Úrskurður yfirskattanefndar

  • Skattlagning eftirlifandi maka
  • Seta í óskiptu búi

Úrskurður nr. 77/1992

Gjaldár 1990

Lög nr. 75/1981, 81. gr. 2. mgr.   Lög nr. 8/1962, 9. gr. 4. mgr.  

I.

Málavextir eru þeir að í kæru til skattstjóra, dags. 28. ágúst 1990, krafðist umboðsmaður kæranda lækkunar á eignarskatti á þeim forsendum að kærandi hefði setið í óskiptu búi frá árinu 1988, sbr. 2. mgr. 81. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Boðað var að staðfesting fyrir búsetunni yrði send innan tíðar. Með kæruúrskurði, dags. 14. janúar 1991, synjaði skattstjóri kröfu kæranda á þeim forsendum að búsetuleyfi hefði ekki borist þrátt fyrir það að sending þess hafi verið boðuð.

Af hálfu umboðsmanns var kæruúrskurði skattstjóra skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 12. febrúar 1991. Er ítrekuð krafan um tilhögun eignarskattsálagningar. Kemur fram af hálfu umboðsmannsins að skattstjóra hafi verið myndsend erfðaskrá er meðal annars hefur að geyma búsetuheimild samkvæmt 4. mgr. 9. gr. erfðalaga nr. 8/1962, sbr. 1. gr. laga nr. 29/1985, um breytingu á þeim lögum, en hann ekki talið gerning þennan nægjanlega sönnun fyrir setu í óskiptu búi og bæri því að leggja fram búsetuleyfi útgefið af skiptaráðanda. Ekki hafi tekist að útvega búsetuleyfið áður en skattstjóri kvað upp úrskurð sinn. Með kærunni fylgdi ljósrit umræddrar erfðaskrár, sem gerð var 2. október 1986, og ljósrit búsetuleyfis er útgefið var af skiptaráðandanum í X-sýslu hinn 12. febrúar 1991.

Með bréfi, dags. 7. júní 1991, hefur ríkisskattstjóri fallist á kröfu kæranda í máli þessu.

II.

Yfirskattanefnd úrskurðar í máli þessu, sbr. 23. gr. laga nr. 30/1992.

Með skírskotun til framlagðra gagna um setu kæranda í óskiptu búi og með vísan til kröfugerðar ríkisskattstjóra í málinu er fallist á kröfu kæranda.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Krafa kæranda er tekin til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja