Úrskurður yfirskattanefndar

  • Félagsgjald, frádráttarbærni

Úrskurður nr. 302/1992

Gjaldár 1989 og 1990

Lög nr. 75/1981, 31. gr. 1. tölul., 59. gr. 1. mgr., 96. gr. 1. og 3. mgr.  

I.

Málavextir eru þeir að kærandi, sem stundar sjálfstæða trésmíðastarfsemi, gjaldfærði félagsgjöld til Meistarafélags X 20.500 kr. í rekstrarreikningi fyrir árið 1988 og 28.092 kr. í rekstrarreikningi fyrir árið 1989. Skattstjóri felldi þessi félagsgjöld niður á þeim forsendum að ekki væri lagaheimild fyrir frádrætti félagsgjalda. Slík heimild hefði verið í D-lið 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, en verið felld niður við upptöku staðgreiðslukerfis skatta, sbr. kæruúrskurð skattstjóra, dags. 10. apríl 1991. Endurákvarðaði skattstjóri áður álögð opinber gjöld kæranda gjaldárin 1989 og 1990 í samræmi við þessar breytingar.

Af hálfu kæranda var kæruúrskurði skattstjóra skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 7. maí 1991, og boðað að rökstuðningur yrði sendur síðar. Með úrskurði nr. 646 frá 14. júní 1991 vísaði ríkisskattanefnd kærunni frá vegna vanreifunar þar sem boðaður rökstuðningur hefði ekki borist.

II.

Með bréfi, dags. 14. júní 1991, er barst 19. sama mánaðar, hefur umboðsmaður kæranda farið fram á að fyrrnefndur frávísunarúrskurður verði endurupptekinn og að kæran fái efnismeðferð. Umboðsmaðurinn mótmælir þeim skilningi skattstjóra að ekki sé fyrir hendi lagaheimild til umrædds frádráttar. Telur hann að félagsgjöldin séu frádráttarbær rekstrarkostnaður samkvæmt 1. tl. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, enda séu gjöldin til samtaka atvinnurekenda og nauðsynlegt sé þeim sem reka sjálfstæða starfsemi að vera í þeim samtökum. Umboðsmaðurinn gerir grein fyrir ákvæðum félagssamþykkta Meistarafélags X um félagsaðild og fjallar jafnframt um aðild þess félagsskapar að Meistara- og verktakasambandi byggingarmanna. Það samband sé samningsaðili atvinnurekenda í löggiltum iðngreinum í byggingariðnaði og séu meistarar, sem ekki eiga aðild að félögum þessum, ekki aðilar að kjarasamningum. Þá gerir umboðsmaðurinn grein fyrir því hvernig félagsgjaldið sé ákvarðað. Heldur hann því fram að ákvæði félagssamþykkta fyrrnefndra félaga sýni að um sé að ræða hrein atvinnurekendafélög og félagsgjöldin séu því frádráttarbær samkvæmt 1. tl. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og þar að auki sé inn í tekjum fyrir útselda vinnu búið að tekjufæra fjárhæðir til að standa straum af félagsgjöldum þar sem gert sé ráð fyrir félagsgjöldunum við útgáfu taxta fyrir útselda vinnu.

Með bréfi, dags. 18. september 1991, hefur ríkisskattstjóri gert svofelldar kröfur og athugasemdir fyrir hönd gjaldkrefjenda í tilefni af framkominni endurupptökubeiðni:

„Í nefndum úrskurði var kæru ofangreinds aðila vísað frá ríkisskattanefnd þar sem áður boðaður rökstuðningur hafði ekki borist. Nú hefur verið bætt úr því með bréfi sem barst nefndinni 19. júní 1991 og getur ríkisskattstjóri fyrir sitt leyti fallist á að nefndur úrskurður verði endurupptekinn og setur fram eftirfarandi kröfugerð.

Kæranda ber ekki skylda til að vera í Meistarafélagi X. Að því virtu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar skattstjóra er þess krafist að hann verði staðfestur.“

III.

Yfirskattanefnd úrskurðar í máli þessu, sbr. 23. gr. laga nr. 30/1992.

Fallist er á fram komna beiðni um endurupptöku úrskurðar ríkisskattanefndar nr. 646 frá 14. júní 1991 og að kæran sæti efnislegri umfjöllun. Með vísan til þess sem upplýst er í málinu um umrætt félag og nauðsyn aðildar kæranda að því vegna starfsemi sinnar er fallist á kröfu kæranda.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Úrskurður ríkisskattanefndar nr. 646 frá 14. júní 1991 er endurupptekinn. Krafa kæranda í máli þessu er tekin til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja