Úrskurður yfirskattanefndar

  • Virðisaukaskattur
  • Innskattur, öflun og rekstur bifreiðar

Úrskurður nr. 219/2004

Virðisaukaskattur 1997-2002

Lög nr. 50/1988, 16. gr.   Reglugerð nr. 192/1993, 9. gr.  

Skattstjóri endurákvarðaði virðisaukaskatt kæranda, sem var einkahlutafélag, vegna niðurfellingar innskatts af öflun bifreiðar félagsins og lækkun innskatts vegna rekstrar bifreiðarinnar. Byggði skattstjóri á því að um einkanot af bifreiðinni hefði verið að ræða þar sem bifreiðin hefði verið geymd við heimili starfsmanns félagsins tvö tilgreind skipti á árinu 2002. Í úrskurði yfirskattanefndar kom fram að skattstjóri hefði út af fyrir sig ekki dregið þær skýringar kæranda í efa að um einstök tilvik hefði verið að ræða og að viðkomandi starfsmaður hefði ekki haft heimild forráðamanna kæranda til að geyma bifreiðina við heimili sitt. Slík tilfallandi og einstök afnot bifreiðar í heimildarleysi yrðu ekki talin hlunnindi til eigenda eða starfsmanna í skilningi 3. tölul. 3. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988. Taldi yfirskattanefnd ekki nægilega fram komið að notkun starfsmanns kæranda á bifreiðinni hefði verið þess eðlis að bifreiðin teldist ekki eingöngu notuð vegna sölu kæranda á vörum eða skattskyldri þjónustu. Var fallist á kröfur kæranda.

I.

Með kæru, dags. 19. mars 2003, hefur fyrirsvarsmaður kæranda skotið úrskurði skattstjóra um endurákvörðun, dags. 20. desember 2002, til yfirskattanefndar. Með hinum kærða úrskurði hækkaði skattstjóri virðisaukaskatt kæranda uppgjörstímabilið september-október 1997 um 417.189 kr. vegna niðurfellingar innskatts af öflun bifreiðarinnar X. Einnig hækkaði skattstjóri virðisaukaskatt árið 1997 um 3.013 kr., árið 1998 um 4.573 kr., árið 1999 um 5.104 kr., árið 2000 um 12.948 kr., árið 2001 um 16.894 kr. og árið 2002 um 7.000 kr. vegna lækkunar innskatts af rekstrarkostnaði bifreiðarinnar sökum áætlaðra einkanota. Skattstjóri bætti 10% álagi við hækkun virðisaukaskatts samkvæmt ákvæðum 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Jafnframt þessum breytingum á virðisaukaskattsskilum kæranda lækkaði skattstjóri gjaldfærðan bifreiðakostnað vegna ætlaðra einkanota starfsmanna kæranda af bifreiðinni um 12.298 kr. rekstrarárið 1997, um 18.665 kr. rekstrarárið 1998, um 20.833 kr. rekstrarárið 1999, um 52.849 kr. rekstrar árið 2000 og um 68.955 kr. rekstrarárið 2001, en hækkaði gjaldfærðar fyrningar bifreiðarinnar um 41.719 kr. rekstrarárið 1997, um 42.249 kr. rekstrarárið 1998, um 44.619 kr. rekstrarárið 1999, 46.486 kr. rekstrarárið 2000 og um 50.486 kr. rekstrarárið 2001. Þá hækkaði skattstjóri eignarskattsstofn kæranda um 375.470 kr. gjaldárið 1998, um 337.989 kr. gjaldárið 1999, um 312.331 kr. gjaldárið 2000, um 278.902 kr. gjaldárið 2001, um 252.429 kr. gjaldárið 2002.

Af hálfu kæranda er þess krafist í kæru til yfirskattanefndar að úrskurði skattstjóra verði hrundið þannig að fallist verði á innskattsfrádrátt vegna kaupa á bifreiðinni, að innskattur vegna rekstrarkostnaðar hennar verði ekki lækkaður og að fallist verði á alla gjaldfærslu vegna reksturs bifreiðarinnar. Til vara er þess krafist að breyting virðisaukaskatts verði ákvörðuð í samræmi við 13. gr. reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt.

II.

Málavextir eru þeir að með bréfi skattstjóra, dags. 9. júlí 2002, var kæranda, sem er einkahlutafélag, tilkynnt að eftirlitsfulltrúar embættisins hefðu séð að bifreið félagsins, X, sem skráð væri VSK-ökutæki samkvæmt bifreiðaskrá, hefði verið lagt við N-götu í Reykjavík dagana 6. maí 2002 og 21. maí 2002, sbr. meðfylgjandi ljósrit af skýrslu eftirlitsmannanna. Skattstjóri rakti í bréfi sínu ákvæði 1. og 2. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, og 9. gr. reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt, og umfjöllun um þessi ákvæði sem fram kæmi í tilteknum úrskurði yfirskattanefndar og beindi því til kæranda að skýra hvernig greind staðsetning bifreiðarinnar tengdist virðisaukaskattskyldri starfsemi kæranda, hvernig notkun bifreiðarinnar hefði verið háttað frá kaupum hennar, hvar bifreiðin hefði verið varðveitt utan hefðbundins vinnutíma frá kaupdegi og hvort starfsmönnum hafi staðið til boða að nota bifreiðina í eigin þágu frá kaupdegi hennar. Jafnframt skyldi kærandi leggja fram gögn varðandi kaup bifreiðarinnar og rekstrarkostnað.

Af hálfu kæranda var fyrirspurnarbréfi skattstjóra ekki svarað og með bréfum, dags. 26. ágúst 2002 og 4. september 2002, boðaði skattstjóri kæranda endurákvörðun opinberra gjalda gjaldárin 1998, 1999, 2000 og 2001 og virðisaukaskatts fyrir árin 1997, 1998, 1999, 2000, 2001 og 2002 vegna fyrirhugaðrar niðurfellingar innskatts árið 1997 af kaupverði bifreiðarinnar X, lækkunar innskatts af bifreiðakostnaði árin 1997-2002 vegna einkanota bifreiðarinnar, lækkunar gjaldfærðs bifreiðakostnaðar í skattframtölum árin 1998-2001 af sömu ástæðu og hækkunar fyrninga og eignarskattsstofns vegna hækkunar stofnverðs. Gerði skattstjóri tölulega grein fyrir boðuðum breytingum og kom m.a. fram að miðað væri við að 15% rekstrarkostnaðar bifreiðarinnar væri vegna einkanota.

Með bréfi, dags. 24. október 2002, mótmælti umboðsmaður kæranda boðaðri endurákvörðun. Tekið var fram að láðst hefði að svara fyrirspurnarbréfi skattstjóra, dags. 9. júlí 2002. Umboðsmaðurinn kvað bifreiðina X einvörðungu hafa verið notaða fyrir starfsemi kæranda og væri bifreiðin geymd um kvöld og nætur inni á lokuðu plani kæranda. Öll einkanot bifreiðarinnar væru bönnuð. Þau tilvik, sem skattstjóri tilgreindi í bréfum sínum, væru einstæð og afmörkuð. Tilgreindur starfsmaður kæranda hefði verið að vinna á verkstað fram eftir kvöldi og átt að mæta snemma morguns daginn eftir til að opna fyrir öðrum starfsmönnum. Í stað þess að skila bifreiðinni að starfsdegi loknum á plan við starfsstöð kæranda hefði starfsmaðurinn í þessi tvö skipti farið á bifreiðinni heim til sín. Þetta hefði verið andstætt skýrum fyrirmælum kæranda og án vitneskju fyrirsvarsmanna kæranda. Nú hefði verið ítrekað fyrir viðkomandi bílstjóra að öll einkanot bifreiðarinnar, þ.m.t. akstur til og frá vinnu, væru óheimil. Skattstjóri gæti aðeins sannað tvö afmörkuð tilvik þar sem bifreið hefði ekki verið staðsett á plani kæranda. Tilvitnun til undanþáguákvæðis 3. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 192/1993 ætti ekki við í tilviki kæranda, þar sem bifreiðin væri aðeins ætluð til notkunar í starfsemi kæranda og geymd á starfsstöð kæranda að loknum vinnudegi. Var fyrirætlan skattstjóra að fella niður innskatt vegna öflunar bifreiðarinnar X harðlega mótmælt, svo og var boðuðum breytingum skattstjóra mótmælt að öðru leyti. Bréfinu fylgdu ljósrit af kaupreikningi bifreiðarinnar og yfirlit um kostnað við rekstur hennar árin 1997-2002.

Með bréfi, dags. 6. desember 2002, boðaði skattstjóri kæranda að nýju endurákvörðun opinberra gjalda gjaldárin 1998-2002 og virðisaukaskatts árin 1997-2002. Kvaðst skattstjóri telja að sú notkun bifreiðarinnar X, sem upplýst væri um í málinu, félli undir þau ákvæði 2. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt, sem kvæðu á um að akstur eiganda og starfsmanna til og frá heimili teljist til einkanota. Þar með virtist færsla innskatts vegna öflunar bifreiðarinnar vera óheimil. Fyrir lægi að starfsmaður kæranda hefði tvisvar sinnum farið á bifreiðinni heim til sín. Hvort skiptin voru fleiri en það eða ekki breytti því ekki að notkun félagsins á bifreiðinni virtist falla undir framangreind ákvæði. Kærandi hefði ekki sótt um undanþágu samkvæmt 3. mgr. 9. gr. og auk þess uppfyllti hann ekki þau skilyrði sem sett væru fyrir notkun hennar. Virtist því sem innskattsfrádráttur að fjárhæð 417.189 kr. árið 1997 vegna öflunar bifreiðarinnar væri óheimill og væri því fyrirhugað að fella hann niður. Þá boðaði skattstjóri lækkun innskatts af kostnaði við rekstur bifreiðarinnar vegna einkanota hennar, sbr. 7. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 192/1993, alls að fjárhæð 49.532 kr. árin 1997-2002, og byggði í því sambandi á fram komnu kostnaðaryfirliti vegna áranna 1997-2001, en áætlaði fjárhæðir vegna ársins 2002, og miðaði við að kostnaður vegna einkanota væri 15% kostnaðar við rekstur bifreiðarinnar. Þá boðaði skattstjóri lækkun gjaldfærðs bifreiðakostnaðar vegna einkanota bifreiðarinnar, alls að fjárhæð 173.600 kr. gjaldárin 1998-2002, og gekk út frá sömu forsendum og fyrr greinir um hlutfall einkanota. Vegna hækkunar á fyrningargrunni boðaði skattstjóri hækkun gjaldfærðra fyrninga gjaldárin 1998-2002 um tilteknar fjárhæðir, samtals 225.557 kr. öll árin, svo og hækkun eignarskattsstofns vegna hækkunar á bókfærðu verði bifreiðarinnar um tilgreindar fjárhæðir. Skattstjóri kvaðst hafa í hyggju að bæta álagi við hækkun virðisaukaskatts, sbr. 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, og bæta 25% álagi við hækkun gjaldstofna í almennum skattskilum, sbr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Með bréfi, dags. 17. desember 2002, mótmælti umboðsmaður kæranda boðaðri endurákvörðun skattstjóra. Áréttaði hann að starfsmaður kæranda hefði ákveðið upp á sitt einsdæmi, í tveimur afmörkuðum tilvikum, að keyra heim á bifreið félagsins þar sem langt hefði verið liðið á kvöld er hann lauk verki sínu rétt hjá heimili sínu. Starfsmaðurinn hefði ekki haft heimild til þessarar notkunar bifreiðarinnar, en kærandi hefði látið hana óátalda með tilliti til málavaxta. Almennt væri bifreiðin staðsett á plani við starfsstöð kæranda um kvöld og nætur. Hefði skattstjóri ekki getað sannað annað nema í fyrrgreindum tveimur tilvikum og væri það harkaleg ákvörðun að fella af þeim sökum niður allan innskattsfrádrátt vegna öflunar bifreiðarinnar sem hafi verið notuð við virðisaukaskattskylda starfsemi kæranda frá árinu 1997. Þá var boðaðri lækkun innskatts vegna rekstrar á bifreiðinni X mótmælt sem rangri og m.a. tekið fram að ekki stæðist að 15% heildarnotkunar bifreiðarinnar hefði verið vegna einkanota. Umboðsmaður kæranda tók fram að ekki væru til staðar atvik sem réttlættu álagsbeitingu í tilviki kæranda, þar sem hann hefði hagað framtalsskilum sínum og bókhaldi í samræmi við lög og fyrirmæli skattyfirvalda. Að öðru leyti var vísað til fyrri skýringa og raka í bréfi umboðsmanns kæranda, dags. 24. október 2002.

Skattstjóri hratt boðuðum breytingum í framkvæmd með úrskurði um endurákvörðun, dags. 20. desember 2002, svo sem nánar er lýst í kafla I að framan. Skattstjóri kvað liggja fyrir að starfsmaður kæranda hefði tvisvar farið heim á bifreiðinni X. Með vísan til 2. og 6. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 192/1993 teldist vera um óheimila notkun bifreiðarinnar að ræða sem leiddi til þess að skattstjóri hefði ákveðið að fella niður innskatt vegna öflunar bifreiðarinnar og innskatt vegna einkanota á bifreiðinni frá kaupum hennar og að gera samsvarandi breytingar á rekstrarkostnaði, fyrningum og eignarskattsstofni. Að teknu tilliti til þess að engin ný andmæli hefðu komið fram í svarbréfi umboðsmanns kæranda, dags. 17. desember 2002, kæmu hinar boðuðu breytingar til framkvæmda með vísan til málsástæðna og lagaraka sem fram kæmu í bréfi skattstjóra, dags. 6. desember 2002. Taldi skattstjóri eigi vera ástæður til þess að falla frá álagsbeitingu í málinu.

III.

Í kæru til yfirskattanefndar, dags. 19. mars 2003, fer fyrirsvarsmaður kæranda fram að innskattur vegna kaupa og notkunar bifreiðarinnar X verði látin standa óbreyttur, svo og öll gjaldfærsla vegna bifreiðarinnar. Til vara er þess krafist að skerðing innskatts vegna meintra einkanota taki mið af 13. gr. reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt, varðandi breyttar forsendur fyrir frádrætti innskatts.

Af hálfu kæranda er tekið fram að úrskurður skattstjóra byggi á því að um einkanot hafi verið að ræða þar sem vitað sé um tvö tilvik þar sem starfsmaður hafi í nokkra klukkutíma lagt bifreiðinni nálægt heimili sínu. Kærandi telji ekki að þessi tilvik geti talist fullgild ástæða til að úrskurða að bifreiðin hafi verið í blandaðri notkun. Þess megi geta að bifreiðin hafi í umrædd skipti verið skilin eftir í sjö mínútna göngufjarlægð frá starfsstöð kæranda við M-götu. Ítrekað er í kærunni að starfsmönnum hafi ekki verið heimiluð einkanot af bílum fyrirtækisins.

IV.

Með bréfi, dags. 16. maí 2003, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Þess er krafist að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans og eftirfarandi athugasemda, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.

Í kæru til yfirskattanefndar gerir kærandi þá kröfu til vara ,,að skerðing innskatts í máli þessu vegna meintra einkanota af X taki mið af reglugerð nr. 192/1993 aðallega grein nr. 13. varðandi breyttar forsendur á frádrætti innskatts." Samkvæmt 2. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt, er óheimilt að telja til innskatts virðisaukaskatt af öflun virðisaukaskattsbifreiða nema þær séu eingöngu notaðar í virðisaukaskattsskyldri starfsemi, þ.e. vegna sölu á vörum og skattskyldri þjónustu. Öll önnur notkun þeirra, svo sem einkanot eiganda rekstrar og starfsmanna hans og notkun í þágu starfsemi er fellur utan skattskyldusviðs virðisaukaskatts, veldur því að óheimilt er að telja til innskatts virðisaukaskatt af öflun ökutækjanna. Akstur eiganda eða starfsmanns til og frá heimili telst í öllum tilvikum til einkanota í þessu sambandi. Af ákvæðinu má því ráða að frádráttur að hluta vegna öflunar virðisaukaskattsbifreiðar er ekki tækur og leiðrétting að hluta samkvæmt 13. gr. reglugerðarinnar því ekki tæk. Í ákvæði 5. mgr. 9. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um skyldu skattaðila til að tilkynna skattstjóra um breytta notkun á virðisaukaskattsbifreið hafi hann talið virðisaukaskatt af öflun hennar til innskatts. Í 6. mgr. greinarinnar kemur fram að skattstjóra sé rétt að fella niður innskatt af öflun viðkomandi bifreiðar hafi skilyrði greinarinnar til færslu innskatts af öflun ökutækis ekki verið haldin, þ.m.t. skilyrði um tilkynningar. Kærandi tilkynnti skattstjóra hins vegar aldrei um breytta notkun bifreiðarinnar og því var skattstjóra rétt að fella niður innskatt af öflun hennar að fullu enda hefur ákvæðið aldrei verið túlkað svo að ákvæðið heimili niðurfellingu innskatts að hluta.“

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 25. maí 2003, var kæranda sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og honum gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

V.

Samkvæmt 1. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, telst til innskatts á hverju uppgjörstímabili, sbr. 24. gr. sömu laga, virðisaukaskattur af aðkeyptum rekstrarfjármunum, vörum, vinnu, þjónustu og öðrum aðföngum sem eingöngu varða sölu skattaðila á vörum og skattskyldri þjónustu. Kemur fram í athugasemdum með ákvæðinu í frumvarpi því er varð að lögum nr. 50/1988 að eftir því væri t.d. óheimill frádráttur innskatts sem varðar byggingu sem aðeins að hluta sé notuð í skattskyldri starfsemi fyrirtækis. Samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar er fjármálaráðherra heimilað að setja reglur um að til innskatts megi telja ákveðinn hluta af virðisaukaskatti innkaupa sem ekki varða eingöngu sölu skattaðila á vörum og skattskyldri þjónustu. Þá eru talin upp í 3. mgr. greinarinnar nokkur tilvik, þar sem ekki er heimilt að telja til innskatts virðisaukaskatt af þar til greindum aðföngum, þar á meðal hlunnindum til eiganda eða starfsmanna. Segir m.a. í athugasemdum með þeirri málsgrein að það leiði þegar af ákvæðum 1. mgr. að frádráttur innskatts á vörum, sem keyptar séu til einkaneyslu eigandans, sé óheimill, og varði slík innkaup ekki sölu skattaðila á skattskyldum vörum og þjónustu.

Nánar er kveðið á um frádrátt virðisaukaskatts (innskatts) í reglugerð nr. 192/1993, um innskatt, sem sett er með stoð í 2. mgr. 16. gr., sbr. 49. gr. laga nr. 50/1988. Samkvæmt ákvæðum reglugerðarinnar er að meginstefnu til heimilt að telja til innskatts hluta virðisaukaskatts af innkaupum sem einungis varða að hluta sölu skattaðila á vörum og skattskyldri þjónustu. Þó er sú undantekning gerð að því er varðar ökutæki af tilteknu tagi að óheimilt er að telja til innskatts virðisaukaskatt vegna öflunar eða leigu þeirra nema þau séu eingöngu notuð vegna sölu skattaðila á vörum og skattskyldri þjónustu, sbr. upphafsmálslið 2. mgr. 9. gr. reglugerðarinnar, sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 18/2001. Tekið er fram að öll önnur notkun ökutækja þessara, svo sem einkanot eiganda rekstrar og starfsmanna hans og notkun í þágu starfsemi er falli utan skattskyldusviðs virðisaukaskatts, valdi því að óheimilt sé að telja til innskatts virðisaukaskatt af öflun ökutækjanna. Þá er tekið fram í ákvæðinu að akstur eiganda eða starfsmanns til og frá heimili teljist í öllum tilvikum til einkanota í þessu sambandi og það eins þótt aksturinn sé jafnframt í þágu starfseminnar eða á annan hátt að kröfu rekstraraðila. Með 3. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 192/1993, sbr. reglugerð nr. 18/2001, sem orðuð er sem undantekning frá ákvæðum 2. mgr. greinarinnar, er kveðið á um heimild eiganda rekstrar eða starfsmanns hans til að hafa takmörkuð einkanot af bifreið, sbr. 1. tölul. 1. mgr. reglugerðarinnar, sem eingöngu felist í akstri milli heimilis eiganda eða starfsmanns og starfsstöðvar fyrirtækis, án þess að það komi í veg fyrir að virðisaukaskattur af öflun bifreiðarinnar sé talinn til innskatts, enda sé fullnægt ákveðnum skilyrðum, m.a. að tilkynnt sé fyrirfram til skattstjóra um fyrirhugaðan afnotarétt.

Í 3. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 192/1993, svo sem ákvæðið hljóðaði fyrir gildistöku reglugerðar nr. 18/2001, var með hliðstæðum hætti og að framan greinir kveðið á um að ökutæki skyldi „ekki talið notað eingöngu vegna sölu á vörum eða skattskyldri þjónustu ef það er notað af eiganda þess eða starfsmanni hans til einkanota þ.m.t. til aksturs milli heimilis og vinnustaðar“. Í 2. málslið málsgreinarinnar, sbr. breytingu með reglugerð nr. 532/1993, var kveðið á um að skattstjóri gæti veitt heimild til að bifreið, sem væri sérútbúin til viðgerðarþjónustu og greinilega merkt viðkomandi atvinnufyrirtæki, mætti geyma við heimili starfsmanns eða eiganda, enda væri hún notuð til að sinna fyrirvaralausum útköllum, og skyldi samkvæmt 3. málslið málsgreinarinnar sækja sérstaklega um heimild til slíkra nota til skattstjóra. Samkvæmt ákvæði til bráðabirgða með reglugerð nr. 18/2001 féllu allar heimildir varðandi sérútbúnar bifreiðar, sem skattstjórar höfðu veitt á grundvelli framangreindra eldri ákvæða 3. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 192/1993, úr gildi við gildistöku reglugerðar nr. 18/2001.

Fjallað hefur verið um ákvæði 9. gr. reglugerðar nr. 192/1993, svo sem þau hljóðuðu fyrir gildistöku reglugerðar nr. 18/2001, í nokkrum úrskurðum yfirskattanefndar, m.a. úrskurðum nr. 553/1997 og 559/1997, sem birtir eru í Skatta- og tollatíðindum 1997:104 og 1997:105. Þá hefur reynt á skýringu þessara reglna í dómum Hæstaréttar Íslands 5. maí 1999 í málinu nr. 164/1999 (H 1999:1877), 12. maí 1999 í málinu nr. 336/1998 (H 1999:2056) og 10. febrúar 2000 í málinu nr. 393/1999 (Kólus ehf. gegn íslenska ríkinu). Í úrskurðaframkvæmd yfirskattanefndar hefur verið talið að skýra yrði heimild til að telja til innskatts virðisaukaskatt af öflun þargreindra ökutækja þröngt, svo sem nánar greinir í fyrrnefndum úrskurðum. Þau nýmæli sem felast í reglugerð nr. 18/2001 rýmka heimildir til einkanota af svonefndum virðisaukaskattsbifreiðum, en binda slík afnot jafnframt tilteknum skilyrðum. Á sama hátt og í tíð eldri reglna verður að skýra núgildandi reglur um meðferð virðisaukaskatts af sendibifreiðum með hliðsjón af því að þær fela í sér undantekningu frá grundvallarreglu 1. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988.

Eftir því sem fyrir liggur í málinu keypti kærandi bifreiðina X í október 1997 og færði virðisaukaskatt af kaupverði bifreiðarinnar sem innskatt 417.189 kr. í virðisaukaskattsskilum sínum uppgjörstímabilið september-október 1997. Skattstjóri hefur talið að vegna einkanota starfsmanns kæranda af bifreiðinni hafi fyrrnefnt skilyrði í upphafsákvæði 2. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 192/1993, sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 18/2001, ekki verið uppfyllt í tilviki kæranda og bifreiðin því ekki eingöngu verið notuð vegna sölu kæranda á vörum og skattskyldri þjónustu, enda geti undantekningarákvæði 3. mgr. 9. gr. reglugerðarinnar ekki átt við í málinu. Er hin kærða lækkun innskattsfrádráttar byggð á þessu.

Óumdeilt er að umrædd bifreið kæranda fellur að því er gerð og búnað varðar undir ákvæði 9. gr. reglugerðar nr. 192/1993. Reynir því einvörðungu á það hvort skilyrði um notkun bifreiðarinnar hafi verið með þeim hætti sem kveðið er á um í ákvæðinu. Skráð aðsetur kæranda, sem er byggingafélag, er að M-götu í Reykjavík. Samkvæmt skýrslu starfsmanna skattstjóra, sem kæranda var send með bréfi skattstjóra, dags. 9. júlí 2002, var bifreiðinni lagt við N-götu í Reykjavík dagana 6. maí 2002 kl. 6:28 og 21. maí 2002 kl. 6:36. Af hálfu kæranda er staðhæft að í þessum tilvikum hafi viðkomandi starfsmaður ekki farið að fyrirmælum kæranda um að skila bifreiðinni á plan við starfsstöð kæranda að loknum vinnudegi. Þá hafi verið um einstök tilvik að ræða þegar starfsmaður kæranda hafi lokið vinnu seint að kvöldi og þurft að fara á verkstað snemma daginn eftir. Skattstjóri hefur út af fyrir sig ekki dregið þessar skýringar í efa, en talið að hvað sem þeim liði hafi verið um einkanot bifreiðarinnar að ræða og bifreiðin því ekki eingöngu verið notuð vegna sölu á vörum og skattskyldri þjónustu, sbr. skilyrði 2. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 192/1992 svo sem ákvæðið orðast eftir breytingu með reglugerð nr. 18/2001. Eins og málið liggur fyrir þykir verða að byggja á skýringum kæranda um notkun bifreiðanna í umrædd tvö skipti, að um einstök tilvik hafi verið að ræða og að viðkomandi starfsmaður hafi ekki haft heimild forráðamanna kæranda til að geyma bifreiðina við heimili sitt. Tilfallandi og einstök afnot bifreiðar, slík sem kærandi hefur gert grein fyrir, sem forráðamenn kæranda höfðu ekki heimilað, eftir því sem fram er komið, verða ekki talin hlunnindi til eiganda eða starfsmanna í skilningi 3. tölul. 3. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988. Að þessu virtu verður ekki talið að nægilega sé fram komið að notkun starfsmanns kæranda á bifreiðinni hafi verið þess eðlis að bifreiðin teljist ekki eingöngu notuð vegna sölu kæranda á vörum eða skattskyldri þjónustu, sbr. 2. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 192/1993. Því er fallist á aðalkröfu kæranda.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Fallist er á aðalkröfu kæranda í máli þessu.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja