Úrskurður yfirskattanefndar

  • Dánarbú
  • Eignarskattsstofn

Úrskurður nr. 286/1992

Gjaldár 1991

Lög nr. 75/1981, 2. gr. 1. mgr. 5. tölul., 83. gr.   Lög nr. 83/1984, a-liður   Lög nr. 83/1989, 3. gr.  

I.

Málavextir eru þeir að A andaðist 1. desember 1990. Skattframtali árið 1991 var skilað hinn 4. júlí 1991 og er það dagsett 31. maí 1991. Hafði það að geyma tekjuframtal hinnar látnu vegna tekna í lifanda lífi. Þá náði framtalið einnig yfir tímabil dánarbús hinnar látnu á árinu 1990. Í árslok 1990 voru tilgreindar eignir, 7.549.905 kr., og skuldir, 2.923.113 kr. Skipti fóru ekki fram fyrr en 23. júlí 1991. Skattstjóri lagði framtalið til grundvallar álagningu með kæruúrskurði, dags. 14. október 1991. Við álagningu ákvarðaði skattstjóri stofna til eignarskatts og sérstaks eignarskatts samkvæmt lögum nr. 83/1989 á grundvelli framtalsins og byggði eignarskattsútreikninginn á reglum þeim sem um lögaðila gilda, sbr. 84. gr. laga 75/1981, tekjuskatt og eignarskatt, og b-lið 3. gr. laga nr. 83/1989, um Þjóðarbókhlöðu og endurbætur menningarbygginga.

II.

Af hálfu kæranda hefur álagningu eignarskatts og sérstaks eignarskatts á dánarbúið verið mótmælt í svohljóðandi kæru til ríkisskattanefndar, dags. 12. nóvember 1991.

„A lést 1. desember 1990 og var talið fram fyrir hana eins og eignir stóðu í á dánardegi hennar. Erfðaskiptin áttu sér ekki stað fyrr en 23. júlí 1991 eða eftir að búið var að greiða allar lausaskuldir og útfararkostnað auk frágangs á fjölskyldugrafreit samkvæmt ósk hinnar látnu.

Eignir og skuldir dánarbúsins með tilliti til óska hinnar látnu eru eftirfarandi;

...

Eignir alls kr. 7.549.905.-, skuldir alls kr. 4.746.482.- , skuldlaus eign kr. 2.803.423.-.

Athuga ber að A sat í óskiptu búi.

Aðstandendur óska eftir að dánarbúið verði ekki skattlagt sem sjálfstæður skattaðili um áramót 1990 hvað varðar eignarskattsstofn heldur sem einhleypingur. Þar sem fráfall og jarðarför A bar að á síðustu dögum ársins 1990, í mesta anna- og hátíðarmánuði ársins, jólamánuðinum.“

III.

Með bréfi, dags. 21. febrúar 1992, gerði ríkisskattstjóri svofellda kröfu í málinu f.h. gjaldkrefjenda:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur. Samkvæmt fyrsta málslið 79. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt skal miða eignarskatt við eignarskattsstofn skattaðila í árslok. Engar forsendur eru því fyrir að verða við kröfu dánarbúsins um að álagning fari sem um einstakling væri að ræða.“

Yfirskattanefnd tók við afgreiðslu máls þessa 1. júlí 1992, sbr. 23. gr. laga nr. 30/1992. Með bréfi, dags. 29. júlí 1992, vakti yfirskattanefnd athygli ríkisskattstjóra á því að skilja yrði kröfu kæranda svo að aðallega væri þess krafist að eignarskattsálagningu yrði hagað eftir þeim reglum sem gilda um menn, sbr. 83. gr. laga nr. 75/1981 og a-lið 3. gr. laga nr. 83/1989, og jafnframt og sjálfstætt til vara að eignarskattsstofn verði lækkaður svo sem fram kemur í kæru. Væri í kröfugerð ríkisskattstjóra ekki tekin afstaða til þess þáttar kröfugerðar kæranda sem lyti að lækkun eignarskattsstofns. Beindi yfirskattanefnd því til ríkisskattstjóra, sbr. 2. ml. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, að hann setti fram rökstudda umsögn f.h. gjaldkrefjenda um þennan þátt málsins.

Með bréfi, dags. 27. ágúst 1992, ítrekar ríkisskattstjóri fyrri kröfu um að úrskurður skattstjóra verði staðfestur. Síðan segir m.a.:

„Af hálfu dánarbúsins er gerð krafa um það að eignarskattsstofn verði lækkaður sem nemur kr. 1.823.369 vegna ýmissa kostnaðarliða sem tilgreindir eru í kæru. Ríkisskattstjóri telur að fallast megi á að þetta geti verið kostnaður dánarbúsins en ekki að fallist verði á að til frádráttar komi annað en sá kostnaður sem til fellur á árinu 1990. Kostnaðarliðir eins og "Lögfræðiaðstoð v/erfðafjárskipta" og "Erfðafjárskattur" koma augljóslega ekki til fyrr en á árinu 1991 og eins má búast við því að stærstur hluti kostnaðarliðarins "Útfararkostnaður, legsteinar og frágangur" falli til á árinu 1991. Þá liggja ekki fyrir neinar upplýsingar um greiðslur 1990 greiddar af B og C.

Þegar allt þetta er virt telur ríkisskattstjóri kröfugerð varðandi þessa kostnaðarliði svo ónákvæma og órökstudda að ekki sé hægt að verða við henni.“

IV.

Kærandi, sem var dánarbú undir skiptum í árslok 1990, er sjálfstæður skattaðili skv. 5. tl. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 75/1981. Verður því að hafna kröfu kæranda um að álagningu hinna kærðu eignarskatta verði hagað eftir þeim reglum sem gilda um menn, sbr. 83. gr. laga nr. 75/1981 og a-lið 3. gr. laga nr. 83/1989.

Víkur þá að því hvort efni séu til lækkunar eignarskattsstofns í tilefni þeirra upplýsinga er fram koma í kæru, en þar eru greindir nokkrir skuldaliðir er eigi var getið í framtali. Að virtum umræddum skuldaliðum og því sem fram kemur að því er þá varðar í erfðafjárskýrslu, dags. 23. júlí 1991, staðfestri af skiptaráðanda þann dag, þykir mega fallast á þá að undanskildum erfðafjárskatti og lögfræðiaðstoð. Þó er aðeins fallist á útfararkostnað með 266.104 kr. Varðandi síðastnefnda liði er til þess að líta að erfðafjárskattur fellur á hvern erfingja fyrir sig samkvæmt lögum nr. 83/1984, um erfðafjárskatt, og að því er varðar lögfræðikostnað liggur ekki annað fyrir en þar sé um að ræða kostnað erfingjanna sjálfra. Af erfðafjárskýrslu má ráða að kostnaður vegna legsteina og frágangs, 500.000 kr., hafi ekki fallið til á árinu 1990. Samkvæmt þessu lækkar eignarskattsstofn um 937.205 kr.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Eignarskattsstofn verður 3.689.587 kr.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja