Úrskurður yfirskattanefndar

  • Tekjuuppgjör rekstrar
  • Virðisaukaskattur
  • Útistandandi viðskiptaskuldir

Úrskurður nr. 136/1997

Gjaldár 1995

Lög nr. 75/1981, 61. gr.  

Kærandi nýtti sér heimild til að miða tekjuuppgjör rekstrar við innborganir vegna seldrar þjónustu í stað þess að miða við unna og bókfærða þjónustu. Hluti fjárhæðar útistandandi viðskiptakrafna í árslok, sem kærandi miðaði frestun tekjufærslu við, var virðisaukaskattur af sölu. Í úrskurði yfirskattanefndar var vísað til þess að innheimtur virðisaukaskattur teldist ekki til tekna. Við ákvörðun fjárhæðar frestaðrar tekjufærslu yrði því að draga virðisaukaskatt frá fjárhæð útistandandi viðskiptakrafna.

I.

Málavextir eru þeir að á skattframtali kæranda 1995 var færður frádráttarliðurinn „niðurskr. viðsk.kr." 827.026 kr. Með bréfi, dags. 25. júlí 1995, tilkynnti skattstjóri kæranda með vísan til 1. mgr. 95. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, m.a. að nefnd fjárhæð, sem hefði verið færð til frádráttar tekjum ársins skv. 61. gr. laga nr. 75/1981, hefði verið lækkuð í 664.267 kr., þ.e. 80,32% af viðskiptakröfunum skv. 13. gr. laga nr. 50/1988. Við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1995 voru gjöld kæranda ákvörðuð að teknu tilliti til breytinga skattstjóra.

Kærandi mótmælti gerðum breytingum með kæru til skattstjóra, dags. 28. júlí 1995. Niðurskrift viðskiptakrafna hefði verið gerð samkvæmt heimild í 61. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, en skv. 1. málsl. þeirrar greinar væri heimilt að miða tekjuuppgjör rekstrarins við innborganir vegna seldrar þjónustu í stað þess að miða við unna og bókfærða þjónustu. Skattstjóri virtist ekki vefengja að útistandandi viðskiptakröfur hefðu numið 827.026 kr. og væru til komnar vegna útseldrar þjónustu. Fékk kærandi ekki séð að tilvísun í 13. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, breytti neinu þar um.

Skattstjóri staðfesti ákvörðun sína með kæruúrskurði, dags. 31. október 1995. Voru forsendur hans þær að útistandandi viðskiptakröfur væru samsettar annars vegar af seldri þjónustu en hins vegar af virðisaukaskatti sem skyldi innheimta skv. ákvæðum laga nr. 50/1988. Ákvæði 61. gr. laga nr. 75/1981 yrðu ekki skilin svo að heimilt væri að fresta tekjufærslu á móti óinnheimtum virðisaukaskatti. Virðisaukaskattur félli ekki undir tekjur í bókhaldi kæranda. Frestun tekjufærslu væri því takmörkuð við 80,32% af fjárhæð útistandandi viðskiptakrafna.

Með kæru, dags. 7. nóvember 1995, hefur kærandi skotið kæruúrskurði skattstjóra til yfirskattanefndar. Kveðst hann við gerð skattframtals hafa miðað tekjuuppgjör við útselda vinnu og þjónustu að frádregnum viðskiptakröfum. Ekki hefði verið tekið tillit til að viðskiptakröfurnar fælu í sér virðisaukaskatt, enda yrði ekki séð að greind lagagrein gerði ráð fyrir að svo væri gert. Ljóst væri af orðalagi ákvæðisins að tilgangur þess væri að auðvelda þeim sem ákvæðið tæki til að fjármagna rekstur sinn með því að heimila þeim að miða skattgreiðslur sínar við innborgaðar tekjur. Þyrftu þeir þannig ekki að greiða skatta af óinnheimtum tekjum. Útistandandi kröfur festu tekjur greindra gjaldenda jafnt hvort sem þær hefðu að geyma virðisaukaskatt eður ei. Hafnaði kærandi að nokkru skipti hvort útistandandi kröfur hefðu að geyma virðisaukaskatt og krafðist að framtal sitt yrði fært til fyrri vegar.

Með bréfi dags. 1. desember 1995, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda krafist staðfestingar á úrskurði skattstjóra með vísan til forsendna hans.

II.

Meginregla laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, um tímaviðmiðun fyrir tekjufærslum, kemur fram í 2. mgr. 60. gr. laganna, en þar segir að tekjur skuli að jafnaði telja til tekna á því ári sem þær verða til, þ.e. þegar myndast hefur krafa þeirra vegna á hendur einhverjum, nema um óvissar tekjur sé að ræða. Frá þessu má víkja samkvæmt sérstakri heimild í 1. málsl. 61. gr. laganna, en þar segir: „Skattstjóri getur heimilað þeim sem atvinnurekstur stunda eða sjálfstæða starfsemi og selja þjónustu að miða tekjuuppgjör rekstrarins við innborganir vegna seldrar þjónustu, í stað þess að miða við unna og bókfærða þjónustu, í þeim tilvikum sem vinnuþáttur hinnar seldu þjónustu er almennt yfir 70%." Síðarnefnt ákvæði þykir bera að skilja svo að þegar þargreindar forsendur eru fyrir hendi sé heimilt að færa til tekna einungis þann hluta seldrar þjónustu sem framteljandi hefur fengið greiddan hverju sinni. Samkvæmt ársreikningi og samanburðarskýrslu virðisaukaskatts hefur kærandi á árinu 1994 selt þjónustu fyrir 4.525.323 kr. án virðisaukaskatts, en að fjárhæð 5.634.035 kr. að meðtöldum virðisaukaskatti. Útistandandi viðskiptakröfur í árslok námu 827.026 kr. og þykir verða að byggja á því að sú fjárhæð sé að hluta vegna virðisaukaskatts. Á árinu 1994 hefur kærandi samkvæmt því innheimt 4.807.009 kr. af tekjum ársins og virðisaukaskatti. Virðisaukaskattur telst ekki til tekna kæranda, sbr. grunnreglur laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Við ákvörðun fjárhæðar frestaðrar tekjufærslu samkvæmt þeirri tekjuuppgjörsaðferð sem greinir í 1. málsl. 61. gr. laga nr. 75/1981 þykir því bera að lækka framangreinda fjárhæð 827.026 kr. um hlutfall virðisaukaskatts. Að teknu tilliti til jöfnunar vegna fjölda aukastafa er það sú fjárhæð sem skattstjóri hefur miðað við í málinu. Að þessu virtu er úrskurður skattstjóra staðfestur.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja