Úrskurður yfirskattanefndar

  • Valdsvið yfirskattanefndar

Úrskurður nr. 267/1992

Virðisaukaskattur 1990

Lög nr. 50/1988, 29. gr.   Lög nr. 30/1992, 2. gr.   Reglugerð nr. 449/1990  

I.

Umboðsmaður kæranda hefur með kæru, dags. 18. júlí 1990, skotið til ríkisskattanefndar endurákvörðun skattstjóra á virðisaukaskatti fyrir uppgjörstímabilin janúar-febrúar og mars-apríl 1990, sbr. tilkynningu skattstjóra um endurákvörðun, dags. 11. mars 1990, og kæruúrskurð, dags. 4. júlí 1991. Kærandi hefur með höndum byggingarstarfsemi fyrir eigin reikning.

Samkvæmt tilkynningu skattstjóra, sem send var kæranda að undangengnum bréfaskiptum, byggði hann endurákvörðun sína á athugun á innsendum bókhaldsgögnum kæranda fyrir árið 1990. Hafi komið í ljós að fjárhæðum samkvæmt bókhaldi bar ekki saman við virðisaukaskattsskýrslur. Var niðurstaða skattstjóra að kærandi hefði offært innskatt að fjárhæð 199.995 kr. á skýrslu vegna janúar-febrúar 1990 þar sem hann hefði talið til innskatts virðisaukaskatt af vinnu manna á byggingarstað. Það væri óheimilt, sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 576/1989, um virðisaukaskatt af byggingarstarfsemi. Kærandi notfæri sér heimild til endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu á byggingarstað og sé þannig um tvöföldun á endurgreiðslu að ræða. Á sömu forsendum lækkaði skattstjóri innskatt vegna mars-apríl 1990 um 150.381 kr.

Samhliða framangreindri endurákvörðun tilkynnti skattstjóri um endurskoðaða afgreiðslu sína á endurgreiðslubeiðnum kæranda vegna vinnu manna á byggingarstað, sbr. reglugerð nr. 449/1990, um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði. Lækkaði skattstjóri endurgreiðslur vegna tímabilanna janúar-febrúar, maí-júní, júlí-ágúst og september-október 1990 á þeim forsendum að í ljós hefði komið að kærandi hefði fengið endurgreiddan virðisaukaskatt af akstri, tækjagjaldi og efni. Skattur vegna slíks kostnaðar félli ekki undir endurgreiðslureglurnar.

II.

Í greinargerð umboðsmanns kæranda til ríkisskattanefndar, dags. 30. ágúst 1991, kemur fram vegna uppgjörstímabilsins janúar-febrúar 1990 að um misskilning sé að ræða. Kannist kærandi ekki við að hafa fengið greiddar þær 199.995 kr. sem skattstjóri tilgreini. Hins vegar hafi hann fengið endurgreiddan virðisaukaskatt að fjárhæð 46.321 kr., sbr. útkeyrslu úr tölvukerfi tollstjóra. Gerir umboðsmaðurinn grein fyrir því að kærandi hafi sama dag afhent skattstjóra virðisaukaskattsskýrslu og beiðni um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu á byggingarstað. Var sú fjárhæð er kærandi átti að fá endurgreidda færð í innskattsreit á virðisaukaskattsskýrslu. Hafi kærandi verið í góðri trú um þetta atriði. Bendir umboðsmaðurinn á að leiðbeiningabæklingur ríkisskattstjóra um virðisaukaskatt af byggingarstarfsemi var ekki gefinn út fyrr en í mars 1990 og hafi kærandi ekki fengið hann í hendur fyrr en löngu síðar.

Vegna tímabilsins mars-apríl 1990 upplýsir umboðsmaðurinn að virðisaukaskattur samkvæmt beiðni um endurgreiðslu, þ.e. 150.381 kr., hafi á sama hátt og á fyrra tímabili verið færður í innskattsreit á virðisaukaskattsskýrslu. Hafi kærandi fengið þessa fjárhæð greidda ásamt verðbótum og sé hún því ofgreidd.

Þá gerir umboðsmaðurinn athugasemdir vegna breytinga skattstjóra á endurgreiðslubeiðnum (RSK 10.17) fyrir janúar-febrúar, maí-júní, júlí-ágúst og september-október 1990. Lúta þær í fyrsta lagi að því að skattstjóri hafi ekki áður en hann hratt breytingunum í framkvæmd gert kæranda grein fyrir því hvernig þær væru til komnar. Hafi kærandi því ekki getað tjáð sig um þær fyrirfram. Í öðru lagi gerir umboðsmaðurinn efnislegar athugasemdir við breytingar skattstjóra.

Með bréfi, dags. 29. júní 1992, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu fyrir hönd gjaldkrefjanda:

„Krafist er staðfestingar á úrskurði skattstjóra að því er varðar endurákvörðun virðisaukaskatts vegna uppgjörstímabilanna janúar-febrúar og mars-apríl 1990. Krafist er frávísunar kæru að því er varðar afgreiðslu skattstjóra á endurgreiðslubeiðni vegna vinnu manna á byggingarstað.

Eins og fram kemur í kæru og öðrum gögnum málsins færði kærandi virðisaukaskatt, sem hann hafði greitt eða reiknað vegna byggingar íbúðarhúsa, er hann virðist hafa haft í byggingu til leigu eða sölu, bæði sem innskatt á virðisaukaskattsskýrslur (janúar-febrúar kr. 199.995 og mars-apríl kr. 150.381) og á umsókn um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu manna á byggingarstað íbúðarhúsnæðis (RSK 10.17). Skilyrði þess að heimilt sé að telja virðisaukaskatt af aðföngum til innskatts er að hann varði sölu skráðs aðila á vörum og skattskyldri þjónustu, sbr. 1. mgr. 16. gr. virðisaukaskattslaga. Bæði sala og leiga fasteigna er utan skattskyldusviðs virðisaukaskattslaga og því var kæranda óheimilt að telja umræddan virðisaukaskatt til innskatts á virðisaukaskattsskýrslum.

Skattstjóri samþykkti umsóknir á ebl. RSK 10.17 um endurgreiðslu, sbr. meðf. útskrift úr tölvukerfi virðisaukaskatts. Öllum vangaveltum í kæru um að kærandi hafi verið í góðri trú um að færa fjárhæðir samkvæmt endurgreiðslubeiðnum einnig sem innskatt vegna þess að tiltekið leiðbeiningarit RSK hafi ekki komið út fyrr en í mars 1990 er vísað á bug sem staðlausum. Leiðbeiningarit þetta var aðgengilegt gjaldendum áður en kom að gjalddaga fyrir uppgjörstímabilið janúar-febrúar og þarf raunar varla slíkar leiðbeiningar til að segja mönnum að ekki sé unnt að færa hvers konar kröfur sem þeir kunna að eiga á hendur ríkissjóði í innskattsreit á virðisaukaskattsskýrslu.

Aðrir þættir kærunnar varða endurskoðun skattstjóra á afgreiðslu umsókna kæranda um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna byggingar íbúðarhúsnæðis til leigu eða sölu (RSK 10.17). Samkvæmt úrskurði ríkisskattanefndar nr. 498 frá 11. maí sl. fellur ágreiningur vegna endurgreiðslna þessara ekki undir kærumeðferð skv. 29. gr. virðisaukaskattslaga.“

III.

Yfirskattanefnd úrskurðar í máli þessu, sbr. 23. gr. laga nr. 30/1992.

Með vísan til þess sem fram kemur í forsendum skattstjóra fyrir endurákvörðun sinni, sbr. og kröfugerð ríkisskattstjóra, er úrskurður skattstjóra staðfestur um endurákvörðun hans á virðisaukaskatti kæranda uppgjörstímabilin janúar-febrúar og mars-apríl 1990.

Af hálfu ríkisskattstjóra er krafist frávísunar vegna þess þáttar kærunnar sem varðar endurgreiðslur virðisaukaskatts af vinnu manna á byggingarstað íbúðarhúsnæðis. Samkvæmt 1. mgr. 29. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum, geta þeir sem ekki vilja sætta sig við ákvörðun skattstjóra á virðisaukaskatti kært skattinn til hans innan þrjátíu daga frá því er skatturinn var ákveðinn. Skal skattstjóri kveða upp rökstuddan úrskurð um kæru og tilkynna hann í ábyrgðarbréfi innan þrjátíu daga frá lokum kærufrests. Í 2. og 3. mgr. lagagreinar þessarar var fjallað um heimildir til þess að skjóta úrskurðum skattstjóra til ríkisskattanefndar, sbr. nú lög nr. 30/1992, um yfirskattanefnd. Í úrskurði þeim sem ríkisskattstjóri getur í kröfugerð sinni tók ríkisskattanefnd undir sjónarmið ríkisskattstjóra um að slíkar endurgreiðslubeiðnir, sem um ræðir í máli þessu, sættu ekki kærumeðferð samkvæmt nefndri 29. gr. laga nr. 50/1988. Samkvæmt upphafsákvæði 2. gr. laga nr. 30/1992 tekur úrskurðarvald yfirskattanefndar til ákvörðunar skatta og gjalda m.a. samkvæmt lögum um virðisaukaskatt. Ekki verður talið að í þessu orðalagi felist ráðagerð um víðtækara valdsvið að því er varðar virðisaukaskatt en talið var gilda um ríkisskattanefnd. Að þessu virtu þykir bera að vísa þessum þætti kærunnar frá yfirskattanefnd.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Úrskurður skattstjóra er staðfestur um endurákvörðun virðisaukaskatts fyrir uppgjörstímabilin janúar-febrúar og mars-apríl 1990. Kærunni er vísað frá yfirskattanefnd að því er varðar endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna á byggingarstað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja