Úrskurður yfirskattanefndar

  • Frádráttur á móti ökutækjastyrk
  • Matsreglur fjármálaráðherra

Úrskurður nr. 354/2005

Gjaldár 2004

Lög nr. 90/2003, 30. gr. 1. mgr. A-liður 1. tölul.   Reglur fjármálaráðherra nr. 6/2003 um skattmat tekjuárið 2003.  

Fallist var á með skattstjóra að virða bæri akstur kæranda, sem var flugfreyja, milli heimilis og áfangastaða á leið til Keflavíkurflugvallar og í höfuðstöðvar launagreiðanda á Reykjavíkurflugvelli sem akstur milli heimilis og vinnustaðar sem teldist að öllu leyti vera í eigin þágu. Þá var talið að akstur í tengslum við hreinsun á einkennisfatnaði og vegabréfsumsóknir væri í eigin þágu. Á hinn bóginn var fallist á með kæranda að akstur í tengslum við námskeið á vegum vinnuveitanda og lagfæringu einkennisfatnaðar teldist vera í þágu launagreiðanda og var fallist á frádrátt vegna slíks aksturs á móti fengnum ökutækjastyrk.

I.

Með kæru, dags. 6. apríl 2005, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar úrskurði skattstjóra, dags. 25. janúar 2005, um endurákvörðun opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2004. Kæruefnið er niðurfelling frádráttar að fjárhæð 110.000 kr. á móti fengnum ökutækjastyrk í skattframtali kæranda árið 2004. Er þess krafist í kæru kæranda að tilfærður frádráttur standi óhaggaður í skattframtali hennar umrætt ár.

II.

Málavextir eru þeir að kærandi færði til tekna í skattframtali sínu árið 2004 ökutækjastyrk frá X hf. að fjárhæð 328.606 kr. og til frádráttar sem kostnað á móti styrknum færði kærandi 110.000 kr. Skattframtalinu fylgdi ökutækjaskýrsla (RSK 3.04) þar sem fram kom að um 2.000 km akstur í þágu launagreiðanda væri að ræða.

Með bréfi, dags. 11. október 2004, óskaði skattstjóri eftir að kærandi léti í té gögn og skýringar og sýndi þannig fram á réttmæti frádráttar á móti ökutækjastyrk vegna aksturs í þágu launagreiðanda á árinu 2003, sbr. 96. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt. Skyldi kærandi leggja fram akstursdagbók eða akstursskýrslur vegna aksturs í þágu launagreiðanda og skýra frá því hvaða störfum kærandi gegndi hjá þeim launagreiðanda sem greiddi henni ökutækjastyrk á árinu 2003.

Í svarbréfi kæranda, dags. 8. nóvember 2004, kom fram að kærandi starfaði sem flugfreyja hjá X hf. Í starfi sínu þyrfti kærandi að klæðast einkennisfatnaði áður en haldið væri að heiman í flug. Kæranda væri óheimilt að klæðast fatnaði þessum í almenningsfarartækjum og því þyrfti hún á bifreið að halda til að komast til vinnu. Einnig þyrfti kærandi á bifreið að halda til þess að geta sótt ýmis gögn vegna starfsins. Vísaði kærandi í þessu sambandi til meðfylgjandi akstursdagbókar vegna ársins 2003. Þá fylgdi bréfi kæranda staðfesting launadeildar X hf., dags. 25. október 2004, þar sem fram kom að kærandi þyrfti á bifreið að halda vegna starfs síns sem flugfreyja hjá félaginu.

Með bréfi, dags. 3. desember 2004, tilkynnti skattstjóri kæranda að hann hygðist fella niður tilfærðan frádrátt á móti ökutækjastyrk í skattframtali kæranda árið 2004 og endurákvarða áður álögð opinber gjöld kæranda gjaldárið 2004 til samræmis að viðbættu 25% álagi, sbr. 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003. Til stuðnings boðuðum breytingum á frádrættinum vísaði skattstjóri til 1. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 90/2003 og tók fram að matsreglur fjármálaráðherra fyrir tekjuárið 2003, framtalsárið 2004, sem birtar hefðu verið sem auglýsing nr. 6 í B-deild Stjórnartíðinda 2003, ættu sér lagastoð í ákvæðinu. Þá tók skattstjóri fram að af framlagðri akstursdagbók kæranda fyrir árið 2003 yrði ekki annað ráðið en að ökutækjastyrkur hefði verið greiddur vegna aksturs til og frá vinnu, en allur slíkur akstur teldist vera í þágu launamanns en ekki launagreiðanda. Yrði því ekki séð að kostnaður vegna aksturs sem færður hefði verið til frádráttar á móti ökutækjastyrk uppfyllti skilyrði frádráttar samkvæmt 1. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 90/2003. Til stuðnings fyrirhugaðri álagsbeitingu tók skattstjóri fram að um væri að ræða offærðan frádrátt sem ekki virtist byggður á réttmætum gögnum og þætti því tilefni til álagsbeitingar.

Með bréfi, dags. 30. desember 2004, mótmælti kærandi hinum boðuðu breytingum skattstjóra. Vegna forsendna skattstjóra í boðunarbréfi, þ.e. að um akstur til og frá vinnu væri að ræða, benti kærandi á að athugun á akstursdagbók fyrir árið 2003 leiddi í ljós að svo væri ekki í öllum tilvikum. Vísaði kærandi í því sambandi til meðfylgjandi sundurliðunar á akstri árið 2003, sem unnin væri upp úr akstursdagbók hennar, þar sem gerður væri greinarmunur á annars vegar akstri til og frá vinnu „á tímabilinu 00:00-7:00“ og hins vegar akstri í þágu vinnuveitanda sem að mestu leyti hefði farið fram utan venjulegs vinnutíma. Af hálfu vinnuveitanda kæranda væri þess krafist að starfsmenn gætu sótt gögn vegna starfsins og sinnt ýmsum erindum í tengslum við það, án þess þó að mætt væri til vinnu. Væri ökutækjastyrkur greiddur til þess að standa straum af kostnaði sem hlytist af slíkum erindum. Vegna ferða til og frá vinnu væri þess að geta að ferðir hefðu verið farnar fyrir upphaf þess tíma þegar almenningssamgöngur hæfust að morgni. Þá vísaði kærandi til ákvæðis lokamálsliðar 1. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 þar sem fram kæmi að ræki vinnuveitandi hópferðabifreið til að flytja starfsmenn sína til og frá vinnu teldust hlunnindi starfsmanna af slíkum ferðum ekki til skattskyldra tekna. Væri því ekki óeðlilegt að líta svo á að með greiðslur til starfsmanna, sem kæmu í stað útgjalda sem fylgdu rekstri hópferðabifreiða, bæri að fara á sama hátt með lögjöfnun.

Með úrskurði um endurákvörðun, dags. 25. janúar 2005, hratt skattstjóri hinni boðuðu breytingu í framkvæmd og felldi niður tilfærðan frádrátt 110.000 kr. á móti ökutækjastyrk í skattframtali kæranda árið 2004. Á hinn bóginn féll skattstjóri frá boðaðri álagsbeitingu. Í úrskurðinum rakti skattstjóri gang málsins og fyrri bréfaskipti. Þá sagði svo í úrskurðinum vegna athugasemda kæranda í bréfi, dags. 30. desember 2004:

„Skv. þeim lista sem sendur var inn með svarbréfi yðar kemur fram að um ferðir er að ræða til að sækja vinnuskrár, í pósthólf og sækja námskeið ásamt því að fara með og sækja einkennisbúning í hreinsun og lagfæringu.

Ofangreindar ferðir teljast til aksturs úr og í vinnu og telst það í þágu gjaldanda sjálfs sbr. skattmat manna sem birtist í B-deild Stjórnartíðinda nr. 6/2003. Það að fara með einkennisbúning í hreinsun og lagfæringu telst alfarið í þágu gjaldanda sjálfs.“

III.

Með kæru, dags. 6. apríl 2005, hefur umboðsmaður kæranda skotið úrskurði skattstjóra um endurákvörðun, dags. 25. janúar 2005, til yfirskattanefndar. Í kærunni er þess krafist að tilfærður frádráttur á móti ökutækjastyrk að fjárhæð 110.000 kr. standi óhaggaður í skattframtali kæranda árið 2004. Í kærunni kemur fram að skattstjóri hafi ekki fallist á skilmerkilegar skýringar kæranda á akstri í þágu vinnuveitanda á árinu 2003 og vefengt framlagða akstursdagbók hennar að öllu leyti. Hljóti þó að teljast vera í þágu vinnuveitanda að fara með einkennisbúning vegna starfsins í hreinsun. Sama máli gegni um ferðir kæranda að Hótel Loftleiðum til þess að sækja gögn í pósthólf flugfreyju, en um sé að ræða t.d. upplýsingar sem kynna þurfi farþegum fyrir hvert flug. Þá hljóti að teljast í þágu vinnuveitanda að „koma sér í veg fyrir rútu“ sem aki flugáhöfn á Keflavíkurflugvöll, en almenningsvagnar hefji ekki akstur fyrr en síðar. Þekkt sé að ýmsar aðrar starfsstéttir fái greiddan kostnað við að koma sér til vinnu þegar vinna hefjist utan þess tíma þegar almenningsvagnar gangi. Að öðru leyti sé vísað til þess rökstuðnings sem fram hafi komið af hálfu kæranda á fyrri stigum málsins.

IV.

Með bréfi, dags. 15. júlí 2005, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Þess er krafist að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“

V.

Samkvæmt 1. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, er frádráttur kostnaðar á móti ökutækjastyrk heimill að þargreindum skilyrðum uppfylltum, þar á meðal því að slík útgjöld séu sönnuð og í samræmi við matsreglur fjármálaráðherra. Samkvæmt lið 3.1. í matsreglum fjármálaráðherra fyrir tekjuárið 2003 (framtalsárið 2004), sbr. auglýsingu nr. 6, 8. janúar 2003 í B-deild Stjórnartíðinda, þarf framteljandi að hafa fært akstursdagbók eða akstursskýrslu þar sem skráð sé hver ferð, dagsetning, ekin vegalengd, aksturserindi, kílómetragjald, nafn og kennitala launamanns og einkennisnúmer viðkomandi ökutækis, sbr. reglugerð nr. 591/1987, um laun, greiðslur og hlunnindi utan staðgreiðslu. Skal færa þessi gögn reglulega og skulu þau vera aðgengileg skattyfirvöldum þegar þau óska þess. Þá telst ökutækjakostnaður því aðeins sannaður að gerð sé grein fyrir kostnaði við rekstur ökutækisins og notkun ökutækis sundurliðuð með nánar tilgreindum hætti.

Í matsreglum fjármálaráðherra kemur fram að akstur til og frá vinnu teljist allur vera í eigin þágu launamanns. Matsregla þessi er fortakslaus og er því ekki hægt að draga þá ályktun að tilefni aksturs til og frá vinnu skipti máli. Svo sem fram er komið starfar kærandi sem flugfreyja hjá X hf. Samkvæmt akstursdagbók kæranda fyrir árið 2003, sbr. ennfremur sundurliðun sem fylgdi bréfi kæranda til skattstjóra, dags. 30. desember 2004, var tilfærður 2.000 km akstur í þágu launagreiðanda á árinu 2003 að öllu verulegu leyti vegna ferða til og frá Keflavíkurflugvelli í tengslum við flugferðir og vegna ferða til og frá Hótel Loftleiðum þar sem kærandi kveðst hafa þurft að sækja gögn vegna starfs síns. Taka verður undir það með skattstjóra að virða ber akstur kæranda milli heimilis hennar og áfangastaða á leið til Keflavíkurflugvallar sem akstur milli heimilis og vinnustaðar sem telst allur vera í eigin þágu. Hið sama þykir gilda um ferðir vegna starfsins í höfuðstöðvar launagreiðanda kæranda á Reykjavíkurflugvelli (Hótel Loftleiðum). Þá verður að fallast á með skattstjóra að akstur kæranda í tengslum við hreinsun á einkennisfatnaði og vegabréfsumsóknir þykir vera í eigin þágu en ekki í þágu launagreiðanda. Á hinn bóginn verður ekki skellt skollaeyrum við skýringum kæranda varðandi akstur í tengslum við námskeið á vegum vinnuveitanda og lagfæringu einkennisfatnaðar, enda þykir mega fallast á að slíkur akstur teljist vera í þágu vinnuveitandans. Samkvæmt akstursdagbók kæranda nemur akstur vegna þessara erinda 152 km á árinu 2003 og ákvarðast frádráttur í reit 32 í skattframtali kæranda árið 2004 í samræmi við það 8.360 kr. Þykir kærandi ekki hafa sýnt fram á að henni beri frekari frádráttur vegna kostnaðar á móti ökutækjastyrk gjaldárið 2004.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Frádráttur vegna kostnaðar á móti ökutækjastyrk í reit 32 í skattframtali árið 2004 verður 8.360 kr. Að öðru leyti er kröfum kæranda hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja