Úrskurður yfirskattanefndar

  • Styrkur
  • Beinn kostnaður
  • Eignakaup
  • Álag

Úrskurður nr. 92/1997

Gjaldár 1994

Lög nr. 75/1981, 7. gr. A-liður 2. tölul., 30. gr. 2. mgr., 106. gr. 2. mgr.  

Kærandi krafðist þess að kaupverð tölvu yrði heimilað til frádráttar á móti fengnum styrk frá stéttarfélagi. Upplýst var að styrkurinn hafði verið greiddur út að fengnum gögnum um útlagðan kostnað. Yfirskattanefnd tók fram að um frádrátt kostnaðar á móti styrkjum giltu ákvæði um rekstrarkostnað eftir því sem við ætti, þó ekki ákvæði um vexti af skuldum, afföll, gengistöp og fyrningu eigna. Af síðastnefndu atriði leiddi að full gjaldfærsla eigna eða eignasamstæðna undir tilteknu kostnaðarverði væri ekki heimil á móti tekjum af þessu tagi. Væri því óheimilt að færa útgjöld vegna öflunar eigna til frádráttar á móti styrknum. Fallist var á niðurfellingu álags, enda hefði kærandi getið styrksins í athugasemdadálki skattframtals síns.

I.

Málavextir eru þeir að í athugasemdadálki á skattframtali sínu árið 1994 gat kærandi um styrk frá stéttarfélaginu X að fjárhæð 110.000 kr. til endurgreiðslu á útlögðum kostnaði vegna þjálfunar og endurmenntunar. Með bréfi, dags. 12. júlí 1995, gaf skattstjóri kæranda kost á að gera grein fyrir styrkfjárhæðinni, kostnaði og leggja fram gögn varðandi frádrátt á móti umræddum styrk. Skattstjóri tilkynnti kæranda að ef um vantaldar tekjur væri að ræða þá væri fyrirhugað að skattleggja þær að viðbættu 25% álagi, sbr. 96. gr. og 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Skattstjóri óskaði eftir skriflegu svari kæranda innan 12 daga frá dagsetningu bréfsins. Tók skattstjóri fram að styrkir væru skattskyldar tekjur skv. 2. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, en um kostnað á móti samskonar tekjum færi eftir 2. mgr. 30. gr. sömu laga.

Með bréfi, dags. 12. febrúar 1996, færði skattstjóri kæranda umræddan styrk til tekna og bætti 25% álagi á hækkun skattstofna sem af því leiddi, sbr. heimild í 2. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981. Skattstjóri vísaði til fyrra bréfs síns til kæranda og þess að ekki hefðu verið gerðar athugasemdir við það.

Með bréfi, dags. 22. febrúar 1996, kærði umboðsmaður kæranda endurákvörðun skattstjóra og óskaði eftir því að nefnd tekjuviðbót yrði felld niður. Þau rök voru færð fyrir kærunni að styrkurinn hefði verið endurgreiðsla á útlögðum kostnaði vegna öflunar tækja til að vinna að þjálfun og endurmenntun. Styrkir þessir voru ekki veittir nema lögð væru fram gögn sem sýndu fram á útlagðan kostnað. Kærandi hefði keypt tölvu að fjárhæð 105.900 kr. og hefði styrkurinn verið veittur út á tölvukaupin. Reikningur fyrir tölvukaupunum fylgdi kæru. Þá tók umboðsmaður kæranda fram að kærandi hefði sótt tölvunámskeið en hefði ekki kvittanir þar að lútandi. Mætti áætla að kostnaðurinn af slíku námskeiði næmi mismunatölu að fjárhæð 4.100 kr.

Með kæruúrskurði, dags. 18. apríl 1996, hafnaði skattstjóri kröfum kæranda með þeim rökum að umræddur styrkur væri ótvírætt skattskyldur samkvæmt 2. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981. Styrkurinn hefði farið til kaupa ákveðinnar eignar sem kærandi hefði bein eignarráð yfir og væri þannig til ákveðinnar eignamyndunnar og þeirra nota sem hún kysi. Ekki gæti það heldur skapað rétt til frádráttar að téð eign væri notuð til sjálfsnáms eða eigin þróunarverkefna. Skattstjóri taldi því ekki vera lagaskilyrði til frádráttar samkvæmt 2. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, þó svo að kostnaður væri umfram styrkfjárhæðina. Ekki hefðu verið lögð fram önnur kostnaðargögn en kvittun vegna tölvukaupa, sem sýnt gætu fram á frádráttarrétt á móti styrkfjárhæð.

Með kæru, dags. 15. maí 1996, er sú ákvörðun skattstjóra kærð til yfirskattanefndar, að hafna frádrætti á móti styrkveitingu sem sannanlega hafi verið veitt sem menntunarstyrkur gegn framvísun reiknings og notaður til slíks. Styrksins hafi verið getið í kafla 5, aðrar athugasemdir, á skattframtali 1994. Þessar upplýsingar hafi verið veittar á skattframtali og þegar skattstjóri hafi gert athugasemdir og breytingar sé óásættanlegt að bætt sé við 25% álagi. Aðalkrafa umboðsmanns kæranda er að tekjuviðbót skattstjóra verði felld niður en varakrafa að 25% álag á tekjuviðbót verði fellt niður.

Með bréfi, dags. 11. október 1996, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra."

II.

Í máli þessu þykir bera að miða við að nefndur styrkur frá X teljist kæranda til tekna skv. 2. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignaskatt. Fer því um frádrátt frá tekjunum eftir 2. mgr. 30. gr. sömu laga. Samkvæmt því ákvæði skulu ákvæði 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laganna, sem efni sínu samkvæmt eiga einungis við um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri, samt sem áður gilda um beinan kostnað við öflun annarra tekna en tekna samkvæmt 1. tölul. A-liðar 7. gr. laganna eftir því sem við á, þó ekki ákvæðin um vexti af skuldum, afföll, gengistöp og fyrningu eigna. Kemur fram að kostnaður þessi leyfist eingöngu til frádráttar sams konar tekjum og hann gekk til öflunar á, og má frádráttur hvers árs ekki nema hærri fjárhæð en sem nemur þeim tekjum sem hann leyfist til frádráttar. Það leiðir af ákvæðum 2. mgr. 30. gr., um að óheimilt sé að færa fyrningu eigna til frádráttar þar tilgreindum tekjum, að ákvæði 41. gr. laganna, um fulla gjaldfærslu eigna eða eignasamstæðna undir tilteknu kostnaðarverði, eiga ekki við vegna þeirra tekna sem 2. mgr. 30. gr. tekur til. Er því óheimilt að færa til frádráttar á móti þessum tekjum útgjöld vegna öflunar eigna. Ber af þessum sökum að hafna kröfum kæranda. Hið kærða álag er hins vegar fellt niður, enda gat kærandi styrksins í athugasemdadálki skattframtals ársins 1994.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja