Úrskurður yfirskattanefndar

  • Málsmeðferð áfátt
  • Rannsóknarregla
  • Álag

Úrskurður nr. 209/1997

Gjaldár 1995

Lög nr. 75/1981, 31. gr. 1. tölul., 99. gr. 1. mgr., 106. gr. 1. mgr. (brl. nr. 36/1991, 6. gr.)   Lög nr. 30/1992, 12. gr.   Lög nr. 37/1993, 10. gr.  

Kærendur sættu áætlun gjaldstofna við álagningu. Í kærumeðferð féllst skattstjóri á að leggja skattframtalið til grundvallar álagningu, en lækkaði gjaldfærðan bifreiðakostnað um áætlaða fjárhæð og beitti álagsheimild vegna síðbúinna framtalsskila. Yfirskattanefnd tók fram að eins og málið bar að hefði skattstjóri ekki verið bundinn af fyrirspurnar- og tilkynningarákvæðum 96. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, hygðist hann gera breytingar á skattframtalinu eða vefengja það í heild sinni eða hluta. Honum hefði hins vegar borið að rökstyðja kæruúrskurð sinn og sjá til þess samkvæmt almennri rannsóknarskyldu sinni að málið væri nægjanlega upplýst, væru ákvarðanir teknar sem gerðu það nauðsynlegt. Þar sem skattstjóri hefði lagt til grundvallar að kæranda bæri bifreiðakostnaður til frádráttar rekstrartekjum, yrði að telja að gjaldaliðurinn hefði í raun verið alveg óupplýstur fyrir skattstjóra. Yrði því ekki séð að unnt hefði verið að taka afstöðu til hans án þess að sjá til þess fyrst að hann væri nægjanlega upplýstur. Hefði skattstjóri ekki sinnt lögmæltri rannsóknarskyldu sinni að þessu leyti. Ómerkti yfirskattanefnd þessa breytingu skattstjóra, en benti jafnframt á að tilefni væri fyrir skattstjóra að athuga gjaldaliðinn nánar. Yfirskattanefnd staðfesti álagsbeitingu skattstjóra, enda þættu framkomnar skýringar á síðbúnum framtalsskilum ekki gefa tilefni til annars.

I.

Málavextir eru þeir að kærendur töldu ekki fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests gjaldárið 1995 og sættu því áætlun skattstjóra á skattstofnum við álagningu opinberra gjalda það ár. Skattframtal kærenda barst yfirskattanefnd með bréfi, dags. 13. desember 1995, í framhaldi af kæru til nefndarinnar vegna álagðra gjalda á kærendur gjaldárið 1995. Með vísan til 1. mgr. 12. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, vísaði nefndin kærunni til skattstjóra til uppkvaðningar nýs kæruúrskurðar. Með kæruúrskurði, dags. 21. febrúar 1996, féllst skattstjóri á að leggja innsent skattframtal til grundvallar álagningu að gerðri þeirri breytingu að hann lækkaði gjaldfærðan bifreiðakostnað um 350.000 kr. Til stuðnings þeirri ákvörðun tók skattstjóri fram að gjaldfærðar hefðu verið samtals 838.512 kr. vegna fólks- og sendibifreiða. Engin bifreið væri í eigu kærenda, hvorki fólksbifreið né sendibifreið. Kærendur hlytu því að hafa greitt rekstrarkostnað bifreiða starfsmanna auk annars aðkeypts aksturs en engir akstursstyrkir hefðu verið greiddir. Með tilliti til umfangs og eðlis rekstrar þætti aksturskostnaður með ólíkindum hár og virtist kostnaður vegna einkaaksturs hafa verið gjaldfærður, en slíkur akstur teldist ekki frádráttarbær rekstrarkostnaður samkvæmt 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Þá neytti skattstjóri heimildar sinnar samkvæmt 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981 til að leggja álag á gjaldstofna vegna síðbúinna framtalsskila.

Með kæru, dags. 20. mars 1996, skaut umboðsmaður kærenda úrskurði skattstjóra til yfirskattanefndar og upplýsti að hann hygðist kæra afgreiðslu skattstjóra til fjármálaráðherra vegna brota á andmælarétti skv. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í framhaldi af áskorun yfirskattanefndar í bréfi, dags. 14. maí 1996, hefur umboðsmaður kærenda með bréfi, dags. 17. júní 1996, lagt fram kröfur og rökstuðning í málinu. Í bréfinu er upplýst að í liðnum vörum og tækjum á efnahagsreikningi kærenda hafi verið fólgnar tvær bifreiðar keyptar af þrotabúi X hf., sendibifreið og fólksbifreið. Sendibifreiðin hafi verið við aldur og viðhaldsfrek. Sendibílakostnaður með virðisaukaskatti, 285.234 kr., sé einkum vegna þeirrar bifreiðar auk aðkeypts aksturs sendibifreiða. Sendibílakostnaður án virðisaukaskatts sé vátryggingar, bifreiðagjöld o.fl. vegna sendibifreiðarinnar. Kostnað vegna fólksbifreiða telur umboðsmaðurinn ekki háan, 456.816 kr. Miðað við 32,97 kr. kostnað á ekinn kílómetra svari það til 13.855 km ársaksturs. Þá telur umboðsmaðurinn að ekki eigi að beita álagi vegna síðbúinna skila framtals. Fjöldi enda hafi verið laus m.a. vegna gjaldþrots X hf., nauðungarsölu C-götu í Reykjavík o.fl. Þá sé umboðsmaðurinn þriðji aðili sem aðstoði kærendur við bókhald og framtöl á nokkrum árum. Kröfur fyrri aðstoðarmanna um þóknun hafi verið í innheimtu hjá lögmönnum. Telur umboðsmaðurinn skattstjóra ekki hafa rannsakað mál kærenda til fulls í samræmi við stjórnsýslulög áður en hann kvað upp kæruúrskurð sinn.

Með bréfi, dags. 17. janúar 1997, hefur ríkisskattstjóri gert svofellda kröfu f.h. gjaldkrefjenda:

„Að mati ríkisskattstjóra hefur umboðsmaður kæranda ekki gert þá grein fyrir umþrættum bifreiðakostnaði að mati skattstjóra á hinum frádráttarbæra bifreiðakostnaði hafi verið hnekkt."

II.

Skattframtal kærenda árið 1995 barst yfirskattanefnd í framhaldi af kæru til nefndarinnar vegna álagningar opinberra gjalda það gjaldár. Með því að atvik voru með þeim hætti sem greinir í 1. mgr. 12. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, vísaði nefndin kærunni ásamt skattframtalinu til skattstjóra til uppkvaðningar kæruúrskurðar að nýju, sbr. úrskurð yfirskattanefndar nr. 1071/1995. Samkvæmt 2. mgr. 12. gr. laga nr. 30/1992 bar skattstjóra að kveða upp kæruúrskurð að nýju innan tveggja mánaða eftir ákvæðum 99. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Skattstjóri fór með skattframtalið eftir fyrrgreindum lagafyrirmælum og kvað upp kæruúrskurð hinn 21. febrúar 1996 þar sem hann féllst á að leggja innsent skattframtal kærenda árið 1995 til grundvallar álagningu opinberra gjalda það ár í stað áætlunar, en með þeirri breytingu m.a. að hann lækkaði gjaldfærðan bifreiðakostnað í rekstrarreikningi kæranda A um áætlaða fjárhæð. Eins og málið bar að var skattstjóri ekki bundinn af fyrirspurnar- og tilkynningarákvæðum 96. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, hygðist hann gera breytingar á skattframtalinu eða vefengja það í heild sinni eða hluta. Honum bar hins vegar að rökstyðja kæruúrskurð sinn, sbr. 4. málsl. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og sjá til þess samkvæmt almennri rannsóknarskyldu sinni að málið væri nægjanlega upplýst, væru ákvarðanir teknar sem gerðu það nauðsynlegt.

Skattstjóri byggði hina kærðu lækkun á gjaldfærðum bifreiðakostnaði á því að hann taldi gjaldalið þennan vera með ólíkindum háan miðað við umfang og eðli rekstrar kæranda. Virtist skattstjóra „ljóst að í gjaldfærslunni fælust veruleg einkanot …" Jafnframt skírskotaði skattstjóri til þess að kærandi ætti ekki bifreiðir samkvæmt fyrirliggjandi gögnum. Úr því skattstjóri leit svo á þrátt fyrir ályktun sína um bifreiðaeign kæranda að honum bæri frádráttur vegna notkunar bifreiða í þágu rekstrarins verður að telja að gjaldaliður þessi hafi í raun legið alveg óupplýstur fyrir skattstjóra. Verður því ekki séð að skattstjóri hafi getað tekið afstöðu til hans án þess að sjá til þess fyrst að hann væri nægjanlega upplýstur til að svo mætti verða. Verður því að telja að skattstjóri hafi ekki sinnt lögmæltri rannsóknarskyldu sinni að því er snertir þennan gjaldalið áður en hann tók afstöðu til hans. Eins og málmeðferð skattstjóra var háttað og svo sem málið liggur fyrir yfirskattanefnd þykir verða að byggja á þessum gjaldalið óbreyttum, enda þótt skýringar kæranda gefi tilefni til nánari athugunar á gjaldaliðnum. Er skattstjóra bent á tilefni til slíkrar athugunar.

Framkomnar skýringar á síðbúnum framtalsskilum gjaldárið 1995 þykja ekki gefa tilefni til að falla frá beitingu heimildarákvæða 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Þeirri kröfu kærenda er því hafnað. Í ljós kemur að álag hefur verið ofreiknað í eignarskattsstofni kærenda m.t.t. hlutabréfaeignar og í tekjuskattsstofni kæranda, A, miðað við staðgreiðsluskil hans á árinu 1994. Þykir bera að leiðrétta þetta með úrskurði þessum.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja