Úrskurður yfirskattanefndar

  • Álag á virðisaukaskatt

Úrskurður nr. 304/2007

Virðisaukaskattur 2006

Lög nr. 50/1988, 27. gr. 1. og 6. mgr.   Reglugerð nr. 667/1995, 9. gr.  

Erlendur viðskiptabanki kæranda sendi greiðslu á virðisaukaskatti kæranda með bankaávísun í pósti til skattstjóra en ekki til viðkomandi innheimtumanns (tollstjóra). Þar sem talið var að leggja mætti til grundvallar að greiðslan hefði borist skattstjóra í síðasta lagi á gjalddaga viðkomandi uppgjörstímabils virðisaukaskatts og með vísan til úrskurðaframkvæmdar í málum af hliðstæðum toga var fallist á kröfu kæranda um niðurfellingu álags vegna síðbúinna skila á virðisaukaskatti.

I.

Með kæru, dags. 26. júní 2007, hefur kærandi kært ákvörðun skattstjóra, dags. 19. júní 2007, varðandi beitingu álags að fjárhæð 336.531 kr. uppgjörstímabilið nóvember-desember 2006 vegna síðbúinna skila á virðisaukaskatti, sbr. 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Krefst kærandi þess að álag verði fellt niður, sbr. 6. mgr. sömu lagagreinar. Jafnframt er gerð krafa um greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd.

II.

Málavextir eru þeir að með bréfi til skattstjóra, dags. 29. mars 2007, fór umboðsmaður kæranda fram á niðurfellingu álags á grundvelli 6. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Voru málavextir raktir á þá leið að viðskiptabanki kæranda í Danmörku hefði gefið út ávísun að fjárhæð 3.365.319 kr. þann 30. janúar 2007 og hefði hún verið send í pósti til skattstjórans í Reykjavík til greiðslu á virðisaukaskatti kæranda fyrir uppgjörstímabilið nóvember-desember 2006. Virtist ávísunin hafa verið framsend af skattstjóra til tollstjórans í Reykjavík, en þann 8. mars 2007 hafi hún verið bókuð af síðargreinda embættinu sem greiðsla á virðisaukaskattsskuld. Fyrst hefðu vextir að fjárhæð 408.978 kr. verið greiddir, en afgangurinn hefði síðan gengið upp í höfuðstól kröfunnar. Þetta hefði þýtt að 408.978 kr. hefði vantað upp á greiðslu á virðisaukaskatti kæranda fyrir uppgjörstímabilið nóvember-desember 2006. Með tilkynningu um virðisaukaskatt, dags. 7. mars 2007, hefði skattstjóri upplýst um ógreiddan virðisaukaskatt kæranda á tímabilinu 2006-48 og hefði komið fram að álag næmi 336.531 kr., auk þess sem dráttarvextir reiknuðust frá 5. febrúar 2007. Kærandi færi þess hér með á leit við skattstjóra að fallist yrði á að skil á virðisaukaskatti uppgjörstímabilið nóvember-desember 2006 hefðu verið í samræmi við fyrirmæli laga og litið yrði þannig á að skatturinn hefði verið greiddur á réttum tíma. Lægi enda fyrir að greiðsla hefði farið frá kæranda þann 30. janúar 2007. Augljóslega hefði því verið fyrir hendi ásetningur til að greiða á réttum tíma, en ekki hefði tekist að upplýsa hvernig stæði á því að ávísunin hefði borist svo seint. Lægi ekki fyrir hvenær skattstjóri hefði móttekið hana, en leitað hefði verið eftir upplýsingum um það án þess að svör hefðu fengist. Ekki lægi fyrir hvort póstsendingin hefði tekið meira en fimm daga, en kærandi hefði talið þann tíma nægja til að koma greiðslu til skila á réttum tíma. Vænti kærandi þess að skattstjóri teldi gildar ástæður fyrir hendi til að fella niður álag, sbr. 6. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Jafnframt væri óskað eftir niðurfellingu á dráttarvöxtum vegna uppgjörstímabilsins nóvember-desember 2006. Bréfinu fylgdi útprentun frá Danske Bank um útgáfu á tékka að fjárhæð 3.365.319 kr. og staðfesting frá bankanum, dags. 21. mars 2007, um að ávísunin hefði verið send skattstjóranum í Reykjavík þann 30. janúar 2007, að beiðni kæranda.

Með kæruúrskurði, dags. 19. júní 2007, hafnaði skattstjóri kröfum kæranda. Vísaði skattstjóri til ákvæðis 1. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988 og tók fram að samkvæmt 6. mgr. sömu lagagreinar mætti fella álag niður ef skattþegn sýndi fram á að gildar ástæður væru til niðurfellingar þess. Ættu skattyfirvöld mat um hvað teldust gildar ástæður í þessu sambandi. Í framkvæmd hefði verið litið svo á að mjög ríkar ástæður þyrfti til þess að álag yrði fellt niður. Gjalddagi uppgjörstímabilsins nóvember-desember 2006 hefði verið 5. febrúar 2007 og hefði kærandi lagt fram bréf frá Danske Bank um að bankinn hefði gefið út tékka að fjárhæð 3.365.319 kr. þann 30. janúar 2007 og sent hann skattstjóranum í Reykjavík. Ekki væru fyrirliggjandi gögn um hvenær greiðslan hefði borist skattstjóra, en fyrir lægi að tollstjórinn í Reykjavík hefði móttekið greiðslu þann 8. mars 2007. Í 1. tölul. 1. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 667/1995, um framtal og skil á virðisaukaskatti, sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 741/2001, segði að það teldust fullnægjandi skil á virðisaukaskatti ef greitt væri hjá innheimtumanni í síðasta lagi á gjalddaga eða ef póstlögð greiðsla hefði borist innheimtumanni í síðasta lagi á gjalddaga. Fyrir lægi samkvæmt gögnum málsins að greiðsla hefði borist tollstjóranum í Reykjavík þann 8. mars 2007. Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988 skyldi kærandi því sæta álagi til viðbótar virðisaukaskatti þar sem virðisaukaskattur hefði ekki verið greiddur á réttum tíma. Skattyfirvöld hefðu jafnan beitt álagi á vangreiddan virðisaukaskatt nema utanaðkomandi óviðráðanleg atvik hefðu valdið síðbúnum skilum. Ekki yrði talið að atvik í máli kæranda væru með þeim hætti. Að mati skattstjóri væri það alfarið á ábyrgð kæranda að tryggja að greiðsla bærist innheimtumanni ríkissjóðs tímanlega, sbr. 9. gr. reglugerðar nr. 667/1995. Gjalddagi virðisaukaskatts uppgjörstímabilið nóvember-desember 2006 hefði verið 5. febrúar 2007, en greiðsla hefði borist innheimtumanni þann 8. mars 2007. Þætti ekki tilefni til að falla frá beitingu álags á grundvelli 6. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988 og væri kröfu kæranda því hafnað. Álag að fjárhæð 336.531 kr. stæði því óbreytt. Tók skattstjóri fram að lokum vegna kröfu kæranda um að dráttarvextir yrðu felldir niður að slík ákvörðun væri ekki á valdsviði skattstjóra. Beiðnin yrði því framsend tollstjóranum í Reykjavík.

III.

Í kæru til yfirskattanefndar, dags. 26. júní 2007, er þess krafist að álag verði fellt niður. Í kærunni er ítrekað að ávísun að fjárhæð 3.365.319 kr. hafi verið send af Danske Bank þann 30. janúar 2007 til greiðslu á virðisaukaskatti kæranda uppgjörstímabilið nóvember-desember 2006, en gjalddagi skattsins hafi verið 5. febrúar 2007. Eru málavextir úr bréfi umboðsmannsins, dags. 29. mars 2007, að öðru leyti ítrekaðir. Ásetningur kæranda til að greiða á réttum tíma sé augljós, en misskilningur hafi valdið því að ávísun hafi verið send til skattstjóra en ekki innheimtumanns. Þann misskilning megi rekja til þess að um erlendan aðila sé að ræða sem þekki ekki innviði íslensks skattkerfis til hlítar. Engar upplýsingar hafi fengist um það hvenær ávísunin hafi borist skattstjóra eða hvenær hún hafi verið framsend tollstjóranum í Reykjavík, en fyrir liggi að hún hafi verið bókuð þann 8. mars 2007 sem greiðsla á virðisaukaskattsskuld kæranda. Með vísan til málavaxta og gagna málsins og með hliðsjón af meðalhófsreglu stjórnsýslulaga sé það mat kæranda að fyrir hendi séu gildar ástæður til niðurfellingar á álagi samkvæmt 27. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Samkvæmt framansögðu krefjist kærandi þess að álag verði fellt niður vegna virðisaukaskatts uppgjörstímabilið nóvember-desember 2007. Þá sé krafist málskostnaðar úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd.

IV.

Með bréfi, dags. 7. september 2007, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Þess er krafist að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“

V.

Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, skal aðili, sem ekki greiðir virðisaukaskatt á tilskildum tíma, sæta álagi til viðbótar skatti samkvæmt virðisaukaskattsskýrslu eða til viðbótar þeim skatti sem honum bar að standa skil á, sbr. 19. gr. laganna. Sama gildir ef virðisaukaskattsskýrslu hefur ekki verið skilað eða verið ábótavant og virðisaukaskattur því áætlaður eða endurgreiðsla samkvæmt 25. gr. sömu laga hefur verið of há. Samkvæmt 6. mgr. sömu lagagreinar má fella niður álag ef aðili færir gildar ástæður sér til málsbóta og geta skattyfirvöld metið það í hverju tilviki hvað telja skuli gildar ástæður í þessu sambandi.

Samkvæmt 3. tölul. 1. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 667/1995, um framtal og skil á virðisaukaskatti, teljast það fullnægjandi skil á virðisaukaskatti ef póstlögð greiðsla hefur borist innheimtumanni í síðasta lagi á gjalddaga. Samkvæmt gögnum málsins sendi erlendur viðskiptabanki kæranda greiðslu með bankaávísun í pósti til skattstjóra en ekki til viðkomandi innheimtumanns, þ.e. tollstjórans í Reykjavík, og ber umboðsmaður kæranda því við að misskilningur hafi valdið rangri tilgreiningu móttakanda greiðslu. Fram kom í fylgiskjali með hinni erlendu bankaávísun að um væri að ræða greiðslu vegna virðisaukaskatts kæranda og var skráningarnúmer og uppgjörstímabil tilgreint. Ekki er fylgiskjal þetta áritað um móttöku af hálfu skattstjóra og tekur skattstjóri sjálfur fram í úrskurði sínum að ekki liggi fyrir hvenær umrædd ávísun hafi borist embættinu, en með hliðsjón af sendingardegi frá Danmörku, sem var fimm dögum fyrir gjalddaga viðkomandi uppgjörstímabils, má leggja til grundvallar að greiðslan hafi borist skattstjóra í síðasta lagi á gjalddaga. Að þessu virtu og í samræmi við úrskurðaframkvæmd í málum þar sem atvik hafa verið með hliðstæðum hætti og í tilviki kæranda, sbr. m.a. úrskurð yfirskattanefndar nr. 894/1995, er fallist á kröfu kæranda um niðurfellingu álags, sbr. 6. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988.

Af hálfu kæranda hefur þess verið krafist að honum verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum. Samkvæmt úrslitum málsins þykir bera að úrskurða kæranda málskostnað á grundvelli framangreinds lagaákvæðis. Af hálfu kæranda hafa ekki verið lagðir fram reikningar um útlagðan kostnað hans við meðferð málsins en ætla verður þó að um slíkan kostnað hafi verið að ræða. Með vísan til framanritaðs og lagaskilyrða fyrir greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði ákvarðast málskostnaður kæranda til greiðslu úr ríkissjóði 30.000 kr.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Hið kærða álag á virðisaukaskatt fellur niður. Málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði ákvarðast 30.000 kr.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja