Úrskurður yfirskattanefndar

  • Tapaðar kröfur
  • Málsmeðferð skattstjóra

Úrskurður nr. 295/2007

Gjaldár 2003

Lög nr. 90/2003, 31. gr. 3. tölul., 96. gr.   Lög nr. 37/1993, 22. gr.   Reglugerð nr. 483/1994, 13. gr., 14. gr.  

Kröfu kæranda, sem var hlutafélag, um gjaldfærslu tapaðrar viðskiptakröfu í skattskilum kæranda gjaldárið 2003 var hafnað þar sem félagið þótti ekki hafa sýnt fram á að krafan hefði verið sannanlega töpuð á árinu 2002. Þá var ekki fallist á með kæranda að málsmeðferð skattstjóra hefði verið svo áfátt að leitt gæti til ógildingar á hinni umdeildu ákvörðun hans.

I.

Kæruefnið í máli þessu, sem barst yfirskattanefnd með kæru, dags. 22. júní 2006, er niðurfelling skattstjóra á gjaldfærslu tapaðrar viðskiptakröfu að fjárhæð 4.862.152 kr. í rekstrarreikningi kæranda fyrir árið 2002, sbr. úrskurð skattstjóra, dags. 23. mars 2006, um endurákvörðun opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2003. Í kærunni er þess aðallega krafist að úrskurður skattstjóra verði felldur úr gildi vegna formlegra annmarka á meðferð málsins en til vara er þess krafist að fallist verði á gjaldfærslu umræddrar viðskiptakröfu að fjárhæð 4.862.152 kr. í skattskilum kæranda gjaldárið 2003. Þá er þess krafist að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt mati yfirskattanefndar.

II.

Málavextir eru þeir að í skattframtali kæranda árið 2003 var færð til gjalda töpuð viðskiptakrafa að fjárhæð 4.862.152 kr. Með bréfi til kæranda, dags. 29. apríl 2004, fór skattstjóri fram á að félagið legði fram hreyfingalista yfir gjaldfærðar tapaðar kröfur í rekstrarreikningi fyrir árið 2002 og gerði grein fyrir tilefni afskrifta á kröfum. Í svarbréfi kæranda, dags. 26. maí 2004, kom fram að kærandi hefði selt B fasteign að N-götu árið 1999 og í skattskilum félagsins árið 2000 hefði verið færð útistandandi viðskiptakrafa á hendur B að fjárhæð 7.864.335 kr. vegna sölu fasteignarinnar. Kaupandi hefði greitt eftirstöðvar útborgunar á árinu 2001 og þá átt eftir að afhenda kæranda húsbréf að fjárhæð 4.862.152 kr. til lúkningar skuldinni. Vegna „misskilnings svo og ofmats á trausti“, en maki kaupanda hefði á greindum tíma verið starfsmaður aðalhluthafa félagsins, hefði kaupandi fengið afsal fyrir eigninni án þess að til afhendingar húsbréfanna kæmi. Á árinu 2002 hefði lögfræðingur kæranda síðan upplýst um að ekki væri unnt að innheimta skuldina þar sem kaupandi hefði þá verið búin að selja eignina og væri eignalaus.

Með bréfi til kæranda, dags. 3. janúar 2005, óskaði skattstjóri eftir því með vísan til ákvæða 3. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, og 13. og 14. gr. reglugerðar nr. 483/1994, um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, að félagið léti í té gögn sem sýndu fram á að krafa félagsins á hendur B að fjárhæð 4.862.152 kr. væri sannanlega töpuð. Af þessu tilefni barst skattstjóra bréf frá lögfræðistofunni Y ehf., dags. 27. janúar 2005, þar sem fram kom að krafa á hendur B hefði verið í innheimtu hjá stofunni en niðurstaða málsins orðið sú að vegna eignaleysis skuldara hefði innheimtutilraunum verið hætt og „málið afskrifað“.

Með bréfi, dags. 3. febrúar 2005, boðaði skattstjóri kæranda endurákvörðun áður álagðra opinberra gjalda gjaldárið 2003 þar sem fyrirhugað væri að fella niður gjaldfærslu tapaðrar viðskiptakröfu 4.862.152 kr. í rekstrarreikningi kæranda fyrir árið 2002. Vísaði skattstjóri til ákvæða 1. mgr. 3. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003 sem og til ákvæða 13. og 14. gr. reglugerðar nr. 483/1994 og tók fram að kærandi hefði ekki lagt fram umbeðin gögn til staðfestingar því að krafan væri sannanlega töpuð, enda þætti yfirlýsing lögmanns um eignaleysi viðkomandi skuldara ekki nægileg staðfesting á því. Fram kæmi í skýringum með ársreikningi kæranda fyrir árið 2002 að skuldin hefði verið afskrifuð vegna gjaldþrots skuldara, en þrátt fyrir það hefði kærandi ekki lagt fram nein gögn um gjaldþrot skuldara, nauðasamninga eða árangurslaus fjárnám hjá honum eða gögn um innheimtutilraunir á hendur skuldaranum. Þar sem kærandi hefði þannig ekki sýnt fram á að krafan hefði verið sannanlega töpuð, sbr. 3. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003, væri fyrirhugað að fella niður gjaldfærslu kröfunnar í skattframtali kæranda árið 2003.

Með bréfi, dags. 9. febrúar 2005, mótmælti fyrirsvarsmaður kæranda fyrirhugaðri breytingu skattstjóra á skattframtali félagsins árið 2003. Í bréfinu var rakið að kærandi hefði selt B hálfbyggt parhús við N-götu á árinu 2000 og samkvæmt kaupsamningi hefði seljanda borið að skila ákveðnum verkþáttum sem fyrri seljandi hefði tekið að sér að framkvæma. Er frá leið hefði einungis hluti af umsömdu kaupverði verið greiddur þar sem B hefði hvorki getað né viljað standa skil á eftirstöðvum kaupverðsins, m.a. vegna ágreinings vegna verkþátta sem fyrri seljandi hefði átt að sjá um. Skiptar skoðanir hefðu verið um umfang þessara verkþátta og margir sameiginlegir fundir verið haldnir um málið, en án árangurs. Stuttu eftir fullnaðarfrágang eignarinnar hefði B selt hana með verulegu tapi og staðið eftir eignalaus. Á árinu 2002 hefði kærandi staðið frammi fyrir því að leita fullnustu kröfunnar fyrir dómstólum, en þá hefði legið fyrir að fyrri seljandi, Z ehf., hefði verið gjaldþrota og B verið orðin eignalaus og á vanskilaskrá, sbr. meðfylgjandi yfirlýsingu B, dags. 9. febrúar 2005, og útprentun úr vanskilaskrá Lánstrausts hf., dags. 8. sama mánaðar. Niðurstaða lögmanns og endurskoðunarstofu kæranda hefði verið sú að það væri óðs manns æði að leggja í kostnað vegna málssóknar á hendur eignalausum aðilum. Hefði því verið ákveðið að afskrifa kröfuna án frekari kostnaðar.

Með úrskurði um endurákvörðun, dags. 23. mars 2006, hratt skattstjóri hinni boðuðu breytingu í framkvæmd og felldi niður gjaldfærslu tapaðrar viðskiptakröfu að fjárhæð 4.862.152 kr. í rekstrarreikningi kæranda fyrir árið 2002. Í úrskurðinum rakti skattstjóri gang málsins og vísaði sem fyrr til ákvæða 1. mgr. 3. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003 og 13. og 14. gr. reglugerðar nr. 483/1994. Vegna athugasemda í bréfi kæranda frá 9. febrúar 2005 tók skattstjóri fram að fyrir lægi að kærandi hefði „ekki haft í frammi eiginlegar innheimtutilraunir vegna vanskila umrædds skuldara“, eins og sagði í úrskurði skattstjóra. Þá yrði ekki ráðið af upplýsingakerfi Lánstrausts hf. að árangurslaust fjárnám hefði farið fram hjá skuldaranum sem orðið hefði grundvöllur að gjaldþrotaskiptum á búi hennar. Að virtum fyrirliggjandi upplýsingum þætti kærandi ekki hafa sýnt fram á að umrædd krafa hefði verið sannanlega töpuð í skilningi 3. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003 á árinu 2002. Með vísan til þess yrði ekki fallist á kröfu kæranda í málinu og kæmi hin boðaða endurákvörðun því til framkvæmda.

III.

Í kæru umboðsmanns kæranda til yfirskattanefndar, dags. 22. júní 2006, er þess aðallega krafist að úrskurður skattstjóra um endurákvörðun, dags. 23. mars 2006, verði felldur úr gildi þar sem úrskurðurinn hafi hvorki verið sendur kæranda með sannanlegum hætti né verið rökstuddur. Til vara er þess krafist að fallist verði á gjaldfærslu tapaðrar viðskiptakröfu að fjárhæð 4.862.152 kr. í skattskilum kæranda gjaldárið 2003. Þá er þess krafist að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði.

Til stuðnings aðalkröfu kæranda kemur fram í kærunni að úrskurður skattstjóra um endurákvörðun, dags. 23. mars 2006, hafi verið sendur kæranda í ábyrgðarbréfi sama dag. Hins vegar hafi enginn tekið við bréfinu og bréfið af þeim sökum verið endursent. Kærandi hafi síðar fengið vitneskju um skuld vegna opinberra gjalda og eftir ítrekaðar tilraunir umboðsmanns félagsins hafi kæranda loks að nýju verið sendur undirritaður og dagsettur úrskurður ásamt ljósriti af umslagi ábyrgðarbréfsins hinn 20. júní 2006. Kærandi hafi talið að málið hefði lagst upp, enda ekkert heyrst frá skattstjóra vegna málsins í meira en ár. Telja verði samkvæmt þessu að skattstjóri hafi ekki tilkynnt úrskurð sinn og séð til þess að úrskurðurinn bærist kæranda og því brotið gegn ákvæði 5. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003. Af þessum sökum sé þess krafist að úrskurður skattstjóra verði felldur úr gildi. Þá sé byggt á því af hálfu kæranda að rökstuðningur hins kærða úrskurðar skattstjóra sé ófullnægjandi, sbr. 5. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003 og 21. og 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, enda hafi skattstjóri ekkert fjallað um fram komnar athugasemdir kæranda og því ógerlegt fyrir kæranda að átta sig á forsendum skattstjóra. Beri því að ógilda úrskurð skattstjóra.

Þá er gerð grein fyrir varakröfu kæranda í kærunni og tekið fram að sú forsenda skattstjóra fyrir höfnun gjaldfærslu tapaðrar viðskiptakröfu að fjárhæð 4.862.152 kr., að kærandi hafi ekki haft í frammi eiginlegar innheimtutilraunir og árangurslaust fjárnám ekki farið fram, eigi sér enga stoð í ákvæði 14. gr. reglugerðar nr. 483/1994, enda sé nægjanlegt samkvæmt ákvæðinu að það hafi sýnt sig við innheimtutilraunir annarra kröfuhafa að skuldari sé ófær til greiðslu. Á skattstjórastigi málsins hafi kærandi lagt fram yfirlýsingu lögmanns og staðfest endurrit frá Lánstrausti hf. til stuðnings kröfu sinni, en skattstjóri ekki fjallað sérstaklega um þau gögn. Þá sé skilningur skattstjóra í andstöðu við leiðbeiningar ríkisskattstjóra um rekstrarkostnað frá 5. apríl 1995 þar sem tekið sé fram að yfirlýsing lögmanns um að krafa sé óinnheimtanleg ætti að duga til að sýna fram á að tap á kröfu sé sannanlegt, enda sé gerð grein fyrir því á hverju sú niðurstaða sé byggð. Túlkun ríkisskattstjóra á ákvæði 14. gr. reglugerðar nr. 483/1994 sé því mun rýmri en túlkun skattstjóra. Sé því ljóst að kærandi hafi sýnt fram á að umrædd krafa hafi verið töpuð og sé þess því krafist að ákvörðun skattstjóra verði hnekkt.

Í niðurlagi kærunnar kemur fram að krafist sé greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með vísan til málsins í heild, m.a. í ljósi brots skattstjóra gegn rökstuðningsskyldu sinni við meðferð málsins.

IV.

Með bréfi, dags. 6. október 2006, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Þess er krafist að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans og eftirfarandi athugasemda.

Samkvæmt b-lið 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 483/1994, um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, kemur fram að öll rök verða að liggja til þess að krafa sé töpuð. Fyrst og fremst er um það að ræða að sýna fram á að skuldari sé ófær til greiðslu. Afskrift kröfu verður að vera studd gögnum, sem sýna sannarlega fram á ógjaldfærni skuldara, t.d. gögnum sem sýna að innheimtutilraunir annarra kröfuhafa hafi leitt til þess að fjárnám var gert hjá skuldara og því lauk sem árangurslausu. Rök, eins og þau að könnun á eignarstöðu skuldara hafi sýnt að ekki væru miklar líkur á að krafan fengist greidd, fjárhæð kröfunnar væri lág og því þætti það ekki svara kostnaði að óska eftir fjárnámi hjá skuldara, eru ekki nægjanleg til þess að afskrifa megi kröfu á grundvelli b-liðar. Einnig er óheimilt að afskrifa kröfu að lokinni almennri innheimtu, sem felur í sér bréfaskipti við skuldara, heimsóknir til hans og símhringingar, jafnvel þótt slík innheimta fari fram hjá þriðja aðila enda sýnir slík innheimta, ein og sér, ekki fram á að skuldari sé ófær til greiðslu. Það telst heldur ekki fullnægjandi sönnun fyrir því að krafa sé töpuð að kröfuhafi sýni fram á lélega eigna- og skuldastöðu skuldara. Jafnframt hafa upplýsingar um að dómstóll hafi samþykkt kröfu á hendur skuldara sem aðfararhæfa ekki verið taldar nægilegar til sönnunar fyrir því að krafa sé að fullu töpuð. Sjá til hliðsjónar úrskurði yfirskattanefndar nr. 619/1997 og 614/1998.

Yfirlýsing lögmanns um að innheimtutilraunum hafi verið hætt og málið afskrifað vegna eignaleysis skuldarans, ásamt yfirlýsingu frá skuldara um eignaleysi og útprentun úr vanskilaskrá Lánstrausts er ekki fullnægjandi sönnun fyrir því að skuldari sé ófær til greiðslu, samkvæmt úrskurðarframkvæmd yfirskattanefndar.

Ríkisskattstjóri mótmælir því að neinir þeir annmarkar hafi verið á málsmeðferð skattstjóra sem leiða eigi til ógildingar á hinum kærða úrskurði.“

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 9. október 2006, var kæranda sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og félaginu gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur.

Með bréfi, dags. 6. nóvember 2006, hefur umboðsmaður kæranda gert grein fyrir athugasemdum sínum. Í bréfinu er vísað til meðfylgjandi tölvupósts frá lögmannsstofunni D ehf., dags. 31. október 2006, þar sem gerð sé grein fyrir því af hvaða ástæðum gengið hafi verið að ábyrgðarmanni en ekki aðalskuldara, þ.e. B, við innheimtu á kröfu Þ hf. á hendur henni. Þá veki athygli að í kröfugerð ríkisskattstjóra sé ekkert vikið að leiðbeiningum embættisins frá 5. apríl 1995 heldur látið sitja við tilvísun til úrskurða yfirskattanefndar nr. 619/1997 og 614/1998. Þó séu atvik í hinum fyrrnefnda úrskurði afar frábrugðin atvikum í máli kæranda, en hinn síðarnefndi úrskurður hafi ekki verið birtur og hafi því ekkert fordæmisgildi fyrir mál kæranda. Af meðfylgjandi upplýsingum frá D ehf. sé ljóst að enginn kröfuhafi hefði lagt út í kostnað vegna gjaldþrotaskipta á búi B þar sem um eignalaust bú hafi verið að ræða. Að öðru leyti eru kröfur og málsástæður kæranda ítrekaðar.

V.

Kæruefnið í máli þessu er sú ákvörðun skattstjóra samkvæmt úrskurði hans, dags. 23. mars 2006, um endurákvörðun opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2003, að fella niður gjaldfærslu tapaðrar viðskiptakröfu 4.862.152 kr. í skattskilum kæranda umrætt ár. Voru forsendur skattstjóra þær að kærandi hefði ekki sýnt fram á að umrædd krafa hafi verið sannanlega töpuð á tekjuárinu 2002, sbr. ákvæði 3. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, og 13. og 14. gr. reglugerðar nr. 483/1994, um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi. Af hálfu kæranda er þess aðallega krafist að úrskurður skattstjóra verði felldur úr gildi af formlegum ástæðum en varakrafa félagsins lýtur að því að fallist verði á gjaldfærslu umræddrar kröfu í skattskilum félagsins gjaldárið 2003.

Aðalkrafa kæranda er í fyrsta lagi byggð á því að hinn kærði úrskurður skattstjóra um endurákvörðun hafi ekki verið sendur kæranda með sannanlegum hætti, þ.e. skattstjóri „hafi ekki tilkynnt úrskurð sinn og séð til þess að hann bærist kæranda“, og því brotið gegn ákvæði 5. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003 þar sem fram kemur að skattstjóri skuli senda úrskurð um endurákvörðun í ábyrgðarbréfi til skattaðila eða þess sem framtalsskyldan hvílir á. Ekki verður fallist á þetta, enda liggur fyrir að úrskurður skattstjóra var sendur í ábyrgðarbréfi á skráð heimilisfang kæranda ..., svo sem fram kemur í kæru umboðsmanns kæranda til yfirskattanefndar og gögnum sem henni fylgdu. Var úrskurðurinn því sendur kæranda með lögboðnum hætti, sbr. 5. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003, og verður að teljast á ábyrgð kæranda ef úrskurðurinn barst félaginu ekki í hendur. Verður aðalkrafa kæranda því ekki tekin til greina á þeim grundvelli sem hér um ræðir.

Til stuðnings aðalkröfu kæranda um ógildingu hins kærða úrskurðar skattstjóra er því jafnframt haldið fram í kæru til yfirskattanefndar að rökstuðningi úrskurðarins sé verulega áfátt þar sem skattstjóri hafi ekkert fjallað um fram komin andmæli kæranda í bréfi, dags. 9. febrúar 2005, og þau gögn sem fylgdu því bréfi, sbr. 5. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003 og 21. og 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sem vísað er til í þessu sambandi. Af þessu tilefni er ástæða til að benda á að bæði í boðunarbréfi sínu, dags. 3. febrúar 2005, og í hinum kærða úrskurði vísaði skattstjóri til þeirra réttarreglna sem ákvörðun hans var byggð á og gerði grein fyrir þeirri afstöðu sinni að kærandi hefði ekki sýnt fram á að hin umþrætta krafa hafi verið sannanlega töpuð á árinu 2002 í skilningi 3. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003. Þótt taka megi undir með umboðsmanni kæranda að umfjöllun skattstjóra um andmæli félagsins hefði mátt vera vandaðri verður ekki talið að um verulegan annmarka á rökstuðningi skattstjóra sé að ræða sem leitt geti til ógildingar á hinni kærðu breytingu skattstjóra á skattframtali kæranda árið 2003. Víkur þá að efnishlið málsins.

Samkvæmt 1. mgr. 3. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003, sbr. áður 1. mgr. 3. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, er heimilt að draga tap á útistandandi viðskiptakröfum, ábyrgðum og lánveitingum, sem beint tengjast atvinnurekstrinum, frá tekjum á því tekjuári sem eignir þessar eru sannanlega tapaðar. Í 13. gr. reglugerðar nr. 483/1994 er nánar kveðið á um skilyrði slíkrar gjaldfærslu. Samkvæmt nefndri 13. gr. er heimilt að draga tap á viðskiptakröfum, lánveitingum og skuldaábyrgðum frá tekjum á því tekjuári sem eignir þessar eru sannanlega tapaðar eða ábyrgð á fallin. Samkvæmt a-lið greinarinnar er það skilyrði sett að krafan, lánveitingin eða ábyrgðin stafi beinlínis af atvinnurekstri aðila, þ.e. að hún sé til komin í beinu samhengi við viðskipti eða eðlilega starfsemi hans. Hér komi því eigi til greina lán eða ábyrgðir, sem veitt eru í greiðaskyni eða sem aðstoð við stofnun fyrirtækis eða rekstur. Eigi heldur töp á hlutabréfum eða öðrum slíkum framlögum til félaga, nema atvik falli undir 4. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, sbr. nú 5. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003. Samkvæmt b-lið greinarinnar ber að færa sönnur fyrir því að fjárhæð viðskiptakröfu hafi áður verið talin til tekna, lánveiting eignfærð eða ábyrgð hafi verið veitt. Samkvæmt c-lið greinarinnar kemur töpuð viðskiptakrafa eða veitt lán til frádráttar á því ári þegar slíkt tap er orðið sannanlegt. Í 14. gr. nefndrar reglugerðar er síðan skilgreint hvenær tap á kröfu, sbr. 13. gr., telst sannanlegt. Þar kemur fram að tap á kröfu telst sannanlegt ef krafan er fyrnd eða það sannast á fullnægjandi hátt að eignir séu eigi til fyrir henni eða hún verði eigi greidd, svo sem við gjaldþrot, nauðasamninga, árangurslaust fjárnám o.þ.h. eða ef telja má fullvíst að krafan fáist eigi greidd þótt framangreind atvik séu eigi fyrir hendi. Líkur einar eru þó eigi nægar, heldur verða öll rök að liggja til þess að krafan sé að fullu töpuð og að það hafi sýnt sig við ítrekaðar innheimtutilraunir, þar með talið tilraunir annarra kröfuhafa, að skuldari sé ófær til greiðslu.

Ljóst er að það ber undir skattaðila að sýna fram á með gögnum eða á annan hátt að krafa sé töpuð í skilningi framangreindra reglna. Í þessu sambandi hefur kærandi lagt fram yfirlýsingu lögmanns, dags. 27. janúar 2005, þar sem fram kemur að krafa kæranda á hendur B hafi verið í innheimtu hjá lögmanninum og niðurstaða málsins orðið sú að vegna eignaleysis skuldarans hafi innheimtutilraunum verið hætt og „málið afskrifað“. Ekkert er þó nánar greint frá innheimtutilraunum á hendur B og ekki kemur fram að yfirlýsingin styðjist við sérstök gögn. Í þessu sambandi er til þess að líta að umrædd krafa kæranda á hendur B stafar vegna kaupa hennar á fasteign af kæranda á árinu 1999, en framlögð yfirlýsing lögmannsins er gefin í janúar 2005. Þá verður ekki talið að gögn frá Lánstrausti hf., sem fylgdu bréfi kæranda til skattstjóra, dags. 9. febrúar 2005, sbr. ennfremur tölvupóst héraðsdómslögmanns frá 31. október 2006, sem fylgdi bréfi umboðsmanns kæranda til yfirskattanefndar, dags. 6. nóvember 2006, beri með sér að krafa kæranda hafi verið sannanlega töpuð á árinu 2002 í framangreindum skilningi, en í gögnum þessum koma fram upplýsingar um kröfur frá Þ hf. og S hf. á hendur B samkvæmt árituðum stefnum og greiðsluáskorun frá árinu 2001. Kemur m.a. fram að krafa Þ hf. á hendur B hafi fengist greidd að mestu leyti af uppboðsandvirði fasteignar í eigu sjálfsskuldarábyrgðarmanns sem seld hafi verið nauðungarsölu þann 24. september 2003. Samkvæmt framansögðu verður ekki talið að kærandi hafi sýnt fram á að krafa félagsins á hendur B hafi verið sannanlega töpuð á árinu 2002. Verður því að hafna kröfu kæranda um gjaldfærslu kröfunnar í skattskilum félagsins gjaldárið 2003. Samkvæmt þeim úrslitum málsins verður ennfremur að hafna kröfu kæranda um greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfum kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja