Úrskurður yfirskattanefndar

  • Virðisaukaskattur
  • Skattskyld velta
  • Skattverð
  • Álag á virðisaukaskatt

Úrskurður nr. 113/2006

Virðisaukaskattur 2003

Lög nr. 50/1988, 8. gr., 11. gr. 3. mgr., 27. gr. 1. og 2. mgr.   Reglugerð nr. 192/1993, 12. gr., 13. gr.   Reglugerð nr. 515/1996, 9. gr.  

Skattstjóri felldi kæranda, sem var einkahlutafélag, af skrá yfir virðisaukaskattsskylda aðila í kjölfar rekstrarloka félagsins. Fallist var á með skattstjóra að kæranda hefði borið að telja innréttingar, áhöld og bifreið til skattskyldrar veltu á því uppgjörstímabili sem afskráning miðaðist við, enda var ekki fallist á með kæranda að reglur um leiðréttingu innskatts ættu við í tilviki félagsins. Á hinn bóginn var fallist á að lækka fjárhæð skattskyldrar veltu samkvæmt ákvörðun skattstjóra þar sem sýnt þótti að mat skattstjóra á verðgildi innréttinga og áhalda væri langt um skör fram og að skattstjóri hefði ekki skotið viðhlítandi stoðum undir mat sitt á gangverði bifreiðar kæranda. Kröfu kæranda um niðurfellingu álags á virðisaukaskatt var hafnað.

I.

Með kæru, dags. 15. apríl 2005, hefur umboðsmaður kæranda skotið til yfirskattanefndar úrskurði skattstjóra, dags. 28. janúar 2005, um endurákvörðun virðisaukaskatts kæranda uppgjörstímabilið nóvember-desember 2003. Með úrskurði þessum hækkaði skattstjóri virðisaukaskattsskylda veltu kæranda greint uppgjörstímabil um áætlaða fjárhæð 2.803.200 kr. vegna óseldra rekstrarfjármuna við lok skattsskyldrar starfsemi kæranda. Skattstjóri bætti 10% álagi, sbr. 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, við hækkun virðisaukaskatts sem af þessari breytingu leiddi.

Af hálfu kæranda er þess aðallega krafist að áætlun skattstjóra verði felld niður, en til vara að viðbótarvelta uppgjörstímabilið nóvember-desember 2003 verði lækkuð í 1.202.620 kr.

II.

Málavextir eru þeir að með bréfi, dags. 6. september 2004, krafði skattstjóri kæranda, sem er einkahlutafélag, um skýringar á því að ekki hefði verið tilgreind nein virðisaukaskattsskyld velta í virðisaukaskattsskilum félagsins á árinu 2004, sbr. innsendar virðisaukaskattsskýrslur kæranda fyrir uppgjörstímabilin janúar-febrúar, mars-apríl og maí-júní 2004. Vísaði skattstjóri til ákvæða reglugerðar nr. 515/1996, um skráningu virðisaukaskattsskyldra aðila, og kvað kæranda bera að tilkynna um lok skattskyldrar starfsemi, sbr. eyðublað sem skattstjóri lét fylgja bréfinu, ef starfsemi félagsins væri hætt. Jafnframt óskaði skattstjóri meðal annars eftir að ítarleg grein yrði gerð fyrir því hvort um óselda rekstrarfjármuni, svo sem vörubirgðir, vélar eða tæki, hefði verið að ræða við lok rekstrar og ef svo væri, hvert væri áætlað markaðsvirði þeirra, sbr. 3. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Ekkert svar barst frá kæranda vegna þessa bréfs skattstjóra og með bréfi, dags. 30. september 2004, boðaði skattstjóri kæranda bæði hækkun á skattskyldri veltu og lækkun á innskatti uppgjörstímabilið nóvember-desember 2003, þar sem kærandi hefði ekki gert grein fyrir óseldum rekstrarfjármunum við lok starfsemi kæranda eins og skattstjóri hefði óskað eftir.

Með bréfi umboðsmanns kæranda, dags. 7. október 2004, var greint frá því að kærandi hefði hinn 12. nóvember 2003 selt X ehf. allan verslunarrekstur sinn að Z-götu í N-bæ, ásamt viðskiptavild og vörumerkjum. X ehf. hefði einnig keypt allan vörulager verslunarinnar samkvæmt vörutalningu 12. nóvember 2003 og hefði salan farið fram samkvæmt ákvæðum 12. gr. laga nr. 50/1988. Í kaupsamningnum kæmi einnig fram að engar aðrar eignir tilheyrandi rekstri kæranda, svo sem lausafé og innréttingar, útistandandi viðskiptaskuldir o.s.frv., fylgdu hinu selda. Aftur á móti væri í kaupsamningnum ákvæði um full afnot kaupanda af lausafé og innréttingum, sem tengdust rekstrinum, þar til kaupandi kysi að flytja rekstur sinn í nýtt húsnæði. Ótímabundinn afnotaréttur af lausafé og innréttingum hefði þannig verið innifalinn í kaupunum og kæmi innskattsleiðrétting því ekki til álita fyrr en þessu ákvæði hefði verið fullnægt. Þá hefði kærandi einnig selt fasteign sína að Z-götu, og væri virðisaukaskattsskyld starfsemi hjá kæranda ekki fyrirséð í næstu framtíð. Með bréfi umboðsmannsins fylgdi fyrningarskýrsla ársins 2003.

Með bréfi, dags. 12. október 2004, beindi skattstjóri því til kæranda að gera grein fyrir áætluðu, sundurliðuðu söluverðmæti óseldra eigna, þ.e. vörubirgða, véla, tækja og annarra rekstrarfjármuna, við lok starfsemi kæranda hinn 12. nóvember 2003. Vísaði skattstjóri í þessu sambandi til ákvæða 1. og 2. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 515/1996, um skráningu virðisaukaskattsskyldra aðila, um að telja skyldi vörubirgðir, vélar, tæki og aðra rekstrarfjármuni til skattsskyldrar veltu á því uppgjörstímabili sem starfsemi lyki, sbr. 3. mgr. 11. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, tilkynnti aðili sig út af skrá eða væri tekinn af skrá á grundvelli úrskurðar skattstjóra. Þá óskaði skattstjóri eftir því að gerð yrði grein fyrir leiðréttingarskyldum innskatti vegna fasteigna kæranda við lok skattskyldrar starfsemi, sbr. IV. kafla reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt.

Umboðsmaður kæranda greindi frá því með bréfi, dags. 22. október 2004, að söluverð rekstrarins og tilheyrandi hefði numið 17 milljónum króna og söluverð vörulagers samkvæmt vörutalningu 12. nóvember 2003 hefði numið 3.984.673 kr., sbr. rekstrarreikning kæranda fyrir árið 2003. Það lausafé sem ekki hefði verið selt væri eignfært í efnahagsreikningi kæranda sem fylgt hefði skattframtali félagsins árið 2004, sem og eignaskrá. Um væri að ræða innréttingar, verslunaráhöld og önnur áhöld samtals á bókfærðu verði 1.239.819 kr. Þetta lausafé væri samkvæmt kaupsamningi til afnota fyrir kaupanda um óákveðinn tíma. Það væri sérhannað fyrir verslunarrýmið og missti því verðgildi sitt að mestu þegar afnotatíma lyki. Þá væri um að ræða tölvubúnað sem væri úreltur og hefði átt að afskrifa að fullu í síðasta uppgjöri. Loks væri um að ræða bifreiðina Y af gerðinni VW Transporter. Bókfært verð hennar væri 567.907 kr. Fasteignin Z-gata, sem kærandi hefði selt, væri gömul fasteign sem væri undanþegin virðisaukaskatti, sbr. 2. gr. laga nr. 50/1988. Með bréfi umboðsmannsins fylgdi yfirlit vörutalningar í verslun kæranda þann 12. nóvember 2003.

Með bréfi, dags. 16. desember 2004, boðaði skattstjóri með vísan til 2. mgr. 8. gr. og 1. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 515/1996, sbr. 3. mgr. 11. gr. laga nr. 50/1988, að kærandi yrði úrskurðaður af virðisaukaskattsskrá frá og með 13. nóvember 2003 og að skattstjóri hygðist áætla hækkun skattskyldrar veltu og útskatts vegna óseldra rekstrarfjármuna við lok skattskyldrar starfsemi. Að því er varðaði lausar innréttingar, verslunaráhöld og önnur áhöld kvað skattstjóri ekki virðast vera um leigugreiðslur að ræða á milli kæranda og þeirra sem notuðu eignirnar. Ekkert mat á verðgildi eignanna virtist hafa farið fram af kæranda eða hlutlausum aðila. Því virtist eðlilegast að miða við bókfært verð þeirra en þó ríflega, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 50/1988 þar sem kveðið væri á um að áætlun skyldi vera svo rífleg að eigi væri hætt við að skattfjárhæð væri áætluð lægri en hún væri í raun og veru. Í tilfelli kæranda virtist eðlilegt að miða við skattskylda veltu 2.000.000 kr. Að því er varðaði bifreið kæranda, Volkswagen Transporter Panel Van, árgerð 1999, tók skattstjóri fram að samkvæmt upplýsingum innflytjanda bifreiðarinnar, Heklu hf., væri líklegt að söluverð bifreiðarinnar næmi um 1.000.000 kr. að meðtöldum virðisaukaskatti. Á þessum grundvelli boðaði skattstjóri kæranda endurákvörðun virðisaukaskatts uppgjörstímabilið nóvember-desember 2003 vegna hækkunar skattskyldrar veltu um 2.803.200 kr. og útskatts um 686.800 kr. auk 10% álags á vangreiddan virðisaukaskatt, sbr. 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988. Þá boðaði skattstjóri ákvörðun leiðréttingarskylds innskatts vegna fasteignar kæranda.

Umboðsmaður kæranda mótmælti boðuðum breytingum með bréfi, dags. 29. desember 2004. Vísaði umboðsmaðurinn til 1. tölul. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt, og gerði grein fyrir leiðréttingarskyldu vegna lausafjármuna kæranda með útreikningi, er samkvæmt þeirri niðurstöðu nam leiðréttingarfjárhæð (lækkun innskatts) vegna innréttinga og áhalda 100.061 kr. og vegna bifreiðar 194.579 kr. Þá var boðaðri álagsbeitingu skattstjóra einnig mótmælt.

Í framhaldi af þessu tilkynnti skattstjóri kæranda hinn 4. janúar 2005 að hann hefði fellt kæranda af virðisaukaskattsskrá frá og með 13. nóvember 2003 og ákveðið hækkun á skattskyldri veltu uppgjörstímabilið nóvember-desember 2003 um áætlaða fjárhæð 2.803.200 kr. og hækkað virðisaukaskatt samkvæmt því um 686.800 kr. auk 10% álags, sbr. 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988, í samræmi við boðaðar breytingar. Skattstjóri tók fram að ráða mætti af bréfi umboðsmanns kæranda, dags. 29. desember 2004, að kærandi teldi að 1. tölul. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 192/1993 gilti um meðferð innréttinga kæranda, verslunaráhalda, önnur áhöld og bifreiðar við lok skattskyldrar starfsemi kæranda, enda væri engin grein gerð fyrir áætluðu söluverðmæti eignanna en útreikningur framkvæmdur á fengnum innskattsfrádrætti eins og um leiðréttingu á innskattsfrádrætti væri að ræða. Samkvæmt 1. tölul. 2. mgr. 13. gr. reglugerðar nr. 192/1993 félli leiðréttingarskylda niður þegar sala eða afhending rekstrarfjármuna teldist til skattskyldra tekna skattaðila, sbr. 3. mgr. 11. gr. laga nr. 50/1988 og 11. gr. reglugerðar nr. 192/1993, en 3. mgr. 11. gr. laga nr. 50/1988 ætti við um meðferð ofangreindra eigna eins og áður hefði komið fram í bréfum skattstjóra. Að öðru leyti færði skattstjóri sömu rök fyrir breytingum sínum og fram höfðu komið í boðunarbréfi, dags. 16. desember 2004. Boðuð lækkun innskatts kom ekki til framkvæmda af hálfu skattstjóra.

Umboðsmaður kæranda mótmælti endurákvörðun skattstjóra með kæru, dags. 26. janúar 2004 (misritað fyrir 2005). Kvaðst hann ekki fallast á að 3. mgr. 11. gr. laga nr. 50/1988 og 11. gr. reglugerðar nr. 192/1993 ætti við í tilviki kæranda þar sem ákvæðin tækju einungis til eigna sem raunverulega hefðu verið seldar en ekki til eigna sem viðkomandi ætti eftir sölu. Þá mótmælti umboðsmaðurinn forsendum skattstjóra um ríflega áætlun. Þær eignir sem skattstjóri vísaði til og teldi vanmetnar hefðu verið bókfærðar samkvæmt bókhalds- og skattalögum og eignfærðar í efnahagsreikningum kæranda. Skattstjóri hefði ekki gert neinar athugasemdir við eignfærslu þeirra í skattframtölum kæranda og hefði því enga ástæðu til að beita ákvæðum 2. mgr. 25. gr. laga nr. 50/1988. Krafðist umboðsmaðurinn þess að útreikningur kæranda, sbr. bréf, dags. 29. desember 2004, á leiðréttingarskyldum innskatti vegna áhalda og bifreiðar yrði tekinn gildur. Eins og fram hefði komið hefðu innréttingarnar og áhöld verið sérhannaðar fyrir hið selda verslunarrými og auk þess háð kvöðum í kaupsamningi. Ljóst væri að þessar eignir væru algjörlega verðlausar og hefðu átt að gjaldfærast á árinu 2003.

Með kæruúrskurði, dags. 28. janúar 2005, hafnaði skattstjóri kröfu kæranda. Kvað skattstjóri kæranda ekki hafa lagt fram neitt yfirlit varðandi söluverðmæti nefndra eigna og ekki gert neina tilraun til þess að fá slíkt verðmæti fram, t.d. með því að fá utanaðkomandi matsaðila til að verðleggja eignirnar. Einungis hefði verið lagt fram bókfært verð þeirra samkvæmt framtali. Þar sem upplýsingar um söluverðmæti hefðu ekki verið lagðar fram hefði skattstjóri talið að eina leiðin væri að áætla verðmæti eignanna samkvæmt þeim forsendum sem áður hefði verið gerð grein fyrir. Haft hefði verið samband við umboðssöluaðila bifreiða af viðkomandi gerð og þar hefði fengist uppgefið áætlað söluverð slíkrar bifreiðar. Áætlað verðmæti annarra eigna hefði verið byggt á bókfærðu verði þeirra en þó ríflega þannig að verðmæti þeirra væri ekki áætlað of lágt, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 50/1988. Kæranda hefði verið í lófa lagið að leggja fram rökstuddar upplýsingar um annað söluverðmæti eignanna, en engar slíkar upplýsingar hefðu borist skattstjóra. Skattstjóri teldi að 3. mgr. 11. gr. laga nr. 50/1988, sbr. 1. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 515/1996, ætti við um meðferð óseldra eigna kæranda, þ.e. innréttinga, verslunaráhalda, áhalda og bifreiðar, við lok skattskyldrar starfsemi félagsins. Jafnframt ætti að telja þessar eignir til skattskyldrar veltu á söluverði þeirra og hefði skattstjóri áætlað söluverðmæti þeirra út frá ákveðnum forsendum þar sem aðrar upplýsingar hefðu ekki verið lagðar fram af kæranda þrátt fyrir ítrekaðar óskir skattstjóra þar um. Ákvæði 1. tölul. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 192/1993 ætti því ekki við í tilviki kæranda.

III.

Í kæru til yfirskattanefndar, dags. 15. apríl 2005, gerir umboðsmaður kæranda grein fyrir málavöxtum og rekur rökstuðning skattstjóra og kæranda sem fram hafi komið í málinu. Vitnar umboðsmaðurinn til forsendna skattstjóra fyrir hárri áætlun, sem séu þær að kærandi hafi ekki sent skattstjóra rökstudda áætlun um söluverð óseldra eigna, og tekur fram að verslunarstjóri kæranda hafi leitað til söluaðila áhaldanna og beðið þá um áætlað söluverðmæti þeirra. Svör söluaðila hafi verið þau að slík notuð tæki væru með öllu óseljanleg og því verðlaus, en greindir aðilar hafi ekki fengist til að senda skriflega staðfestingu til skattstjóra um þetta. Þá hafi mat bílasala í sölu notaðra bifreiða verið lægra en það mat sem skattstjóri tilgreini eða mjög svipað og nam bókfærðu verði bifreiðarinnar eða 550.000 kr. Að því er snerti innréttingarnar felist verðmat þeirra í sölusamningnum þar sem kaupandinn hafi hvorki viljað kaupa þær né greiða fyrir þær leigu. Kærandi hafi heldur ekki talið ástæðu til að senda söluáætlun yfir eignir sem ekki hafi verið seldar og ekki átt að selja þrátt fyrir breyttar forsendur, enda hafi þær verið óseljanlegar. Kærandi mótmæli því úrskurði skattstjóra og krefjist þess að áætlun skattstjóra verði felld niður, en til vara að áætluð hækkun skattskyldrar veltu verði ákvörðuð 1.202.620 kr. og útskattur 294.640 kr. uppgjörstímabilið nóvember-desember 2003.

IV.

Með bréfi, dags. 22. júlí 2005, hefur ríkisskattstjóri gert þá kröfu í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.

V.

Samkvæmt því sem fram kom af hálfu umboðsmanns kæranda í bréfi til skattstjóra, dags. 7. október 2004, seldi félagið X ehf. allan verslunarrekstur sinn ásamt viðskiptavild, vörumerkjum og vörulager þann 12. nóvember 2003, svo og seldi kærandi sama aðila fasteign sína. Fram kom að samkvæmt kaupsamningi vegna þessara viðskipta hefðu aðrar eignir tilheyrandi rekstri kæranda, svo sem lausafé og innréttingar, ekki fylgt með í kaupunum heldur hefði kaupandinn full afnot af þessum eignum þar til sá aðili kysi að flytja rekstur sinn í nýtt húsnæði. Þá kom fram í bréfinu að ekki væri fyrirsjáanleg virðisaukaskattsskyld starfsemi hjá kæranda í næstu framtíð. Að undangengnum frekari bréfaskiptum felldi skattstjóri kæranda af skrá yfir virðisaukaskattsskylda aðila með vísan til 8. gr. reglugerðar nr. 515/1996, um skráningu virðisaukaskattsskyldra aðila, sbr. tilkynningu skattstjóra, dags. 4. janúar 2005, sem hann staðfesti með hinum kærða úrskurði, dags. 28. janúar 2005, og áætlaði kæranda virðisaukaskattsskylda veltu uppgjörstímabilið nóvember-desember 2003 á þeim grundvelli að telja bæri innréttingar, verslunaráhöld og önnur áhöld og bifreið til skattskyldrar veltu á því uppgjörstímabili er starfsemi lýkur, sbr. 3. mgr. 11. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, en kærandi hefði enga grein gert fyrir verðmæti þessara eigna. Ákvarðaði skattstjóri virðisaukaskattsskylda veltu 2.000.000 kr. vegna innréttinga, verslunaráhalda og annarra áhalda og 803.200 kr. vegna bifreiðar. Ekki er ágreiningur um þann þátt úrskurðar skattstjóra sem lýtur að afskráningu kæranda. Hins vegar telur kærandi að við þær aðstæður sem í málinu greinir eigi við ákvæði um leiðréttingu innskatts, sbr. IV. kafla reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt, og gerir kærandi þá aðalkröfu að umrædd hækkun skattskyldrar veltu um samtals 2.803.200 kr. verði felld niður. Kemur fram að kærandi telji að þess í stað beri að leiðrétta innskatt félagsins til lækkunar um 294.640 kr. vegna hinna óseldu eigna við lok rekstrar. Til vara er gerð sú krafa að hækkun virðisaukaskattsskyldrar veltu kæranda uppgjörstímabilið nóvember-desember 2003 verði ákvörðuð 1.202.620 kr. Verður að skilja kröfugerðina svo að sú fjárhæð feli í sér mat kæranda á verðmæti þeirra eigna sem hér um ræðir.

Samkvæmt 3. mgr. 11. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, telst sala eða afhending á vélum, tækjum og öðrum rekstrarfjármunum til skattskyldrar veltu. Sama gildir um vörubirgðir, vélar, tæki og aðra rekstrarfjármuni þegar fyrirtæki tilkynnir sig út af skrá. Tekið er fram í 1. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 515/1996, um skráningu virðisaukaskattsskyldra aðila, að tilkynni aðili sig út af skrá eða sé hann tekinn af skrá á grundvelli úrskurðar skattstjóra skuli telja vörubirgðir, vélar, tæki og aðra rekstrarfjármuni til skattskyldrar veltu á því uppgjörstímabili er starfsemi lýkur, sbr. 3. mgr. 11. gr. laga nr. 50/1988. Telja verður að ákvæði þessi gangi framar reglum um leiðréttingu innskatts í IV. kafla (12. til 16. gr.) reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt, sem skírskotað er til af hálfu kæranda, enda er kveðið á um það í 1. tölul. 2. mgr. 13. gr. greindrar reglugerðar að þegar sala eða afhending rekstrarfjármuna teljist til skattskyldrar veltu skattaðila, sbr. 3. mgr. 11. gr. laga nr. 50/1988 og 11. gr. reglugerðarinnar, falli skylda til leiðréttingar innskatts niður.

Samkvæmt þessu verður að taka undir það með skattstjóra að kæranda hafi borið að telja innréttingar, áhöld og bifreið, sem í máli þessu greinir, til skattskyldrar veltu uppgjörstímabilið nóvember-desember 2003, en fyrir liggur og er óumdeilt að afskráning kæranda miðaðist við lok þess uppgjörstímabils. Aðalkröfu kæranda er því hafnað.

Kemur þá til athugunar það skattverð sem skattstjóri ákvarðaði. Samkvæmt ákvæðum 8. gr. laga nr. 50/1988, þar sem fjallað er um ákvörðun skattverðs við annars konar afhendingu en sölu, er meginregla að miða skuli skattverð við almennt gangverð án virðisaukaskatts. Eins og fyrr segir ákvarðaði skattstjóri viðbótarveltu vegna innréttinga, áhalda og bifreiðar samtals 2.803.200 kr.

Fram er komið að innréttingar og áhöld, sem um ræðir í málinu, fylgdu ekki með við sölu kæranda á verslunarrekstri sínum, þ.m.t vörubirgðum og verslunarhúsnæði, þann 12. nóvember 2003. Innréttingar þessar og áhöld voru hins vegar enn til staðar í verslunarhúsnæði því sem kærandi seldi og notuð af kaupandanum án endurgjalds í ótilgreindan tíma. Af hálfu kæranda kom fram í bréfi til skattstjóra, dags. 22. október 2004, að umræddar innréttingar og verslunaráhöld væri lausafé sem sérhannað hefði verið fyrir verslunarrými kæranda og missti því verðgildi sitt að mestu þegar afnotatíma þess lyki. Í kæru til skattstjóra frá 26. janúar 2005 var þetta ítrekað og tekið fram að ljóst væri að eignir þessar væru algjörlega verðlausar og hefðu átt að færast til gjalda rekstrarárið 2003. Í kæru til yfirskattanefndar er vísað til þess að samkvæmt því sem upplýst hefði verið hjá söluaðilum verslunaráhaldanna séu slík notuð áhöld óseljanleg og verðlaus, en ekki hafi þó reynst unnt að afla skriflegrar staðfestingar á þessu. Skattstjóri ákvarðaði skattskylda veltu kæranda 2.000.000 kr. vegna innréttinga og áhalda og er komið fram af hálfu skattstjóra, sbr. m.a. boðunarbréf, dags. 16. desember 2004, að í því sambandi hafi verið litið til bókfærðs verðs eignanna og ákvæðis um ríflegar áætlanir í 2. mgr. 25. gr. laga nr. 50/1988. Bókfært verð eignanna nam 1.239.819 kr. og hefur skattstjóri því miðað við tæplega 62% hærra verð en bókfært verð. Miðað við lýsingu kæranda á greindum eignum og verðgildi þeirra þykir sýnt að þetta mat skattstjóra hafi verið langt um skör fram.

Að því er varðar VW Transporter bifreið kæranda hefur skattstjóri miðað við að skattverð næmi 803.200 kr., þ.e. að gangverð næmi 1.000.000 kr. að meðtöldum virðisaukaskatti, og kom fram að í þessu sambandi byggði skattstjóri á upplýsingum frá söluaðila bifreiða af þessari tegund. Bókfært verð bifreiðarinnar nam 576.907 kr. og er áætlun skattstjóra því tæplega 40% hærri en bókfærða verðið. Ljóst er að markaðsverðmæti notaðra bifreiða er háð mörgum óvissuþáttum. Er því brýnt þegar til mats á slíku verðmæti kemur að byggt sé á upplýsingum frá viðkomandi aðila og/eða frá þriðja aðila eftir atvikum sem þá taki mið af eiginleikum og ástandi viðkomandi bifreiðar. Engin slík gögn liggja fyrir í málinu, enda nýtur eingöngu frásagnar skattstjóra um upplýsingaöflun hans. Samkvæmt þessu verður ekki talið að skattstjóri hafi skotið viðhlítandi stoðum undir það matsverð sem hann ákvarðaði samkvæmt framansögðu.

Samkvæmt framansögðu þykir vera tilefni til að lækka fjárhæð skattskyldrar veltu samkvæmt ákvörðun skattstjóra. Af hálfu kæranda hefur ekki verið lögð fram rökstudd greinargerð um verðmæti greindra eigna eða önnur gögn sem þýðingu gætu haft við mat á verðgildi þeirra, sbr. það sem rakið er að framan í þeim efnum, en slegið fram sem varakröfu hækkun skattskyldrar veltu um 1.202.620 kr. og verður sem fyrr segir að líta svo á að kærandi telji að sú fjárhæð svari til gangverðs umræddra eigna. Greinilegt er að fjárhæð virðisaukaskatts samkvæmt varakröfu tekur mið af útreikningi kæranda á leiðréttingarfjárhæð innskatts, sbr. aðalkröfu, og byggir því vart á sjálfstæðu mati á verðmæti þeirra eigna sem um ræðir. Að þessu virtu þykir kærandi ekki hafa fært viðhlítandi töluleg rök fyrir varakröfu sinni. Svo sem málið liggur fyrir þykir nærtækast að ákvarða skattskylda veltu með hliðsjón af bókfærðu verði greindra eigna í ársreikningi kæranda fyrir árið 2003 en þó taka nokkurt tillit til skýringa kæranda um ástand innréttinga. Samkvæmt þessu er áætlun skattstjóra um viðbótarveltu í 24,5% skattþrepi uppgjörstímabilið nóvember-desember 2003 lækkuð úr 2.803.200 kr. í 1.500.000 kr.

Af hálfu kæranda eru ekki gerðar sérstakar athugasemdir í kæru til yfirskattanefndar vegna ákvörðunar skattstjóra um að bæta 10% álagi við hækkun virðisaukaskatts. Álagsbeitingu var hins vegar mótmælt á skattstjórastigi. Í 1. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988 er boðið að skattskyldur aðili, sem ekki greiðir virðisaukaskatt á tilskildum tíma, skuli sæta álagi til viðbótar skatti samkvæmt virðisaukaskattsskýrslu eða til viðbótar þeim skatti sem honum bar að standa skil á, sbr. 19. gr. laganna. Samkvæmt 6. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988 má fella niður álag ef aðili færir gildar ástæður sér til málsbóta og geta skattyfirvöld metið það í hverju tilviki hvað telja skuli gildar ástæður í þessu sambandi. Fyrir liggur að lagaskilyrði voru til beitingar álags samkvæmt 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988 og þykja ekki fram komnar slíkar málsbætur af hálfu kæranda að fella beri á þeim grundvelli niður álag samkvæmt heimildarákvæðum 6. mgr. sömu lagagreinar. Verður álagsbeiting skattstjóra því látin standa óhögguð.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Viðbótarvelta í 24,5% skattþrepi uppgjörstímabilið nóvember-desember 2003 lækkar úr 2.803.200 kr. í 1.500.000 kr. Að öðru leyti er kröfum kæranda hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja