Úrskurður yfirskattanefndar

  • Sambýlisfólk
  • Barnabætur
  • Vaxtabætur

Úrskurður nr. 173/2007

Gjaldár 2006

Lög nr. 90/2003, 62. gr. 3. mgr., 68. gr. A- og B-liður   Reglugerð nr. 990/2001, 10. gr.  

Talið að við ákvörðun barnabóta og vaxtabóta sambýlisfólks, sem uppfyllti skilyrði fyrir samsköttun í lok tekjuárs, bæri að miða við samanlagðar tekjur beggja að teknu tilliti til frádráttarliða, enda þótt ekki væri óskað samsköttunar.

I.

Kærendur í máli þessu, sem hófu sambúð þann 1. janúar 2005 samkvæmt því sem skráð er í Þjóðskrá töldu fram til skatts og voru skattlögð sem einstaklingar gjaldárið 2006. Voru kærendum ákvarðaðar barnabætur og vaxtabætur eftir þeim reglum sem gilda um hjón.

Með ódagsettri kæru, sem móttekin var hjá skattstjóra þann 22. ágúst 2006, gerðu kærendur athugasemdir við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2006. Óskuðu kærendur m.a. eftir því að verða sérsköttuð og fóru fram á að barnabætur þeirra yrðu leiðréttar til samræmis.

Með kæruúrskurði, dags. 9. janúar 2007, hafnaði skattstjóri kröfu kærenda um leiðréttingu á barnabótum. Í úrskurðinum rakti skattstjóri ákvæði 3. mgr. 62. gr. og 4. og 5. málsl. 1. mgr. A-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og tók fram að í ljósi umræddra ákvæða yrði að hafna beiðni kærenda „um sérsköttun við ákvörðun barnabóta“ þar sem fram kæmi í 5. málsl. 1. mgr. A-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003 að í tilviki sambýlisfólk, sem uppfyllti skilyrði þess að vera skattlagt sem hjón, bæri að ákvarða barnabætur eins og hjá hjónum jafnvel þótt sambýlisfólk óskaði ekki eftir skattlagningu eftir hjónareglum. Sama gilti um ákvörðun vaxtabóta. Því yrði að hafna kröfu kærenda um leiðréttingu á barnabótum.

II.

Með kæru, dags. 10. febrúar 2007, hefur umboðsmaður kærenda skotið kæruúrskurði skattstjóra, dags. 9. janúar 2007, til yfirskattanefndar. Í kærunni kemur fram að óskað sé eftir endurskoðun á ákvörðun skattstjóra varðandi samsköttun og barnabætur. Er rakið að þegar kærendur hafi skráð sig í sambúð í ársbyrjun 2005 hafi þeim verið tjáð að þau fengju árs aðlögunartíma áður en þau yrðu samsköttuð og að sambúðin hefði ekki áhrif á barnabætur kæranda, A, vegna ársins 2005. Þá er tekið fram að kærendur séu ógift og barnlaus.

III.

Með bréfi, dags. 20. apríl 2007, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Þess er krafist að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“

IV.

Í 3. mgr. 62. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, eins og ákvæðið hljóðaði á þeim tíma sem mál þetta varðar, er kveðið á um það að karl og kona, sem búi saman í óvígðri sambúð og eigi sameiginlegt lögheimili, eigi rétt á að telja fram og vera skattlögð sem hjón, sem samvistum eru, ef þau hafi átt barn saman eða konan er þunguð eða sambúðin hafi varað samfleytt í a.m.k. eitt ár, enda óski þau þess bæði skriflega við skattyfirvöld.

Fyrir liggur að kærendur hafa verið skráð í sambúð frá og með 1. janúar 2005. Samkvæmt því verður að miða við að kærendur hafi uppfyllt skilyrði til skattlagningar samkvæmt 3. mgr. 62. gr. laga nr. 90/2003 við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2006.

Samkvæmt 1. mgr. A-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003 skal skipta barnabótum til helminga milli hjóna. Hið sama gildir um sambúðarfólk sem uppfyllir skilyrði fyrir samsköttun, sbr. 3. mgr. 62. gr. laga nr. 90/2003, í lok tekjuársins, enda þótt það óski ekki eftir að vera skattlagt samkvæmt þeirri grein. Með hliðstæðum hætti er gert ráð fyrir því í 7. mgr. B-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003 að vaxtabótum skuli skipt til helminga milli hjóna og að sama gildi um sambýlisfólk sem uppfyllir skilyrði 3. mgr. 62. gr. í lok tekjuárs, enda þótt það óski ekki eftir að vera skattlagt samkvæmt þeirri grein. Í 4. mgr. A- og B-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003 er mælt fyrir um ákvörðun barnabóta og vaxtabóta með tilliti til tekna og eigna skattaðila, svo sem þær eru nánar skilgreindar í ákvæðum þessum. Er í því sambandi m.a. kveðið á um það í 4. mgr. B-liðar 68. gr. laganna að hjá hjónum eða sambýlisfólki, sem uppfyllir skilyrði 3. mgr. 62. gr. í lok tekjuárs, skuli við útreikning miðað við samanlagðar tekjur beggja að teknu tilliti til frádráttar.

Skýra verður framangreind ákvæði 1. og 4. mgr. A-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003 og 4. og 7. mgr. B-liðar sömu lagagreinar til samræmis þannig að við ákvörðun barnabóta og vaxtabóta sambýlisfólks, sem uppfyllir skilyrði 3. mgr. 62. gr. laganna í lok tekjuárs, skuli miðað við samanlagðar tekjur beggja að teknu tilliti til frádráttarliða, enda þótt ekki sé óskað skattlagningar samkvæmt síðarnefndu lagagreininni. Að því er varðar vaxtabætur sérstaklega er skýrt kveðið á um þetta í 3. málsl. 10. gr. reglugerðar nr. 990/2001, um greiðslu vaxtabóta, þar sem segir að „hjá hjónum eða sambýlisfólki, sem uppfyllir skilyrði 3. mgr. 63. gr. laga nr. 75/1981 í lok tekjuárs, enda þótt það óski ekki samsköttunar, skal við útreikning miðað við samanlagðar tekjur beggja að teknu tilliti til frádráttar samkvæmt framansögðu“.

Samkvæmt framansögðu hefur skattstjóri ákvarðað barnabætur og vaxtabætur kærenda gjaldárið 2006 í samræmi við gildandi lög og er kröfu kærenda því hafnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kærenda er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja