Úrskurður yfirskattanefndar

  • Skattskylda
  • Sameignarfélag
  • Félagsslit

Úrskurður nr. 384/1992

Gjaldár 1991

Lög nr. 42/1903, 21. gr.   Lög nr. 75/1981, 2. gr. 1. mgr.   Lög nr. 30/1992, 12. gr.  

I.

Málavextir eru þeir að af hálfu kæranda var ekki talið fram til skatts árið 1991. Skattstjóri áætlaði kæranda því skattstofna til álagningar opinberra gjalda gjaldárið 1991, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Í kæru til skattstjóra, dags. 29. ágúst 1991, krafðist umboðsmaður kæranda þess að álagningin yrði felld niður á þeim forsendum að engin starfsemi hefði verið hjá kæranda á árinu 1990. Kæranda, sem var sameignarfélag og sjálfstæður skattaðili, hefði verið slitið á árinu 1990 og félagið afmáð úr firmaskrá 13. september 1990. Við félagsslitin hefðu eignir umfram skuldir verið 275.788 kr. og meðal eigna hefðu skuldir eigenda numið 186.846 kr. Til úthlutunar við félagsslitin hefðu því komið 88.942 kr. og skipst á milli eigenda félagsins, A og B. Skattstjóri tók kæruna til úrlausnar með kæruúrskurði, dags. 4. október 1991. Hafnaði hann kröfu kæranda um niðurfellingu álagðra gjalda en lækkaði áætlun skattstofna verulega með tilliti til upplýsinga í kæru. Skattstjóri tók fram að enginn reikningsskil hefðu verið gerð fyrir kæranda vegna þess hluta ársins 1990 sem félagið hefði starfað. Þá yrði ekki séð, þrátt fyrir yfirlýsingar í kæru, að bankainnstæður kæranda hefðu getað verið vaxtalausar á árinu svo dæmi væri tekið.

II.

Af hálfu umboðsmanns kæranda var kæruúrskurði skattstjóra skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 28. október 1991. Kærunni fylgdi skattframtal kæranda árið 1991 og yfirlýsing eigenda kæranda, dags. 9. október 1991, varðandi félagsslit í árslok 1989 og tilkynningu um þau slit og afmáningu félagsins úr firmaskrá á árinu 1990. Staðhæft er að engin starfsemi hafi farið fram á vegum kæranda á árinu 1990. Fram kemur í kærunni að umboðsmaðurinn telur að með tilliti til ákvæða 1. mgr. 2. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, fái ekki staðist að leggja gjöld á félag sem ekki sé lengur skráð í firmaskrá og hefði skattstjóri átt að krefja eigendur félagsins um þær upplýsingar sem hann taldi skorta um slit félagsins og úthlutun á eignum þess. Verði ekki fallist á þau rök fylgi með kæru skattframtal kæranda árið 1991. Þá er vísað til yfirlýsinga eigenda um að rekstri félagsins hefði verið hætt í lok ársins 1989 og að eignum og skuldum hefði þá verið skipt. Tilkynning um félagsslitin væri í samræmi við ákvæði 21. gr. laga nr. 42/1903, um verslanaskrár, firmu og prókúruumboð, en ekki verði séð að þar sé kveðið á um að slíka tilkynningu beri að senda innan einhvers ákveðins frests. Til þess er vísað að í yfirlýsingu eigenda komi fram að félagið hafi ekkert starfað á árinu 1990. Fái því athugasemd skattstjóra um vaxtatekjur ekki staðist. Vaxtatekjur af þeim fjármunum, sem runnið hafi til eigenda við félagsslitin, komi fram í skattframtölum þeirra.

Með bréfi, dags. 29. júní 1992, hefur ríkisskattstjóri gert svofellda kröfu í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Með hliðsjón af framkomnum skýringum og gögnum er fallist á kröfu kæranda.“

III.

Yfirskattanefnd úrskurðar í máli þessu, sbr. 23. gr. laga nr. 30/1992.

Kröfugerð kæranda í máli þessu verður að skilja svo að aðallega sé þess krafist að álagning opinberra gjalda á hann gjaldárið 1991 verði felld niður á þeim grundvelli að kæranda hafi verið slitið í árslok 1989 og skattskyldu hans þá verið lokið en til vara að byggt verði á innsendu skattframtali árið 1991. Með tilkynningu, dags. 25. júní 1990, til firmaskrár … var óskað afmáningar kæranda úr firmaskránni með því að félaginu hefði verið slitið. Var tilkynning þessi móttekin af firmaskránni 13. september 1990 samkvæmt móttökuáritun. Fram kemur í yfirlýsingu sameigenda kæranda, dags. 9. október 1991, að eftir að álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1990 var lokið og búið að ganga frá greiðslu þeirra hefði verði send tilkynning til firmaskrár … um slit kæranda og afmáningu hans. Að því athuguðu, sem hér hefur verið rakið, þykir ekki hafa verið sýnt fram á það af kæranda hálfu að félagsslit hafi orðið á árinu 1989. Er aðalkröfu kæranda því synjað. Víkur þá að varakröfu kæranda. Samkvæmt henni krefst kærandi álagningar á grundvelli innsends skattframtals árið 1991. Með skírskotun til 1. mgr. 12. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, er kæran ásamt skattframtali kæranda árið 1991 send skattstjóra til meðferðar og uppkvaðningar nýs kæruúrskurðar.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Aðalkröfu kæranda er synjað. Kærunni ásamt innsendu skattframtali árið 1991 er vísað til skattstjóra til uppkvaðningar nýs kæruúrskurðar.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja