Úrskurður yfirskattanefndar

  • Álag
  • Vantaldar tekjur

Úrskurður nr. 167/2004

Gjaldár 2001-2003

Lög nr. 75/1981, 106. gr. 2. mgr.  

Skattstjóri bætti álagi við þá hækkun skattstofna kærenda sem leiddi af breytingum hans á söluhagnaði hlutabréfa í skattframtölum kærenda árin 2001, 2002 og 2003. Kærendur kröfðust niðurfellingar álags með þeim rökum að um mistök við framtalsgerð hefði verið að ræða. Yfirskattanefnd hafnaði þeirri kröfu og var m.a. tekið fram að söluhagnaður af hlutabréfum hefði ítrekað verið vanfærður til tekna í skattskilum kærenda.

I.

Kæruefnið í máli þessu er álagsbeiting skattstjóra á grundvelli 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, samkvæmt úrskurði um endurákvörðun, dags. 4. nóvember 2003, vegna hækkunar á stofni til fjármagnstekjuskatts kærenda gjaldárin 2001 og 2002, en skattstofn þessi lækkaði gjaldárið 2003 vegna ákvörðunar skattstjóra og því var ekki um að ræða álagsbeitingu það gjaldár. Skattstjóri taldi að stofnverð hlutabréfa hefði verið oftalið í skattskilum kærenda gjaldárin 2001 og 2002 vegna fyrri niðurfærslu hlutabréfa, sem ekki hefði verið tekið tillit til, um 3.136.878 kr. fyrra árið og um 1.825.559 kr. hið síðara, en vantalið í skattskilum kærenda gjaldárið 2003 um 439.599 kr. Samkvæmt skattskilum kærenda nam sölutap vegna sölu hlutabréfa 1.047.496 kr. gjaldárið 2001 og 120.960 kr. gjaldárið 2002 en söluhagnaður nam 67.636.153 kr. gjaldárið 2003. Ákvörðun skattstjóra leiddi til þess að söluhagnaður í reit 164 ákvarðaðist 2.089.382 kr. í skattframtali árið 2001, 1.704.599 kr. í skattframtali árið 2002 og lækkaði úr 67.636.153 kr. í 67.196.554 kr. í skattframtali árið 2003. Að teknu tilliti til 25% álags gjaldárin 2001 og 2002 hækkaði stofn til fjármagnstekjuskatts um 2.611.728 kr. eða úr 17.568.474 kr. í 20.180.202 kr. gjaldárið 2001, um 2.130.749 kr. eða úr 10.865.099 kr. í 12.995.848 kr. gjaldárið 2002, en lækkaði gjaldárið 2003 um 439.599 kr. eða úr 104.687.407 kr. í 104.247.808 kr.

Af hálfu kærenda er þess krafist, með vísan til 3. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003, að umrætt álag verði fellt niður, enda hafi ekki verið um að ræða ásetning heldur mistök við gerð skattframtala. Breytingar skattstjóra á fjárhæðum söluhagnaðar hlutabréfa eru hins vegar óumdeildar.

II.

Málavextir eru þeir að með bréfi til kærenda, dags. 5. ágúst 2003, óskaði skattstjóri eftir upplýsingum varðandi hlutabréfaviðskipti kæranda, A, á árunum 2000, 2001 og 2002. Fór skattstjóri m.a. fram á skýringar kæranda á því að við uppgjör söluhagnaðar hlutabréfa í X hf. og Z hf. í skattframtali kærenda árið 2001 væri ekki tekið tillit til niðurfærslu á kaupverði sömu hlutabréfa í skattframtali þeirra árið 2000 um samtals 3.136.878 kr. Þá fór skattstjóri fram á skýringar á því að við uppgjör söluhagnaðar hlutabréfa í Y hf. í skattframtali árið 2002 væri á sama hátt ekki tekið tillit til niðurfærslu á kaupverði sömu bréfa í skattframtali kærenda árið 2000 um 430.500 kr. Ennfremur óskaði skattstjóri eftir því að kærendur gerðu grein fyrir útreikningi söluhagnaðar hlutabréfa í Þ sem seld hefðu verið árið 2002 með tilliti til niðurfærslu kaupverðs þeirra bréfa að fullu, ákvörðun kaupverðs hlutabréfa í Æ hf. sem seld hefðu verið árið 2001 og breytingum á hlutabréfaeign kærenda í þýskum verðbréfasjóði milli áranna 2001 og 2002, svo sem nánar var rakið í bréfi skattstjóra. Skattstjóri gerði í bréfi sínu nánari grein fyrir hinum umspurðu atriðum, meðal annars með rakningu viðeigandi upplýsinga úr greinargerðum um sölu hlutabréfa (RSK 3.09).

Af hálfu kærenda var fyrirspurn skattstjóra svarað með bréfi umboðsmanns þeirra, dags. 29. september 2003. Kom fram í bréfinu að vegna mistaka hefði ekki verið tekið tillit til niðurfærslu á kaupverði hlutabréfa í X hf., Y hf. og Z hf. við uppgjör söluhagnaðar hlutabréfanna í skattframtölum kærenda árin 2001 og 2002. Hagnaður af sölu hlutabréfa í X hf. árið 2000 ætti því að vera 704.448 kr. í stað 159.571 kr. eins og tilgreint hefði verið í skattframtali kærenda árið 2001, söluhagnaður hlutabréfa í Z hf. í skattframtali árið 2001 ætti að vera 1.234.846 kr. í stað sölutaps 1.357.155 kr. og tap af sölu hlutabréfa í Y hf. í skattframtali árið 2002 ætti að vera 34.513 kr. í stað 465.013 kr. Þá gerði umboðsmaður kærenda grein fyrir kaupverði hlutabréfa í Æ hf. sem keypt hefðu verið á árunum 1999 og 2000 og tilgreiningum á eignarhlut kæranda, A, í þýskum verðbréfasjóði í skattframtölum. Að því er varðaði uppgjör söluhagnaðar hlutabréfa í Þ í skattframtali kærenda árið 2003 var tekið fram í bréfi umboðsmanns kærenda að láðst hefði að gera grein fyrir kaupum á hlutabréfum í félaginu fyrir 4.576.601 kr. á árinu 2002 sem seld hefðu verið með bréfum í sama félagi sem keypt hefðu verið á árinu 1999. Með bréfi til skattstjóra, dags. 9. október 2003, gerði umboðsmaður kærenda frekari grein fyrir viðskiptum kæranda, A, með hlutabréf í Þ árið 2002, auk upplýsinga um önnur tilgreind viðskipti.

Með bréfi, dags. 13. október 2003, boðaði skattstjóri kærendum endurákvörðun opinberra gjalda gjaldárin 2001, 2002 og 2003 þar sem fyrirhugað væri að ákvarða söluhagnað hlutabréfa í skattframtölum kærenda árin 2001 og 2002 2.089.382 kr. fyrra árið og hækka stofn til fjármagnstekjuskatts úr 17.568.474 kr í 19.657.856 kr. og 1.704.599 kr. síðara árið og hækka stofn til fjármagnstekjuskatts úr 10.865.099 kr. í 12.569.698 kr. og að lækka söluhagnað hlutabréfa í skattframtali kærenda árið 2003 um 485.881 kr., þ.e. vegna lækkunar söluhagnaðar vegna sölu hlutabréfa í Æ hf. um 439.599 kr. og í Þ um 46.282 kr. og stofn til fjármagnstekjuskatts úr 104.687.407 kr. í 104.201.526 kr. Þá væri fyrirhugað að bæta 25% álagi við þá hækkun fjármagnstekjuskattsstofns kærenda gjaldárin 2001 og 2002 sem leiddi af greindum hækkunum stofns til fjármagnstekjuskatts í skattframtölum kærenda umrædd ár, sbr. 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2002 (sic), um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. áður lög nr. 75/1981 um sama efni. Tók skattstjóri fram í því sambandi að kærendum hefði mátt vera ljóst að um skattskyldar fjármagnstekjur væri að ræða. Í bréfinu rakti skattstjóri fyrri bréfaskipti í málinu og tók fram að greind hækkun söluhagnaðar hlutabréfa í skattframtali árið 2001 og þar með stofns til fjármagnstekjuskatts stafaði af niðurfærslu á stofnverði seldra hlutabréfa í X hf. og Z hf. og greind hækkun söluhagnaðar í skattframtali árið 2002 og þar með stofns til fjármagnstekjuskatts vegna niðurfærslu á stofnverði seldra hlutabréfa í Y hf. og Æ hf. Í báðum tilvikum þætti ljóst að um vantaldar tekjur samkvæmt 8. tölul. C-liðar 8. gr. (sic) laga nr. 90/2002 (sic) væri að ræða, sbr. áður lög nr. 75/1981. Að því er varðaði sölu hlutabréfa í Æ hf. benti skattstjóri á að kaupverð hlutabréfa í félaginu sem keypt hefðu verið árið 1999 að nafnvirði 65.000 kr. hefði verið fært niður um 2.397.044 kr. Meðalgengi seldra hlutabréfa í félaginu árið 2001 væri því 12,56 en ekki 40,76. Sama meðalgengi ætti við vegna seldra bréfa á árinu 2002. Söluhagnaður hlutabréfa í Æ hf. að nafnverði 50.000 kr. í skattframtali kærenda árið 2002 næmi því 1.739.112 kr. í stað 344.053 kr. sem tilgreint hefði verið í framtalinu. Söluhagnaður hlutabréfa í félaginu að nafnverði 35.000 kr. í skattframtali árið 2003 næmi hins vegar 1.488.331 kr. í stað 1.927.931 kr. sem tilgreint hefði verið í uppgjöri kærenda.

Með bréfi, dags. 29. október 2003, mótmælti umboðsmaður kærenda fyrirhugaðri beitingu 25% álags á hækkun stofna kærenda til fjármagnstekjuskatts kærenda gjaldárin 2001 og 2002 og benti á að í tilviki kærenda hefði verið um að ræða mistök við gerð skattframtala en ekki ásetning. Að öðru leyti væru ekki gerðar athugasemdir við hinar boðuðu breytingar skattstjóra.

Með úrskurði um endurákvörðun, dags. 4. nóvember 2003, hratt skattstjóri hinum boðuðu breytingum á skattframtölum kærenda árin 2001, 2002 og 2003 í framkvæmd, þó þannig að lækkun söluhagnaðar gjaldárið 2003 nam 439.599 kr., þannig að boðuð lækkun um 46.282 kr. vegna söluhagnaðar hlutabréfa í Þ virðist ekki hafa verið framkvæmd, og endurákvarðaði áður álögð opinber gjöld kærenda umrædd gjaldár til samræmis. Skattstjóri rakti gang málsins og fyrri bréfaskipti og ítrekaði fyrri rökstuðning. Þá kvaðst skattstjóri hafa beitt heimild samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 til að bæta 25% álagi við hækkun skattstofna gjaldárin 2001 og 2002 þar sem ekki þættu hafa komið fram þau atvik er réttlættu niðurfellingu álags.

III.

Með kæru, dags. 15. nóvember 2003, hefur umboðsmaður kærenda skotið úrskurði skattstjóra um endurákvörðun, dags. 4. nóvember 2003, til yfirskattanefndar. Í kærunni er þess krafist með vísan til 2. mgr. 108 gr. laga nr. 90/2003 að 25% álag sem skattstjóri bætti við hækkun stofna kærenda til fjármagnstekjuskatts kærenda gjaldárin 2001 og 2002 verði fellt niður. Er í því sambandi vísað til 3. mgr. sömu lagagreinar og áréttað að ekki hafi verið um ásetning að ræða heldur eingöngu mistök við gerð skattframtala.

IV.

Með bréfi, dags. 19. desember 2003, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Af gögnum málsins má ráða að óumdeilt er að um hafi verið að ræða vantalinn fjármagnstekjuskattsstofn vegna vantalins söluhagnaðar sem varð til við sölu hlutabréfa í eigu kærenda. Lýtur kæra til yfirskattanefndar einvörðungu að þeirri ákvörðun skattstjóra að bæta 25% álagi við vantalinn skattstofn samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt. Með tilliti til þess að um vanframtaldar tekjur er að ræða þykir ekki hafa verið sýnt fram á að tilvik kæranda sé þess eðlis að 3. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, geti átt við. Er því gerð krafa um staðfestingu á álagsbeitingu skattstjóra.“

V.

Kæra í máli þessu lýtur einungis að þeirri ákvörðun skattstjóra að beita 25% álagi á hækkun skattstofna kærenda gjaldárin 2001 og 2002, þ.e. stofna til fjármagnstekjuskatts, sem leiddi af breytingum hans á þeim stofnum vegna þeirrar ákvörðunar á söluhagnaði hlutabréfa í skattframtölum kærenda umrædd ár sem í málinu greinir, sbr. 2. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. nú lög nr. 90/2003, um sama efni. Eru breytingar skattstjóra að öðru leyti ágreiningslausar og koma ekki til umfjöllunar. Er krafa um niðurfellingu álags studd þeim rökum að um mistök við framtalsgerð hafi verið að ræða en ekki ásetning.

Samkvæmt 2. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981 má skattstjóri bæta 25% álagi við áætlaða eða vantalda skattstofna séu annmarkar á framtali, sbr. 96. gr., eða einstakir liðir ranglega fram taldir. Bæti skattaðili úr annmörkum eða leiðrétti einstaka liði á framtali áður en álagning fer fram, má skattstjóri þó eigi beita hærra álagi en 15%. Samkvæmt 3. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981 skal fella niður álag samkvæmt lagagrein þessari ef skattaðili færir rök að því að honum verði ekki kennt um annmarka á framtali eða vanskil þess, að óviðráðanleg atvik hafi hamlað því að hann skilaði framtali á réttum tíma, bætti úr annmörkum á framtali eða leiðrétti einstaka liði þess.

Þegar atvik málsins eru virt, þar á meðal að skattskyldur söluhagnaður af hlutabréfum var ítrekað vanfærður til tekna, og með tilliti til þess að um vantaldar tekjur er að ræða þykja kærendur með fyrrgreindum skýringum hvorki hafa sýnt fram á að aðstæður hafi verið með þeim hætti sem greinir í 3. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981 þannig að fella beri álag niður né að tilefni sé að öðru leyti til að falla frá beitingu heimildarákvæða 2. mgr. sömu lagagreinar í tilviki kærenda. Er kröfu kærenda því hafnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kærenda er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja