Úrskurður yfirskattanefndar

  • Álag vegna staðgreiðsluskila

Úrskurður nr. 392/2003

Gjaldár 2002

Lög nr. 45/1987, 28. gr. 6. mgr.  

Fallist var á kröfu kæranda um niðurfellingu álags vegna síðbúinna skila á staðgreiðslu, en hin síðbúnu skil áttu rót sína að rekja til mistaka bankastarfsmanns.

I.

Með kæru, dags. 14. janúar 2003, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar úrskurði skattstjóra, dags. 17. október 2002, þar sem skattstjóri synjaði beiðni kæranda um niðurfellingu álags að fjárhæð 297.702 kr. vegna vangreiðslu á staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. ákvæði 1. og 2. mgr. 28. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda. Er þess krafist af hálfu kæranda að álagið verði fellt niður.

II.

Málavextir eru þeir að kærandi er lífeyrissjóður. Staðgreiðsla opinberra gjalda greiðslutímabilið ágúst 2002 að fjárhæð 5.361.911 kr. vegna lífeyris sem kærandi greiddi út fyrir þann mánuð var ekki innt af hendi á eindaga hinn 16. september 2002. Samkvæmt gögnum málsins voru staðin skil á staðgreiðslunni þann 23. september 2002. Skattstjóri ákvarðaði kæranda álag samkvæmt 1. og 2. mgr. 28. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, samtals að fjárhæð 386.592 kr. vegna þessara vanskila, sem vegna leiðréttra staðgreiðsluskila, er skráð voru 4. nóvember 2002, lækkaði í 297.702 kr.

Með bréfi til skattstjóra, dags. 3. október 2002, óskaði kærandi eftir því að álag vegna vangreiddrar staðgreiðslu greiðslutímabilið ágúst 2002 yrði fellt niður. Var greint frá því í bréfinu að staðgreiðslan hefði ekki borist á réttum tíma vegna mistaka bankastarfsmanns. Kom fram að skilagrein hefði verið send banka fyrir hádegi en þegar gjaldkeri í bankanum hefði ætlað að afgreiða seðilinn hefði komið í ljós að ekki hefði verið búið að ganga frá innborgun á reikning kæranda. Venjan væri sú, þegar slík aðstaða kæmi upp, að gjaldkeri geymdi gögnin hjá sér og skráði þau síðar um daginn. Í þetta skipti hefði það hins vegar gerst að bankagjaldkerinn hefði pakkað gögnunum saman og sent þau til baka án þess að skilaboð þess efnis hefðu borist gjaldkera kæranda. Mistökin hefðu því ekki uppgötvast fyrr en rúmri viku síðar og hefði þá umsvifalaust verið gengið frá greiðslu. Með vísan til framangreinds og þess að kærandi hefði ávallt staðið í skilum með staðgreiðslu opinberra gjalda væri þess óskað að álag yrði fellt niður, enda væri í raun um að ræða mistök þriðja aðila en ekki kæranda.

Skattstjóri felldi úrskurð, dags. 17. október 2002, um ofangreinda beiðni kæranda og hafnaði henni. Kvaðst skattstjóri ekki geta fallist á að tilvik kæranda hefði borið að með þeim hætti að kæranda hefði verið ómögulegt eða illgerlegt að sjá til þess að greiðsla staðgreiðslu væri innt af hendi á réttum tíma. Hefði kærandi því ekki fært fram gildar ástæður sér til afsökunar, sbr. 6. mgr. 28. gr. laga nr. 45/1987, og yrði því að synja málaleitan kæranda um niðurfellingu álags.

III.

Í kæru kæranda til yfirskattanefndar, dags. 14. janúar 2003, eru fram komnar skýringar kæranda á ástæðum síðbúinna skila á staðgreiðslu opinberra gjalda vegna greiðslutímabilsins ágúst 2002 áréttaðar og tekið fram að kærandi sé ekki sammála mati skattstjóra á atvikum. Telji kærandi að sýnt hafi verið fram á að sjóðnum hafi verið ómögulegt að standa skil á staðgreiðslunni á réttum tíma. Þá er ítrekað að kærandi hafi ávallt staðið réttilega að skilum staðgreiðslu.

IV.

Með bréfi, dags. 14. mars 2003, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Gerð er krafa um staðfestingu á álagsbeitingu skattstjóra. Afsökunarástæður kæranda þykja ekki þess eðlis að rétt sé að nýta heimild 6. mgr. 28. gr. laga nr. 45/1981, um staðgreiðslu opinberra gjalda, til niðurfellingar á lögboðnu álagi í hinu kærða tilviki.“

V.

Í 3. mgr. 20. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, er mælt svo fyrir að gjalddagi greiðslu samkvæmt 1. mgr. greinarinnar sé 1. hvers mánaðar og eindagi 14 dögum síðar. Þá er boðið að launagreiðandi skuli sæta álagi samkvæmt 28. gr. laganna hafi hann eigi greitt á eindaga. Í 28. gr. laga nr. 45/1987 er síðan fjallað um álag á vanskilafé í staðgreiðslu og beitingu þess. Í 1. mgr. greinarinnar er tekið fram að séu greiðslur launagreiðanda samkvæmt 20. gr. ekki inntar af hendi á tilskildum tíma skuli hann sæta álagi til viðbótar upphæð skilafjárins, eða til viðbótar því skilafé sem honum bar að standa skil á. Sama gildi ef skilagrein hefur ekki verið skilað eða henni verið ábótavant og greiðsluskyld fjárhæð því verið áætluð, sbr. 21. gr., nema launagreiðandi hafi greitt fyrir eindaga upphæð er svarar til áætlunar. Í 2. mgr. 28. gr. eru síðan ákvæði um álag á vanskilafé. Samkvæmt 6. mgr. greinarinnar má fella niður álag samkvæmt 2. mgr. ef launagreiðandi færir gildar ástæður sér til afsökunar og metur skattstjóri það í hverju einstöku tilviki hvað telja skuli gildar ástæður í þessu sambandi.

Fyrir liggur að lagaskilyrði voru til beitingar álags samkvæmt 1. mgr. 28. gr. laga nr. 45/1987 þar sem kærandi innti ekki skilaskylda staðgreiðslu opinberra gjalda vegna greiðslutímabilsins ágúst 2002 af hendi á tilskildum tíma. Af hálfu kæranda er komið fram að mistök bankastarfsmanns hafi valdið hinum síðbúnu skilum staðgreiðslu og verði kæranda ekki kennt um þau. Þar sem ekki hefur verið vefengt af hálfu skattstjóra eða ríkisskattstjóra að kærandi hafi staðið skil á skilagrein staðgreiðslu í banka á eindaga 16. september 2002 ásamt fyrirmælum um greiðslu af bankareikningi kæranda inn á reikning samkvæmt 2. gr. reglugerðar nr. 753/1997, um mánaðarleg skil á staðgreiðslu og tryggingagjaldi, og að innstæða hafi verið fyrir þeirri greiðslu umræddan dag, þykir mega fallast á kröfu kæranda um niðurfellingu álags, sbr. heimild í 6. mgr. 28. gr. laga nr. 45/1987.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Hið kærða álag fellur niður.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja