Úrskurður yfirskattanefndar

  • Samlagsfélag
  • Sjálfstæð skattaðild

Úrskurður nr. 401/2006

Lög nr. 90/2003, 2. gr. 1. mgr. 3. tölul.  

Kærandi, sem var samlagsfélag, uppfyllti ekki lagaskilyrði fyrir sjálfstæðri skattskyldu við skráningu félagsins í firmaskrá í kjölfar stofnunar þess þar sem einu félagsaðilar voru hjón. Í úrskurði yfirskattanefndar í málinu kom fram að skattaleg staða samlagsfélaga og sameignarfélaga yrði að ákvarðast þegar í upphafi og að ef lagaskilyrði brysti fyrir sjálfstæðri skattskyldu slíkra félaga við skráningu í firmaskrá þá yrði síðar engin breyting á þeirri stöðu. Var kröfu kæranda hafnað.

I.

Kærandi í máli þessu er samlagsfélag. Hinn 3. nóvember 2005 barst skattstjóra skattframtal félagsins árið 2005. Skattstjóri tók skattframtalið til meðferðar sem kæru á álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2005, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, og með kæruúrskurði, dags. 19. apríl 2006, hafnaði skattstjóri að byggja álagningu opinberra gjalda á hinu innsenda skattframtali kæranda. Í úrskurðinum rakti skattstjóri að í tilkynningu til firmaskrár Reykjavíkur, dags. 2. febrúar 2004, hefði komið fram að A og B, rækju samlagsfélagið X slf. Tilgangur félagsins væri rekstur vörubifreiða og þungavinnuvéla og í tilkynningunni hefði komið fram að félagið væri sjálfstæður skattaðili. Samkvæmt 3. málsl. 3. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 90/2003 gætu hjón ein sér eða með ófjárráða börnum sínum ekki myndað samlagsfélag eða sameignarfélag er væri sjálfstæður skattaðili. Ljóst væri samkvæmt þessu lagaákvæði að ekki væri til staðar heimild í lögum til þess að kærandi yrði sjálfstæður skattaðili. Samkvæmt 3. mgr. 2. gr. laga nr. 90/2003 skyldi skipta tekjum og eignum samlags- eða sameignarfélags, sem ekki teldist sjálfstæður skattaðili, milli félagsaðila í samræmi við eignaraðild þeirra. Með vísan til framangreinds yrði ekki fallist á ósk kæranda um að vera skráð sem sjálfstæður skattaðili, sbr. 3. málsl. 3. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 90/2003. Með úrskurði sínum ákvarðaði skattstjóri hins vegar kæranda stofn til tryggingagjalds 1.473.400 kr. vegna launagreiðslna á árinu 2004, sbr. lög nr. 113/1990, um tryggingagjald.

II.

Með kæru, dags. 5. júlí 2006, hefur umboðsmaður kæranda skotið kæruúrskurði skattstjóra, dags. 19. apríl 2006, til yfirskattanefndar. Í kærunni kemur fram að þegar gengið hafi verið frá félagssamningi við stofnun kæranda í ársbyrjun 2004 hafi ekki verið fyrir hendi vitneskja um að hjónum væri óheimilt að mynda samlagsfélag sem væri sjálfstæður skattaðili. Engar athugasemdir hefðu verið gerðar hjá firmaskrá varðandi þetta atriði þegar félagssamningur og tilkynning um stofnun kæranda hefðu verið lagðir fram þann 2. febrúar 2004. Þá hefðu engar athugasemdir verið gerðar að þessu leyti þegar sótt hefði verið um kennitölu fyrir kæranda hjá Hlutafélagaskrá né þegar félagið hefði tilkynnt skattstjóra um virðisaukaskattsskylda starfsemi og skráningu á launagreiðendaskrá. Frá stofndegi hafi kærandi verið í fullum rekstri og stjórnendur þess staðið í þeirri trú að félagið væri sjálfstæður skattaðili og hagað rekstrinum samkvæmt því. Ljóst sé samkvæmt framansögðu að mistök hefðu verið gerð við frágang á félagssamningi vegna kæranda og slík mistök hljóti að mega leiðrétta. Tilkynning um breytingu á skráningu félagsins hafi verið afhent firmaskrá þann 10. maí 2006, sbr. meðfylgjandi ljósrit. Í ljósi framanritaðs sé þess krafist að kærandi verði áfram sjálfstæður skattaðili og að álagningu opinberra gjalda verði hagað samkvæmt því og úrskurður skattstjóra felldur úr gildi.

III.

Með bréfi, dags. 13. október 2006, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Þess er krafist að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“

IV.

Samkvæmt 3. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, bera samlagsfélög og sameignarfélög með ótakmarkaðri ábyrgð félagsaðila sjálfstæða skattskyldu, enda sé félagið skráð í firmaskrá hér á landi og þess óskað við skráningu að félagið sé sjálfstæður skattaðili og við skráningu afhentur félagssamningur þar sem getið sé eignarhlutfalla eigenda, innborgaðs stofnfjár svo og hvernig félagsslitum skuli háttað. Senda skal skattstjóra vottorð um skráningu og staðfest eftirrit af félagssamningi með fyrsta skattframtali þessara félaga. Tekið er fram að hjón ein sér eða með ófjárráða börnum sínum geti ekki myndað samlagsfélag eða sameignarfélag er sé sjálfstæður skattaðili.

Óumdeilt er í máli þessu að kærandi, sem er samlagsfélag, uppfyllti ekki lagaskilyrði fyrir sjálfstæðri skattskyldu við skráningu félagsins í firmaskrá á árinu 2004 í kjölfar stofnunar þess í janúar á því ári þar sem einu félagsaðilar kæranda voru hjónin A og B, sbr. niðurlagsákvæði 3. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 90/2003. Telja verður samkvæmt orðalagi ákvæðis 3. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 90/2003 og forsögu þess að skattaleg staða samlagsfélaga og sameignarfélaga verði að ákvarðast þegar í upphafi og síðar verði engin breyting á þeirri stöðu, að því undanskildu að heimil er niðurfelling á sjálfstæðri skattskyldu, sbr. úrskurð yfirskattanefndar nr. 942/1994. Hefur og óslitið verið byggt á þeim skilningi í úrskurðaframkvæmd, sbr. t.d. úrskurð ríkisskattanefndar nr. 419/1988, sem birtur er á bls. 354 í úrskurðasafni nefndarinnar vegna áranna 1986-1989, og úrskurði yfirskattanefndar nr. 252/1994 og 652/1996. Samkvæmt samræmisrökum verður að telja að ákvæðið feli jafnframt í sér að ef lagaskilyrði brestur fyrir sjálfstæðri skattskyldu samlagsfélags eða sameignarfélags við skráningu þess í firmaskrá, svo sem við á í tilviki kæranda, þá verði síðar engin breyting á þeirri stöðu. Samkvæmt því verður að hafna kröfu kæranda í máli þessu.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja