Úrskurður yfirskattanefndar

  • Vaxtabætur
  • Upphafstími vaxtabóta

Úrskurður nr. 21/2006

Gjaldár 2005

Lög nr. 90/2003, 68. gr. B-liður 4. mgr.  

Í máli þessu reyndi á ákvörðun vaxtabóta kæranda sem keypti íbúðarhúsnæði á árinu 2004 og hafði ekki fengið vaxtabætur áður. Var skattstjóri talinn hafa ákvarðað kæranda vaxtabætur í samræmi við lög, þ.e. frá og með þeim ársfjórðungi sem fyrsta fasteignaveðlán vegna kaupa húsnæðisins var tekið.

I.

Kæruefni í máli þessu, sem barst yfirskattanefnd með kæru, dags. 7. október 2005, er ákvörðun vaxtabóta kæranda gjaldárið 2005. Af hálfu kæranda er þess krafist að vaxtabætur verði reiknaðar frá og með þriðja ársfjórðungi 2004 í stað fjórða ársfjórðungs það ár svo sem gert var við almenna álagningu opinberra gjalda umrætt gjaldár og staðfest með kæruúrskurði skattstjóra, dags. 3. október 2005.

II.

Málavextir eru þeir að skattframtali kæranda árið 2005 fylgdi greinargerð um kaup og sölu eigna (RSK 3.02) vegna kaupa kæranda á húsnæði að X. Var tilgreint að kaupsamningur um eignina væri dagsettur 14. október 2004 en afhendingardagur eignar væri 1. september 2004. Í skattframtalinu gerði kærandi grein fyrir vaxtagjöldum að fjárhæð samtals 417.997 kr. og eftirstöðvum þriggja lána vegna öflunar húsnæðisins, þ.e. tveggja lána frá Íbúðalánasjóði, tekin 13. október 2004, og láns frá Y-banka, tekið 1. september 2004. Framtalið var lagt óbreytt til grundvallar álagningu opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2005. Voru kæranda ákvarðaðar vaxtabætur frá og með fjórða ársfjórðungi 2004, sbr. ákvæði 8. og 9. málsl. 4. mgr. B-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt.

Með kæru til skattstjóra, dags. 28. júlí 2005, gerði kærandi athugasemdir við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2005 og fór fram á að ákvörðun vaxtabóta yrði tekin til endurskoðunar. Við bráðabirgðaútreikning gjalda hefðu vaxtabætur reiknast 207.139 kr. en samkvæmt álagningarseðli væru vaxtabætur 51.874 kr. Kærandi tók m.a. fram að stuðst hefði verið við forskráðar upplýsingar við framtalsgerð, þar á meðal greiðslumiða frá VÍS vegna greiðslu slysabóta.

Með kæruúrskurði, dags. 3. október 2005, hafnaði skattstjóri kröfu kærenda um endurskoðun á álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2005. Skattstjóri rakti ákvæði B-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003 um ákvörðun vaxtabóta og vakti athygli á ákvæði í 4. mgr. B-liðar þar sem fram kæmi að við ákvörðun vaxtabóta á því ári þegar maður aflaði sér íbúðarhúsnæðis, en hefði ekki fengið vaxtabætur árið áður, bæri að reikna vaxtabætur frá og með þeim ársfjórðungi sem fyrsta fasteignaveðlán vegna kaupanna væri tekið. Skyldi hámark vaxtagjalda, tekjuskattsstofn og hámark vaxtabóta þá ákveðið hlutfallslega miðað við það. Kærandi hefði fjárfest í íbúðarhúsnæði sínu á fjórða ársfjórðungi ársins 2004 og reiknuðust henni því vaxtabætur hlutfallslega í samræmi við greint lagaákvæði miðað við einn ársfjórðung. Bráðabirgðaútreikningur opinberra gjalda væri ekki endanleg niðurstaða álagningar. Þá tók skattstjóri fram að skattframtal kæranda hefði verið lagt óbreytt til grundvallar álagningu og yrði ekki annað séð en að vaxtabætur væru rétt ákvarðaðar miðað við gildandi lög.

III.

Í kæru til yfirskattanefndar, dags. 7. október 2005, er vísað til þess að í kaupsamningi um íbúðarhúsnæði kæranda komi fram að kærandi fái íbúðina afhenta 1. september 2004, en eins og oft gerist í fasteignaviðskiptum hafi frágangur skjala vegna kaupanna dregist. Kærandi hafi gert tilboð í eignina 17. ágúst 2004 og það verið samþykkt sama dag. Í tilboðinu komi skýrt fram að vextir reiknist frá útgáfudegi tilboðs. Sá dagur ætti því að vera hinn eiginlegi viðmiðunardagur vaxta og í síðasta lagi 1. september 2004 þegar kærandi hafi tekið við íbúðinni. Vegna tafa hjá lánastofnunum og þar sem dregist hafi að aflétta veðum af eigninni hafi frágangur kaupsamnings dregist til 14. október 2004.

Þá fer kærandi fram á að athugað verði hvort skattfrjálsar bætur frá VÍS hafi haft áhrif á útreikning vaxtabóta, en ekki verði séð að því sé svarað í úrskurði skattstjóra.

IV.

Með bréfi, dags. 16. desember 2005, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Þar sem kærandi hefur lagt fram ný gögn og rökstuðning í máli þessu og með hliðsjón af þeim lagarökum er búa að baki 12. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, er þess krafist að kærunni verði vísað til skattstjóra til uppkvaðningar nýs kæruúrskurðar.“

V.

Vegna kröfugerðar ríkisskattstjóra í málinu skal tekið fram að engin efni eru til að líta svo á, eins og mál þetta liggur fyrir af hendi skattstjóra að sjónarmið þau, sem búa að baki 12. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, eigi við þannig að vísa beri kærunni til skattstjóra til uppkvaðningar nýs kæruúrskurðar.

Í 1. mgr. B-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. áður lög nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, er kveðið á um að maður sem skattskyldur er samkvæmt 1. gr. laganna og ber vaxtagjöld af lánum, sem tekin hafa verið vegna kaupa eða byggingar á íbúðarhúsnæði til eigin nota, þar með talin kaup á eignarhlut í almennri kaupleiguíbúð skv. 76. gr. laga nr. 97/1993, eigi rétt á sérstökum bótum, vaxtabótum, enda geri hann grein fyrir lánum og vaxtagjöldum af þeim í sérstakri greinargerð með skattframtali í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður. Samkvæmt upphafsákvæði 4. mgr. stafliðarins skal ákvarða vaxtabætur þannig að frá vaxtagjöldum, eins og þau eru skilgreind í 3. mgr. greinarinnar, skal draga fjárhæð sem svarar til 6% af tekjuskattsstofni, eins og hann er nánar skilgreindur í 4. málsl. 4. mgr. Í 7. málsl. 4. mgr. stafliðarins kemur fram að vaxtabætur greiðist út að lokinni álagningu opinberra gjalda og miðist við vaxtagjöld viðkomandi tekjuárs og eignir í lok þess sama árs. Þá segir svo í 8. og 9. málslið málsgreinarinnar:

„Við ákvörðun vaxtabóta á því ári þegar maður aflar sér íbúðarhúsnæðis, en hefur ekki fengið vaxtabætur árið áður, skal þrátt fyrir ákvæði 1. málsl. þessarar málsgreinar reikna vaxtabætur frá og með þeim ársfjórðungi sem fyrsta fasteignaveðlán vegna kaupanna er tekið. Skal hámark vaxtagjalda, tekjuskattsstofn og hámark vaxtabóta þá ákveðið hlutfallslega miðað við það.“

Framangreind ákvæði voru lögfest með lögum nr. 97/1998, um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, sbr. b-lið 1. gr. hinna fyrrnefndu laga. Með lögum þessum var komið á fót nýju greiðslufyrirkomulagi vaxtabóta, þ.e. fyrirframgreiðslu vaxtabóta, sbr. c-lið 1. gr. laga nr. 97/1998 sem varð 9.–12. mgr. B-liðar 69. gr. laga nr. 75/1981, en í fyrstnefndu málsgreininni kemur fram að heimilt sé að greiða fyrir fram ársfjórðungslega áætlaðar vaxtabætur til þeirra sem festa kaup á íbúðarhúsnæði til eigin nota á árinu 1999 og síðar. Í athugasemdum við ákvæði b-liðar 1. gr. í frumvarpi því, sem varð að lögum nr. 97/1998, segir að ákvæðinu sé ætlað að jafna út misræmi sem orðið geti á fyrsta ári bótaréttar milli ársfjórðungsgreiðslna og vaxtabóta þar sem útreikningur þeirra miðist nú við heilt ár (Alþt. 1997–98, A-deild, bls. 3739).

Samkvæmt framansögðu ber við ákvörðun vaxtabóta á því ári þegar maður, sem ekki hefur fengið vaxtabætur árið áður, aflar sér íbúðarhúsnæðis að reikna vaxtabætur frá og með þeim ársfjórðungi sem fyrsta fasteignaveðlán vegna kaupanna er tekið á þann hátt sem greinir í ákvæðum 8. og 9. málsl. 4. mgr. B-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003. Leiðir sá útreikningur óhjákvæmilega til skerðingar á vaxtabótum við aðstæður á borð við þær sem greinir í máli kæranda vegna hlutföllunar á lögbundnu hámarki vaxtagjalda og vaxtabóta samkvæmt 3. mgr. og 10. málsl. 4. mgr. B-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003.

Samkvæmt kauptilboði kæranda, sem hún vísar til í kæru, skyldi kaupverð að mestu leyti greitt með fasteignaveðbréfum svo og viðbótarláni, tryggðum með veðum í eigninni, sbr. liði C og D í kauptilboði, sem bera skyldu þargreinda vexti sem reikna bæri frá útgáfudegi viðkomandi veðskuldabréfa. Þá kemur fram í kaupsamningi um eignina, dags. 14. október 2004, að vextir fasteignaveðbréfa, sbr. lið C í kaupsamningi, reiknist frá 12. október 2004 og vextir viðbótarláns, sbr. lið D, reiknist frá 13. október 2004. Samkvæmt þessu hefur fyrsta fasteignaveðlán vegna íbúðakaupa kærenda verið tekið á fjórða ársfjórðungi 2004, þ.e. 12. október 2004. Af því leiðir að skattstjóri hefur ákvarðað vaxtabætur kæranda gjaldárið 2005 í samræmi við lög, sbr. framanritað.

Vegna athugasemda í kæru um skerðingu vaxtabóta vegna tekna skal tekið fram að skattstjóri reiknaði frádrátt á grundvelli tekjuskattsstofns af skattstofni samkvæmt framtali kæranda 2.049.727 kr. að teknu tilliti til lækkunar vegna ívilnunar 100.000 kr. eða af fjárhæðinni 1.949.727 kr. Hins vegar takmörkuðust vaxtabætur kæranda við hámark vaxtabóta fyrir einstætt foreldri, 218.042 kr., sem hlutfallaðist samkvæmt fyrrgreindum lagaákvæðum miðað við upphaf vaxtabótaréttar þannig að hámark vaxtabóta í tilviki kæranda nam 54.510 kr., en vaxtabætur ákvörðuðust 95% þeirrar fjárhæðar, sbr. bráðabirgðaákvæði XV. með lögum nr. 90/2003, sbr. 32. gr. laga nr. 129/2004. Vaxtabætur kæranda gjaldárið 2005 ákvörðuðust því 51.784 kr.

Með vísan til þess sem að framan er rakið er kröfu kæranda í máli þessu hafnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja