Úrskurður yfirskattanefndar

  • Virðisaukaskattur
  • Innskattur, öflun bifreiðar
  • Sönnun

Úrskurður nr. 601/1992

Virðisaukaskattur 1990

Lög nr. 50/1988, 16. gr. 3. mgr. 6. tölul.   Reglugerð nr. 530/1989, 1. gr. 6. tölul. (brrg. nr. 108/1990, 1. gr.)  

I.

Málavextir eru þeir að rannsóknardeild skattstjóra gerði athugun á virðisaukaskattsskilum kæranda vegna uppgjörstímabilanna janúar-febrúar og mars-apríl 1990. Með bréfi, dags. 21. ágúst 1990, var kæranda kynnt sú niðurstaða athugunarinnar að kærandi væri á síðarnefnda uppgjörstímabilinu talinn hafa reiknað sér ranglega innskatt af kaupum á bifreið af gerðinni …, skráningarnúmer X, þurrkublaði í bifreið og á grundvelli staðgreiðslunóta frá olíufélögum. Var um bifreiðakaupin vísað til reglugerðar nr. 530/1989, um frádrátt virðisaukaskatts. Boðaði skattstjóri kæranda niðurfellingu innskatts til samræmis við niðurstöðu athugunarinnar, samtals að fjárhæð 148.025 kr.

Umboðsmaður kæranda andmælti fyrirhugaðri endurákvörðun virðisaukaskatts með bréfi, dags. 30. ágúst 1990. Taldi hann umrædda bifreið uppfylla skilyrði reglugerðar nr. 530/1989, sbr. og skilgreiningu fjármálaráðuneytisins (sic) í bréfi til Bifreiðaskoðunar Íslands hf., dags. 25. janúar 1990, enda væri hún skráð hjá Bifreiðaskoðun Íslands hf. sem sendibifreið og eingöngu notuð til virðisaukaskattsskyldrar starfsemi kæranda sem væri pípulagningaþjónusta. Kærandi ætti jafnframt aðra bifreið til einkanota. Hafi hann mörg undanfarin ár notað samskonar bifreið við starfsemi sína, enda henti hún vel við nýbyggingar þar sem aðkoma sé oft slæm á byggingartíma. Skattstjóri hafi hingað til ekki dregið í efa rétt kæranda til gjaldfærslu rekstrarkostnaðar bifreiðar í ársreikningum. Einnig var mótmælt niðurfellingu innskatts af þurrkublaði og vegna staðgreiðslunóta frá olíufélögum.

Með bréfi, dags. 14. september 1990, kvaðst skattstjóri fallast á að heimila innskatt af bifreiðinni X. Hins vegar yrði kæranda gert að greiða útskatt, 106.575 kr. af sölu samskonar bifreiðar, skráningarnúmer Y, sem umboðsmaður kæranda lýsti í bréfi sínu að notuð hefði verið við atvinnurekstur kæranda. Hafi sú bifreið verið seld 27. apríl 1990 á 435.000 kr. Þá hafnaði skattstjóri frádráttarbærni annarra reikninga sem gerð hafði verið athugasemd við í fyrra bréfi skattstjóra. Í niðurlagi bréfs þessa tilkynnti skattstjóri um sjö daga „kærufrest“ til skattstjóra.

Með bréfi, dags. 26. september 1990, andmælti umboðsmaður kæranda þeim áformum skattstjóra að gera kæranda að greiða útskatt af notaðri bifreið sem látin hefði verið upp í kaupverð X. Sú bifreið hafi hvorki eingöngu verið notuð í þágu atvinnurekstrar kæranda né skráð sem sendibifreið og því óraunhæft að bera umræddar bifreiðar saman þar sem hinni nýju bifreið hafi verið breytt í sendibifreið og óheimilt að nota til annars en virðisaukaskattsskyldrar starfsemi. Jafnframt mótmælti umboðsmaður kæranda því að á síðari stigum væri krafist útskatts af eldri bifreiðinni í stað þess að það atriði skoðist sem sérstakt mál. Einnig var því mótmælt að 24,5% virðisaukaskattur væri lagður ofan á afsalsverð bifreiðarinnar ef sala bifreiðarinnar væri skattskyld á annað borð.

Hinn 16. október 1990 boðaði skattstjóri kæranda enn endurákvörðun virðisaukaskatts uppgjörstímabilið mars-apríl 1990. Í ljósi upplýsinga frá umboðsmanni kæranda í bréfi, dags. 26. september 1990, kvaðst skattstjóri fallast á að ekki yrði reiknaður útskattur af eldri bifreiðinni. Jafnframt var með skírskotun til ítarlegri upplýsinga, sem skattstjóra hefði borist vegna X, boðað að fyrirhugað væri að fella niður innskatt vegna þeirrar bifreiðar. Sú bifreið hafi við kaup verið skráð sem fólksbifreið og ekki breytt í sendibifreið fyrr en 23. maí 1990 eða tæpum mánuði eftir að kærandi hafi fengið hana afhenta. Vísaði skattstjóri um þetta atriði til ljósrits af skýrslu Bifreiðaskoðunar Íslands hf., dags. 23. maí 1990. Að auki hafi hún verið tryggð sem fólksbifreið til einkanota, sbr. samrit vátryggingarskírteinis. Var frestur til andsvara veittur til 26. október 1990.

Með bréfi, dags. 15. nóvember 1990, ásamt tilkynningu, dags. 19. nóvember 1990, var kæranda tilkynnt sú breyting á virðisaukaskattsskýrslu fyrir mars-apríl 1990 að innskattur væri lækkaður um 147.722 kr. Var til þess vísað að engin andmæli hafi komið fram við bréfi skattstjóra, dags. 16. október 1990.

Með bréfi, dags. 15. nóvember 1990, hafði umboðsmaður kæranda sent skattstjóra ljósrit af skráningarskírteini bifreiðarinnar X. Kvað hann þar koma fram að hún hafi verið skráð sem sendibifreið frá því hún var keypt 26. apríl 1990. Einnig fylgdi bréf frá vátryggingafélagi bifreiðarinnar þar sem fram komi að vegna mistaka félagsins hafi bifreiðin í upphafi verið tryggð sem fólksbifreið til einkanota í stað sendibifreiðar.

Umboðsmaður kæranda mótmælti úrskurði skattstjóra með kæru, dags. 5. desember 1990, og vísaði til rökstuðnings frá 15. nóvember 1990.

Með kæruúrskurði, dags. 24. janúar 1991, hafnaði skattstjóri kröfum kæranda. Voru forsendur skattstjóra þær að bifreiðin hafi verið keypt sem fólksbifreið, eins og skráning og trygging bæri með sér. Ljósrit af skráningarskírteini sem umboðsmaður kæranda hafi lagt fram sé ljósrit af endurútgefnu skráningarskírteini en fyrst hinn 23. maí 1990 hafi skráningu verið breytt í það horf að bifreiðin væri skráð sem sendibifreið. Þá hafi bifreiðin verið tryggð til einkanota fram í nóvember 1990. Því hafi ekki mátt telja virðisaukaskatt af kaupum bifreiðarinnar til innskatts.

Umboðsmaður kæranda skaut kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 14. febrúar 1991. Þar kemur fram að ekki hafi verið talið nauðsynlegt að breyta bifreiðinni fyrr en kærandi hefði fengið hana í hendur. Við pöntun hafi láðst að greina frá fyrirhuguðum notum bifreiðarinnar og því hafi verið búið að skrá hana sem fólksbifreið þegar kærandi veitti henni viðtöku.

Með bréfi, dags. 16. júlí 1992, gerir ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjanda þá kröfu að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

II.

Yfirskattanefnd úrskurðar í máli þessu, sbr. 23. gr. laga nr. 30/1992.

Ágreiningsefni máls þessa er það hvort kæranda hafi verið heimilt að telja til innskatts á virðisaukaskattsskýrslu fyrir mars-apríl 1990 innskatt að fjárhæð 147.722 kr. vegna kaupa á bifreiðinni X af gerðinni …, en kærandi festi kaup á henni hinn 27. apríl 1990.

Af hálfu skattstjóra er höfnun innskattsfrádráttar byggð á því að um hafi verið að ræða kaup fólksbifreiðar, enda hafi bifreiðin upphaflega verið skráð hjá Bifreiðaskoðun Íslands hf. sem fólksbifreið og tryggð ábyrgðartryggingu sem slík. Heldur skattstjóri því fram að skráningu bifreiðarinnar hafi verið breytt hinn 23. maí 1990 frá því að vera skráð sem fólksbifreið í það að vera skráð sem sendibifreið. Styður hann þetta með ljósriti af vottorði Bifreiðaskoðunar Íslands hf. „Breytingaskráningu ökutækja“, dagsettu fyrrnefndan dag.

Af hálfu kæranda er forsendu skattstjóra út af fyrir sig ekki mótmælt sérstaklega í kæru til ríkisskattanefndar. Er raunar tekið fram að viðkomandi bifreiðaumboð hafi látið skrá bifreiðina sem fólksbifreið áður en kaupandi fékk hana afhenta 27. apríl 1990. Hafi sölumaður fullvissað kæranda um að „ekki væri nauðsynlegt að breyta bifreiðinni fyrr en komið væri með hana til Akureyrar“. Eru þessar upplýsingar í ósamræmi við það sem umboðsmaður kæranda hélt fram í kæru til skattstjóra, en með henni lagði hann fram ljósrit af skráningarvottorði umræddrar bifreiðar og tók fram að um væri að ræða ljósrit „af skráningarskírteini umdeildrar bifreiðar frá því hún var skráð ný, þann 26.04.90. Þar kemur fram að bifreiðin er skoðuð þann sama dag af „B“ og að hún er þá strax skráð sendibifreið“.

Á vottorði því sem skattstjóri byggir á kemur ekki fram hvaða breyting hafi orðið á skráningu bifreiðar kæranda hinn 23. maí 1990. Hins vegar liggur fyrir að þann dag var bifreiðin skoðuð breytingaskráningu hjá Bifreiðaskoðun Íslands hf. Að því athuguðu og með vísan til þess sem að öðru leyti er komið fram í málinu þykir bera undir kæranda að hnekkja þeirri staðhæfingu skattstjóra að bifreiðin X hafi við afhendingu hinn 27. apríl 1990 talist fólksbifreið í skilningi 6. tl. 3. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, og 6. tl. 1. gr. reglugerðar nr. 530/1989, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 108/1990. Það hefur kærandi ekki gert. Samkvæmt framangreindum ákvæðum var kæranda óheimilt að telja virðisaukaskatt af kaupum fólksbifreiðar til innskatts. Er úrskurður skattstjóra því staðfestur.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Ákvarðaður virðisaukaskattur uppgjörstímabilið mars-apríl 1990 standi óbreyttur.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja