Úrskurður yfirskattanefndar

  • Kaupréttur að hlutabréfum
  • Teknategund
  • Kaupauki

Úrskurður nr. 117/2009

Gjaldár 2005

Lög nr. 90/2003, 7. gr. A-liður 1. tölul., 9. gr., 108. gr. 2. mgr.   Reglugerð nr. 245/1963, 13. gr. A- og B-liður.  

Kærandi, sem var forstjóri X hf., keypti hlutabréf í félaginu á genginu 3,15 á árinu 2003. Fóru kaup hlutabréfanna fram á grundvelli söluréttarsamnings milli kæranda og X hf. sem veitti kæranda rétt til að selja félaginu hin keyptu hlutabréf á sama gengi, þ.e. genginu 3,15, að tveimur árum liðnum. Voru kaup hlutabréfanna fjármögnuð með eingreiðsluláni frá Z-banka hf. og hlutabréfin sett bankanum að handveði auk þess sem kærandi framseldi bankanum hinn umsamda sölurétt að hlutabréfunum til tryggingar láninu. Á árinu 2004 varð að samkomulagi með kæranda og X hf. að fallið yrði frá kvöð í söluréttarsamningi aðila um tveggja ára eignarhaldstíma hinna keyptu hlutabréfa og í kjölfarið seldi kærandi X hf. hlutabréfin á genginu 6,55 og greiddi upp lánið frá Z-banka hf. Tilgreindi kærandi hagnað af sölu hlutabréfanna að fjárhæð 47.600.000 kr. sem fjármagnstekjur í skattskilum sínum árið 2005. Í úrskurði yfirskattanefndar var fallist á með ríkisskattstjóra að kæranda hefði borið að færa sér umrædda fjárhæð til tekna sem launatekjur í skattframtalinu þar sem líta yrði svo á að samkomulag kæranda og X hf. um niðurfellingu söluréttar á árinu 2004 hefði í skattalegu tilliti falið í sér nýtingu kæranda á kauprétti að hlutabréfunum í X hf. sem kærandi hefði í raun öðlast á árinu 2003 vegna starfa í þágu félagsins, sbr. 1. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. og 9. gr. laga nr. 90/2003. Kom fram í úrskurðinum að þótt kærandi hefði að nafninu til verið kaupandi hlutabréfanna í X hf. á árinu 2003 og skuldari láns frá Z-banka hf. sem tekið var í tengslum við kaupin hefði fjárhagsleg ábyrgð og áhætta hans af viðskiptunum í raun verið hverfandi. Í því sambandi var m.a. vísað til þess að framsal kæranda á sölurétti að hlutabréfunum til Z-banka hf. til tryggingar endurgreiðslu lánsins, auk alls fjármagnskostnaðar af því, hefði í raun falið í sér óskoraða ábyrgð vinnuveitanda kæranda, X hf., á endurgreiðslu lánsins, en fram kom í söluréttarsamningi kæranda og X hf. að við nýtingu söluréttar samkvæmt samningnum skyldi verð á hlut breytast þannig að sölugengi hækkaði um sem svaraði til fjármagnskostnaðar samkvæmt lánssamningi sem X hf. hefði útvegað kæranda hjá Z-banka hf. Þá hefðu arðgreiðslur af hlutabréfunum í reynd ekki runnið til kæranda heldur til greiðslu afborgana og vaxta af láni Z-banka hf. sem X hf. hefði í raun borið ábyrgð á vegna söluréttar sem félagið hefði veitt kæranda og framseldur var Z-banka hf. í tengslum við fjármögnun viðskiptanna. Þá hefði umræddur söluréttur falið í sér að áhætta af lækkun hlutabréfaverðs í X hf. í viðskiptunum hefði alfarið hvílt á félaginu sjálfu. Var kröfum kæranda í málinu hafnað að öðru leyti en því að fallist var á varakröfu hans um niðurfellingu tilfærðs arðs af hlutabréfunum í skattframtali árið 2005 auk þess sem 25% álag var fellt niður.

I.

Með kæru, dags. 26. janúar 2008, hefur umboðsmaður kæranda skotið til yfirskattanefndar úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 29. október 2007, um endurákvörðun opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2005. Með úrskurðinum færði ríkisskattstjóri kæranda til skattskyldra launatekna í skattframtali árið 2005 47.600.000 kr. vegna kaupa kæranda á hlutabréfum í X hf. á árinu 2003, sbr. ákvæði 1. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. og 9. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, og felldi jafnframt niður tekjufærslu sömu fjárhæðar í reit 164 í skattframtalinu. Þá bætti ríkisskattstjóri 25% álagi við þá hækkun á tekjuskatts- og útsvarsstofni kæranda gjaldárið 2005 sem leiddi af framangreindum breytingum, sbr. heimildarákvæði 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003. Af hálfu kæranda er þess aðallega krafist að úrskurður ríkisskattstjóra verði felldur úr gildi. Til vara er þess krafist í kærunni að stofn kæranda til fjármagnstekjuskatts verði lækkaður um 2.240.000 kr. gjaldárið 2004 og um 4.900.000 kr. gjaldárið 2005 og að álagsbeiting ríkisskattstjóra verði felld niður. Þá er þess krafist að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði, sbr. ákvæði 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum.

II.

Málavextir eru þeir að kærandi var forstjóri X hf. Skattframtali kæranda árið 2005 fylgdi greinargerð um kaup og sölu hlutabréfa (RSK 3.09) þar sem m.a. var gerð grein fyrir sölu hlutabréfa í X hf. að nafnverði 14.000.000 kr. hinn 18. júní 2004 fyrir 91.700.000 kr. Var tilgreint að hlutabréfin hefðu verið keypt á árinu 2003 fyrir 44.100.000 kr. Samkvæmt þessu nam hagnaður af sölu hlutabréfanna 47.600.000 kr. og var sú fjárhæð færð til tekna í reit 164 í skattframtalinu.

Með bréfi, dags. 29. júní 2006, skoraði ríkisskattstjóri á kæranda að láta í té ýmsar upplýsingar og gögn varðandi kaup kæranda á hlutabréfum í X hf. samkvæmt kaup- eða söluréttarsamningum á árunum 2002-2005. Í svarbréfi kæranda, dags. 12. júlí 2006, kom fram að kærandi hefði keypt hlutabréf í X hf. samkvæmt söluréttarsamningum á árunum 2003, 2004 og 2005, bæði í eigin nafni og í nafni D ehf. sem væri í eigu kæranda, svo sem nánar var rakið. Kom fram að viðskiptin hefðu farið fram á markaðsgengi og verið fjármögnuð af Z-banka hf. Umsaminn söluréttur á hlutabréfunum hefði ekki verið nýttur og í kjölfar starfsloka kæranda hjá X hf. hinn 21. júní 2006 hefðu hlutabréfin verið seld þriðja aðila eða hinn 27. sama mánaðar. Bréfinu fylgdi ljósrit af samningi milli kæranda og X hf., dags. 13. mars 2003, um sölurétt á hlutum í félaginu, sem endurnýjaður var með samningum, dags. 18. júní 2004 og 7. september 2005, milli X hf. og D ehf., og ljósrit af lánssamningum milli síðastnefnds félags og Z-banka hf., dags. 22. júní 2004 og 7. september 2005, vegna kaupa á hlutabréfum í X hf.

Í kjölfar bréfaskipta ríkisskattstjóra við X hf. og Z-banka hf. vegna málsins, sbr. bréf ríkisskattstjóra til þessara félaga, dags. 19. desember 2006, og svarbréf X hf., dags. 8. janúar 2007, og Z-banka hf., dags. 10. sama mánaðar, ritaði ríkisskattstjóri kæranda bréf, dags. 20. febrúar 2007, þar sem ríkisskattstjóri greindi frá því að embættið liti svo á að samningur kæranda og X hf. um kaup á hlutabréfum með sölurétti gæti falið í sér tiltekna útfærslu á kauprétti að hlutabréfum sem hefði í för með sér skattskyldu samkvæmt 9. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, svo sem nánar var rökstutt í bréfinu. Óskaði ríkisskattstjóri eftir að kærandi gerði grein fyrir ástæðu þess að hagnaður af sölu hlutabréfa í X hf., sem keypt hefðu verið með söluréttartryggingu, væri tilgreindur með fjármagnstekjum í skattframtali kæranda árið 2005 en ekki með launatekjum, sbr. fyrrgreint ákvæði. Þá fór ríkisskattstjóri fram á frekari skýringar og gögn varðandi viðskipti kæranda með hlutabréf í X hf. á árinu 2004 og eignarhald kæranda á hlutabréfum í félaginu í árslok 2004, svo sem nánar var rakið í bréfi ríkisskattstjóra.

Í svarbréfi umboðsmanns kæranda, dags. 8. mars 2007, kom m.a. fram að ekki yrði fallist á með ríkisskattstjóra að kaup kæranda á hlutabréfum í X hf. yrðu lögð að jöfnu við kaup á hlutabréfum samkvæmt venjubundnum kauprétti, svo sem nánar var rökstutt í bréfinu. Þá var í bréfinu gerð frekari grein fyrir flutningi eignarhalds kæranda á hlutabréfum í X hf. til D ehf. á árinu 2004. Bréfinu fylgdu ýmis gögn, þar á meðal ljósrit af samkomulagi milli kæranda og X hf., dags. 18. júní 2004, „um niðurfellingu söluréttar og kvaðar um lágmarkseignarhaldstíma“.

Með bréfum til kæranda, dags. 14. og 15. maí 2007, lagði ríkisskattstjóri fyrir kæranda að láta í té afrit af kaupsamningum vegna kaupa kæranda annars vegar og D ehf. hins vegar á hlutabréfum í X hf. á árunum 2003, 2004 og 2005 og afrit af lánssamningi vegna kaupa kæranda á hlutabréfum í félaginu á árinu 2003. Umbeðin gögn bárust ríkisskattstjóra með bréfi umboðsmanns kæranda, dags. 29. maí 2007. Í bréfinu kom þó fram að kaupsamningur vegna kaupa á hlutabréfum í X hf. að nafnverði 14.000.000 kr. á árinu 2003 hefði ekki fundist, en sá samningur hefði verið efnislega sambærilegur framlögðum kaupsamningum vegna kaupa hlutabréfa á árunum 2004 og 2005.

Með bréfi, dags. 22. júní 2007, boðaði ríkisskattstjóri endurákvörðun opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2005 þar sem fyrirhugað væri að færa kæranda til skattskyldra tekna sem laun í reit 21 í skattframtali hans umrætt ár 47.600.000 kr. vegna kaupa kæranda á hlutabréfum í X hf. með sölurétti á árinu 2004 (sic), sbr. 1. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. og 9. gr. laga nr. 90/2003. Þá væri fyrirhugað að lækka tilfærðan söluhagnað vegna sölu hlutabréfa í reit 164 í skattframtalinu um sömu fjárhæð eða úr 54.181.995 kr. í 6.581.995 kr. Við þá hækkun tekjuskatts- og útsvarsstofns kæranda gjaldárið 2005, sem af þessum breytingum leiddi, væri fyrirhugað að bæta 25% álagi, sbr. heimildarákvæði 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003, þó að teknu tilliti til fjármagnstekjuskatts sem staðið hefði verið skil á. Í bréfinu rakti ríkisskattstjóri málsatvik og fyrri bréfaskipti í málinu. Þá kom fram að ríkisskattstjóri teldi að samningar vegna þeirra viðskipta kæranda með hlutabréf í X hf. sem málið snerist um, þ.e. kaupsamningur, lánssamningur og samningur um sölurétt, hefðu haft þann tilgang að gefa kæranda kost á að eignast hlutabréf í X hf. á undirverði yrði þróun á verði hlutabréfanna honum hagstæð á undirliggjandi tímabili. Ef þróun á verði hlutabréfanna yrði hins vegar kæranda óhagstæð hefði honum verið unnt að ganga frá samningunum með sömu áhrifum og þeir hefðu aldrei verið gerðir. Yrði því að telja að enginn grundvallarmunur væri á þeim samningum sem um ræðir og hefðbundnum kaupréttarsamningum, enda væri tilgangur slíkra samninga að gefa starfsmanni kost á að kaupa hlutabréf á undirverði. Skattleggja bæri því tekjur af slíkum samningum sem laun, sbr. 1. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr., sbr. 9. gr. laga nr. 90/2003. Í tilviki kæranda yrði að líta svo á að tekjur hans vegna samninganna bæri að reikna sem hækkun á verði hlutabréfanna frá því að stofnað var til kaupanna og þar til áhætta af þeim hefði flust yfir til kæranda þegar söluréttartrygging rann út.

Í bréfi sínu rakti ríkisskattstjóri lagaákvæði varðandi skattlagningu starfstengdra hlunninda, þar á meðal vegna nýtingar á kauprétti að hlutabréfum, sbr. 1. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. og 9. gr. laga nr. 90/2003 og B-lið 13. gr. reglugerðar nr. 245/1963, um tekjuskatt og eignarskatt. Þá reifaði ríkisskattstjóri ákvæði 57. gr. laga nr. 90/2003 um óvenjuleg skipti í fjármálum. Að svo búnu vék ríkisskattstjóri nánar að atvikum málsins og rakti að kærandi hefði keypt hlutabréf í X hf. að nafnverði 14.000.000 kr. með samningi, dags. 13. mars 2003. Á árinu 2004 hefði kæranda verið heimilað að selja X hf. hlutabréfin til baka og þrátt fyrir að X hf. hefði „áframselt“ bréfin til D ehf., þ.e. félags í eigu kæranda, yrði að „gera upp“ kaupin á þeim tímapunkti þegar söluréttur kæranda hefði með sérstöku samkomulagi milli aðila verið felldur úr gildi og nýr söluréttur stofnast gagnvart D ehf. vegna hlutabréfa að nafnverði 50.000.000 kr. Kaup kæranda á umræddum hlutabréfum að nafnverði 14.000.000 kr. hefðu verið fjármögnuð af Z-banka hf., sbr. fyrirliggjandi lánssamning, dags. 13. mars 2003. Í bréfinu reifaði ríkisskattstjóri ákvæði þess lánssamnings og ákvæði handveðsyfirlýsingar kæranda gagnvart Z-banka hf. þar sem hin keyptu hlutabréf í X hf. hefðu verið afhent bankanum til varðveislu. Þá gerði ríkisskattstjóri grein fyrir efni samnings milli kæranda og X hf., dags. 13. mars 2003, um sölurétt kæranda á hlutum í X hf. Að svo búnu tók ríkisskattstjóri fram að um væri að ræða samninga milli tengdra aðila þar sem kærandi hefði á greindum tíma verið forstjóri X hf. og þrátt fyrir að samningar þessir virtust í fljótu bragði vera margþættir, flóknir og viðamiklir væri raunverulegt efni þeirra mun rýrara en umfangið gæfi til kynna. Kærandi hefði ekki haft umráð yfir hinum keyptu hlutabréfum, hann hefði ekkert greitt fyrir hlutabréfin í upphafi, hann hefði gengið út úr samkomulaginu á miðju tímabili þegar honum hentaði og hann hefði ekki fengið greiddan arð af hlutabréfunum til ráðstöfunar. Í reynd yrði ekki annað séð en að í greindum samningum hefði falist að verið væri að halda tveimur leiðum opnum fyrir kæranda á grundvelli starfssambands hans við X hf. Önnur leiðin væri sú að kærandi hefði getað gengið út úr samningunum sér að skaðlausu ef gengi hlutabréfanna þróaðist á óhagstæðan hátt fyrir hann. Hin leiðin væri sú að kærandi hefði getað keypt hlutabréf í X hf. á undirverði á tilteknum tíma ef gengisþróun á bréfunum yrði hagstæð, svo sem raunin hefði orðið. Að mati ríkisskattstjóra hefðu viðskipti aðila verið færð í annan búning en raunverulegt innihald þeirra segði til um, sbr. 57. gr. laga nr. 90/2003, þar sem engin raunveruleg kaup hefðu átt sér stað fyrr en sölurétturinn var felldur úr gildi og áhættan af eignarhaldi hlutabréfanna hefði flust yfir til kæranda. Þá yrði að telja sérstakt að ekki væri getið um innheimtu stimpilgjalds í skuldabréfi um kostnað af láni kæranda frá Z-banka hf.

Í bréfi sínu vék ríkisskattstjóri nánar að meintu raunverulegu efni þeirra viðskipta sem um ræðir. Tók ríkisskattstjóri fram að ef viðskiptahreyfingar samninganna væru settar í bókhaldslegt samhengi kæmi í ljós að engin raunveruleg peningagreiðsla hefði átt sér stað milli samningsaðila fyrr en sölurétturinn hefði verið fallinn úr gildi og lánið greitt upp. Upphafleg kaup hefðu ekki í för með sér neitt útstreymi fjár fyrir Z-banka hf., ekkert útstreymi eða innstreymi fjár hjá X hf. og kærandi ekki lagt fram neina fjármuni nema ef vera skyldi vegna greiðslu lántökugjalds að fjárhæð 5.000 kr. Þá hefði ekki komið til neinnar raunverulegrar peningagreiðslu milli aðila ef kærandi hefði nýtt sér söluréttinn á samningstímanum. Eignin og skuldin hefði þá fallið niður hjá kæranda og X hf. eignast bréfin með því að taka þau yfir ásamt láninu sem hefði þá komið til uppgjörs milli bankanna tveggja. Sama hefði gerst ef X hf. hefði nýtt sér kauprétt að hlutabréfunum samkvæmt 3. gr. söluréttarsamnings aðila. Engin greiðsla hefði heldur átt sér stað ef Z-banki hf. hefði gengið að veðinu eins og lánssamningur heimilaði. Af þessum sökum væri t.d. sýndarákvæði í 4. gr. söluréttarsamningsins þar sem fram kæmi að X hf. ráðstafaði söluverði hlutabréfanna til uppgreiðslu skuldar ef starfsmaður kysi að nýta sér söluréttinn. X hf. hefði yfirtekið hlutabréfin ásamt skuldinni og greitt upp eða samið um lánið burtséð frá því hvort félagið ætti áfram hlutabréf í sjálfu sér eða ekki þar sem félagið hefði engar peningagreiðslur fengið frá kæranda. Þannig yrði söluréttarsamningurinn aldrei neitt annað en „pappírsplagg sem gufar upp án nokkurra peningahreyfinga“ hvort sem sölurétturinn væri nýttur eða ekki.

Ríkisskattstjóri tók fram að þótt ekki væri um hefðbundinn kaupréttarsamning að ræða í tilviki kæranda væri samningurinn í reynd afar sambærilegur slíkum samningi. Í báðum tilvikum væri starfsmanni gefinn kostur á að hagnast á hækkun á gengi hlutabréfa, en yrði gengisþróun óhagstæð væri starfsmaðurinn verndaður fyrir tapi, þ.e. svo lengi sem söluréttur væri í gildi. Helsti munur á samningunum væri sá að í tilviki kæranda bæri hann fjármagnskostnað af láninu frá gerð upphaflegs samnings, þ.e. ef söluréttur væri ekki nýttur, en ekki þyrfti að fjármagna kaupréttarsamning fyrr en ákvörðun væri tekin um að nýta kauprétt. Þótt atkvæðisréttur hefði fylgt söluréttarsamningi kæranda og X hf. yrði að hafa í huga að einungis hefði verið um að ræða 0,33% hlut af heildarhlutafé félagsins og enginn ráðstöfunarréttur verið yfir hlutabréfunum eða arðgreiðslum af þeim. Lítil áhætta hefði því fylgt samningunum fyrir X hf. og Z-banka hf. Lánskjör hefðu verið hagstæðari en almennt gerðist, bæði að því er snerti lántökukostnað, vexti og vanskilavexti, auk þess sem ekki yrði séð að stimpilgjald hefði verið greitt vegna lánsins. Samanburður ríkisskattstjóra við vaxtakjör Seðlabanka Íslands hefði leitt í ljós að kærandi hefði notið betri vaxtakjara en sem næmi auglýstum vöxtum Seðlabanka Íslands á greindu tímabili. Var gerð nánari grein fyrir þessum samanburði í bréfi ríkisskattstjóra.

Þessu næst vísaði ríkisskattstjóri til þess að kærandi og X hf. hefðu samið um riftun á söluréttarsamningnum þann 18. júní 2004 og í kjölfar þess hefði kærandi selt X hf. hlutabréf sín í félaginu. Áhættan af kaupum hlutabréfanna hefði því flust yfir til kæranda á sama tíma, enda hefði kæranda þá verið frjálst að ráðstafa hlutabréfunum eftir uppgreiðslu lánsins frá Z-banka hf. Ríkisskattstjóri teldi því að reikna bæri út tekjur kæranda af þessari tilteknu kaupréttarútfærslu með hliðsjón af 9. gr. laga nr. 90/2003, þ.e. sem mismun á gangverði hlutabréfanna þegar söluréttinum var sagt upp, burtséð frá því hvort bréfin hefðu þá verið seld eða ekki, og upphaflegu kaupverði þegar gengi bréfanna var fest með sambærilegum hætti og þegar um væri að ræða hefðbundinn kaupréttarsamning. Umrætt samkomulag um kaup á hlutabréfum með sölurétti fæli í sér tiltekna útfærslu á kauprétti og væri um skattskyld starfstengd hlunnindi að ræða, þ.e. afhendingu hlutabréfa á undirverði, sbr. 1. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. og 9. gr. laga nr. 90/2003. Réttur kaupréttarhafa, þ.e. kæranda, til þess að nýta sér sölurétt og ganga út úr samningnum án kostnaðar væri sambærilegur við þann rétt aðila samkvæmt venjulegum kaupréttarsamningi að þurfa ekki að nýta sér kaupréttinn ef það væri óhagstætt. Þannig hefði uppsögn söluréttarsamnings kæranda verið hliðstæð við nýtingu kaupréttar þegar horft væri til „hinnar skattalegu nálgunar við 9. gr. laga nr. 90/2003“, eins og sagði í bréfi ríkisskattstjóra. Yrði ekki litið öðruvísi á málavexti en svo að í tilviki kæranda hefði útfærsla kaupréttar verið færð í annan búning til þess að komast hjá skattlagningu tekna af kaupréttinum sem launatekna. Því væri í reynd um að ræða dulbúinn kaupréttarsamning í tilviki kæranda.

Til stuðnings boðaðri beitingu 25% álags samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 tók ríkisskattstjóri fram í niðurlagi boðunarbréfs síns að kæranda hefði mátt vera ljóst að í tilviki hins umdeilda söluréttar væri um að ræða starfstengd hlunnindi sem skattleggja bæri sem launatekjur. Væri því fyrirhugað að beita 25% álagi á hækkun skattstofna að teknu tillit til fjármagnstekjuskatts sem staðið hefði verið skil á.

Með bréfi, dags. 6. júlí 2007, mótmælti umboðsmaður kæranda fyrirhugaðri endurákvörðun ríkisskattstjóra. Í bréfinu rakti umboðsmaður kæranda gang málsins og vék að svo búnu að sjónarmiðum ríkisskattstjóra í boðunarbréfi embættisins. Kom fram að því væri mótmælt að um einhvers konar skattasniðgöngu væri að ræða í tilviki kæranda þannig að skilyrði ákvæðis 57. gr. laga nr. 90/2003 til þess að víkja greindum ráðstöfunum til hliðar væru uppfyllt, enda hefði engum slíkum tengslum verið til að dreifa milli kæranda annars vegar og X hf. eða Z-banka hf. hins vegar sem gætu verið grundvöllur að beitingu ákvæðisins. Starfssamband launþega og launagreiðanda yrði ekki talið til hagsmunatengsla í þessu sambandi, enda væri um tvo sjálfstæða aðila að ræða sem hvor um sig hefði gagnstæða hagsmuni. Þá hefði engan veginn verið sýnt fram á að um væri að ræða samninga sem vikið hefðu frá því sem almennt gerðist í hliðstæðum skiptum annarra aðila. Söluréttarsamningar af þeim toga sem í málinu greindi væru algengir og venjulegir hjá einstaklingum í svipaðri stöðu og kærandi hefði verið í. Til þess að unnt væri að líta svo á að um skattasniðgöngu væri að ræða yrðu skattyfirvöld auk þess að sýna fram á skattaspörun sem ráðstöfun hefði í för með sér. Þá væri til þess að líta að tekjuskattslög nr. 90/2003 hefðu einungis að geyma ákvæði um skattalega meðferð kaupréttarsamninga en engar sérstakar reglur um meðferð söluréttarsamninga. Einungis kæmi því til álita í málinu að líta svo á að andvirði söluréttar teldist skattskylt á því tímamarki þegar sölurétturinn væri veittur, þ.e. hinn 13. mars 2003 í tilviki kæranda, sbr. víðtæka skattskyldu launatengdra hlunninda samkvæmt 7. gr. laga nr. 90/2003. Þar sem ákvæði 9. gr. sömu laga tækju einungis til kaupréttar að hlutabréfum og um væri að ræða sérreglu sem ekki yrði skýrð rúmt væru engin skilyrði til þess að beita ákvæðinu með lögjöfnun um veitingu söluréttar að hlutabréfum, sbr. hefðbundin lögskýringarviðhorf í skattarétti. Varðandi mögulega skattaspörun af þeim ráðstöfunum sem um ræðir yrði og að hafa í huga að kærandi hefði á árinu 2003 ekki getað vitað frekar en aðrir hvort gengi hlutabréfa í X hf. myndi hækka eða lækka. Sú staða og sú staðreynd að kærandi hefði tekið lán fyrir kaupum hlutabréfanna skýrði af hverju hann hefði talið nauðsynlegt að gera jafnframt söluréttarsamning við X hf., enda hefði kærandi að öðrum kosti verið óvarinn gegn hugsanlegri lækkun fjárfestingar sinnar og neyðst til að selja bréfin á gjalddaga lánsins.

Í bréfinu kom fram að því væri mótmælt að um tengda aðila væri að ræða í tilviki X hf. og Z-banka hf. Eignatengsl X hf. og Z-banka hf. á þeim tíma þegar umræddar ráðstafanir hefðu verið gerðar skiptu ekki máli í því sambandi, enda væri fráleitt að halda því fram að þau tengsl hefðu haft áhrif á kjör í lánsviðskiptum kæranda og Z-banka hf. Kæranda hefði verið unnt að fá sömu eða sambærileg kjör hjá öðrum lánastofnunum, enda hefði lánið verið tryggt með veði í hinum keyptu hlutabréfum og sölurétti vegna þeirra. Lánveitandinn, þ.e. Z-banki hf., hefði því bersýnilega litið svo á að umrædd lánafyrirgreiðsla væri fyrst og fremst á áhættu X hf. en ekki kæranda. Íslenskir bankar hefðu á liðnum árum veitt ýmsum fyrirtækjum lánafyrirgreiðslu vegna söluréttar starfsmanna og mætti telja fullvíst að samningar í slíkum tilvikum væru sambærilegir að formi og efni og þeir samningar sem um væri að tefla í tilviki kæranda.

Í bréfi umboðsmanns kæranda var sérstaklega mótmælt ályktun ríkisskattstjóra um að kærandi hefði ekki haft nein umráð yfir hlutabréfunum í X hf. vegna ákvæða í handveðsyfirlýsingu, enda væri nánast undantekningarlaust kveðið á um bann við framsali eða veðsetningu í slíkum yfirlýsingum þegar um væri að ræða lánveitingar gegn veði í hlutabréfum. Ákvæði af þessum toga væru nauðsynleg til að tryggja hagsmuni veðhafa og gegndi sama máli um ákvæði yfirlýsingarinnar varðandi atkvæðisrétt. Vekti undrun að ríkisskattstjóri teldi slík hefðbundin ákvæði í samningum lánastofnana benda til þess að um óeðlileg viðskipti væri að ræða. Ekki yrði litið framhjá því að samkvæmt samningum kæranda og Z-banka hf. hefði kærandi farið með öll önnur venjuleg eignarráð fyrir hlutabréfunum, svo sem atkvæðisrétt, réttindi til að gerast áskrifandi að nýju hlutafé í félaginu, forkaupsrétt til kaupa á öðrum hlutabréfum og rétt til arðgreiðslu. Staðhæfing ríkisskattstjóra um að kærandi hefði ekki fengið greiddan arð af hlutabréfunum til umráða ætti ekki við rök að styðjast, enda hefðu arðgreiðslur af hlutabréfunum ýmist gengið til niðurgreiðslu láns sem kærandi tók vegna hlutabréfakaupanna eða verið ráðstafað beint til hans, svo sem við ætti um arðgreiðslu á árinu 2006 sem innt hefði verið af hendi með hlutabréfum í E hf. og F hf., sbr. m.a. meðfylgjandi kvittanir. Þá yrði ekki séð að vangaveltur ríkisskattstjóra varðandi óverulegan atkvæðisrétt kæranda hefðu þýðingu í málinu, enda væri ljóst að atkvæðisréttur hans væri jafn atkvæðisrétti annarra hluthafa og í réttu hlutfalli við fjölda hluta sem hann hefði yfir að ráða.

Þá kom fram í bréfi umboðsmanns kæranda að því væri vísað á bug að engar greiðslur hefðu í raun farið fram vegna kaupa hlutabréfanna, svo sem ríkisskattstjóri hefði haldið fram. Umrædd viðskipti hefðu farið fram á nákvæmlega sama hátt og jafnan gerðist í viðskiptum með hlutabréf þegar lán væri tekið fyrir kaupum. Eini munurinn væri sá að í stað þess að greiða kaupverð hlutabréfanna hefði kærandi fengið sölurétt vegna þeirra sem hann hefði notað sem tryggingu fyrir endurgreiðslu lánsins. Algengt væri að einstaklingar og fyrirtæki keyptu sölurétt hjá lánastofnunum til þess að verjast tapi í viðskiptum með hlutabréf. Af hálfu kæranda væri litið svo á að ef einhver skattskylda hefði mögulega stofnast vegna umræddra ráðstafana þá kæmi í þeim efnum einungis til álita að andvirði hins veitta söluréttar yrði talið skattskylt í hendi kæranda þar sem sölurétturinn hefði verið veittur án endurgjalds. Engum erfiðleikum væri bundið að afla upplýsinga um verðmæti slíks söluréttar og væri kærandi reiðubúinn að greiða tekjuskatt af þeirri fjárhæð. Þá var í bréfinu vísað til meðfylgjandi gagna frá Z-banka hf. sem bæru glögglega með sér að raunveruleg peningagreiðsla hefði verið innt af hendi vegna kaupa hlutabréfanna þar sem andvirði láns frá bankanum hefði runnið til greiðslu á kaupverðinu, sbr. meðfylgjandi yfirlit yfir VS-reikning kæranda hjá Z-banka hf. Í þeim viðskiptum hefði Z-banki hf. sjálfur verið seljandi hlutabréfanna, en í viðskiptum á árunum 2004 og 2005 hefði X hf. verið seljandi þeirra. Ekki fengi því staðist hjá ríkisskattstjóra að halda því fram að engar færslur hefðu átt sér stað í bókhaldslegu samhengi hjá þeim aðilum sem komið hefðu að viðskiptunum. Hvorki væri því um að ræða sýndarviðskipti né óeðlileg viðskipti að öðru leyti þannig að beiting grunnreglu 57. gr. laga nr. 90/2003 kæmi til álita í málinu. Af hálfu ríkisskattstjóra virtist gert ráð fyrir því að nútímaleg viðskipti, sem færu eingöngu fram með færslum í viðskiptakerfum, væru ávallt sýndarviðskipti sem ekki fengi staðist. Þá væri misskilningur hjá ríkisskattstjóra að ákvæði í 4. gr. söluréttarsamningsins um nýtingu X hf. á kauprétti að hlutabréfunum væri „sýndarákvæði“, enda væri ljóst að hefði slík nýting á kauprétti farið fram hefði X hf. þurft að greiða eiganda hlutabréfanna, þ.e. kæranda eða D ehf., eða lánveitanda kæranda, þ.e. Z-banka hf., andvirði þeirra. Að sama skapi hefði nýting söluréttar að hlutabréfunum haft í för með sér að kærandi hefði þurft að framselja bréfin til X hf. og félagið þurft að greiða honum andvirði þeirra. Þá væri útúrsnúningur að halda því fram að kærandi hefði getað „gengið út úr samkomulaginu þegar honum hentaði“ þar sem ljóst væri að kærandi hefði enga heimild haft til slíks. Kærandi og stjórns X hf. hefðu hins vegar náð samkomulagi hinn 22. júní 2004 og aftur hinn 7. september 2005 um hækkun söluréttar til þess að gera kæranda kleift að eignast stærri hlut í félaginu í ljósi góðrar afkomu rekstrar félagsins á þeim tíma sem um ræðir.

Í tilefni af sjónarmiðum ríkisskattstjóra að öðru leyti benti umboðsmaður kæranda á í bréfi sínu að lánssamningar væru ekki stimpilskyldir samkvæmt lögum nr. 36/1978 sem væri ástæða þess að ekki hefði verið greitt stimpilgjald af lánssamningi kæranda við Z-banka hf. Þá hefðu lánskjör í viðskiptunum alfarið tekið mið af þeim tryggingum sem veittar hefðu verið, en þar sem áhætta af lánveitingunni hefði fyrst og fremst legið hjá X hf., félagi með sterka eiginfjárstöðu og trausta rekstrarsögu, hefðu fengist ágæt kjör á láninu. Fullyrða mætti að kærandi hefði fengið sambærileg kjör hjá öðrum bönkum miðað við umræddar tryggingar. Þá yrði engan veginn fallist á með ríkisskattstjóra að um væri að ræða ígildi kaupréttarsamnings í tilviki kæranda. Um væri að ræða kaup kæranda á hlutabréfum og veittur söluréttur að bréfunum væri að öllu leyti í samræmi við það sem almennt tíðkaðist hjá öðrum fyrirtækjum í landinu við gerð söluréttarsamninga. Kæranda hefði verið fyllilega kleift að kaupa sér tryggingu í öðrum banka í formi söluréttar fyrir því að verða fyrir tjóni í greindum viðskiptum. Sú staðreynd að kærandi hefði fengið slíka tryggingu án endurgjalds frá X hf. gæti ekki leitt til þess að viðskiptin í heild sinni yrðu talin gerð til málamynda. Einungis kæmi því til álita að greiða skatt af andvirði hins umdeilda söluréttar. Mótmælt væri hugleiðingum ríkisskattstjóra um að áhætta kæranda af framsali hlutabréfanna hefði einungis þýðingu vegna hugsanlegra brota hans í starfi. Ef greiðslufall hefði orðið af láninu og Z-banki hf. þurft að leita fullnustu hjá X hf. hefði hið síðarnefnda félag átt endurkröfu á kæranda vegna mismunar á kaup- og söluréttarverði þar sem sölurétturinn félli niður ef starfsmaður segði starfi sínu lausu. Þá axlaði kærandi sjálfur alla áhættu á gjaldþroti þess aðila sem veitt hefði sölurétt.

Í niðurlagi bréfs kæranda var fyrirhugaðri álagsbeitingu ríkisskattstjóra sérstaklega mótmælt og tekið fram í því sambandi að kærandi ætti ekki að þurfa að bera hallann af þeirri réttaróvissu sem ríkt hefði um skattalega meðferð söluréttar að hlutabréfum. Yrði að túlka allar heimildir til álagsbeitingar þröngt.

Með bréfi, dags. 8. ágúst 2007, lagði umboðsmaður kæranda fram frekari gögn og skýringar vegna málsins. Vísaði umboðsmaðurinn til meðfylgjandi yfirlita Z-banka hf. vegna arðgreiðslna inn á bankareikninga kæranda dagana 10. apríl 2003 og 7. apríl 2004 og tók fram að samkvæmt meðfylgjandi yfirliti bankans, dags. 8. ágúst 2007, hefðu greiðslur þessar runnið til greiðslu af lánum samkvæmt lánssamningi kæranda við Z-banka hf. vegna kaupa á hlutabréfum í X hf., bæði höfuðstól og vöxtum. Bæru gögn þessi með sér að um raunveruleg viðskipti hefði verið að ræða og að ályktanir í bréfum ríkisskattstjóra um annað væru rangar.

Með úrskurði um endurákvörðun, dags. 29. október 2007, hratt ríkisskattstjóri hinum boðuðu breytingum í framkvæmd, færði kæranda til skattskyldra tekna sem laun í reit 21 í skattframtali hans árið 2005 47.600.000 kr. vegna kaupa á hlutabréfum í X hf. á árinu 2004, sbr. ákvæði 1. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. og 9. gr. laga nr. 90/2003, lækkaði stofn til fjármagnstekjuskatts kæranda umrætt gjaldár um sömu fjárhæð og endurákvarðaði opinber gjöld kæranda gjaldárið 2005 til samræmis að viðbættu 25% álagi samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003. Nam fjárhæð álags 10.710.000 kr. Í úrskurði sínum dró ríkisskattstjóri saman helstu málavexti og áréttaði mat embættisins þess efnis að kærandi hefði notið starfstengdra hlunninda frá launagreiðanda sínum, X hf., vegna kaupa á hlutabréfum með sölurétti sem skattleggja bæri sem launatekjur samkvæmt 1. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 9. gr. sömu laga. Rakti ríkisskattstjóri umrædd ákvæði sem og ákvæði 57. gr. laga nr. 90/2003 sem hann kvaðst telja að ætti við í tilviki kæranda. Þá reifaði ríkisskattstjóri helstu efnisatriði í samkomulagi kæranda, X hf. og Z-banka hf. um kaup kæranda á hlutabréfum í X hf. með söluréttartryggingu og lánsfyrirgreiðslu sem þessum viðskiptum tengdist. Ítrekaði ríkisskattstjóri að líta yrði svo á að um tiltekna útfærslu á starfstengdum kauprétti væri að ræða. Í reynd væri ekki um að ræða raunverulega afhendingu á hlutabréfunum fyrr en sölurétturinn væri útrunninn eða fallinn úr gildi. Við kaupin hefði kærandi ekki látið neina fjármuni af hendi og með þeim hefði gengi hlutabréfanna verið fest með sambærilegum hætti og þegar gerður væri kaupréttarsamningur. Raunveruleg nýting kaupréttarins færi ekki fram fyrr en umsaminn söluréttur félli niður, þ.e. við uppsögn, eða rynni út. Þá skyldi lánveiting vegna kaupanna gerð upp og þá fyrst greiddi kaupréttarhafi í reynd fyrir hlutabréfin eða tæki nýtt lán vegna þess. Engu máli skipti þótt hlutabréfin hefðu verið keypt af Z-banka hf. sem verið hefði eigandi 32,3% hlutafjár í X hf. á greindum tíma ásamt dótturfélagi sínu. Bæru samningarnir í heild sinni þess merki að vera gerðir „innan armslengdar“ samkvæmt skilgreiningu skattalaga og hefðu fyrst og fremst byggst á starfssambandi kæranda og X hf. Samkvæmt sérstöku samkomulagi aðila hefði kærandi selt hlutabréfin á árinu 2004 og þá sagt upp söluréttinum og greitt upp lánið frá Z-banka hf. Þau viðskipti væru sambærileg við nýtingu kaupréttar og því hefði kæranda borið að telja sér til tekna sem starfstengd hlunnindi þann hagnað sem orðið hefði af sölu hlutabréfanna.

Að svo búnu rakti ríkisskattstjóri ákvæði þeirra samninga vegna kaupa kæranda á hlutabréfum í X hf. sem um ræðir með hliðstæðum hætti og gert var í boðunarbréfi embættisins. Þá fjallaði ríkisskattstjóri um mat sitt á raunverulegu efni viðskiptanna og var sú umfjöllun að öllu verulegu leyti á sömu lund og í boðunarbréfi. Í kjölfar þess vék ríkisskattstjóri að andmælum umboðsmanns kæranda í bréfi, dags. 6. júlí 2007, og þeim sjónarmiðum sem þar komu fram. Af því tilefni áréttaði ríkisskattstjóri að ákvörðun hans væri í meginatriðum byggð á ákvæðum 1. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. og 9. gr. laga nr. 90/2003 þar sem um væri að ræða starfstengd hlunnindi í formi kaupréttar að hlutabréfum. Þar sem telja yrði að umrædd viðskipti, þ.e. kaup á hlutabréfum á undirverði, hefðu verið færð í tiltekinn búning með það fyrir augum að umræddar tekjur yrðu skattlagðar sem fjármagnstekjur en ekki launatekjur yrði einnig að líta svo á að skattasniðgöngusjónarmið hefðu legið að baki samningsgerðinni og því styddist ákvörðun ríkisskattstjóra einnig við ákvæði 57. gr. laga nr. 90/2003 um óvenjuleg skipti í fjármálum. Kærandi hefði verið æðsti stjórnandi X hf. á greindum tíma og Z-banki hf. verið ráðandi hluthafi í félaginu vegna eignarhalds á dótturfélaginu B hf. Væri því um að ræða hagsmunatengsl milli aðila, sbr. til hliðsjónar ákvæði 2. mgr. 14. gr. tollalaga nr. 88/2005, sbr. áður samhljóða ákvæði í 2. mgr. 8. gr. tollalaga nr. 55/1987. Þá fjallaði ríkisskattstjóri um meinta réttaróvissu varðandi skattlagningu valréttarsamninga hér á landi og tók fram að í kjölfar upptöku sérstakra skattaákvæða um kaupréttarsamninga á árinu 2000, sbr. nú 9. og 10. gr. laga nr. 90/2003, hefðu starfstengdir söluréttarsamningar litið dagsins ljós. Um væri að ræða flóknari samninga en hefðbundna kaupréttarsamninga, en tilgangur þeirra væri allt að einu sambærilegur, þ.e. að gefa lykilstarfsmönnum félaga kost á að kaupa hlutabréf á undirverði á grundvelli áframhaldandi starfssambands. Við mat á meðferð slíkra samninga í skattalegu tilliti bæri að líta með heildstæðum hætti til efnis þeirra fremur en forms og skipti því ekki öllu máli hvort samningur væri kallaður kaupréttarsamningur eða söluréttarsamningur. Væri því um að tefla starfstengd hlunnindi kæranda sem bæri að skattleggja út frá heildstæðu mati á innihaldi samninga en ekki miðað við reiknaðan ávinning kæranda af því að fá söluréttartryggingu á hlutabréfunum endurgjaldslaust, svo sem kærandi teldi sjálfur. Lægi og fyrir að umræddir samningar hefðu verið liður í kaupréttaráætlun X hf. og forstjóra félagsins.

Vegna sjónarmiða kæranda þess efnis að ríkisskattstjóri hefði beitt 9. gr. laga nr. 90/2003 með lögjöfnun í tilviki kæranda tók ríkisskattstjóri fram að svo væri ekki, enda væri byggt á skattlagningarheimild 1. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003. Ekki væri þannig um að ræða skattlagningu á söluréttinum sem slíkum, heldur skattlagningu á „[hinum valréttinum]“ sem kæranda hefði staðið til boða, þ.e. að eiga bréfin, en um væri að ræða starfstengd hlunnindi hans. Í 9. gr. laga nr. 90/2003 væri hins vegar fjallað um útreikning hlunninda. Þá fjallaði ríkisskattstjóri nánar um andmæli umboðsmanns kæranda í einstökum atriðum. Kom m.a. fram í því sambandi, varðandi tengsl aðila, að meginatriði málsins væru tengsl kæranda og X hf. og sú staðreynd að X hf. hefði borið áhættu af viðskiptum aðila svo lengi sem söluréttur hlutabréfanna hefði verið í gildi. Kærandi sjálfur hefði verið varinn fyrir öllum skakkaföllum í þeim efnum. Lánskjör kæranda hefðu verið betri en þau kjör sem almenningi hefðu staðið til boða í lánastofnunum á sama tíma. Staðhæfingar í bréfi umboðsmanns kæranda um að kæranda hefði verið kleift að kaupa sér hliðstæða tryggingu annars staðar væri röng, enda hefði söluréttur hans tengst starfssambandi við X hf. og verið háður því að kærandi héldi áfram störfum fyrir félagið. Í umfjöllun sinni um eignarráð kæranda yfir hinum keyptu hlutabréfum, svo sem vegna atkvæðisréttar og forkaupsréttar að nýjum hlutum, væri af hálfu umboðsmanns kæranda litið framhjá þeirri staðreynd að kærandi hefði verið skuldbundinn til þess að eiga hlutabréfin í tvö ár og hann því ekki getað ráðstafað bréfunum með sölu. Þá hefðu öll umrædd réttindi fallið niður ef kærandi hefði nýtt sér hinn umsamda sölurétt. Varðandi rétt til arðgreiðslu og ráðstöfun arðgreiðslna yrði að líta til þess að þótt greiddum arði af hlutabréfunum kynni að hafa verið ráðstafað til greiðslu vaxta af láni kæranda hefði kærandi ekki fengið arðinn til ráðstöfunar að eigin vild, svo sem til neyslu eða annarra fjárfestinga. Þvert á móti hefði arðurinn runnið til Z-banka hf. til greiðslu á vöxtum og skuld sem tryggð hefði verið með handveði í hinum keyptu hlutabréfum. Þá væri ljóst að hefði kærandi nýtt sér sölurétt að hlutabréfunum hefði arður runnið til lánveitanda og X hf. greitt það sem upp á vantaði til uppgreiðslu lánsins. Með ákvörðun kæranda um að nýta ekki söluréttinn færi hin raunverulega afhending hlutabréfanna fram og þá yrðu hreyfingar vegna arðsins virkar gagnvart honum á þann hátt að lánsfjárhæðin yrði lægri en sem næmi úthlutuðum arði frá því að samningar hefðu verið gerðir. Þannig rynni arðurinn einungis til kæranda í gegnum skuldskeytingu þegar hann hefði ákveðið að falla frá sölurétti, standa við kaupin og taka áhættu af því að eiga hlutabréfin.

Ríkisskattstjóri tók fram að hjá því yrði ekki litið að við undirritun samninga sem um ræðir í upphafi hefðu engar peningagreiðslur farið fram. Færslur milli bankareikninga, þ.e. svokallaðra VS-reikninga, vegna arðgreiðslna með sömu fjárhæðum yrðu ekki taldar raunverulegar hreyfingar á fjármunum, enda væri ekki um að ræða neina breytingu á peningastöðu kæranda. Samningur kæranda við launagreiðanda hefði falið í sér að honum hefði verið gert kleift að kaupa hlutabréf í félaginu á undirverði án nokkurrar teljandi áhættu og slíkan samning hefði kæranda ekki verið unnt að kaupa á frjálsum markaði. Þá hefði söluréttur í tilviki kæranda einnig náð til vaxta af láninu frá Z-banka hf., en fátítt hlyti að vera að slík kjör fylgdu kaupum á söluréttartryggingum almennt. Þótt ekki væri lagt mat á tekjur af þessum toga í skattmatsreglum fjármálaráðherra hefði það ekki í för með sér skattfrelsi teknanna, sbr. ákvæði B-liðar 13. gr. reglugerðar nr. 245/1963, úrskurð yfirskattanefndar nr. 452/2000 og dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 26/2002. Að því er varðar gögn um greiðslur vegna viðskiptanna hefðu engin slík gögn komið fram að undanskildum yfirlitum sem bæru með sér færslur á VS-reikningum, þ.e. skráningar án peningafærslu. Peningastaða kæranda væri óbreytt fyrir og eftir viðskiptin þar sem sama fjárhæð hefði farið inn á og út af reikningnum. Þar sem Z-banki hf. hefði bæði verið seljandi hlutabréfanna og lánveitandi í viðskiptunum hefði greiðslan komið frá bankanum „þannig að hún bæði kom og fór.“ Færsla á VS-reikninginn hefði ekki peningagreiðslur í för með sér. Sölurétturinn hefði síðar verið felldur niður og kærandi selt hlutabréfin og þá fyrst væri hægt að halda því fram að peningagreiðsla hefði átt sér stað, enda hefði kærandi þá fengið 91,7 milljónir króna fyrir hlutabréfin sem hann hefði nýtt til uppgreiðslu lánsins að viðbættum vöxtum og að teknu tilliti til arðgreiðslna af bréfunum.

Í úrskurði ríkisskattstjóra kom fram að það hlyti að orka tvímælis hvort kæranda hefði borið að telja fram kaup hlutabréfanna í skattframtali sínu árið 2004 og arðgreiðslur til tekna þar sem ekki hafi legið fyrir á þeim tíma hvort kærandi myndi nýta sölurétt sinn að hlutabréfunum. Aðstaða kæranda hefði verið sú að honum hefði eftir tiltekinn tíma verið unnt að ganga út úr viðskiptunum sér að skaðlausu og án þess að hafa tekið nokkra áhættu og áhrifin gagnvart honum yrðu þá sambærileg og ef samningarnir hefðu verið „rifnir eða þeir gufað upp“, eins og sagði í úrskurðinum. Skráning viðskiptanna á VS-reikningi væri engin staðfesting á viðskiptunum í ljósi þeirra takmarkana sem verið hefðu á ráðstöfun hlutabréfanna og slík skráning kallaði ekki á neinar peningahreyfingar. Um væri að ræða skráningu upplýsinga sem líkja mætti við skráningu í opinbera skrá, t.d. skipaskrá, en ekki greiðslu. Þá væri ranghermt í bréfi umboðsmanns kæranda að nýting X hf. á kauprétti félagsins á hlutabréfunum hefði í för með sér greiðslu til eiganda bréfanna, þ.e. kæranda, enda væri kveðið á um í lánasamningnum að við þessar aðstæður skyldi X hf. gera upp við Z-banka hf. milliliðalaust. Þannig hefðu engar greiðslur átt sér stað til kæranda heldur einungis pappírsfærslur. Ekki væri því um neinn misskilning af hálfu ríkisskattstjóra að ræða. Vegna umfjöllunar í bréfi umboðsmanns kæranda varðandi stimpilgjald, sbr. lög nr. 36/1978, kvaðst ríkisskattstjóra draga í efa að undanþága frá stimpilgjaldi ætti við í tilviki kæranda, svo sem nánar var tíundað. Áréttaði ríkisskattstjóri fyrri afstöðu sína um að kjör í lánsviðskiptum kæranda og Z-banka hf. hefðu verið mun hagstæðari en almennt gerðist í lánsviðskiptum einstaklinga við fjármálastofnanir. Þá fjallaði ríkisskattstjóri frekar um samanburð kaupréttarsamninga annars vegar og söluréttarsamninga hins vegar og benti á að í hinu síðarnefnda tilviki hefði brottfall söluréttar án nýtingar í för með sér að rétthafi söluréttarins hygðist standa við kaup sem leggja mætti að jöfnu við nýtingu kaupréttar samkvæmt kaupréttarsamningi, enda færi raunveruleg afhending og flutningur áhættu þá fram en ekki fyrr. Þrátt fyrir að þekktar væru ýmsar reikniformúlur til þess að finna út kostnað vegna venjubundinna söluréttartrygginga, svo sem samkvæmt svonefndri Black-Scholes aðferð, yrði slíkum aðferðum ekki beitt til þess að ákvarða verðmæti söluréttar í tilviki kæranda, enda byggðist sölurétturinn á starfssambandi kæranda og veitanda söluréttarins og væri háður skilyrði er lyti að áframhaldandi störfum kæranda hjá félaginu. Þá væri afar ólíklegt að tveir aðilar legðu sama mat á verðmæti slíks samnings, enda hlyti umfang og áhætta viðskipta og fleiri atriði að skipta miklu máli við slíkt mat. Skírskotanir kæranda til þess að hann hefði getað orðið fyrir tjóni af samningunum ef honum hefði verið sagt upp störfum eða X hf. orðið gjaldþrota yrðu að teljast léttvæg rök fyrir áhættu kæranda, enda afar ólíklegt að slík atvik kæmu til. Kærandi hefði sjálfur verið innherji hjá X hf. og haft yfirburðaþekkingu á rekstrarhorfum félagsins.

Í kjölfar framangreinds vék ríkisskattstjóri sérstaklega að bréfi umboðsmanns kæranda frá 8. ágúst 2007 og gögnum sem því fylgdu. Tók ríkisskattstjóri fram að miðað við umrædd gögn hefði heildargreiðsla kæranda vegna láns frá Z-banka hf. og vaxta af því numið 47.708.556 kr. Þar af hefði kaupverð hlutabréfanna numið 44.100.000 kr. þannig að vextir vegna liðlega 15 mánaða tímabils hefðu numið 3.608.556 kr. sem svaraði til um 6,5% ársvaxta að meðaltali. Ítrekaði ríkisskattstjóri áður fram komin sjónarmið sín í þessu sambandi og kvaðst telja að framlögð gögn kæranda högguðu ekki þeirri ályktun ríkisskattstjóra að arðgreiðslur af hlutabréfunum hefðu ekki staðið kæranda til ráðstöfunar fyrr en söluréttur vegna bréfanna hefði verið fallinn niður. Breytti engu í þeim efnum þótt arðgreiðslur hefðu farið inn og út af bankareikningi í eigu kæranda og verið ráðstafað til greiðslu afborgana og vaxta af láni sem legið hafi fyrir að kærandi myndi aldrei greiða upp nema söluréttur liði undir lok án þess að vera nýttur. Hefði og verið hluti af umræddu samkomulagi aðila að Z-banki hf. stofnaði bankareikninga í nafni kæranda til þess að annast um slíkar millifærslur fyrir hans hönd.

Í niðurlagi úrskurðarins dró ríkisskattstjóri saman forsendur sínar að því er varðaði hinn umdeilda söluréttarsamning milli kæranda og X hf. Kom eftirfarandi fram í því sambandi:

„Um er að ræða samning sem er hluti af kaupréttaráætlun X og felur hann í sér að ef gjaldandi starfi hjá félaginu, eða eigi skemur en til 15. mars 2005, hljóti hann þau hlunnindi sem samningurinn hefur í för með sér. Fram kemur að starfsmaðurinn hafi keypt hlutabréf að nafnverði 14.000.000 kr. í X og samhliða kaupunum veiti X starfsmanninum einhliða rétt til þess að selja hlutabréf sín í X til X. Sölugengið er 3,15 kr. eða jafnt kaupgenginu. Þá skal sölugengi hækka um sem svarar til fjármagnskostnaðar af skuld skv. lánasamningi sem X útvegaði starfsmanni og lækka um sem svarar til útgreidds arðs af hlutabréfunum. Í samningunum skuldbindur starfsmaðurinn sig [til] að eiga hlutabréfin í a.m.k. 2 ár eða til 15. mars 2005 hið skemmsta. Skýrt kemur fram að samningurinn er gerður á þeirri forsendu að starfsmaðurinn starfi hjá X eigi skemur en til 15. mars 2005 og láti hann af störfum hjá X fyrir þann tíma veitir starfsmaðurinn X einhliða kauprétt á þeim hlutabréfum sem söluréttarsamningurinn tekur til á sölugenginu 3,15 kr. eða jafn háu og kaupgenginu að viðbættum fjármagnskostnaði og frádregnum arði. Ekki verður séð, ef gjaldandi hefði keypt sölurétt til að takmarka áhættu sína af hlutabréfakaupunum af öðru fjármálafyrirtæki, að slík trygging hefði verið þeim takmörkunum háð að hann yrði að eiga hlutabréfin í tvö ár, hann yrði í starfi hjá X næstu tvö ár og X gæti ella keypt hlutabréfin af honum á sama verði og hann hefði keypt þau á. Söluréttur keyptur af fjármálafyrirtæki getur gengið kaupum og sölum og slíkur samningur takmarkaði ekki það hvort eða hvenær eigandi söluréttarins gæti selt hlutabréf sín. Hefði gjaldandi keypt sölurétt og ef ekki væri um hluta af starfskjörum hans að ræða hefði hann átt að geta selt hlutabréfin hvenær sem honum hentaði, selt hlutabréfin ásamt söluréttinum eða þá selt söluréttartrygginguna eina sér ef honum sýndist svo. Endurgreiðsla fjármagnskostnaðar af lánssamningnum sem er föst prósentutala í söluréttartryggingu gjaldanda hefði varla verið verðlögð með öðrum hætti en sem svarar til þeirra vaxta sem ljóst var að myndu falla á lánið á lánstímanum en til frádráttar kæmi mat á hugsanlegum arði af hlutabréfunum. Meðal annars með þetta í huga er ekki að aðferðafræði sú sem umboðsmaður gjaldanda hefur lagt fram um útreikning á kostnaðarverði söluréttar á markaði eigi við um söluréttarsamning gjaldanda (sic). Á þeim tímapunkti sem hann fékk söluréttarsamninginn frá X hafði sölurétturinn sem slíkur takmarkað verðmæti í sér þar sem samningurinn var bundinn framangreindum skilyrðum. Líkja mætti verðmæti samningsins við ráðningarsamning starfsmanns þar sem samið er um að á móti vinnuframlagi starfsmannsins greiði vinnuveitandi hans honum laun fyrir. Söluréttarsamningurinn var háður starfsframlagi gjaldanda þar til 15. mars 2005 og verðmæti hans felst í því að á tímabilinu 15. til 22. mars 2005 veitti samningurinn honum þann valkost að geta valið að ganga að kaupunum að hlutabréfunum eða falla frá kaupunum sér að skaðlausu. Þá kemur fram í samningnum að X sjái um að útvega starfsmanninum lánasamning við Z-banka hf. og kjósi starfsmaðurinn að nýta sér söluréttinn skal X ráðstafa söluverði beint til uppgreiðslu skuldar starfsmannsins skv. lánasamningnum. Við sölu vegna nýtingar söluréttar greiðir starfsmaðurinn ekki sölulaun. Komi til gjaldfellingar lánasamningsins skal sölurétturinn nýttur við uppgjör hans. Þannig hafi gjaldandi fengið í hendurnar mun víðtækara samkomulag en fólgið var í sölurétti sem keyptur er á markaði. Starfsmaðurinn fékk í hendurnar samningafléttu á grundvelli starfssambands síns og þurfti hann lítið annað að aðhafast en undirrita samningana, þ.e. söluréttarsamninginn, lánasamninginn og kaupsamninginn, án þess að taka áhættu eða leggja út svo mikið sem eina krónu, nema hugsanlega 5.000 kr. lántökugjald fyrir lánasamninginn, stæði hann við samninginn. Með ofangreint í huga verður að líta svo á að þessi sérstöku kjör við hlutabréfakaupin hafi byggst á starfssambandi gjaldanda við X og [séu því] andlag launaskattlagningar.“

Með vísan til framanritaðs kvaðst ríkisskattstjóri hafa ákveðið að skattleggja starfstengd hlunnindi kæranda vegna kaupa á hlutabréfum í X hf. með sölurétti á grundvelli 1. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003. Tekjuskattsstofn kæranda gjaldárið 2005 væri því hækkaður um 47.600.000 kr. og fjármagnstekjuskattsstofn hans umrætt gjaldár lækkaður um sömu fjárhæð. Til stuðnings álagsbeitingu samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 tók ríkisskattstjóri fram að kærandi hefði í skattframtali sínu fært tekjur, sem honum hefði mátt vera ljóst að væru launatekjur, sem fjármagnstekjur. Með lögfestingu núgildandi ákvæðis 9. gr. laga nr. 90/2003 hefði verið ætlun löggjafans að stemma stigu við vaxandi tilhneigingu skattaðila til þess að misfara með starfstengda kauprétti í skattskilum og færa tekjur af slíkum kaupréttum með fjármagnstekjum í stað launatekna. Í kjölfarið hefðu aðilar, sem hagsmuni hefðu af slíkum samningum, leitað nýrra leiða til þess að koma slíkum tekjum undan launaskattlagningu og hefðu þá litið dagsins ljós starfstengdir söluréttir eins og um væri að ræða í máli kæranda. Þótt rök stæðu ekki til þess að fella niður álag á grundvelli 3. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 hefði ríkisskattstjóri þó ákveðið, með vísan til meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að taka við álagsbeitingu tillit til fjármagnstekjuskatts sem staðið hefði verið skil á af sama skattstofni. Álag, sem reiknaðist 11.900.000 kr., væri því lækkað um 1.190.000 kr. og yrði því 10.710.000 kr. Þá reiknaðist 2,5% verðbótaálag samkvæmt 122. gr. laga nr. 90/2003 á mismun á álögðum og staðgreiddum tekjuskatti.

III.

Í kæru umboðsmanns kæranda til yfirskattanefndar, dags. 26. janúar 2008, er þess aðallega krafist að úrskurður ríkisskattstjóra um endurákvörðun, dags. 29. október 2007, verði felldur úr gildi. Til vara er þess krafist í kærunni að fjármagnstekjuskattsstofn kæranda gjaldárið 2004 verði lækkaður um 2.240.000 kr. og fjármagnstekjuskattsstofn gjaldárið 2005 lækkaður um 4.900.000 kr., auk þess sem beiting 25% álags á meintan vanframtalinn tekjuskattsstofn gjaldárið 2005 verði felld niður. Þá er þess krafist í báðum tilvikum að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði. Kemur og fram í kærunni að þess sé óskað að umboðsmanni kæranda verði leyft að flytja málið munnlega fyrir yfirskattanefnd.

Í kæru umboðsmanns kæranda er greint frá málavöxtum og bent á að kærandi hafi ráðstafað arðgreiðslum af hinum keyptu hlutabréfum í X hf. til greiðslu afborgana og vaxta af láni frá Z-banka hf. sem hann hafi tekið vegna kaupa hlutabréfanna. Þá hafi kærandi gert grein fyrir eignarhaldi sínu að hlutabréfunum og greindum arðgreiðslum í skattframtali sínu árið 2004 og sölu hlutabréfanna á árinu 2004 í skattframtali sínu árið 2005 þar sem kærandi hafi fært til tekna söluhagnað að fjárhæð 47.600.000 kr. Ljóst sé samkvæmt reglum íslensks réttar að með kaupsamningi sínum við X hf. frá 13. mars 2003 hafi kærandi orðið eigandi hlutar í félaginu að nafnverði 14.000.000 kr. og eins og áður sé lýst hafi kærandi farið með öll eignarráð yfir hlutnum, þar á meðal atkvæðisrétt, rétt til að skrifa sig fyrir nýju hlutafé í félaginu, forkaupsrétt til kaupa á öðrum hlutum og rétt til arðgreiðslu. Þótt ríkisskattstjóri hafi litið svo á að kærandi hafi fyrst á árinu 2004 orðið eigandi hlutabréfanna hafi ríkisskattstjóri engar leiðréttingar gert á skattframtölum kæranda árin 2004 og 2005 vegna offramtalins arðs af bréfunum. Sú ákvörðun beri með sér að ríkisskattstjóri líti í raun svo á að kærandi hafi orðið réttmætur eigandi hlutanna í X hf. þegar á árinu 2003. Ítrekað sé að ríkisskattstjóra skorti réttarheimildir til þess að fara öðruvísi með umrædd viðskipti kæranda og X hf. í skattalegu tilliti en miðað sé við í skattskilum kæranda sjálfs, enda sé ekki um það að ræða að viðskiptin hafi verið færð í annan búning en raunverulegt innihald þeirra segði til um. Ennfremur verði 9. gr. laga nr. 90/2003, sem fjalli um kauprétt að hlutabréfum, ekki beitt með lögjöfnun um skattlagningu söluréttar, enda sé um að ræða sérreglu sem ekki verði skýrð rúmt. Þá sé málatilbúnaður ríkisskattstjóra að öðru leyti óljós, enda sé torráðið hvort hin umdeilda skattlagning sé byggð á 1. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, 9. gr. sömu laga eða 57. gr. laganna. Sé í raun um að ræða brot á andmælareglu 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Vegna tilvísana ríkisskattstjóra til 57. gr. laga nr. 90/2003 sé til þess að líta að umrætt ákvæði feli eingöngu í sér milliverðsreglur. Þá sé því skilyrði ákvæðisins, að um sé að ræða viðskipti milli tengdra aðila, ekki fullnægt í tilviki kæranda, svo sem áður sé komið fram. Þá beri dóma- og úrskurðaframkvæmd varðandi beitingu ákvæðisins glöggt með sér að strangar kröfur séu gerðar til skattyfirvalda um að sýnt sé fram á að samningar séu óvenjulegir í því umhverfi sem um ræðir hverju sinni. Söluréttarsamningar af þeim toga sem kærandi hafi gert við X hf. séu algengir og vel þekktir hjá stjórnendum fyrirtækja.

Umboðsmaður kæranda tekur fram í kærunni að lögskýringargögn með 2. gr. laga nr. 86/2000 renni ekki neinum stoðum undir sjónarmið ríkisskattstjóra þess efnis að ákvæðinu hafi verið ætlað að stemma stigu við vaxandi tilhneigingu innan fjármálageirans til þess að koma starfstengdum tekjum undan launaskattlagningu, sbr. ennfremur skýrslu nefndar ríkisskattstjóra frá 23. mars 2000 þar sem fjallað sé um skattlagningu valrétta. Séu þessi sjónarmið ríkisskattstjóra úr lausu lofti gripin. Engar sértakar skattareglur hafi verið settar um skattlagningu söluréttar og því verði að líta til almennra ákvæða laga nr. 90/2003 í þeim efnum. Óeðlilegt sé að vegna skorts á lagagrundvelli og óvissu um framkvæmd sé komið aftan að gjaldendum með skattlagningu söluréttar á grundvelli skattasniðgöngu, sbr. meðalhófsreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Sé litið til ákvæða 7. og 9. gr. laga nr. 90/2003 verði að telja ljóst að ekki beri að skattleggja sölurétt fyrr en við nýtingu hans, enda sé söluréttur hlutabréfa almennt ekki nýttur nema gangverð hluta sé undir söluverði samkvæmt söluréttarsamningi og hafi þannig lækkað frá því að samningur var gerður. Mismunur á gangverði og söluverði gæti þá myndað skattstofn og yrði þá að fjalla um það álitaefni hvort um væri að ræða launatekjur eða fjármagnstekjur. Í tilviki kæranda sé hins vegar ekki um að ræða neina nýtingu á sölurétti og því standi skattalög ekki til neinnar launaskattlagningar hjá kæranda vegna þeirra samninga sem um ræðir. Kærandi hafi talið fram til skatts söluhagnað af hlutabréfunum og eigi ríkissjóður því ekki frekari skattkröfur á hendur kæranda vegna viðskiptanna. Í kærunni kemur fram að af hálfu kæranda hafi farið fram könnun á skattlagningu söluréttar erlendis og hafi verið aflað upplýsinga frá Svíþjóð, Bandaríkjunum, Bretlandi og Lúxemborg í því sambandi. Er gerð nánari grein fyrir þessu í kærunni og tekið fram að hvergi sé skattlagningu söluréttar hagað með þeim hætti sem ríkisskattstjóri hafi lagt til grundvallar í tilviki kæranda. Þá sé ekki unnt að leggja neitt mat á skattaspörun kæranda vegna hins umdeilda söluréttar, enda hafi kæranda ekki verið ljóst frekar en öðrum fjárfestum á árinu 2003 hvort gengi hlutabréfa í X hf. myndi hækka eða lækka í framtíð.

Að svo búnu víkur umboðsmaður kæranda nánar að forsendum ríkisskattstjóra í hinum kærða úrskurði embættisins um endurákvörðun. Kemur fram að því sé ranglega haldið fram í úrskurðinum að Z-banki hf. hafi litið svo á að X hf. bæri ábyrgð á greiðslu lánsins sem kærandi tók, sbr. meðfylgjandi yfirlýsingu Z-banka hf., dags. 16. janúar 2008. Þá sé ljóst að lagaheimildir til skattlagningar söluréttar að hlutabréfum séu í besta falli óljósar. Eðlilegt væri að vekja athygli fjármálaráðherra á þörf á setningu lagareglna um slík efni í stað þess að fiska í gruggugu vatni með skattlagningu á hæpnum grundvelli. Þá hafi ríkisskattstjóri sérstaklega vísað til ákvæðis 3. gr. söluréttarsamnings kæranda og X hf., en þar sé um augljósa prentvillu í samningnum að ræða sem ekki hafi neina efnislega þýðingu í málinu, enda sé um að ræða sölurétt en ekki kauprétt. Áréttuð eru áður fram komin sjónarmið kæranda varðandi lánskjör vegna láns frá Z-banka hf. og ítrekað að kjörin hafi tekið mið af þeirri tryggingu sem veitt hafi verið í viðskiptunum, sbr. fyrrgreinda yfirlýsingu bankans frá 16. janúar 2008. Sé fjarstæða að lánskjör í viðskiptunum hafi á einhvern hátt verið óeðlileg. Þá hafi þær fullyrðingar ríkisskattstjóra, að engar peningagreiðslur hafi farið fram vegna þeirra viðskipta sem um ræðir, verið hraktar í málinu. Í úrskurði ríkisskattstjóra sé nokkuð dregið í land í þessum efnum og viðurkennt að peningahreyfingar hafi átt sér stað, en litið svo á að ekki hafi verið um raunverulegar peningahreyfingar að ræða. Sé þetta úr lausu lofti gripið og fái engan veginn staðist. Virðist sem ríkisskattstjóri geri sér ekki grein fyrir því að viðskipti fari nú iðulega fram í viðskiptakerfum en ekki með beinum greiðslum yfir borð í reiðufé. Í málatilbúnaði ríkisskattstjóra felist í raun að eignarréttur að hlutabréfum flytjist ekki frá seljanda til kaupanda fyrr en hlutabréfin hafi verið greidd að fullu. Sú niðurstaða sé í ósamræmi við reglur eignarréttar, skattframkvæmd og dóma Hæstaréttar Íslands sem og ákvæði 2. mgr. 59. gr. laga nr. 90/2003. Áhætta af kaupum hlutabréfanna í X hf. hafi flust til kæranda hinn 13. mars 2003, þ.e. áhættan af því að hlutabréfin lækkuðu í verði, og gegn þeirri áhættu hafi kærandi fengið söluréttartryggingu frá X hf. án endurgjalds.

Þá er í kærunni vikið að varakröfu kæranda og tekið fram að varakrafan sé byggð á því að verði hin kærða skattlagning ríkisskattstjóra staðfest sé óhjákvæmilegt að fella niður skattlagningu arðstekna í skattframtölum kæranda árin 2004 og 2005, en um sé að ræða fjármagnstekjuskattsstofn að fjárhæð 7.140.000 kr. Þá sé krafist niðurfellingar álags, enda beri að líta til þess að veruleg óvissa hafi verið uppi um skattlagningu söluréttar, svo sem viðurkennt sé í bréfi ríkisskattstjóra frá 21. júlí 2007 þar sem einnig komi fram að mál kæranda sé prófmál til þess að fá skorið úr um hvort skattleggja beri hlunnindi vegna slíks söluréttar.

Í niðurlagi kærunnar er beiðni kæranda um munnlegan flutning málsins rökstudd nánar. Þá er vakin athygli á því að frá því að úrskurður ríkisskattstjóra í máli kæranda var kveðinn upp í október 2007 hafi hlutabréfamarkaðir í heiminum hrunið, þar á meðal hinn íslenski hlutabréfamarkaður. Í ljósi þeirrar þróunar sem orðið hafi á hlutabréfamörkuðum á liðnum misserum, sem ekki sé enn séð fyrir endann á, sé ljóst að nálgun ríkisskattstjóra í máli kæranda, þ.e. að einblína einvörðungu á þá staðreynd að hin keyptu hlutabréf í X hf. hafi hækkað í verði milli áranna 2003 og 2004, sé röng í grundvallaratriðum. Ástæða þess að fjárfestar leitist við að tryggja fjárfestingar sínar með samningum um sölurétti sé einmitt hætta á slíkri þróun sem nú hafi orðið uppi á teningnum.

IV.

Með bréfi, dags. 18. apríl 2008, hefur ríkisskattstjóri lagt fram kröfugerð í máli þessu fyrir hönd gjaldkrefjenda og krafist þess að úrskurður embættisins verði staðfestur með vísan til forsendna hans. Í kröfugerðinni kemur fram að á skorti að í kæru kæranda til yfirskattanefndar sé tekin afstaða til málsins á þeim grundvelli sem ríkisskattstjóri hafi lagt, en ríkisskattstjóri hafi byggt á því að kaup kæranda á hlutabréfum í X hf. með söluréttartryggingu séu, með hliðsjón af þeirri samningafléttu sem í kringum kaupin hafi verið gerð, starfstengd kaupréttarhlunnindi á tilteknu tímabili sem beri að skattleggja sem laun. Vegna sjónarmiða í kærunni beri að árétta að kærandi hafi ekki greitt fyrir hlutabréfin, en undirritað þess í stað skuldabréf sem ásamt vöxtum hafi átt að greiðast í einu lagi á sama tíma og sölurétturinn rynni út. Ekki fyrr en á þeim tímapunkti hafi orðið ljóst hvort kærandi kæmi til með að greiða höfuðstól bréfsins ásamt vöxtum eða hvort það yrði útgefandi söluréttarins sem það gerði. Þá hafi kærandi ekki tekið við greiðslu arðs frá Z-banka hf. og lagt inn á eigin reikning, heldur hafi arðgreiðslan sjálfkrafa verið lögð inn á bankareikning kæranda eins og annarra hluthafa, en kærandi verið skuldbundinn til þess að skila arðgreiðslunni þar sem hún hafi átt að ganga til greiðslu afborgana eða vaxta af láni Z-banka hf. Arðgreiðslur af hlutabréfunum hafi því ekki staðið kæranda til frjálsrar ráðstöfunar. Að mati ríkisskattstjóra snúist mál kæranda að miklum hluta um það hvort sú samningaflétta, sem gerð hafi verið í kringum hin meintu kaup kæranda, feli í sér að raunveruleg kaup hafi átt sér stað í upphafi þegar samningarnir voru gerðir eða hvort þau hafi í reynd farið fram þegar kærandi tók hina endanlegu ákvörðun með því að segja upp söluréttinum og taka við hlutabréfunum sem hann þá seldi jafnharðan aftur. Skráning hlutabréfa á svonefnda VS-reikninga sé í mörgum tilvikum ótraust heimild um eignarhald, enda hafi aðilar á fjármálamarkaði farið frjálslega með slíkar skráningar. Er þetta nánar rakið í kröfugerðinni. Þá er ítrekað í kröfugerðinni að engar peningahreyfingar hafi átt sér stað hjá kæranda fyrr en söluréttur hlutabréfanna var úr gildi fallinn. Einstakar færslur á bankareikningum kæranda vegna rafrænna tenginga breyti engu um þá staðreynd. Þá segir svo í kröfugerðinni:

„Með því að horfa til þess sem hefði gerst ef kærandi hefði nýtt söluréttinn má átta sig betur á þessu. Þá hefði kærandi staðið upp frá borðinu án þess svo mikið sem einnar krónu breyting hefði orðið á högum hans. Í þeirri stöðu hefði það verið X sem hefði notið arðsins og gert lánið og vextina upp með lægri fjárhæð en ella. Við þær aðstæður, þ.e. ef sölurétturinn hefði verið nýttur, hefði kærandi samt sem áður verið búinn að færa sér arðinn til tekna á skattframtali á forsendum sem vafasamt er að standist miðað við að X hefði notið arðsins við skuldskeytinguna. Ekki liggur annað fyrir en að X hafi haldið eftir staðgreiðslu af arðinum og því hefði það engar skattalegar afleiðingar í för með sér þótt arðurinn og staðgreiðslan væru felld niður af framtali kæranda. Ríkisskattstjóri getur ekki fallist á að leiðrétta hafi átt framtal kæranda þannig að hann hefði fengið endurgreiddan þann fjármagnstekjuskatt sem haldið var eftir af arðinum og hafnar því athugasemdum umboðsmannsins um að hann hafi látið undir höfuð leggjast að gera grein fyrir framtalsskilum kæranda fyrir gjaldárin 2004 og 2005 að því leyti sem máli skipti fyrir kæranda.“

Ríkisskattstjóri tekur fram í kröfugerðinni að færslur í skattframtölum kæranda vegna hinna umdeildu viðskipta fái einungis staðist ef litið sé svo á að um raunveruleg kaup kæranda á hlutabréfum hafi verið að ræða á árinu 2003. Með vísan til samningafléttu sem viðhöfð hafi verið í tengslum við kaupin geti ríkisskattstjóri ekki fallist á að svo hafi verið, enda hafi endanleg ákvörðun kæranda um kaup þá ekki legið fyrir. Þá sé til þess að líta að sjá megi í opinberum ársreikningum fyrirtækja, sem hafi skuldbundið sig til þess að veita sölurétt á eigin hlutabréfum, að sölurétturinn sé bókfærður sem biðreikningsfærsla samkvæmt alþjóðlegum reikningsskilastöðlum á meðan sölurétturinn hafi ekki verið nýttur, sbr. t.d. ársreikning S hf. fyrir árið 2007 varðandi hlutafé og sölu á eigin hlutum. Gerir ríkisskattstjóri nánari grein fyrir þessu og tekur fram að í þessum tilvikum séu í reynd ekki færð nein kaup og sala samkvæmt kaup- eða söluréttarsamningi fyrr en söluréttur sé liðinn undir lok. Kærandi hafi keypt umrædd hlutabréf af Z-banka hf., en X hf. tekið ábyrgð á viðskiptunum á meðan sölurétturinn var í gildi. Þá er því mótmælt í kröfugerð ríkisskattstjóra að ekki hafi verið um að ræða viðskipti milli tengdra aðila í tilviki kæranda, X hf. og Z-banka hf., sbr. m.a. ákvæði 2. mgr. 14. gr. tollalaga nr. 88/2005, sbr. áður hliðstætt ákvæði í 2. mgr. 8. gr. tollalaga nr. 55/1987. Þá sé sömuleiðis um að ræða tengsl sem byggja á gagnkvæmum hagsmunum, en slík tengsl geti einnig leitt til óvenjulegra viðskipta í skilningi 57. gr. laga nr. 90/2003. Það sé mat ríkisskattstjóra að líta beri á samninga kæranda við vinnuveitanda hans sem eina heild og að ætlunin með gerð þeirra hafi verið að láta líta út fyrir að um fjóra sjálfstæða samninga væri að ræða. Ríkisskattstjóri vísi til 57. gr. laga nr. 90/2003 þar sem hann telji að líta beri á innihald samninganna sem slíkra sem eina heild þar sem efni þeirra hafi raunverulega verið annað en form þeirra gefi til kynna.

Vegna umfjöllunar umboðsmanns kæranda í kæru til yfirskattanefndar varðandi skattalega meðferð söluréttar að hlutabréfum áréttar ríkisskattstjóri í kröfugerð sinni að í tilviki kæranda hafi verið um að ræða „sérhannaðan sölurétt“ byggðan á starfssambandi aðila, en ekki almennan sölurétt sem gengið gæti kaupum og sölum. Ríkisskattstjóri telji því að verðmæti söluréttarins skipti ekki meginmáli, heldur samningafléttan í heild sinni og sú staðreynd að kæranda hafi verið færð hlutabréf sem hann hafi hagnast á strax og hann hafi tekið hina endanlegu ákvörðun um kaup. Þann hagnað beri að skattleggja sem laun en ekki tryggingavernd sem falist hafi í söluréttinum, enda hafi kærandi ekki nýtt sér hana. Nauðsynlegt sé við mat á greindum ráðstöfunum að virða samningana og tengsl þeirra heildstætt, svo sem ríkisskattstjóri hafi gert. Skattaspörun kæranda sé greinileg sem mismunur skattlagningar launa annars vegar og fjármagnstekna hins vegar. Miðað við þann valrétt sem kæranda hafi staðið til boða hafi tekjur hans af samningunum legið fyrir þegar hann tók hina endanlegu ákvörðun um kaup hlutabréfanna við lok söluréttarins. Þá verði ekki fallist á með kæranda að vegna takmarkaðrar ábyrgðargetu hans hafi hann þurft að segja upp söluréttinum og færa hlutabréfin inn í eigið einkahlutafélag, enda hafi X hf. ábyrgst 100% lán kæranda vegna kaupanna, sbr. m.a. bréf Z-banka hf., dags. 10. janúar 2007.

Því sé alfarið vísað á bug af hálfu ríkisskattstjóra að ákvæði í söluréttarsamningi kæranda og X hf., þar sem fram kemur að samningurinn sé hluti af kaupréttaráætlun X hf., sé til komið vegna prentvillu. Sé augljóst að með samningnum sé ætlunin sú að tryggja kæranda sem forstjóra félagsins sambærileg réttindi og hann hefði fengið með hefðbundnum kaupréttarsamningi. Kærandi hafi átt frátekin hlutabréf í X hf. um tiltekinn tíma á verði sem ákveðið hafi verið við gerð samningsins í upphafi og kæranda jafnframt verið tryggður réttur til þess að hætta við kaupin sér að kostnaðarlausu. Þá séu starfstengd hlunnindi stjórnenda hlutafélaga vegna kaup- og söluréttar nátengd fyrirbrigði, sbr. lög nr. 89/2006 um breyting á hlutafélagalögum nr. 2/1995. Tekjur af breytingum á gengi hlutabréfa séu hinar sömu hvort sem kaup- eða söluréttarleið sé farin, en hins vegar geti kostnaður eða annar ávinningur orðið mismunandi þar sem söluréttarhafi geti þurft að greiða vexti á tilteknu tímabili en kaupréttarhafi ekki. Er gerð nánari grein fyrir þessu í kröfugerð ríkisskattstjóra. Þá kveðst ríkisskattstjóri ekki geta fallist á að leiðrétta beri skattframtöl kæranda árin 2004 og 2005 vegna arðgreiðslna af hlutabréfunum í X hf., enda hafi arðinum verið skuldskeytt á móti láninu frá Z-banka hf. Í niðurlagi kröfugerðar ríkisskattstjóra er kröfu umboðsmanns kæranda um munnlegan flutning málsins sérstaklega mótmælt.

Með bréfum til yfirskattanefndar, dags. 23. og 30. maí 2008, lagði ríkisskattstjóri fram viðbótargögn í málinu. Er þar annars vegar um að ræða bréf umboðsmanns kæranda, dags. 14. maí 2008, sem ber yfirskriftina „Memo um sölurétt“, þar sem einkum er fjallað um skattlagningu söluréttar vegna hlutabréfa í öðrum ríkjum, og hins vegar ljósrit af dönskum leiðbeiningum um skattálagningu („Ligningsvejledningen“) þar sem fjallað er um valrétti o.fl. („Finansielle kontrakter“). Í hinu síðarnefnda bréfi ríkisskattstjóra, dags. 30. maí 2008, eru auk þess gerðar nokkrar athugasemdir vegna umfjöllunar umboðsmanns kæranda í fyrrgreindu minnisblaði, dags. 14. maí 2008.

Með bréfi formanns yfirskattanefndar, dags. 9. febrúar 2009, var hafnað beiðni umboðsmanns kæranda um munnlegan flutning máls þessa fyrir nefndinni, sbr. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd. Þá fylgdi bréfinu ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu sem og fyrrnefndu bréfi embættisins, dags. 30. maí 2008, og var kæranda gefinn kostur kostur á að tjá sig um kröfugerð ríkisskattstjóra og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur.

Með bréfi, dags. 17. mars 2009, hefur umboðsmaður kæranda gert grein fyrir athugasemdum sínum. Bréfinu fylgdi ljósrit af tilkynningu X hf. til kæranda, dags. 10. apríl 2003, um arðgreiðslu og ráðstöfun hennar inn á bankareikning í eigu kæranda, og yfirliti, dags. 18. febrúar 2009, yfir skráð gengi hlutabréfa í X hf. á tímabilinu frá 5. mars 2008 til 12. mars 2009.

V.

Ágreiningur í máli þessu varðar þá ákvörðun ríkisskattstjóra, sbr. úrskurð hans um endurákvörðun, dags. 29. október 2007, að færa kæranda til skattskyldra tekna sem laun í skattframtali hans árið 2005 47.600.000 kr. vegna kaupa kæranda á hlutabréfum í X hf., sbr. ákvæði 1. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. og 9. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt. Umræddar tekjur hafði kærandi talið fram sem hagnað af sölu hlutabréfa í reit 164 í skattframtalinu og í tengslum við framangreinda breytingu felldi ríkisskattstjóri þá tekjufærslu niður. Hækkaði ríkisskattstjóri tekjuskatts- og útsvarsstofn kæranda gjaldárið 2005 um fyrrgreinda fjárhæð að viðbættu 25% álagi samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 og lækkaði stofn til fjármagnstekjuskatts um sömu fjárhæð. Þess er að geta að við útreikning 25% álags á hækkun tekjuskatts- og útsvarsstofns kæranda tók ríkisskattstjóri tillit til „þess fjármagnstekjuskatts sem hafði verið staðið skil á af sama skattstofni“, eins og sagði í úrskurði ríkisskattstjóra, þannig að fjárhæð álags var lækkuð um 10% og varð þannig 10.710.000 kr. í stað 11.900.000 kr., sbr. nánari umfjöllun í úrskurðinum. Af hálfu kæranda er komið fram að hann hafi keypt umrædd hlutabréf í X hf. að nafnverði 14.000.000 kr. hinn 13. mars 2003 á genginu 3,15 eða fyrir 44.100.000 kr., sbr. m.a. bréf kæranda til ríkisskattstjóra, dags. 12. júlí 2006, þar sem kærandi gerði grein fyrir kaupum sínum á hlutabréfum í X hf. á árunum 2003, 2004 og 2005, bæði í eigin nafni og í nafni eigin einkahlutafélags, D ehf. Kom fram í bréfi kæranda að hlutabréfin hefðu verið keypt á grundvelli söluréttarsamninga milli kæranda og X hf., en kærandi var forstjóri félagsins á greindum tíma. Þá kom fram í bréfinu að kærandi hefði ekki nýtt umsaminn sölurétt að hlutabréfunum þar sem honum hefði verið sagt upp störfum hjá X hf. á árinu 2006 og sölurétturinn þá fallið niður. Hefðu hlutabréfin síðan verið seld þriðja aðila hinn 27. júní 2006 á genginu 18,9.

Ríkisskattstjóri byggði hinar kærðu breytingar á skattframtali kæranda á því að kaup kæranda á hlutabréfum í X hf. með sölurétti fælu í sér starfstengd hlunnindi kæranda vegna starfa hans í þágu félagsins sem skattleggja bæri hjá honum á grundvelli 1. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 9. gr. sömu laga. Lagði ríkisskattstjóri í því sambandi áherslu á að í raun væri um að ræða tiltekna útfærslu á kaupum hlutabréfa samkvæmt kauprétti og að enginn grundvallarmunur væri á þeim ráðstöfunum sem um ræðir og hefðbundnum kaupréttarsamningum, enda væri tilgangur ráðstafana í báðum tilvikum sá að gefa starfsmanni kost á því að kaupa hlutabréf í félagi á undirverði. Til stuðnings breytingum sínum vísaði ríkisskattstjóri ennfremur til ákvæðis um óvenjuleg skipti í fjármálum í 1. mgr. 57. gr. laga nr. 90/2003 sem hann taldi eiga við í tilviki kæranda. Kom þannig fram af hálfu ríkisskattstjóra að um væri að ræða viðskipti milli tengdra aðila sem í skattasniðgönguskyni hefðu verið færð í annan búning en raunverulegt efni þeirra segði til um, enda hefði tilhögun viðskiptanna verið með þeim hætti að í raun hefðu engin kaup kæranda á hlutabréfum í X hf. átt sér stað fyrr en áhættan af eignarhaldi hlutabréfanna hefði flust yfir til kæranda, þ.e. við brottfall hins umsamda söluréttar að hlutabréfunum með sérstöku samkomulagi kæranda og X hf. á árinu 2004. Væri í raun um að ræða kaup kæranda á hlutabréfum á undirverði sem færð hefðu verið í annan búning með það fyrir augum að tekjur kæranda af hlutabréfakaupum þessum yrðu skattlagðar sem fjármagnstekjur en ekki sem launatekjur. Tekið skal fram, vegna athugasemda í kæru þess efnis að lagagrundvöllur málsins sé svo óljós og torráðinn af hendi ríkisskattstjóra að spillt hafi málsvörn kæranda þannig að andmælaréttar hafi ekki verið gætt, að ekki verður annað séð en að ríkisskattstjóri hafi tilgreint og skýrt þau lagaákvæði sem hann byggði á með fullnægjandi hætti. Annað mál er hvort kærandi fellst á skilning ríkisskattstjóra. Þykja þessar athugasemdir því ekki eiga við rök að styðjast.

Eins og fyrr greinir er komið fram af hálfu kæranda að hann hafi keypt umrædd hlutabréf í X hf. að nafnverði 14.000.000 kr. fyrir 44.100.000 kr. eða á genginu 3,15 hinn 13. mars 2003. Í bréfi kæranda til ríkisskattstjóra, dags. 12. júlí 2006, var greint frá því að kaup hlutabréfanna hefðu farið fram á grundvelli söluréttarsamnings milli kæranda og X hf., dags. 13. mars 2003, sem fylgdi bréfinu í ljósriti. Kaupsamningur vegna kaupanna liggur ekki fyrir, sbr. bréf umboðsmanns kæranda, dags. 27. maí 2007, en tilvist hans og efni sýnist óumdeilt í málinu. Ákvæði greinds söluréttarsamnings, sem ber yfirskriftina „Samningur um sölurétt á hlutum í X hf.“, eru ítarlega rakin í boðunarbréfi ríkisskattstjóra, dags. 22. júní 2007, sem og í hinum kærða úrskurði embættisins, dags. 29. október 2007. Eins og þar greinir fól samningurinn í sér að X hf. veitti starfsmanni, þ.e. kæranda, einhliða rétt til þess að selja hin keyptu hlutabréf að nafnverði 14.000.000 kr. til X hf. með nánar tilgreindum skilmálum. Kom fram að sölurétturinn tæki til hlutabréfa að nafnverði allt að 14.000.000 kr. og að sölugengi sem starfsmaður ætti rétt á við nýtingu söluréttarins væri 3,15 kr. fyrir hverja krónu nafnverðs. Með samningnum skuldbatt kærandi sig til þess að eiga hlutabréfin í a.m.k. tvö ár eða til 15. mars 2005 hið skemmsta og var tekið fram að kærandi gæti nýtt sölurétt sinn frá og með 15. mars 2005 til 22. sama mánaðar. Þá kom fram í lið 3 í samningnum að hann væri liður í kaupréttaráætlun X hf. og gerður á þeirri forsendu að starfsmaður starfaði hjá X hf. eigi skemur en til 15. mars 2005. Var tekið fram að léti starfsmaður af störfum hjá félaginu fyrir þann tíma hefði X hf. einhliða kauprétt á þeim hlutabréfum sem söluréttarsamningurinn tæki til á sölugengi samkvæmt samningnum.

Í fyrrgreindu bréfi kæranda til ríkisskattstjóra, dags. 12. júlí 2006, kom fram að kaup kæranda á hlutabréfunum í X hf. á árinu 2003 hefðu verið fjármögnuð með láni frá Z-banka hf. Var og tekið fram í söluréttarsamningi kæranda og X hf. að við nýtingu söluréttar samkvæmt samningnum skyldi verð á hlut breytast þannig að sölugengi hækkaði um sem svaraði til fjármagnskostnaðar af skuld samkvæmt lánssamningi sem X hf. hefði útvegað kæranda hjá Z-banka hf. og lækkaði um sem svaraði til útgreidds arðs af hlutabréfunum frá undirritun samningsins. Þá kom fram í samningnum að ef kærandi kysi að nýta sér sölurétt sinn skyldi X hf. ráðstafa söluverði beint til uppgreiðslu skuldar kæranda samkvæmt lánssamningi við Z-banka hf. vegna hlutabréfakaupa sem X hf. hefði haft milligöngu um. Kæmi til gjaldfellingar lánssamnings aðila, sem gerður væri samhliða samningnum, skyldi söluréttur nýttur við uppgjör hans. Með bréfi umboðsmanns kæranda til skattstjóra, dags. 29. maí 2007, fylgdi síðan m.a. ljósrit af lánssamningi milli kæranda og Z-banka hf., dags. 13. mars 2003, vegna kaupa hlutabréfanna. Fól sá samningur í sér lánveitingu til kæranda að fjárhæð 44.100.000 kr. eða sem svaraði til kaupverðs hlutabréfanna og skyldi lánið endurgreiðast með einni greiðslu þann 15. mars 2005. Eru ákvæði lánssamningsins, m.a. varðandi lánskjör, lántökukostnað og möguleg vanefndaúrræði, rækilega tíunduð í hinum kærða úrskurði ríkisskattstjóra. Eru þar einnig rakin ákvæði lánssamningsins um tryggingar, sbr. 5. gr. hans, þar sem fram kom að hin keyptu hlutabréf í X hf. væru sett Z-banka hf. að handveði til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu skuldar samkvæmt lánssamningnum, ásamt áföllnum vöxtum, dráttarvöxtum og öllum kostnaði sem af innheimtuaðgerðum kynni að leiða, sbr. og handveðsyfirlýsingu kæranda, dags. 13. mars 2003, sem sömuleiðis fylgdi bréfinu. Í 5. gr. lánssamningsins kom jafnframt fram að lántaki framseldi Z-banka hf. rétt sinn samkvæmt söluréttarsamningi við X hf. þar sem lántaka væri veittur réttur til að selja hlutabréfin til X hf. á genginu 3,15 að viðbættum fjármagnskostnaði samkvæmt lánssamningnum en að frádregnum útgreiddum arði af hlutabréfunum. Þá kom fram að lánveitandi hefði rétt til að ráðstafa arðgreiðslum til greiðslu vaxta og/eða höfuðstóls.

Í margnefndu bréfi sínu til ríkisskattstjóra, dags. 12. júlí 2006, upplýsti kærandi að ekki hefði komið til þess að hann hefði nýtt sér sölurétt sinn að hlutabréfum í X hf. samkvæmt söluréttarsamningi aðila. Hefði kæranda verið sagt upp störfum hjá X hf. í júní 2006 og í kjölfar þess eða hinn 27. júní 2006 hefði kærandi selt þriðja aðila öll hlutabréf sín í X hf. á genginu 18,9. Þá er komið fram af hálfu kæranda, sbr. m.a. kæru umboðsmanns hans til yfirskattanefndar, að samkomulag hafi orðið með kæranda og X hf. á árinu 2004 um að fallið yrði frá kvöð í söluréttarsamningi aðila frá 13. mars 2003 um tveggja ára eignarhaldstíma hlutabréfa sem söluréttur tók til, sbr. „Samkomulag um niðurfellingu söluréttar og kvaðar um lágmarkseignarhaldstíma“, dags. 18. júní 2004, sem fylgdi bréfi umboðsmanns kæranda til ríkisskattstjóra, dags. 8. mars 2007. Í greindu samkomulagi kemur fram að allar kvaðir samkvæmt söluréttarsamningi aðila um lágmarkseignarhaldstíma hlutabréfa í X hf. skuli falla niður og að kærandi muni selja þau hlutabréf sem söluréttur tók til. Samhliða sölu hlutabréfanna skuli kærandi gera upp lán hjá Z-banka hf. sem tekið hafi verið til að fjármagna kaupin. Í kæru kæranda til yfirskattanefndar er rakið að tilefni þessa samkomulags hafi verið fyrirætlun kæranda um að flytja hlutabréfaeign sína í X hf. yfir í eigið einkahlutafélag til þess að takmarka áhættu af fjárfestingunni og lánveitingum henni tengdri. Kemur fram að í kjölfar samkomulagsins hafi kærandi selt X hf. hlutabréf sín að nafnverði 14.000.000 kr. fyrir 91.700.000 kr. eða á genginu 6,55 og greitt upp lánið frá Z-banka hf., þá að eftirstöðvum 40.710.333 kr., sbr. kvittun frá bankanum, dags. 28. júní 2004, sem fylgdi kærunni í ljósriti.

Í 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 er mælt fyrir um skattskyldu endurgjalds fyrir hvers konar vinnu, starf eða þjónustu, sem innt er af hendi fyrir annan aðila. Eru í ákvæðinu nefnd í dæmaskyni ýmis konar laun svo og „fatnaður, fæði, húsnæði, risnufé, verkfærapeningar, ökutækjastyrkir, flutningspeningar og aðrar hliðstæðar greiðslur, fríðindi og hlunnindi, svo og framlög og gjafir sem sýnilega eru gefnar sem kaupauki“. Tekið er fram að hvorki skipti máli „hver tekur við greiðslu né í hvaða gjaldmiðli goldið er, hvort sem það er í reiðufé, fríðu, hlunnindum eða vinnuskiptum“. Samkvæmt þessu teljast ekki einungis beinar fjárgreiðslur til skattskyldra tekna sem laun fyrir vinnu, heldur einnig hvers konar fríðindi og hlunnindi sem launamenn njóta í starfi.

Í A-lið 13. gr. reglugerðar nr. 245/1963, um tekjuskatt og eignarskatt, er fjallað um það hvað teljist til skattskyldra launa og eru í því sambandi nefnd dæmi um slíkar tekjur. Í 1. mgr. B-lið greinarinnar er tekið fram að ekki skipti máli í hverju laun eða endurgjald fyrir unnið verk er fólgið ef það verður metið til peninga. Til launatekna teljist því hvers konar hlunnindi, veitt í launaskyni, og önnur form fyrir greiðslu, svo sem fæði, húsnæði, ljós og hiti, bifreiðaafnot, einkennisbúningur og annar fatnaður, einnig fatnaðarplögg, þjónusta og önnur aðhlynning vinnufólks í sveitum, skepnufóðrun, engjatak, heimatekjur presta, greiðslur í vörum úr verslunum eða afurðum úr framleiðslufyrirtæki, og greiðsla í sérhverjum öðrum verðmætum eða eignum, t.d. hlutafjáreign í hlutafélagi, innstæða í félagi eða fyrirtæki, hlutdeild í skipi eða húseign o.s.frv. Í 2. mgr. B-liðarins er mælt svo fyrir að laun greidd í hlunnindum skuli talin til tekna eftir gangverði á hverjum stað og tíma.

Með lögum nr. 86/2000, um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, voru tekin upp í hin síðarnefndu lög sérstök ákvæði um skattlagningu vegna kaupa á hlutabréfum samkvæmt svonefndum kauprétti, sbr. 2. og 3. gr. laga nr. 86/2000. Með 2. gr. umræddra laga var bætt við lög nr. 75/1981 tveimur nýjum greinum, sem urðu 8. gr. A og 8. gr. B, sbr. nú 9. og 10. gr. laga nr. 90/2003. Í 8. gr. A kom fram að tekjur skv. 1. tölul. A-liðar 7. gr., vegna kaupa manns á hlutabréfum samkvæmt kauprétti sem hann hefði öðlast vegna starfa fyrir annan aðila, sbr. þó 8. gr. B, skyldu ákveðnar eins og kveðið væri á um í greininni. Til skattskyldra tekna teldist mismunur á kaupverði samkvæmt kaupréttarsamningi og gangverði bréfanna þegar kaupréttur væri nýttur. Með gangverði væri átt við skráð markaðsverð í kauphöll eða á skipulegum tilboðsmarkaði þegar kaupréttur væri nýttur. Ef hlutabréf í félagi væru ekki skráð í kauphöll skyldi miða við gangverð þeirra í viðskiptum, annars bókfært verð eigin fjár samkvæmt síðasta endurskoðaða ársreikningi eða árshlutareikningi viðkomandi félags. Samkvæmt 8. gr. B laga nr. 75/1981 skyldu tekjur skv. 8. gr. A þó skattlagðar sem fjármagnstekjur skv. C-lið 7. gr. laganna að uppfylltum tilgreindum skilyrðum. Kom fram í 2. mgr. 8. gr. B að tekjur samkvæmt þeirri grein kæmu til skattlagningar þegar starfsmaður seldi hlutabréfin og teldust mismunur á upphaflegu kaupverði og söluverði bréfanna. Lög nr. 86/2000 öðluðust þegar gildi og komu til framkvæmda við álagningu á árinu 2001 vegna tekna og eigna á árinu 2000, sbr. 13. gr. laganna, og voru birt í Stjórnartíðindum 2. júní 2000.

Þess skal getið að til þess getur komið og talið heimilt að skattyfirvöld leggi á það sjálfstætt mat, hvort atvik hafi verið með þeim hætti að tiltekin lagaregla taki til þeirra, og eru skattyfirvöld þá ekki bundin við mat skattaðila á sömu atvikum. Við mat þetta þurfa skattyfirvöld í vissum tilvikum að sýna fram á að skattaðili hafi hagað einkaréttarlegum ráðstöfunum sínum þannig að komast mætti hjá lögmæltri skattlagningu, t.d. með málamyndagerningi, sem ekki væri ætlað að hafa gildi samkvæmt efni sínu, eða óvenjulegum samningi við annan skattaðila, gerðum með það fyrir augum að sniðganga tiltekna sköttunarreglu, sbr. 1. mgr. 57. gr. laga nr. 90/2003. Í öðrum tilvikum kann að reyna beint á greiningu á efni tiltekins gernings, þannig að grafist er fyrir um hvert efni hans sé í raun, en heiti það, sem gerningnum er gefið, ræður ekki úrslitum ef það er annað en efnið gefur til kynna.

Af hálfu kæranda hefur verið lögð á það áhersla í málinu að í tilviki hans sé um að ræða kaup á hlutabréfum í X hf. með svonefndum sölurétti, en ekki kauprétt að hlutabréfum í skilningi 9. gr. laga nr. 90/2003. Umrætt ákvæði laga nr. 90/2003 fjallar um kaup á hlutabréfum samkvæmt kauprétti sem maður hefur öðlast vegna starfa fyrir annan aðila og kveður á um að tekjur af slíkum kauprétti skuli ákveðnar til skattlagningar sem mismunur á kaupverði samkvæmt kaupréttarsamningi og gangverði hlutabréfanna þegar kaupréttur er nýttur. Fallast verður því á það með kæranda að ákvæðið taki almennt ekki til starfstengdra hlunninda manns sem fólgin eru í rétti til að selja hlutabréf í félagi á fyrirfram ákveðnu verði á fyrirfram ákveðnum tíma, þ.e. svonefndum sölurétti (e. put-option). Um ákvörðun tekna manns af slíkum sölurétti, sem hann hefur öðlast vegna starfa fyrir annan aðila, fer því eftir almennum reglum laga nr. 90/2003, sbr. 1. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laganna og 2. mgr. B-liðar 13. gr. reglugerðar nr. 245/1963. Rétt er að taka fram að í ákvæði 79. gr. a laga nr. 2/1995, um hlutafélög, sbr. 3. gr. laga nr. 89/2006, um breyting á þeim lögum, þar sem fjallað er um skyldu félagsstjórnar í hlutafélögum til þess að samþykkja starfskjarastefnu varðandi laun og aðrar greiðslur til æðstu stjórnenda og stjórnarmanna félagsins, er söluréttur að hlutabréfum nú talinn með ýmsum starfstengdum greiðslum sem tengdar eru hlutabréfum í félagi eða þróun verðs á hlutabréfum í félagi, sbr. og hliðstætt ákvæði í 54. gr. a laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, sbr. 2. gr. laga nr. 93/2006, um breyting á þeim lögum. Í tilviki kæranda verður hins vegar að leysa úr því, hvort sýnt hafi verið fram á af hálfu ríkisskattstjóra að virða beri hinar umdeildu ráðstafanir kæranda og X hf. sem kaup kæranda á hlutabréfum í félaginu samkvæmt kauprétti, þannig að haga beri skattlagningu umræddra tekna kæranda eftir ákvæðum 1. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 9. gr. sömu laga, ellegar hvort um sé að ræða söluhagnað hlutabréfa samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laganna, sbr. 8. tölul. C-liðar 7. gr. þeirra, sem skattleggja beri sem fjármagnstekjur utan rekstrar samkvæmt 3. mgr. 66. gr. laga nr. 90/2003, svo sem kærandi byggir á. Í málinu verður því ekki leyst úr álitaefnum varðandi skattlagningu starfstengdra hlunninda vegna söluréttar að hlutabréfum umfram það sem hér að framan greinir, enda er margítrekað komið fram af hálfu ríkisskattstjóra að hin kærða skattlagning hafi ekki verið byggð á neinum slíkum grundvelli.

Eins og áður er rakið kemur fram í söluréttarsamningi kæranda og X hf., dags. 13. mars 2003, að samningurinn sé liður í kaupréttaráætlun X hf. Taka verður undir það með ríkisskattstjóra að sú staðhæfing umboðsmanns kæranda í kæru til yfirskattanefndar, að um augljósa prentvillu í samningnum sé að ræða, sem ekki kom fram á fyrri stigum málsins, þykir ósannfærandi, enda er alveg hliðstætt ákvæði að finna í þeim söluréttarsamningum við X hf. sem kærandi gerði fyrir hönd D ehf. á árunum 2004 og 2005, sbr. lið 3 í samningum þessum þar sem tekið er fram að þeir séu liður í kaupréttaráætlun X hf. við forstjóra félagsins, þ.e. kæranda. Eins og fram er komið voru kaup hlutabréfanna í X hf. að öllu leyti fjármögnuð með lánveitingu frá Z-banka hf., en höfuðstóll lánsfjárhæðar nam sömu fjárhæð og kaupverð hlutabréfanna eða 44.100.000 kr. Var um að ræða eingreiðslulán sem endurgreiða skyldi í einu lagi ásamt vöxtum við lok lánstíma hinn 15. mars 2005, þ.e. sama dag og söluréttur kæranda samkvæmt söluréttarsamningi hans við X hf. varð virkur. Til tryggingar endurgreiðslu lánsins voru hin keyptu hlutabréf sett Z-banka hf. að handveði með tilheyrandi réttaráhrifum á lánstímanum, sbr. m.a. ákvæði 22. og 43. gr. laga nr. 75/1997, um samningsveð, en eins og fram er komið var kærandi skuldbundinn samkvæmt söluréttarsamningnum við X hf. til þess að eiga hlutabréfin út lánstímann, þ.e. til 15. mars 2005 hið skemmsta. Þá blasir við að framsal kæranda á hinum umsamda sölurétti að hlutabréfunum til lánveitanda, þ.e. Z-banka hf., til tryggingar endurgreiðslu lánsins, auk alls fjármagnskostnaðar af því, fól í raun í sér óskoraða ábyrgð vinnuveitanda kæranda, X hf., á endurgreiðslu lánsins, svo sem bent var á í bréfi Z-banka hf. til ríkisskattstjóra, dags. 10. janúar 2007. Í bréfi þessu kom m.a. fram að 100% lánshlutfall í lánsviðskiptunum hafi ekki brotið í bága við reglur bankans um útlán til ótengdra aðila þar sem traustar tryggingar hafi legið að baki láninu, þ.e. ábyrgð leyfisskylds fjármálafyrirtækis. Eins og kærandi hefur sjálfur lagt áherslu á verður að telja að sú staðreynd skýri að öllu verulegu leyti lánskjör í viðskiptum þessum. Kærandi hefur lagt áherslu á að vegna kaupa hlutabréfanna hafi hann farið með öll venjuleg eignarráð yfir hlut sínum í X hf. og þannig m.a. notið atkvæðisréttar og fengið arðgreiðslur frá félaginu sem hann hafi talið fram til skatts í skattframtölum sínum árin 2004 og 2005. Að því er arðgreiðslur snertir er hins vegar til þess að líta að samkvæmt lánssamningi kæranda og Z-banka hf. hafði lánveitandi rétt til þess að ráðstafa arðgreiðslum til greiðslu vaxta og/eða höfuðstóls af láninu og fyrir liggur að arðgreiðslum á árunum 2003 og 2004 var ráðstafað með þeim hætti, sbr. bréf umboðsmanns kæranda til ríkisskattstjóra frá 8. ágúst 2007 og gögn sem því fylgdu, þ.e. yfirlit Z-banka hf. yfir greiðslur af láninu á tímabilinu 13. mars 2003 til 22. júní 2004 og kvittun fyrir uppgreiðslu lánsins, dags. 28. júní 2004. Runnu arðgreiðslur af hlutabréfunum því í reynd ekki til kæranda, heldur til greiðslu afborgana og vaxta af láni Z-banka hf. sem X hf. bar í raun ábyrgð á vegna þess söluréttar sem félagið veitti kæranda og framseldur var Z-banka hf. í tengslum við fjármögnun viðskiptanna. Að endingu er ljóst að sölurétturinn fól í sér að áhætta af lækkun hlutabréfaverðs í X hf. í viðskiptum þessum hvíldi alfarið á félaginu sjálfu.

Með vísan til framangreinds verður að fallast á það með ríkisskattstjóra að þrátt fyrir að kærandi hafi að nafninu til verið kaupandi umræddra hlutabréfa í X hf. á árinu 2003 og skuldari láns frá Z-banka hf. sem tekið var í tengslum við þau hafi fjárhagsleg ábyrgð og áhætta kæranda af viðskiptum þessum í raun verið hverfandi. Verður ekki talið að atburðir í íslensku efnahagslífi haustið 2008 og afleiðingar þeirra fyrir X hf., sem nú liggja fyrir, geti breytt neinu í þessu sambandi, enda verður að leggja mat á greindar ráðstafanir miðað við þær aðstæður sem uppi voru á þeim tíma þegar í þær var ráðist, þ.e. á árinu 2003.

Eins og fram er komið varð að samkomulagi með kæranda og X hf. hinn 18. júní 2004 að falla frá söluréttarsamningi aðila, dags. 13. mars 2003, þannig að kæranda væri heimilt að selja hlutabréf sín í félaginu og greiða upp lánið frá Z-banka hf. Þegar litið er til þess sem hér að framan er rakið og umræddar ráðstafanir eru virtar í heild sinni verður að taka undir með ríkisskattstjóra að líta verður svo á að greint samkomulag hafi í skattalegu tilliti falið í sér nýtingu kæranda á kauprétti að umræddum hlutabréfum í X hf. sem kærandi öðlaðist í raun á árinu 2003 á tilgreindu gengi vegna starfa í þágu félagsins, sem útfærð var með þeim hætti sem í málinu greinir, sbr. 1. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. og 9. gr. laga nr. 90/2003. Verður því að telja að kæranda hafi borið að telja fram til skattskyldra launatekna í skattframtali sínu árið 2005 mismun á því kaupverði hlutabréfanna 44.100.000 kr., sem lagt var til grundvallar ákvörðun söluverðs í söluréttarsamningi aðila frá 13. mars 2003, og gangverði bréfanna þegar kaupréttur var nýttur hinn 18. júní 2004. Upplýsingar um skráð gangverð hlutabréfa í X hf. þann dag liggja ekki fyrir í málinu, en eins og áður greinir lagði ríkisskattstjóri til grundvallar í þessu sambandi skráð gengi hlutabréfanna við sölu þeirra hinn 27. júní 2004 eða gengið 6,55 og söluverð 91.700.000 kr. Af hálfu kæranda hafa engar athugasemdir verið gerðar í því sambandi og þykir því mega byggja á umræddu gangverði. Með vísan til þess verður að hafna aðalkröfu kæranda í máli þessu.

Varakrafa kæranda lýtur að því að skattlagning arðgreiðslna frá X hf. að fjárhæð 2.240.000 kr. í skattframtali kæranda árið 2004 og að fjárhæð 4.900.000 kr. í skattframtali árið 2005 verði felld niður og fjármagnstekjuskattsstofn kæranda gjaldárin 2004 og 2005 lækkaður til samræmis. Ekki liggur fyrir neinn kæranlegur úrskurður vegna gjaldársins 2004, sbr. 3. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, og er kröfu kæranda að því er snertir það gjaldár því vísað frá yfirskattanefnd. Hins vegar þykir með vísan til framangreindrar niðurstöðu varðandi aðalkröfu kæranda mega fallast á kröfu kæranda um niðurfellingu tilfærðs arðs 4.900.000 kr. í skattframtali árið 2005.

Ríkisskattstjóri bætti álagi við þá hækkun tekjuskatts- og útsvarsstofns kæranda gjaldárið 2005 sem leiddi af hinni kærðu breytingu hans, sbr. heimildarákvæði 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Samkvæmt því ákvæði má skattstjóri bæta 25% álagi við áætlaða eða vantalda skattstofna séu annmarkar á framtali, sbr. 96. gr., eða einstakir liðir ranglega fram taldir. Bæti skattaðili úr annmörkum eða leiðrétti einstaka liði á framtali áður en álagning fer fram, má skattstjóri þó eigi beita hærri álagi en 15%. Samkvæmt 3. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 skal fella niður álag samkvæmt lagagrein þessari ef skattaðili færir rök að því að honum verði ekki kennt um annmarka á framtali eða vanskil þess, að óviðráðanleg atvik hafi hamlað því að hann skilaði framtali á réttum tíma, bætti úr annmörkum á framtali eða leiðrétti einstaka liði þess.

Samkvæmt framansögðu er niðurstaðan í máli þessu sú að kæranda hafi borið að færa sér til tekna umrædda fjárhæð 47.600.000 kr. sem launatekjur í skattframtali sínu árið 2005. Á hitt ber að líta að kærandi hafði tilfært sömu fjárhæð sem söluhagnað af sölu hlutabréfanna og fært í stofni til fjármagnstekjuskatts. Samhliða tekjufærslu á umræddri fjárhæð 47.600.000 kr. sem launatekjum lækkaði ríkisskattstjóri söluhagnaðinn um sömu fjárhæð og stofn kæranda til fjármagnstekjuskatts. Ljóst er að ríkisskattstjóra hefur þótt vera tilefni til þess að taka tillit til þessara aðstæðna við álagsbeitingu, enda dró hann álagðan fjármagnstekjuskatt á greinda fjárhæð 47.600.000 kr. eða 4.760.000 kr. frá fyrrnefndu fjárhæðinni við ákvörðun álagsfjárhæðar er var ákveðin 10.710.000 kr. Að þessu virtu og málsatvikum að öðru leyti þykir rétt að fallast á kröfu kæranda um niðurfellingu álags.

Umboðsmaður kæranda hefur gert kröfu um að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum. Samkvæmt úrslitum málsins, sem í öllum meginatriðum hafa gengið gegn kröfum kæranda, eru ekki til staðar lagaskilyrði til að ákvarða kæranda málskostnað á grundvelli framangreinds lagaákvæðis. Kröfu þess efnis er því hafnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Fallist er á kröfu kæranda um niðurfellingu tilfærðs arðs að fjárhæð 4.900.000 kr. í skattframtali árið 2005. Hliðstæðri kröfu um niðurfellingu arðs í skattframtali árið 2004 er vísað frá yfirskattanefnd. Álag fellur niður. Að öðru leyti er kröfum kæranda hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja