Úrskurður yfirskattanefndar

  • Teknategund
  • Söluhagnaður lausafjár
  • Sala á eigin listaverkum

Úrskurður nr. 297/2007

Gjaldár 2006

Lög nr. 90/2003, 7. gr. B-liður, 16. gr. 2. mgr.  

A var sjálfstætt starfandi listamaður en lét af listsköpun á árinu 2000. Talið var að sala A á listaverki á árinu 2005 félli undir atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi A. Var í því sambandi vísað til þess að A hefði unnið að gerð listaverksins á árunum 1998 og 1999, þ.e. á þeim tíma sem A hefði haft með höndum sjálfstæða starfsemi sem listamaður, og fært listaverkið til eignar í rekstrinum auk þess sem A hefði haft tekjur af sölu listaverka á árinu 2002.

I.

Málavextir eru þeir að með bréfi, dags. 29. maí 2006, óskaði skattstjóri eftir skýringum kæranda á því að verktakagreiðsla frá X að fjárhæð 1.350.000 kr., sem kærandi hefði fengið greidda á árinu 2005 samkvæmt innsendum launamiða, væri ekki talin fram í skattframtali kæranda árið 2006. Vísaði skattstjóri um skattskyldu greiðslu þessarar til 1. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, en tók fram að teldi kærandi að um greiðslu vegna sjálfstæðrar starfsemi eða eigin atvinnurekstrar væri að ræða byggðist skattskylda greiðslunnar á B-lið 7. gr. laga nr. 90/2003 og kynni kærandi þá að eiga rétt á frádrætti vegna kostnaðar við öflun teknanna, sbr. 31. gr. laga nr. 90/2003. Ef svo væri þyrfti kærandi að leggja fram rekstrar- og efnahagsreikning, sbr. 1. mgr. 90. gr. laga nr. 90/2003. Var kæranda veittur 12 daga frestur til að svara bréfi skattstjóra.

Með bréfi, dags. 25. júlí 2007, tilkynnti skattstjóri kæranda með vísan til 1. og 3. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003 um þá breytingu á skattframtali hennar árið 2006 að greiðsla frá X að fjárhæð 1.350.000 kr. hefði verið færð til skattskyldra tekna sem laun í reit 21 í skattframtalinu. Vísaði skattstjóri til bréfs síns til kæranda, dags. 29. maí 2006, sem ekkert svar hefði borist við. Um skattskyldu vísaði skattstjóri til 1. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003.

Með kæru til skattstjóra, dags. 10. ágúst 2006, mótmælti umboðsmaður kæranda breytingu skattstjóra á skattframtali kæranda árið 2006. Í kærunni kom fram að umrædd greiðsla frá X að fjárhæð 1.350.000 kr. væri greiðsla fyrir listaverk sem verið hefði í einkaeigu kæranda um margra ára skeið. Teldi kærandi að sala listaverksins félli undir ákvæði 2. mgr. 16. gr. laga nr. 90/2003 og væri þar af leiðandi skattfrjáls. Væri þess því krafist að tekjufærsla skattstjóra á greiðslunni yrði felld niður.

Með kæruúrskurði, dags. 19. desember 2006, hafnaði skattstjóri kröfu kæranda. Forsendur úrskurðarins voru svohljóðandi:

„Í samtali við yður þann 15. desember sl. kom fram að ofangreind greiðsla væri fyrir listaverk sem þér hefðuð unnið á árunum 1998 og 1999 og að listaverkið hafi verið eignfært í eignaskrá er fylgdi rekstrarskýrslu yðar tekjuárið 2000.

Í ljósi framanritaðs og þess að þér hafið verið starfandi sem listamaður og haft rekstrartekjur af starfsemi yðar, sbr. m.a. skattframtal yðar 2003 og sbr. einnig upplýsingar sem koma fram á vef Gallerí Foldar, www.myndlist.is og vefnum www.umm.is, er eigi fallist á að tekjurnar falli undir 2. mgr. 16. gr. laga nr. 90/2003.“

II.

Með kæru, dags. 12. mars 2007, hefur umboðsmaður kæranda skotið kæruúrskurði skattstjóra, dags. 19. desember 2006, til yfirskattanefndar. Í kærunni er þess aðallega krafist að breyting skattstjóra á skattframtali kæranda árið 2006 verði felld úr gildi. Til vara er þess krafist að kæranda verði heimilað að dreifa tekjum af sölu listaverks á árinu 2005 til skattlagningar í samræmi við 60. gr. laga nr. 90/2003. Í kærunni er rakið að kærandi hafi starfað sem listamaður um árabil, en hún hafi orðið að hætta störfum af heilsufarsástæðum og hafi af þeim sökum ekki stundað listsköpun frá árinu 2000. Á því ári hafi kærandi lagt lokahönd á listaverkið „Z“ sem sýnt hafi verið á listsýningu í Bandaríkjunum haustið 2000. Að lokinni sýningunni hafi kærandi tekið listaverkið til einkanota og verkið prýtt heimili hennar. Hafi kærandi eignfært verkið í árslok 2000, sbr. meðfylgjandi ársreikning fyrir árið 2000. Á miðju ári 2005 hafi X hins vegar falast eftir verkinu til kaups og hafi náðst samkomulag um kaupverð á því ári. Verkið hafi því verið í einkaeigu kæranda í fimm ár þegar hún hafi selt það og hlyti kærandi því að eiga rétt á sömu ívilnun af hagnaði af sölu lausafjár og aðrir skattþegnar. Upplýsingar á ýmsum vefsíðum, sem skattstjóri hafi vísað til, beri með sér að kærandi hafi ekki tekið þátt í neinum listsýningum frá árinu 1994, en eðlilegt sé að um kæranda sé fjallað á slíkum síðum vegna listaverka sem muni halda nafni hennar á lofti um ókomna tíð. Þá sé athugasemdum skattstjóra varðandi tekjur af listsköpun á árinu 2003 vísað á bug, enda sé í því tilviki um að ræða tekjur af kennslustörfum.

III.

Með bréfi, dags. 18. maí 2007, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Með úrskurði skattstjóra voru kr. 1.350.000 kr. færðar kæranda til tekna af rekstri þar sem greiðsla væri fyrir listaverk sem kærandi hefði unnið á árunum 1998 og 1999 og listaverkið hefði verið eignfært í eignaskrá er fylgdi rekstrarskýrslu kæranda tekjuárið 2000. Í kæru gerir umboðsmaður kæranda þá aðalkröfu að álögð gjöld gjaldárið 2006 verði lækkuð enda hafi umrætt listaverk verið í einkaeign kæranda í fimm ár þegar kom að sölu þess og því væri um að ræða sölu af lausafé (sic). Þá kemur m.a. fram í kæru að kærandi hafi orðið að hætta að starfa við list sína af heilsufarsástæðum og hafi ekki stundað listsköpun frá árinu 2000. Í kærunni segir einnig: „Er verkið eignfært í árslok 2000 samanber ársreikning umbjóðanda sem hálagt fylgir“.

Svo sem fram kemur í kæru var umrætt listaverk eignfært í rekstri kæranda í árslok 2000. Kærandi hefur ekki lagt fram nein gögn sem gefa til kynna að umrætt listaverk hafi verið tekjufært í rekstri svo sem ber að gera ef um úttekt úr rekstri er að ræða. Þess er því krafist að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.

Í kæru fer umboðsmaður kæranda til vara fram á dreifingu tekna í samræmi við 60. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Um er að ræða kröfu sem skattstjóri hefur ekki tekið neina afstöðu til. Að þessu athuguðu og með hliðsjón af þeim lagarökum sem búa að baki 12. gr. laga nr. 30/2003, um yfirskattanefnd, er þess krafist að kærunni, að því er tekur til varakröfunnar, verði vísað til skattstjóra til uppkvaðningar nýs kæruúrskurðar.“

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 21. maí 2007, var kæranda sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og henni gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar.

Með bréfi, dags. 22. maí 2007, hefur umboðsmaður kæranda gert grein fyrir athugasemdum sínum. Kemur fram í bréfinu að glögglega megi sjá af meðfylgjandi rekstrarreikningi kæranda fyrir árið 2000 að umrætt listaverk, sem málið snúist um, hafi verið tekjufært og sé því óskiljanlegur sá rökstuðningur ríkisskattstjóra að ekki hafi verið lögð fram gögn um að verkið hafi verið tekjufært á því ári. Eðli málsins samkvæmt hljóti ávallt að eiga sér stað úttekt úr rekstri þegar skattaðili hættir að telja fram sem rekstraraðili og geri rekstrareignir að sínum, eins og við eigi í tilviki kæranda.

IV.

Óumdeilt er í málinu að greiðsla til kæranda að fjárhæð 1.350.000 kr. frá X á árinu 2005 sé vegna kaupa X á listaverki eftir kæranda. Er aðalkrafa kæranda byggð á því að umrædd sala falli undir ákvæði 2. mgr. 16. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og að hagnaður af sölunni sé þar af leiðandi undanþeginn skattskyldu. Þessu hafnaði skattstjóri með hinum kærða úrskurði, dags. 19. desember 2006, og vísaði til þess að kærandi hefði haft rekstrartekjur af sjálfstæðri starfsemi sinni sem listamaður, sbr. m.a. skattframtal kæranda árið 2003, auk þess sem hið selda listaverk hefði verið eignfært í efnahagsreikningi kæranda pr. 31. desember 2000 sem fylgt hefði skattframtali hennar árið 2001.

Samkvæmt 1. mgr. 16. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, telst söluhagnaður af sölu ófyrnanlegs lausafjár, annars en hlutabréfa og eignarhluta í samlögum og sameignarfélögum, að fullu til skattskyldra tekna á söluári, og skiptir ekki máli hve lengi skattaðili hefur átt hina seldu eign. Samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar telst hagnaður manns af sölu lausafjár, sem ekki er notað í atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, ekki til tekna, enda geri hann líklegt að sala þess falli ekki undir atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi hans eða að eignarinnar hafi ekki verið aflað í þeim tilgangi að selja hana aftur með hagnaði, sbr. 21. gr. laganna.

Af hálfu kæranda er komið fram að hún hafi lokið gerð hins selda listaverks á árinu 2000 og að á sama ári hafi kærandi látið af listsköpun af heilsufarsástæðum. Samkvæmt gögnum málsins mun kærandi hins vegar hafa unnið að gerð listaverksins á árunum 1998 og 1999, þ.e. á þeim tíma þegar hún hafði með höndum sjálfstæða starfsemi sem listamaður, og færði kærandi verkið til eignar í rekstrinum, sbr. efnahagsreikning pr. 31. desember 2000 sem fylgdi skattframtali kæranda árið 2001, sbr. og kæru umboðsmanns kæranda til yfirskattanefndar, dags. 12. mars 2007. Þá liggur fyrir að kærandi hafði tekjur af sölu myndverka á árinu 2002 að fjárhæð 75.000 kr. sem færðar voru með öðrum rekstrartekjum, þ.e. ferðastyrk úr Listasjóði, í rekstraryfirliti (RSK 4.10) með skattframtali kæranda árið 2003. Að framangreindu athuguðu þykir verða að byggja á því að sala umrædds listaverks falli undir atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi kæranda. Verður því að hafna aðalkröfu kæranda í málinu, en rétt þykir að eignfært verð verksins 200.000 kr.komi til frádráttar tekjufærslu.

Varakrafa kæranda lýtur að því að henni verði heimilað að dreifa greindum tekjum af sölu listaverksins til skattlagningar milli ára, sbr. heimild í 2. málsl. 60. gr. laga nr. 90/2003, án þess þó að nánari grein sé gerð fyrir umbeðinni tilhögun tekjudreifingar í því sambandi í kærunni til yfirskattanefndar. Þessi krafa kom fyrst fram í kærunni og hefur skattstjóri því ekki tekið neina afstöðu til hennar. Að því athuguðu og með hliðsjón af þeim lagarökum sem búa að baki 12. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, þykir rétt að senda kæruna til skattstjóra til meðferðar og uppkvaðningar nýs kæruúrskurðar að því er þetta kæruatriði varðar.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Tekjufærsla verður 1.150.000 kr. en að öðru leyti er aðalkröfu kæranda hafnað. Varakrafa kæranda er send skattstjóra til meðferðar og uppkvaðningar nýs kæruúrskurðar.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja