Úrskurður yfirskattanefndar

  • Skattskyldar tekjur
  • Gjöf

Úrskurður nr. 699/1992

Gjaldár 1990

Lög nr. 75/1981, 7. gr. A-liður 4. tölul.  

I.

Málavextir eru þeir að kærendur töldu ekki fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 1990. Sættu þau því áætlun skattstjóra á skattstofnum við álagningu opinberra gjalda það ár. Framtal barst skattstjóra 29. október 1990 sem rökstuðningur kæru, dags. 30. ágúst 1990. Með kæruúrskurði, dags. 23. nóvember 1990, féllst skattstjóri á að leggja innsent skattframtal til grundvallar álagningu opinberra gjalda ársins 1990, þó að gerðum nokkrum breytingum og að viðbættu 25% álagi. Breytingar skattstjóra, sem hér skipta máli, voru þessar: (1) Styrkur frá Framleiðnisjóði landbúnaðarins að fjárhæð 596.000 kr. var færður á landbúnaðarskýrslu. Hreinar tekjur í reit 62 á framtali urðu, að gerðri breytingu, 78.483 kr. (2) Færðar voru til tekna í reit 84 500.000 kr. á þeim forsendum að upplýst væri í skattframtali að dóttir kærenda, fædd 1985, hefði á árinu fengið að gjöf 16,67% jarðarinnar X. Teldist gjöfin til skattskyldra tekna skv. 4. tl. A-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Með kæru, dags. 19. desember 1990, mótmæla kærendur tekjufærslu styrks frá Framleiðslusjóði landbúnaðarins þar sem um sé að ræða styrk til Y hf. og sé hann talinn til tekna í reikningum þess fyrirtækis. Þá fara kærendur fram á að áætlaðar tekjur vegna þess hluta úr jörðinni X sem dóttir þeirra fékk að gjöf verði lækkaður verulega þar sem jarðarhluturinn seldist varla fyrir meira en helming þeirrar fjárhæðar. Kæran var send skattstjóra og er móttekin hjá honum 28. desember 1990 samkvæmt móttökustimpli hans. Skattstjóri framsendi kæruna til ríkisskattanefndar þar sem kæruréttur hafði verið til hennar.

Með bréfi, dags 22. ágúst 1991, hefur ríkisskattstjóri gert svofelldar kröfur í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Að kærunni verði vísað frá ríkisskattanefnd þar sem hún er of seint fram komin, en lögmæltur 30 daga kærufrestur skv. 1. mgr. 100. gr. laga nr. 75/1981 rann úr þann 23. desember 1990. Kærubréf kæranda barst ríkisskattanefnd hinsvegar ekki fyrr en 28. desember 1990. Kærandi þykir ekki hafa sýnt fram á að honum hafi eigi veri unnt að kæra innan þess frests.

Telji ríkisskattanefnd hinsvegar að taka beri kæruna til efnislegar meðferðar þrátt fyrir ofangreindan formgalla vill ríkisskattstjóri taka eftirfarandi fram.

Kröfur kærenda eru órökstuddar með öllu og er þess því krafist að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.“

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 5. október 1992, var því beint til kærenda að leggja fram gögn því til stuðnings að styrkur frá Framleiðnisjóði landbúnaðarins hefði verið tekjufærður hjá Y hf. Jafnframt var óskað upplýsinga um dagsetningu gjafagernings um 16,67% jarðarinnar X til A og því beint til kærenda að leggja fram afrit afsals eða annarra þinglýstra skjala. Gefinn var 30 daga svarfrestur frá dagsetningu bréfsins. Svör hafa ekki borist.

II.

Yfirskattanefnd úrskurðar í máli þessu, sbr. 23. gr. laga nr. 30/1992.

Eftir atvikum þykir rétt að taka kæruna til efnismeðferðar.

Styrkur frá Framleiðnisjóði. Kærendur hafa ekki stutt staðhæfingu sína viðvíkjandi styrk frá Framleiðnisjóði landbúnaðarins neinum gögnum þrátt fyrir áskorun þar um. Að svo vöxnu er kröfu kærenda synjað varðandi þetta kæruatriði.

Tekjufærsla vegna gjafar. Ágreiningslaust er að um skattskylda gjöf var að ræða til dóttur kærenda vegna umræddrar hlutdeildar í jörðinni X, sbr. 4. tl. A-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Kærendur krefjast þess hins vegar að fjárhæð sú sem skattstjóri tekjufærði verði lækkuð verulega, enda seldist jarðarhlutinn varla fyrir meira en helming þeirrar fjárhæðar. Kærendur hafa ekki fært frekari rök fyrir þessari staðhæfingu sinni og ekki stutt hana neinum gögnum. Að þessu virtu þykir verða að synja kröfu kærenda um verulega lækkun á tekjufærðri fjárhæð gjafarinnar. Skattstjóri hefur tekið mið af fasteignamati því er tók gildi 1. desember 1989 við áætlun sína á verðmæti gjafarinnar, sbr. kæruúrskurð hans, dags. 23. nóvember 1990. Eftir öllum atvikum þykir rétt að lækka áætlun skattstjóra með hliðsjón af fasteignamati því er gildi tók 1. desember 1988. Þykir sú lækkun hæfileg 100.000 kr.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfum kærenda er synjað að öðru leyti en því að verðmæti tekjufærðrar gjafar áætlast 400.000 kr.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja