Úrskurður yfirskattanefndar

  • Fjárfesting í atvinnurekstri
  • Málsmeðferð áfátt

Úrskurður nr. 154/1992

Gjaldár 1990

Lög nr. 75/1981, 95. gr. 1. mgr., 96. gr. 1. og 3. mgr.   Lög nr. 9/1984, 2. gr.  

I.

Skattframtali kæranda árið 1990 fylgdi rekstrar- og efnahagsreikningur vegna sjálfstæðrar starfsemi hans á árinu 1989. Með bréfi, dags. 27. júlí 1990, tilkynnti skattstjóri kæranda, með vísan til 1. mgr. 95. gr. laga nr. 75/1981, að gerðar hefðu verið breytingar á framtali hans við álagningu opinberra gjalda 1990. Þar voru m.a. gjaldaliðirnir „Ljós og hiti“ 16.234 kr. og "Risna" 13.990 kr. felldir niður, þar eð gjaldaliðir þessir teldust ekki gjöld til öflunar tekna í viðkomandi atvinnurekstri, skv. 31. gr. laga nr. 75/1981. Jafnframt var bifreiðakostnaður lækkaður úr 84.846 kr. í 20.000 kr.

Með bréfi, dags. 14. ágúst 1990, mótmælti kærandi breytingum skattstjóra samkvæmt framangreindu bréfi. Einnig taldi hann að ekki hefði verið tekið tillit til greinargerðar um frádrátt vegna fjárfestingar í atvinnurekstri (RSK 3.10), sem fylgt hefði framtali sínu. Þar hefði verið farið fram á frádrátt að upphæð 230.790 kr.

Með úrskurði, dags. 18. febrúar 1991, féllst skattstjóri á frádrátt vegna ljóss og hita 5.000 kr., en synjaði kröfu kæranda um frádrátt vegna risnu og um breytingar á bifreiðakostnaði. Varðandi frádrátt vegna fjárfestingar í atvinnurekstri segir í úrskurði skattstjóra: „Til frádráttar tekjum færast kr. 224.390 vegna fjárfestingar í atvinnurekstri, en söluverð seldra hlutabréfa dregst frá kaupverði nýrra hlutabréfa, sbr. ákvæði laga nr. 9/1984.“

II.

Með bréfi, dags. 6. mars 1991, hefur kærandi skotið úrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar. Þar gerir hann grein fyrir framangreindum kostnaðarliðum og fer fram á að gjaldaliðirnir verði teknir til greina samkvæmt rekstrarreikningi þeim sem fylgdi framtali. Í bréfi kæranda segir um kæruefni vegna fjárfestingar í atvinnurekstri: „...Nú hefur hann verið tekinn til greina að því undanskildu þó, að Skattstofan hefur dregið hér frá kr. 6.400, sem ég tók fram á skýrslu minni, að voru fyrir hlutabréf í X hf., sem ég "neyddist" til að selja til Y, þar sem það félag var orðið eigandi X hf. og síðarnefnda félagið ekki lengur til. Hér hygg ég, að Skattstofunni hafi orðið á smámistök, því að óheimilt mun vera að draga ofangreinda fjárhæð frá hlutabréfakaupum mínum. Nægir hér að vísa til B-liðar í Skýringum með fjárfestingu í atvinnurekstri. Þar segir skýrum stöfum undir 1. gr. að slík lækkun við sölu hlutabréfa gildi einungis um kaup, sem gerast frá og með árinu 1984. Ég var hins vegar af hugsjón einn af stofnendum X hf. á sínum tíma (1956?) og hafði átt hlutabréf í félaginu frá upphafi. Þess vegna tel ég fráleitt að draga þetta söluverð til Y frá téðum lið. Ég vænti því þess, að ríkisskattanefnd leiðrétti þennan lið.“

III.

Með bréfi, dags. 17. október 1991, hefur ríkisskattstjóri gert svofelldar kröfur og athugasemdir f.h. gjaldkrefjenda:

„Samkvæmt 2. tölulið D-liðar skýringa með greinargerð um frádrátt vegna fjárfestingar manna í atvinnurekstri skv. lögum nr. 9/1984 RSK 3.10, ber að draga söluverð hlutabréfa kæranda í X h/f frá verðmæti hlutabréfa sem kærandi keypti á árinu, til þess að finna réttan frádrátt vegna fjárfestingar í atvinnurekstri. Með vísan til þessa, og að öðru leyti til forsendna hins kærða úrskurðar er þess krafist, að hann verði staðfestur.“

IV.

Yfirskattanefnd úrskurðar í máli þessu, sbr. 23. gr. laga nr. 30/1992.

Kæra þessi er tvíþætt. Annars vegar varðar hún breytingar þær sem skattstjóri gerði á framtali kæranda og tilkynnti honum með bréfi, dags. 27. júlí 1990, og hins vegar frádrátt vegna fjárfestingar kæranda í atvinnurekstri.

Skattstjóri fór með hinar kærðu breytingar eftir ákvæðum 3. ml. 1. mgr. 95. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, en ekki eftir ákvæðum 1. og 3. mgr. 96. gr. sömu laga. Að svo vöxnu verður að hnekkja breytingunum, enda verður ekki talið að óyggjandi upplýsingar hafi legið fyrir skattstjóra þannig að hann mætti fara með þær eftir fyrrnefnda lagaákvæðinu.

Í lögum nr. 9/1984, með síðari breytingum, er fjallað um frádrátt frá skattskyldum tekjum vegna fjárfestingar manna í atvinnurekstri. Í 2. gr. laganna segir m.a.: „Frádráttur samkvæmt lögum þessum skal nema aukningu á fjárfestingu í atvinnurekstri eins og nánar er kveðið á um í þessari grein.“ Samkvæmt nefndri lagagrein skal við ákvörðun frádráttar samkvæmt lögunum draga frá heildarfjárfestingu, sem uppfyllir skilyrði laganna, söluverð seldra hlutabréfa. Ekki verður séð af ákvæðum laganna að eignarhaldstími seldra bréfa skipti máli. Þessum lið kærunnar er því synjað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Breytingar skattstjóra á gjaldaliðunum „ljós og hiti“, „bifreiðakostnaður“ og „risna“ eru felldar úr gildi. Ákvörðun skattstjóra varðandi fjárfestingu í atvinnurekstri er staðfest.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja