Úrskurður yfirskattanefndar

  • Álag
  • Álag á fjármagnstekjuskatt
  • Málsmeðferð skattstjóra

Úrskurður nr. 187/2004

Gjaldár 2001

Lög nr. 75/1981, 96. gr., 106. gr. 2. mgr., 121. gr.   Lög nr. 37/1993, 10. gr.   Lög nr. 94/1996, 9. gr.  

Skattstjóri færði kærendum til tekna í skattframtali árið 2001 vanframtalda arðgreiðslu frá X ehf. og bætti 25% álagi við þá hækkun á stofni kærenda til fjármagnstekjuskatts sem af þessu leiddi. Að virtum annmörkum á skattskilum kærenda umrætt ár taldi yfirskattanefnd ekki efni til að falla frá beitingu álagsins. Á hinn bóginn var beiting 2,5% álags vegna vangreidds fjármagnstekjuskatts ómerkt þar sem skattstjóri var ekki talinn hafa séð til þess að málið væri nægjanlega upplýst með tilliti til skila X ehf. á staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts vegna umræddrar arðgreiðslu.

I.

Málavextir eru þeir að með bréfi, dags. 10. febrúar 2003, krafði skattstjóri kærendur skýringa á því að þau hefðu ekki tilgreint í skattframtali árið 2001 arð að fjárhæð 1.500.000 kr., sem þau hefðu fengið greiddan frá X ehf., samkvæmt því sem fram kæmi í ársreikningi félagsins fyrir árið 2000. Fram kom að X ehf. væri að öllu leyti í eigu kærenda.

Af hálfu umboðsmanns kærenda kom fram í bréfi til skattstjóra, dags. 13. febrúar 2003, að mistök hefðu valdið því að umræddur arður hefði ekki verið talinn fram í skattframtali kærenda árið 2001 og væri þess óskað að þetta yrði leiðrétt. Tók umboðsmaðurinn fram að fjármagnstekjuskattur hefði verið greiddur af arðinum.

Í framhaldi af þessu boðaði skattstjóri kærendum með bréfi, dags. 17. febrúar 2003, sbr. 96. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, hækkun fjármagnstekna um 1.500.000 kr., auk 25% álags á vantalinn stofn til fjármagnstekjuskatts, sbr. heimild í 2. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, og endurákvörðun opinberra gjalda kærenda gjaldárið 2001 í samræmi við það. Kvað skattstjóri staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts af arði kærenda af hlutabréfum á árinu 2000 hafa numið 10.429 kr. Staðgreiðsla fjármagnstekjuskatts af 1.500.000 kr. af hlutabréfum í X ehf. virtist því ekki hafa verið talin fram, enda næmi hún ein og sér 150.000 kr. Kærendur hefðu einungis talið fram arð frá Y hf., Z hf. og Þ hf. samtals að fjárhæð 8.611 kr. Fjármagnstekjuskattur kærenda hefði því lækkað úr 10.429 kr. í 861 kr. Vegna fyrirhugaðrar álagsbeitingar vísaði skattstjóri til þess að arðinn frá X ehf. hefðu kærendur sannanlega fengið og enginn vafi hefði leikið á því að greiðsluna bæri að telja fram. Kærendur hefðu verið eigendur alls hlutafjár í X ehf. allt frá stofnun félagsins og þeim því verið málið kunnugra en ella.

Með bréfi, dags. 21. febrúar 2003, áréttaði umboðsmaður kærenda að vegna mistaka hefði láðst að telja fram umræddan arð að fjárhæð 1.500.000 kr. Fór hann þess á leit að skattframtal kærenda árið 2001 yrði leiðrétt með tilliti til þess. Jafnframt tók umboðsmaðurinn fram að X ehf. hefði haldið eftir staðgreiðslu af umræddum arði að fjárhæð 150.000 kr. sem félagið hefði síðan skilað með dráttarvöxtum 4. september 2001. Fór umboðsmaðurinn fram á að fallið yrði frá beitingu álags á vantalinn stofn til fjármagnstekjuskatts.

Með úrskurði um endurákvörðun, dags. 18. mars 2003, tilkynnti skattstjóri kærendum að hann hefði hrundið boðuðum breytingum í framkvæmd og endurákvarðað opinber gjöld þeirra gjaldárið 2001 í samræmi við það. Kvað skattstjóri vanskil staðgreiðslu af umræddri arðgreiðslu til innheimtumanns ríkissjóðs skýra af hverju staðgreiðslan hefði ekki komið fram hjá skattstjóra, eins og það var orðað, en vart væri þó hægt að tala um staðgreiðslu á þeim fjárhæðum sem skilað væri eftir álagningu opinberra gjalda. Eftir sem áður þyrfti að færa kærendum arðinn til tekna og ákvarða þeim 25% álag á vantalinn stofn til fjármagnstekjuskatts, enda hefðu engin rök komið fram af hálfu kærenda um að þeim yrði eigi kennt um þennan annmarka á skattframtalinu. Af þessu leiddi að stofn til fjármagnstekjuskatts hækkaði úr 39.244 kr. í 1.539.244 kr., auk álags 375.000 kr. Tilgreindur stofn 39.244 kr. var vegna söluhagnaðar hlutabréfa 30.633 kr. og greinds arðs 8.611 kr.

II.

Umboðsmaður kærenda hefur skotið úrskurði skattstjóra um endurákvörðun, dags. 18. mars 2003, til yfirskattanefndar með kæru, dags. 2. júní 2003. Er þess krafist að álag það, sem skattstjóri bætti við vantalinn stofn til fjármagnstekjuskatts, verði fellt niður. Segir meðal annars eftirfarandi í kærunni:

„Undirrituðum virðist niðurstaða skattstjóra ósanngjörn, mistök framteljenda eru eins og fram kemur í gögnum málsins að það féll niður að færa til tekna arðsgreiðslu frá X ehf. kr. 1.500.000. X ehf. greiddi fjármagnstekjuskattinn 4. september 2001 kr. 150.000 með tilheyrandi viðurlögum og dráttarvöxtum kr. 72.283 þar eð greiðslan fór fram eftir gjalddaga. Með úrskurði skattstjóra er því í raun verið að leggja viðurlög að nýju á sömu greiðsluna það er kr. 41.862. Þá er rétt að fram komi að álögð viðurlög á fjármagnstekjur hafa það í för með sér að vaxtabætur þeirra hjóna lækka um kr. 51.362. Með vísan til ofanritaðs er þess krafist að úrskurður verði felldur úr gildi. Þá er það ítrekað, að í þessu tilfelli var um slys að ræða en alls ekki tilraun til undanskots enda vandséð hvaða tilgangi það þjónaði.“

III.

Með bréfi, dags. 20. júní 2003, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Gerð er krafa um staðfestinga á álagsbeitingu skattstjóra. Ekki hefur verið sýnt fram á að tilvik kæranda sé þess eðlis að 3. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, geti átt við.“

IV.

Eins og rakið er í málavaxtalýsingu hér að framan töldu kærendur ekki fram í skattframtali sínu árið 2001 arðgreiðslu frá X ehf. að fjárhæð 1.500.000 kr. Með úrskurði sínum um endurákvörðun, dags. 18. mars 2003, færði skattstjóri kærendum umrædda greiðslu til tekna auk 25% álags, sbr. 2. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Hækkaði stofn kærenda til fjármagnstekjuskatts af þessum sökum um 1.875.000 kr.

Í kæru til yfirskattanefndar, dags. 2. júní 2003, kemur fram að niðurstaða skattstjóra varðandi álagningu fjármagnstekjuskatts kærenda virðist ósanngjörn, enda hafi X ehf. greitt fjármagnstekjuskatt vegna umræddrar arðgreiðslu þann 4. september 2001 með tilheyrandi viðurlögum og dráttarvöxtum. Í raun sé því verið að leggja viðurlög að nýju á sömu greiðsluna, eða 41.862 kr., eins og þar stendur. Nýnefnd fjárhæð svarar til 10% fjármagnstekjuskatts af álagi því sem skattstjóri bætti við vantalinn stofn til fjármagnstekjuskatts kærenda, eða 37.500 kr., að viðbættu álagi 4.525 kr. á ógreiddan fjármagnstekjuskatt og að frádregnu áður ákvörðuðu álagi 163 kr. á ofgreidda staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts. (Þess skal getið að ákvarðað álag 4.525 kr. á vangreidda staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts nam 2,5% af 180.995 kr., eða reiknuðum fjármagnstekjuskatti 191.424 kr. (187.500 kr. + 3.924) að gerðum breytingum skattstjóra og að frádreginni staðgreiðslu að fjárhæð 10.429 kr. sem kærendur tiltóku í skattframtali sínu.) Samkvæmt því sem rakið hefur verið verður að skilja kröfu umboðsmanns kærenda á þann veg að þess sé krafist að álag það sem skattstjóri bætti við vantalinn stofn kærenda til fjármagnstekjuskatts verði fellt niður svo og álag vegna vangreidds fjármagnstekjuskatts.

Samkvæmt 2. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981 má skattstjóri bæta 25% álagi við áætlaða eða vantalda skattstofna séu annmarkar á framtali, sbr. 96. gr., eða einstakir liðir ranglega fram taldir. Bæti skattaðili úr annmörkum eða leiðrétti einstaka liði í framtali áður en álagning fer fram, má skattstjóri þó eigi beita hærra álagi en 15%. Samkvæmt 3. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981 skal fella niður álag samkvæmt lagagrein þessari ef skattaðili færir rök að því að honum verði ekki kennt um annmarka á framtali eða vanskil þess, að óviðráðanleg atvik hafi hamlað því að hann skilaði framtali á réttum tíma, bætti úr annmörkum á framtali eða leiðrétti einstaka liði þess. Þegar litið er til þeirra annmarka sem voru á skattskilum kærenda umrætt ár, þar sem engin grein var gerð fyrir arðgreiðslu frá X ehf. að fjárhæð 1.500.000 kr., þykja ekki efni til að falla frá beitingu álags í tilviki kærenda, enda þykir hvorki hafa verið sýnt fram á af hálfu kærenda að aðstæður hafi verið með þeim hætti sem greinir í 3. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981 þannig að fella beri álagið niður né þykja að öðru leyti fram komnar nægar ástæður til að falla frá beitingu álags samkvæmt heimildarákvæðum 2. mgr. sömu lagagreinar í tilviki kærenda. Kröfu kærenda um niðurfellingu álags er hafnað.

Tekið skal fram að viðbárur kærenda varðandi álag og dráttarvexti vegna vanskila í staðgreiðslu, er varða X ehf. sem skilaskyldan aðila, sbr. 17. gr. laga nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, geta ekki haft neina þýðingu varðandi beitingu álags samkvæmt 2. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981 í tilviki kærenda.

Með lögum nr. 97/1996, um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, var tekin upp samræmd skattlagning allra fjármagnstekna einstaklinga utan rekstrar og tilgreindra fjármagnstekna lögaðila sem undanþegnir eru skattskyldu samkvæmt 2., 3., 5., 6. og 7. tölul. 4. gr. laga nr. 75/1981, sbr. 7. og 10. gr. laga nr. 97/1996 er breyttu 67. gr. og 72. gr. laga nr. 75/1981. Samkvæmt ákvæðum þessum nemur tekjuskattur 10% af skattskyldum fjármagnstekjum, eins og tekjur þessar eru nánar skilgreindar í lögunum, en þar á meðal er tilgreindur arður. Samhliða þessum breytingum voru sett lög nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, þar sem kveðið er á um þær reglur sem gilda við staðgreiðsluskil skatts á fjármagnstekjur, þar á meðal um staðgreiðsluskylda og skilaskylda aðila, skattstofn, afdrátt staðgreiðslu, greiðslutímabil, innheimtu, skilagreinar, skrá um skilaskylda aðila, kærur, skatteftirlit og skattrannsóknir, álag og dráttarvexti, refsingar o.fl. Tekið er fram í 21. gr. laga nr. 94/1996 að ákvæði VIII. kafla laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með síðari breytingum, um ákvörðun skatts af vöxtum og arði, uppgjör staðgreiðslu af þeim tekjum og innheimtu þeirra skuli gilda eftir því sem við á. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 94/1996 tekur staðgreiðsla til vaxta og arðs svo sem nánar er skilgreint í 4. gr. laganna. Jafnframt var gerð breyting á 121. gr. laga nr. 75/1981 með 12. gr. laga nr. 97/1996 þess efnis að ákvæði fyrrnefndu lagagreinarinnar um álag á mismun á álögðum tekjuskatti manna og staðgreiðslu samkvæmt lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, var einnig látið ná til mismunar á álögðum tekjuskatti og staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur.

Með 20. gr. laga nr. 145/1995 var 3. mgr. 121. gr. laga nr. 75/1981 breytt þannig að í stað þess að reikna umræddan mismun miðað við breytingar á lánskjaravísitölu var tekin upp sú regla að bæta 2,5% álagi við mismun er fram kæmi á álögðum tekjuskatti manna og staðgreiðslu samkvæmt lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, er stafaði af of lágri eða hárri staðgreiðslu. Í tilviki kærenda reiknaðist þetta álag 4.525 kr. á vangreidda staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts 180.995 kr. Samkvæmt 121. gr. laga nr. 75/1981, nú 122. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, er skylt að bæta 2,5% álagi við mismun, sem í ljós kemur á álögðum tekjuskatti manna og staðgreiðslu samkvæmt lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 34. gr. laga nr. 45/1987 eða laga um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, og stafar af of lágri staðgreiðslu. Sama gildir um mismun vegna of hárrar staðgreiðslu.

Af hálfu kærenda kom fram strax í bréfi til skattstjóra, dags. 13. febrúar 2003, að fjármagnstekjuskatti hefði verið skilað af arðgreiðslu til kærenda. Í boðunarbréfi skattstjóra, dags. 17. febrúar 2003, kemur fram að staðgreiðsla fjármagnstekjuskatts af arði af hlutabréfum í tilviki kærenda hefði numið 10.429 kr. á árinu 2000 og yrði því ekki annað ráðið en að staðgreiðsla fjármagnstekjuskatts vegna umræddrar arðgreiðslu hefði ekki farið fram. Í úrskurði sínum um endurákvörðun, dags. 18. mars 2003, tók skattstjóri fram í tilefni af upplýsingum sem fram komu af hálfu kærenda með bréfi, dags. 21. febrúar 2003, þess efnis að X ehf. hefði haldið eftir staðgreiðslu af arðinum í samræmi við lagaskyldu, sbr. í þessu sambandi 2. mgr. 3. gr. og 3. mgr. 5. gr. laga nr. 94/1996 varðandi skilaskylda aðila og afdrátt staðgreiðslu, og að afdregin staðgreiðsla fjármagnstekjuskatts hefði verið greidd þann 4. september 2001, að vanskil staðgreiðslunnar skýrðu hvers vegna fjárhæðin kæmi ekki fram hjá skattstjóra, eins og þar stóð. Ekki rakti skattstjóri neitt frekar hverjar afleiðingar þessa greiðsludráttar væru í máli kærenda sem þó verður að telja að hefði verið nauðsynlegt í ljósi staðhæfinga kærenda og þess hvernig framkvæmd á skilum á fjármagnstekjuskatti er háttað, þ.e. einungis eru gerð skil á afdregnum fjármagnstekjuskatti án þess að gert sé ráð fyrir að hann sé sundurgreindur á þá einstaklinga sem um ræðir, sbr. skilagreinar samkvæmt 9. gr. laga nr. 94/1996. Eins og málið liggur fyrir verður ekki annað ráðið en að skattstjóri hafi einungis litið til þeirrar fjárhæðar greidds fjármagnstekjuskatts sem kærendur höfðu tilgreint í skattframtali sínu, fyrrnefndra 10.429 kr. Fékk það vart staðist án frekari athugunar. Samkvæmt þessu verður að telja að skattstjóri hafi ekki séð til þess að málið væri nægjanlega upplýst að þessu leyti, sbr. 1. mgr. 96. gr. laga nr. 75/1981 og rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Af þessum sökum þykir bera að ómerkja beitingu 2,5% álags á vangreiddan fjármagnstekjuskatt. Með úrskurði þessum er þó engin efnisafstaða tekin til þessa ágreiningsefnis. Samkvæmt framansögðu verður að svo stöddu byggt á umræddri fjárhæð staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts, þ.e. 150.000 kr.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Ákvörðun skattstjóra um beitingu álags á vangreiddan fjármagnstekjuskatt er ómerkt. Að öðru leyti stendur álagsbeiting skattstjóra óhögguð.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja