Úrskurður yfirskattanefndar

  • Kæranleg skattákvörðun

Úrskurður nr. 401/1992

Gjaldár 1991

Lög nr. 30/1992, 2. gr.  

I.

Málavextir eru þeir að með bréfi skattstjóra, dags. 12. júlí 1991, var kæranda, sem er sparisjóður, tilkynnt um álagningu landsútsvars gjaldárið 1991 og var landsútsvarið ákvarðað 1.775.455 kr. Með kæru, dags. 24. júlí 1991, mótmælti umboðsmaður kæranda fjárhæð landsútsvarsins við skattstjóra á þeim forsendum að vaxtatekjur kæranda af innstæðum í Seðlabanka Íslands og Lánastofnun sparisjóðanna ásamt Tryggingarsjóði sparisjóðanna hefðu ranglega verið talin til útlánsvaxta við útreikning á mismun heildarútlánsvaxta og heildarinnlánsvaxta. Taldi umboðsmaðurinn hér vera um að ræða vaxtatekjur af innstæðum sparisjóðsins en ekki útlánum hans.

Með kæruúrskurði, dags. 30. ágúst 1991, ákvað skattstjóri að álagt landsútsvar skyldi standa óbreytt. Kvað hann álagninguna byggjast á 9. og 10. gr. laga nr. 90/1990, um tekjustofna sveitarfélaga, 6. gr. reglugerðar nr. 542/1989, um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, og reglugerð nr. 149/1972, um landsútsvör banka, sem sett hefði verið samkvæmt ákvæðum 10. og 11. gr. laga nr. 8/1972, um tekjustofna sveitarfélaga, en ákvæði þeirra væru í grundvallaratriðum óbreytt í lögum nr. 90/1990. Vísaði skattstjóri til ákvæða reglugerðar nr. 149/1972 sjónarmiði sínu til stuðnings.

II.

Með kæru, dags. 4. september 1991, hefur umboðsmaður kæranda skotið kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar. Í kærunni er þess krafist að stofn til útreiknings landsútsvars verði lækkaður vegna reiknaðra gjalda vegna verðlagsbreytinga 9.882.418 kr. þannig að landsútsvarið lækki í 1.676.630 kr.

Með bréfi, dags. 30. júní 1992, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda gert svohljóðandi kröfur og athugasemdir í málinu:

„Við gildistöku laga nr. 91/1989 um tekjustofna sveitarfélaga hinn 1. janúar 1990 urðu sparisjóðir landsútsvarsskyldir. Þeir féllu undir d-lið 9. gr. laganna á sama hátt og bankar. Samkvæmt þeim lið skyldi landsútsvar þessara aðila vera 1% af mismun heildarútlánsvaxta og heildarinnlánsvaxta. Lög nr. 91/1989 voru gefin út að nýju með áorðnum breytingum og urðu lög nr. 90/1990. Þar var þetta ákvæði um landsútsvar banka og sparisjóða óbreytt.

Reglugerð nr. 542/1989 fjallar um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Í d-lið 1. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar er samskonar orðalag notað og í d-lið 9. gr. laga nr. 90/1990.

Eins og fyrr kom fram var um nýmæli að ræða í lögum nr. 91/1989 að kveða á um landsútsvarsskyldu sparisjóða og finna þeim stað í d-lið 9. gr. Ákvæði um landsútsvarsskyldu banka hefur hins vegar staðið þar mikið lengur og með sama orðalagi og nú er um hvað skuli leggja til grundvallar álagningu. Við skýringu á því við hvað er átt með mismun á heildarútlánsvöxtum og heildarinnlánsvöxtum sparisjóða hlýtur gilda það sama og átt hefur við um banka, þar sem engin breyting hefur orðið á ákvæðinu hvað þá varðar.

Á grundvelli heimildar í lögum nr. 8/1972, um tekjustofna sveitarfélaga var sett reglugerð nr. 149/1972, um landsútsvör banka. Þar er í 3. - 5. gr. skilgreint hvað sé átt við með heildarútlánsvöxtum og heildarinnlánsvöxtum. Á þeirri skilgreiningu byggði skattstjóri við álagningu landsútsvars kæranda gjaldárið 1991, sem og álagningu landsútsvara annarra sparisjóða og banka. Álagning landsútsvara banka hefur alla tíð verið í samræmi við þessa skilgreiningu. Sú framkvæmd hefur aldrei sætt andmælum.

Umboðsmaður kæranda vísar til þess að í 1. mgr. 35. gr. laga nr. 90/1990 sé hliðstæður skattstofn og landsútsvar, þ.e. aðstöðugjald, leiðrétt vegna verðbólgu. Telur hann að slíkt hið sama eigi að gilda um landsútsvarsstofn umbjóðanda síns. Ríkisskattstjóri fellst ekki á þetta enda er sérstaklega tekið fram í 1. mgr. 35. gr. að gjald- og tekjufærslur skv. 53. gr. laga nr. 75/1981 skuli hafa áhrif á aðstöðugjaldsstofninn. Slíku er hins vegar ekki fyrir að fara varðandi landsútsvarið.

Ríkisskattstjóri ítrekar að álagning landsútsvars sparisjóða gjaldárið 1991 var í samræmi við áralanga framkvæmd varðandi álagningu landsútsvars banka og að engin bein ákvæði eru í lögum um að verðbreytingarfærslur skv. 53. gr. laga nr. 75/ 1981 eigi að hafa áhrif á stofninn.

Gerð er krafa um að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.“

III.

Yfirskattanefnd úrskurðar í máli þessu, sbr. 23. gr. laga nr. 30/1992.

Í kæru til ríkisskattanefndar víkur umboðsmaður kæranda ekki að ágreiningi þeim sem kærður var til skattstjóra og úrskurðaður af honum. Verður að líta svo á að kærandi uni þeirri niðurstöðu skattstjóra. Álitaefni það sem borið er undir ríkisskattanefnd, nú yfirskattanefnd, var hins vegar ekki lagt fyrir skattstjóra. Liggur því enginn kæranlegur úrskurður fyrir um það atriði. Af þessum sökum er kærunni vísað frá yfirskattanefnd.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kærunni er vísað frá yfirskattanefnd.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja