranda en samtals hefðu endurgreiðslur numið 44.000 kr. Væri farið fram á að skattstjóri leiðrétti ökutækjaskýrslu kæranda (RSK 3.04) til samræmis. Þá hefði kæranda verið skylt samkvæmt ráðningarsamningi að láta launagreiðanda í té bifreið sína alla vinnudaga ársins og á meðan kærandi hefði verið í innkaupaferðum erlendis hefði vinnufélagi hans, sem hefði leyst hann af við stjórnunarstörf hjá fyrirtækinu, haft rétt til að nota bifreið kæranda, enda hefði sá aðili ekki haft aðra bifreið til umráða. Af þessum sökum hefði verið skráður akstur á bifreið kæranda á meðan hann var erlendis.

Með kæruúrskurði, dags. 20. janúar 2003, féllst skattstjóri á að leggja innsent skattframtal kæranda árið 2001 til grundvallar álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2001 í stað áætlaðra skattstofna, en með þeirri breytingu að tilfærður frádráttur í reit 32 vegna kostnaðar á móti ökutækjastyrk að fjárhæð 340.680 kr. var felldur niður. Skattstjóri rakti bréfaskipti í málinu og tók að hluta upp orðrétt skýringar kæranda, sbr. bréf umboðsmanns hans, dags. 12. ágúst 2002. Vitnaði skattstjóri til ákvæða 1. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981 og matsreglna ríkisskattstjóra.

Skattstjóri kvað skýringar kæranda um að hann hefði notað veglykilinn með öðrum og að nota mætti veglykilinn í fleiri en einni bifreið ekki fá staðist. Vísaði skattstjóri til samnings kæranda og Spalar hf. þar sem fram kæmi að kæranda bæri að festa lykilinn tryggilega í framrúðu bifreiðarinnar Y og óheimilt væri að flytja veglykilinn á milli ökutækja. Þá vísaði skattstjóri til skráningar á mælisstöðu í hinum innsendu akstursskýrslum kæranda, en þar kæmi fram að kærandi hefði í mesta lagi farið á bifreið sinni til heimilis síns í X-bæ 32 sinnum á árinu eða samtals 64 ferðir um Hvalfjarðargöng og þegar bornar væru saman dagsetningar þessara ferða og dagsetningar á skráðum ferðum samkvæmt yfirliti frá Speli hf. kæmi í ljós að þeim bæri einungis saman í innan við 30 skipti þannig að kærandi hefði notað veglykil þann sem hann fékk afhentan samkvæmt samningi við Spöl hf. í færri en 30 ferðum. Í rekstrarreikningi bifreiðar væru hins vegar gjaldfærðar 120.000 kr. vegna gjalda í Hvalfjarðargöng eða sem svaraði til 300 ferða miðað við gangagjald 400 kr. Þó tekið yrði tillit til kröfu um að lækka gjaldfært gangagjald um 44.000 kr. eða sem svaraði til 190 ferða útskýrði það ekki lítinn akstur milli heimilis og vinnustaðar og umræddan mismun á ferðafjölda samkvæmt akstursskýrslum og gjaldfærslu í rekstrarreikningi. Taldi skattstjóri líklegra að listar frá Speli hf. yfir ferðir bifreiðarinnar Y um Hvalfjarðargöng gæfu réttari mynd af akstri kæranda um göngin en framlagðar akstursskýrslur. Yrði því að byggja á því að veglykill sá sem kærandi hefði haft afnot af samkvæmt samningi við Spöl hf. hefði verið notaður í samræmi við samninginn og að kærandi hefði ekki misnotað veglykla með þeim hætti sem greint hefði verið frá í bréfi kæranda, dags. 12. ágúst 2002.

Þá vefengdi skattstjóri skýringar kæranda um afnot launagreiðanda af bifreiðinni Y á meðan kærandi hefði verið erlendis. Vísaði skattstjóri til umræddra yfirlita frá Speli hf. en samkvæmt þeim virtist bifreiðin hafa verið staðsett í X-bæ og ekið frá þeim stað þegar kærandi var erlendis svo sem skattstjóri tilgreindi nánar í úrskurðinum. Var það mat skattstjóra að um afar óvenjulega ráðstöfun væri að ræða, ef launþegi afhenti óskyldum vinnuveitanda sínum einkabifreið sína til afnota fyrir reksturinn og til persónulegara nota fyrir aðra starfsmenn á meðan launþeginn væri fjarverandi á vegum vinnuveitandans, enda hefði þetta fyrirkomulag kæranda og vinnuveitanda hans ekki verið útskýrt nánar og staðfest með framlagningu gagna svo sem ráðningarsamningi auk þess sem ekki hefðu verið lagðar fram neinar upplýsingar um hvernig þátttöku vinnuveitanda í rekstrarkostnaði bifreiðarinnar hefði verið háttað.

Einnig taldi skattstjóri að tilgreindur akstur í eigin þágu væri óeðlilega lítill og færði rök fyrir því að akstur í eigin þágu, þar með talinn akstur á milli heimilis kæranda í X-bæ og vinnustaðar hans í Reykjavík, fengi ekki staðist þegar litið væri til eðlilegra einkanota kæranda og eiginkonu hans auk aksturs í þágu sjálfstæðrar starfsemi þeirra og með hliðsjón af yfirliti frá Speli hf. um akstur í Hvalfjarðargöngunum. Þá fann skattstjóri að því að í rekstraryfirliti bifreiðar (RSK 4.03) væri skráð mælisstaða í árslok 53.605 km en síðasta skráða mælisstaða í akstursskýrslunum væri 53.600 km við komu á vinnustað 18. desember 2000. Síðan væri færð í akstursskýrslunum ein ferð í heildsölu 50 km en engar mælisstöður væru skráðar við upphaf og lok þeirrar ferðar. Að bifreiðinni hefði verið lagt á vinnustað „við lok vinnudags 19/12“ þætti hvorki líklegt né væri það í neinu samræmi við lista frá Speli hf. auk þess sem kærandi virtist samkvæmt staðgreiðsluskrá hafa hætt vinnu hjá umræddum launagreiðanda í október. Þá gerði skattstjóri athugasemdir við skráningar á mælisstöðu samkvæmt akstursskýrslunum og tiltók nokkur dæmi. Ennfremur gerði skattstjóri athugasemdir við skráningu á mælisstöðu samkvæmt skýrslunum þegar kærandi hefði farið í langar söluferðir, 200 til 900 km, og tiltók eitt tilvik þar sem kærandi hefði skráð söluferð til Akureyrar 900 km en á sama degi hefði kærandi verið staddur erlendis, sbr. greinargerð um skráningu dagpeninga (RSK 3.11). Þá væri ólíklegt að kærandi hefði verið í langferðum á Norður- eða Suðurlandi á bifreiðinni Y á sama tíma og bifreiðinni hefði verið ekið um Hvalfjarðargöng fram og tilbaka um miðjan dag, sbr. yfirlit frá Speli hf. Einnig vek skattstjóri að færslu aksturs í þágu launagreiðanda í nóvember og desember 2000, en í staðgreiðsluskilum á árinu 2000 væru uppgefin laun kæranda frá viðkomandi launagreiðanda í 10 mánuði sem væri frá ársbyrjun til og með októbermánaðar. Samkvæmt launamiða hefði ökutækjastyrk kæranda ekki verið haldið utan staðgreiðslu á árinu 2000. Samkvæmt þeim gögnum sem skattstjóri hefði undir höndum yrði ekki annað ráðið en kærandi hefði hætt störfum hjá viðkomandi launagreiðanda í lok október mánaðar. Engu að síður væri færður nærri 2.000 km akstur í þágu launagreiðanda mánuðina nóvember og desember 2000.

Skattstjóri áréttaði að um væri að ræða óeðlilega lítinn akstur kæranda í eigin þágu og vegna sjálfstæðrar starfsemi kæranda í X-bæ og studdi athugasemdir sínar með tölulegum útreikningi. Samkvæmt akstursskýrslum hefði akstur kæranda í eigin þágu verið í 19 skipti meiri en 100 km á milli skráðs aksturs í þágu launagreiðanda. Heildarakstur í þessi 19 skipti næmi 3.140 km og þar af mætti reikna 1.900 km akstur á milli heimilis og vinnustaðar ef miðað væri við að kærandi hefði ekið heim til sín í öll skiptin Miðað við þessar færslur hefði því í 19 skipti verið um einhvern akstur í eigin þágu að ræða á þeim tíma sem bifreiðin hefði verið staðsett í X-bæ, í flest skiptin 10 til 50 km og í heild einungis 1.490 km. Kvað skattstjóri það ekki vera trúverðugt að einkanot bifreiðarinnar og akstur vegna eigin atvinnustarfsemi hefði að mestu leyti farið fram í Reykjavík þegar litið væri til þess að fjölskylda kæranda væri búsett í X-bæ. Væri ómögulegt að heildarakstur á árinu, skipting hans í rekstrarreikningi og akstur sem skráður væri í akstursskýrslur gæti reikningslega staðist.

Komst skattstjóri að þeirri niðurstöðu að þegar litið væri til þess ósamræmis og rangfærslna sem fram kæmu í framlögðum gögnum og upplýsingum að akstursskýrslur kæranda væru ekki byggðar á raunverulegum akstri kæranda, heldur útfylltar í þeim tilgangi einum að búa til fylgiskjal til stuðnings kröfu um frádrátt á móti fengnum ökutækjastyrk. Miðað við vegalengd milli heimilis kæranda og vinnustaðar þætti ekki óvarlegt að ætla að akstur hans milli þessara staða hefði verið verulegur. Þegar litið væri til staðgreiðsluskila og launamiða frá launagreiðanda kæranda virtist kærandi hafa fengið greiddan ökutækjastyrk miðað við 1.200 km akstur á mánuði. Hver ferð kæranda til og frá vinnustað hefði verið um 100 km. Þar sem líklegra þætti að ökutækjastyrkurinn hefði einungis verið greiddur fyrir akstur kæranda á milli heimilis og vinnustaðar kvað skattstjóri ekki vera tilefni til að áætla kæranda einhvern frádrátt á móti ökutækjastyrk. Samkvæmt ofangreindu felldi skattstjóri niður frádrátt vegna kostnaðar á móti ökutækjastyrk að fjárhæð 340.680 kr. í reit 32 í skattframtali kæranda árið 2001 og var álagningu opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2001 hagað í samræmi við það.

III.

Umboðsmaður kæranda hefur skotið úrskurði skattstjóra til yfirskattanefndar með kæru, dags. 16. apríl 2003. Er gerð krafa um að úrskurður skattstjóra frá 20. janúar 2003 verði felldur úr gildi og að tillit verði tekið til fram kominna upplýsinga, samninga og greinargerðar kæranda um ökutækjastyrk. Til stuðnings kröfu er vísað til bréfs umboðsmanns kæranda til skattstjóra, dags. 12. ágúst 2002. Kveður umboðsmaðurinn skattstjóra ekki hafa fært rök fyrir því að hafna alfarið skýringum og sjónarmiðum kæranda sem fram komi í nefndu bréfi til skattstjóra. Skattstjóri byggi úrskurð sinn á gefnum órökstuddum forsendum og leiði þannig líkur að sinni eigin niðurstöðu án þess að fjalla um fram komnar skýringar og gögn kæranda. Við úrskurð málsins gæti skattstjóri ekki ákvæða 12. og 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

IV.

Með bréfi, dags. 30. maí 2003, hefur ríkisskattstjóri gert þá kröfu í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.

V.

Eins og fram er komið taldi kærandi ekki fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 2001 og sætti kærandi af þeim sökum áætlun skattstjóra á skattstofnum við almenna álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2001. Skattframtal kæranda árið 2001 barst skattstjóra 31. október 2001 í framhaldi af kæru, dags. 30. ágúst 2001, sbr. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Í kjölfar bréfaskipta, sbr. bréf skattstjóra, dags. 5. mars 2002, 21. mars 2002 og 25. júlí 2002, og svarbréf kæranda, dags. 10. apríl 2002 og 12. ágúst 2002, kvað skattstjóri upp kæruúrskurð, dags. 20. janúar 2003, þar sem skattstjóri féllst á að leggja skattframtal kæranda til grundvallar álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2001 að gerðri hinni kærðu breytingu á tilfærðum frádrætti á móti ökutækjastyrk. Eins og skattframtalið bar að samkvæmt þessu var skattstjóri ekki bundinn af fyrirspurnar- og tilkynningarákvæðum 96. gr. laga nr. 75/1981 hygðist hann breyta framtalinu eða vefengja það í heild sinni eða að hluta. Skattstjóra bar hins vegar að rökstyðja kæruúrskurð sinn, þ.m.t. breytingar sem hann gerði á framtalinu, sbr. 4. málsl. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981 og ákvæði 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um efni rökstuðnings, og sjá til þess samkvæmt rannsóknarreglu, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að málið væri nægjanlega upplýst væru ákvarðanir teknar sem krefðust slíks.

Ágreiningsefni málsins varðar það hvort kærandi hafi með fram lögðum gögnum um akstur bifreiðarinnar Y á árinu 2000 sýnt fram á að honum sé heimill frádráttur frá fengnum ökutækjastyrk sem hann fékk greiddan vegna starfa í þágu Z ehf.

Samkvæmt 1. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með áorðnum breytingum, er frádráttur kostnaðar á móti ökutækjastyrk heimill að þargreindum skilyrðum uppfylltum, þar á meðal því að slík útgjöld séu sönnuð og í samræmi við matsreglur ríkisskattstjóra. Samkvæmt lið 2.1. í matsreglum ríkisskattstjóra fyrir tekjuárið 2000 (framtalsárið 2001), sbr. auglýsingu nr. 20, 4. janúar 2001, sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda, þarf framteljandi að hafa fært akstursdagbók eða akstursskýrslu, þar sem skráð sé hver ferð, vegalengd, aksturserindi, nafn og kennitala launamanns og einkennisnúmer viðkomandi ökutækis, sbr. reglugerð nr. 490 frá 28. desember 1992. Skal færa þessi gögn reglulega og skulu þau vera aðgengileg skattyfirvöldum þegar þau óska þess. Þá telst ökutækjakostnaður því aðeins sannaður að gerð sé grein fyrir kostnaði við rekstur ökutækisins og notkun ökutækis sundurliðuð með nánar tilgreindum hætti. Hafi framteljandi fengið greiðslu fyrir afnot af eigin bifreið í þágu launagreiðanda síns á árinu 2000, þannig að um hafi verið að ræða endurgreiðslu á kostnaði við rekstur hennar, og sá akstur verið 2.000 km eða minni, þá er samkvæmt matsreglunum fallið frá kröfu um sundurliðun á rekstrarkostnaði ökutækis. Þetta er þó bundið þeim skilyrðum að framteljandi hafi fært akstursdagbók eða akstursskýrslu þar sem skráð hafi verið hver ferð, ekin vegalengd og aksturserindi og að kílómetragjald hafi verið greitt í samræmi við skattmat ríkisskattstjóra á árinu 2000 fyrir hvern ekinn kílómetra samkvæmt akstursdagbók.

Skattstjóri byggði niðurfellingu sína á tilgreindum frádrætti á móti fengnum ökutækjastyrk, sbr. reit 32 í skattframtali kæranda, á fjölmörgum athugasemdum við framlagðar akstursskýrslur kæranda, auk þess sem byggt var á gögnum um ferðir bifreiðar kæranda um Hvalfjarðargöng sem skattstjóri aflaði hjá Speli hf. Komu flestar þessar athugasemdir fram þegar í bréfi skattstjóra til kæranda, dags. 25. júlí 2002, þar sem honum voru jafnframt kynnt umrædd gögn frá Speli hf. Í kæruúrskurði, dags. 20. janúar 2003, færði skattstjóri frekari rök fyrir því að skýringar og akstursskýrslur kæranda væru í ósamræmi við önnur málsgögn, m.a. að tilgreindur væri akstur bifreiðarinnar í þágu launagreiðanda kæranda á sama tíma og fram kæmi í yfirliti yfir dagpeninga að kærandi hefði verið staddur erlendis, og að gögn lægju fyrir um akstur bifreiðarinnar um Hvalfjarðargöng á sama tíma og tilgreindar hefðu verið söluferðir innanlands í akstursskýrslunum. Þá væri tilgreindur akstur í þágu launagreiðanda síðustu mánuði ársins 2000 þótt svo virtist sem kærandi hefði ekki lengur starfað hjá viðkomandi aðila. Einnig vefengdi skattstjóri þær skýringar kæranda að veglykill frá Speli hf. vegna afsláttarkjara vegna ferða um Hvalfjarðargöng hefði verið nýttur í fleiri en einni bifreið, en slíkt væri óheimilt samkvæmt þeim skilmálum sem um væri að ræða. Þá byggði skattstjóri á því að um óeðlilega litinn akstur í eigin þágu væri að ræða samkvæmt gögnum kæranda.

Í kæru til yfirskattanefndar er þess krafist að breyting skattstjóra verði felld niður á þeim grundvelli að skattstjóri hafi ekki tekið skýringar og gögn kæranda til rökstuddrar úrlausnar í kæruúrskurði sínum, dags. 20. janúar 2003, og telur umboðsmaður kæranda að skattstjóri hafi ekki gætt ákvæða 12. og 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Hvorki eru lögð fram með kærunni frekari gögn en fyrir lágu á skattstjórastigi né koma fram í kærunni efnislegar skýringar eða athugasemdir varðandi forsendur skattstjóra í kæruúrskurði hans. Ekki er fallist á það með umboðsmanni kæranda að skattstjóri hafi ekki fjallað efnislega um fram komnar skýringar og gögn kæranda í málinu. Þess er að geta að í kæruúrskurði skattstjóra er ekki gerð nægilega glögg grein fyrir þeim stjórnvaldsfyrirmælum (skattmatsreglum) sem skattstjóri byggði á að því leyti að ekki kemur fram heiti reglnanna, númer þeirra og dags- og ársetning svo og birtingarstaðar. Hins vegar eru reglur þessar raktar efnislega um þau atriði sem máli skiptir. Þá er vísað til þess lagaákvæðis sem breyting skattstjóra var byggð á. Allt að einu er hér um að ræða annmarka á rökstuðningi skattstjóra, sbr. 4. málsl. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981 og 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ekki þykja þó efni til að ómerkja ákvörðun skattstjóra af þessum sökum, enda verður hvorki séð að annmarki þessi hafi haft áhrif á efni ákvörðunarinnar né valdið kæranda réttarspjöllum.

Að framan eru raktar margvíslegar athugasemdir sem skattstjóri gerði við þau gögn sem kærandi lagði fram til stuðnings tilfærðum frádrætti á móti ökutækjastyrk. Taka verður undir það með skattstjóra að færslur í akstursdagbók kæranda eru tortryggilegar í ljósi annarra gagna í málinu. Eins og fyrr segir hefur við meðferð máls þessa fyrir yfirskattanefnd ekkert frekar komið fram af hálfu kæranda til skýringar á þessum atriðum. Að þessu virtu og að öðru leyti með vísan til forsendna skattstjóra þykir kærandi ekki hafa sýnt fram á að hann hafi að neinu leyti haft kostnað vegna aksturs í þágu launagreiðanda sem heimilt sé að færa til frádráttar á móti fengnum ökutækjastyrk, sbr. 1. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981. Samkvæmt því er kröfum kæranda hafnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfum kæranda er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja