Úrskurður yfirskattanefndar

  • Fyrningarhlutfall
  • Lausafé
  • Vinnuskúrar

Úrskurður nr. 696/1992

Gjaldár 1991

Lög nr. 75/1981, 38. gr. 4. og 5. tölul., 95. gr. 2. mgr.   Reglugerð nr. 171/1984, 1. gr. 1. mgr. e-liður 3. tölul.  

I.

Málavextir eru þeir að skattframtal kæranda árið 1991 barst skattstjóra ekki innan tilskilins framtalsfrests árið 1991 og áætlaði skattstjóri kæranda því skattstofna til álagningar opinberra gjalda gjaldárið 1991, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Skattframtal kæranda árið 1991 er dagsett 11. júlí 1991 og móttekið af skattstjóra sama dag. Lagði skattstjóri það til grundvallar álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1991 án álags, sbr. kæruúrskurð, dags. 20. desember 1991, þó með þeirri breytingu að lækka fyrningarhlutfall skála úr 15% í 10%. Lækkuðu fyrningar við þetta úr 757.486 kr. í 504.990 kr. Vísaði skattstjóri til 5. tl. 38. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og 3. tl. e-liðs 1. gr. reglugerðar nr. 171/1984, um flokkun bygginga og annarra mannvirkja til fyrninga.

Af hálfu umboðsmanns kæranda var kæruúrskurði skattstjóra skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 6. janúar 1992. Er þess krafist að heimilt verði að fyrna skálana sem lausafé þar sem um sé að ræða færanlega vinnuskúra sem notaðir séu á byggingarstað og lyfta megi auðveldlega upp á vörubílspall. Séu skálarnir mun nær skilgreiningu á áhöldum en mannvirkjum. Hafi kærandi innheimt og staðið skil á virðisaukaskatti af leigu þessara skála í samræmi við upplýsingar sem kærandi hafi aflað sér munnlega hjá ríkisskattstjóra.

Með bréfi, dags. 12. júní 1992, gerir ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda þá kröfu í málinu að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

II.

Yfirskattanefnd úrskurðar í máli þessu, sbr. 23. gr. laga nr. 30/1992.

Ekkert kemur fram af hálfu skattstjóra á hverju hann byggir þá niðurstöðu sína að telja skúra þá sem í málinu greinir til þeirra eigna sem um ræðir í 3. tl. e-liðs 1. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 171/1984. Skúrar þessir eru hvorki jarðfastir né heldur með lóðarréttindi. Þá liggur fyrir að þeir eru færanlegir og leigðir út til notkunar í takmarkaðan tíma á hverjum stað. Verður því að fallast á með kæranda að um lausafé sé að ræða og haga fyrningu samkvæmt því. Gjaldfærð fyrning verður 757.486 kr.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Fyrning skála verður 757.486 kr.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja