Úrskurður yfirskattanefndar

  • Skattsekt
  • Skattrannsókn

Úrskurður nr. 148/2013

Lög nr. 90/2003, 109. gr. 1. mgr.   Lög nr. 4/1995, 22. gr. 2. mgr.   Lög nr. 50/1988, 40. gr. 1. og 3. mgr. (brl. nr. 42/1995, 3. gr.)  

Skattrannsóknarstjóri ríkisins krafðist þess að A yrði gerð sekt fyrir að hafa staðið skil á röngum skattframtölum með því að vantelja launatekjur sínar, tekjur af atvinnurekstri og leigutekjur af fasteign erlendis og fyrir að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum og virðisaukaskatti vegna sama tímabils. Þar sem upplýst var í málinu og viðurkennt af hálfu A að hann hefði starfað sjálfstætt við húsamálun án þess að sinna tekjuskráningu og færslu bókhalds vegna starfseminnar þótti bera undir A að leiða líkur að því að tilgreindar innborganir á bankareikning hans hefðu ekki verið vegna seldrar þjónustu, en A hélt því fram að um tekjur af pókerspili væri að ræða að hluta. Var A gerð sekt.

I.

Með bréfi, dags. 6. desember 2012, hefur skattrannsóknarstjóri ríkisins krafist þess að yfirskattanefnd taki til sektarmeðferðar mál A fyrir brot á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, lögum nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, og lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, allra með áorðnum breytingum, framin vegna rekstraráranna 2007 til og með 2010.

Í bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins segir:

„A er gefið að sök eftirfarandi:

1. Skil á efnislega röngum skattframtölum. Vanframtaldar rekstrartekjur, launatekjur og leigutekjur. Mögulegur rekstrarkostnaður.

A er gefið að sök að hafa, að því er best verður séð af ásetningi, en í það minnsta af stórkostlegu hirðuleysi, staðið skattstjóranum í ... skil á efnislega röngum skattframtölum fyrir gjaldárin 2008 til og með 2011 vegna rekstraráranna 2007 til og með 2010 með því að vanframtelja rekstrartekjur sínar af verktöku um kr. 797.008 rekstrarárið 2007, um kr. 7.096.819 rekstrarárið 2008, um kr. 1.799.197 rekstrarárið 2009 og um kr. 1.799.197 rekstrarárið 2010. Ennfremur er A gefið að sök að hafa vantalið launatekjur sínar tekjuárið 2007 um kr. 992.304 og að hafa vantalið tekjur sínar af leigu húsnæðis um kr. 700.000 hvert og eitt rekstraráranna 2008, 2009 og 2010.

Leiddi háttsemi A til ákvörðunar lægri tekjuskatts- og útsvarsstofna hans en vera bar vegna framangreindra tekjuára og þar með ákvörðunar lægri tekjuskatts og útsvars svo sem hér greinir, að teknu tilliti til persónuafsláttar:

Rekstrarár Vanframtalinn tekjuskatts- og útsvarsstofn, kr. Hækkun tekjuskatts, kr. Hækkun útsvars, kr.

2007 1.789.312 407.068 52.329

2008 7.096.819 1.206.117 924.716

2009 1.799.197 0 821.775

2010 1.799.197 398.063 461.904

Samtals kr. 2.061.617 1.492.996

Umrædd háttsemi leiddi jafnframt til lægri stofns A til fjármangstekjuskatts svo sem sýnt er í eftirfarandi töflu [...]:

Rekstrarár Vanframtalinn stofn til fjármagnstekjuskatts, kr. Hækkun fjármagnstekjuskatts, kr.

2008 700.000 70.000

2009 700.000 70.000

2010 700.000 88.200

2010 5.967

Samtals kr. 234.167

Sú háttsemi A sem lýst hefur verið hér að framan brýtur í bága við ákvæði 90. gr., sbr. A-, B-, og C- liði 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. 22. og 19. gr. og 1. mgr. 21. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, beggja með áorðnum breytingum.

Við skýrslutöku skattrannsóknarstjóra ríkisins var A spurður um hvort hann ætlaði að afhenda kostnaðargögn vegna efniskaupa sinna til verka sem hann hefði unnið. Því svaraði A neitandi og hefur hann ekki látið í té nein gögn af því tagi. Liggur því ekkert fyrir um að um slíkan kostnað hafi verið að ræða.

Við væntanlega endurákvörðun skattstofna vegna gjaldáranna 2008 til og með 2011 mun A að líkum verða gert að sæta álagningu tekjuskatts og útsvars á álag á vanframtalda skattstofna samkvæmt 108. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, með áorðnum breytingum, er komi til frádráttar við ákvörðun sektarfjárhæðar. Samkvæmt þeim forsendum sem á er byggt við útreikninga hér að framan á hækkun tekjuskatt, útsvars og fjármagnstekjuskatts telur skattrannsóknarstjóri að hækkun tekjuskatts og úrsvars vegna álags á vantalinn tekjuskatts- og útsvarsstofn nemi samtals kr. 1.128.885 og að hækkun fjármagnstekjuskatts vegna álags á vantalinn fjármagnstekjuskattsstofn nemi samtals kr. 57.050.

Varðar framanrakin háttsemi A sekt samkvæmt ákvæðum 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. og 2. mgr. 22. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, með áorðnum breytingum.

2. Vanframtalin virðisaukaskattsskyld velta og vangoldinn innheimtur útskattur. Vanskil virðisaukaskattsskýrslna. Mögulegur innskattur.

A er gefið að sök að hafa alfarið vanrækt að gera innheimtumanni ríkissjóðs grein fyrir virðisaukaskattsskyldri veltu í sjálfstæðri starfsemi sinni við verktöku við málningarvinnu á rekstrarárunum 2007 til og með 2010. Þá er A gefið að sök að hafa vanrækt að standa innheimtumanni ríkissjóðs skil á virðisaukaskatti sem hann innheimti í umræddri starfsemi. Ennfremur er A gefið að sök að hafa vanrækt að skrá sig á virðisaukaskattsskrá, enda þótt hann hefði virðisaukaskattsskylda starfsemi með höndum, og að hafa alfarið vanrækt að standa innheimtumanni ríkissjóðs skil á virðisaukaskattsskýrslum uppgjörstímabilið nóvember – desember rekstrarárið 2007 og fyrir öll uppgjörstímabil rekstraráranna 2008, 2009 og 2010. Vanframtalinn virðisaukaskattur til innheimtumanns ríkissjóðs vegna greindrar verktöku A á rekstrarárunum 2007 til og með 2010 nemur samtals kr. 2.818.594. Sem fyrr segir svaraði A neitandi þegar hann við skýrslutöku skattrannsóknarstjóra ríkisins var spurður um hvort hann ætlaði að afhenda kostnaðargögn og hefur hann ekki afhent nein slík gögn. Liggur því ekkert fyrir um mögulegan innskatt. Samkvæmt niðurstöðum skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins sundurliðast vantalinn útskattur á einstök uppgjörstímabil sem hér greinir:

Rekstrarár Uppgjörstímabil Vanframtalinn útskattur kr.

2007 nóvember - desember 195.267

Samtals kr. 195.267

2008 janúar – febrúar 61.970

2008 mars – apríl 42.290

2008 maí - júní 114.727

2008 júlí - ágúst 103.313

2008 september -október 917.028

2008 nóvember - desember 499.393

Samtals kr. 1.738.721

2009 janúar – febrúar 55.100

2009 mars – apríl 0

2009 maí - júní 110.201

2009 júlí - ágúst 110.201

2009 september - október 110.201

2009 nóvember - desember 55.100

Samtals kr. 440.803

2010 janúar - febrúar 0

2010 mars – apríl 55.100

2010 maí - júní 110.201

2010 júlí - ágúst 110.201

2010 september - október 110.201

2010 nóvember - desember 55.100

Samtals kr. 440.803

Samtals öll árin kr. 2.815.594

Það er mat skattrannsóknarstjóra ríkisins, byggt á gögnum málsins, að ofangreindu hafi A komið til leiðar með saknæmum hætti, að því er frekast verður séð af ásetningi eða í það minnsta af stórkostlegu hirðuleysi.

Telst þessi háttsemi A brjóta í bága við ákvæði 1. mgr. 15. gr. og 1. og 2. mgr. 24. gr., sbr. aðalreglur 1. gr., 2. gr. 1. tl. 1. mgr. 3. gr., 1. mgr. 11. gr., 1. og 2. mgr. 13. gr., 1. mgr. 14. gr. og 19. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum.

Framangreind háttsemi varðar A sekt samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum.

Þess er krafist að A verði með úrskurði yfirskattanefndar gert að sæta sekt í samræmi við framangreint.“

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins er málavöxtum lýst í greinargerð, dags. 6. desember 2012, sem fylgdi kröfugerðinni.

II.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 16. janúar 2013, var gjaldanda veitt færi á að skila vörn í tilefni af framangreindri kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins eða tilkynna sérstaklega ef hann vildi ekki hlíta því að yfirskattanefnd afgreiddi mál hans og yrði málið þá endursent skattrannsóknarstjóra ríkisins sem tæki ákvörðun um hvort því yrði vísað til opinberrar rannsóknar, sbr. 4. mgr. 110. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og 4. mgr. 41. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Var bréf þetta birt gjaldanda eftir ákvæðum b-liðar 1. mgr. 83. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, í framhaldi af því að hann vitjaði ekki ábyrgðarbréfs nefndarinnar, dags. 7. desember 2012, um sama efni. Engar athugasemdir hafa borist frá gjaldanda.

III.

1. Með bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 6. desember 2012, er þess krafist að gjaldanda, A, verði gerð sekt samkvæmt þargreindum ákvæðum 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, þar sem hann hafi staðið skil á röngum skattframtölum árin 2008, 2009, 2010 og 2011 með því að vantelja launatekjur sínar og tekjur af atvinnurekstri sínum rekstrarárin 2007, 2008, 2009 og 2010. Þá er gerð krafa um ákvörðun sektar samkvæmt ákvæðum 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sem byggir á því að gjaldandi hafi vanrækt að standa skil á virðisaukaskattsskýrslum og virðisaukaskatti tilgreind uppgjörstímabil á árunum 2007, 2008, 2009 og 2010 svo sem nánar er rakið í kröfubréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins. Gjaldandi hefur átt þess kost að koma að vörnum fyrir yfirskattanefnd í tilefni af sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins, en engar athugasemdir hafa borist. Þar sem gjaldandi hefur ekki gert athugasemdir við meðferð máls þessa fyrir yfirskattanefnd verður að líta svo á að hann mæli því ekki í gegn að það sæti sektarmeðferð fyrir nefndinni.

2. Sektarkrafa skattrannsóknarstjóra ríkisins í máli þessu er byggð á niðurstöðum rannsóknar embættisins á bókhaldi og skattskilum gjaldanda vegna rekstraráranna 2007 til og með 2010, sbr. skýrslu um rannsóknina, dags. 4. maí 2012. Rannsókn þessi hófst formlega 7. apríl 2011 og tók til tekna og gjalda gjaldanda vegna sjálfstæðrar starfsemi hans við húsamálun umrædd ár. Vegna rannsóknarinnar kom gjaldandi til skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins dagana 12. apríl 2011 og 21. mars 2012. Þá voru teknar skýrslur af B, C, D og E. Var rannsókn í máli gjaldanda byggð á upplýsingum sem fram komu við skýrslutökur þessar en einnig var byggt á innsendum skattframtölum gjaldanda árin 2008, 2009, 2010 og 2011, bankareikningum gjaldanda, upplýsingum úr upplýsingakerfum skattyfirvalda og gögnum frá gjaldanda, þar á meðal tölvupóstum og tilboðum. Með bréfi, dags. 16. apríl 2012, sendi skattrannsóknarstjóri gjaldanda skýrslu um rannsóknina, dags. 11. apríl 2012, og gaf honum kost á að tjá sig um efni hennar áður en ákvörðun yrði tekin um framhald málsins. Af hálfu gjaldanda voru engar athugasemdir gerðar og var lokaskýrsla skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 4. maí 2012, efnislega samhljóða hinni fyrri að viðbættum kafla um lok rannsóknarinnar.

Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 4. maí 2012, voru helstu niðurstöður rannsóknarinnar teknar saman með svofelldum hætti:

„Niðurstöður rannsóknar á bókhaldi og skattsskilum skattaðila vegna rekstraráranna 2007 til og með 2010 eru:

• Staðin hafa verið skil á skattframtölum.

• Skattframtali vegna rekstrarársins 2010 var ekki skilað á lögmæltum tíma.

• Skattaðili var ekki skráður á virðisaukaskattsskrá.

• Skattaðili stóð ekki skil á virðisaukaskattsskýrslum.

• Engin bókhaldsgögn hafa verið afhent.

• Skattaðili gaf ekki út sölureikninga vegna vinnu sem hann innti af hendi.

• Skattaðila bar að skrá sig af virðisaukaskattsskrá.

• Skattskyld velta, útskattur og rekstrartekjur eru vantalin.

• Skattaðili hefur ekki afhent nein gögn um rekstrargjöld eða innskatt.

• Launatekjur skattaðila eru vantaldar.

• Eignir skattaðila eru vantaldar.

• Leigutekjur skattaðila eru vantaldar.“

Þá gerði skattrannsóknarstjóri ríkisins tölulega grein fyrir niðurstöðum rannsóknarinnar í töflu í niðurlagi skýrslu sinnar. Þar kom fram að rekstrartekjur og skattskyld velta gjaldanda væri vantalin um 797.008 kr. rekstrarárið 2007, 7.096.819 kr. rekstrarárið 2008, 1.799.197 kr. rekstrarárið 2009 og 1.799.197 kr. rekstrarárið 2010 (rétt fjárhæð er 1.784.861 kr. miðað við forsendur í skýrslunni). Vangreiddur útskattur næmi 195.267 kr. fyrsta árið, 1.738.721 kr. annað árið, 440.803 kr. þriðja árið og 440.803 kr. fjórða árið (rétt fjárhæð er 455.139 kr.). Þá hefði gjaldandi vantalið launatekjur sínar um 992.304 kr. tekjuárið 2007, svo og vantalið leigutekjur um 700.000 kr. tekjuárið 2008, 700.000 kr. tekjuárið 2009 og 700.000 kr. tekjuárið 2010. Þá kom fram að gjaldandi hefði vanrækt að gera grein fyrir eignum að fjárhæð 4.180.560 kr. í skattframtali árið 2009, 4.500.720 kr. í skattframtali árið 2010 og 4.594.440 kr. í skattframtali árið 2011.

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins var mál gjaldanda sent ríkisskattstjóra til meðferðar með vísan til 6. mgr. 103. gr., sbr. 3. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og 5. mgr. 39. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. bréf skattrannsóknarstjóra, dags. 14. maí 2012. Í greinargerð skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 6. desember 2012, kemur fram að ríkisskattstjóri hafi ekki kveðið upp úrskurð í máli gjaldanda og sé endurákvörðunarþætti málsins því ekki lokið.

3. Fram kemur í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 4. maí 2012, að gjaldandi hafi staðið skil á skattframtölum árin 2007, 2008, 2009 og 2010. Við skýrslutöku 12. apríl 2011 hafi gjaldandi sagt að tilgreindur sérkunnáttumaður hefði annast gerð skattframtals gjaldanda árið 2008 og hefði gjaldandi samþykkt framtalið sem byggt væri á launaseðlum. Kvaðst gjaldandi hafa skilað framtölum árin 2009 og 2010 sjálfur. Þá sagði gjaldandi við skýrslutöku hinn 21. mars 2012 að annar tilgreindur sérkunnáttumaður hefði gert skattframtal gjaldanda árið 2011 og byggt það á gögnum sem gjaldandi hefði látið honum í té. Í skattframtali árið 2008 (tekjuárið 2007) hefði gjaldandi gert grein fyrir launatekjum að fjárhæð 1.225.000 kr. frá X ehf. og 1.306.800 kr. frá Y ehf., eða samtals 2.531.800 kr., en engar launatekjur hefðu verið taldar fram í skattframtölum árin 2009, 2010 og 2011 (tekjuárin 2008, 2009 og 2010). Þá hafi gjaldandi ekki gert grein fyrir eignum í skattframtali árið 2008 en gjaldandi hafi gert grein fyrir peningalegum eignum að fjárhæð 3.308.756 kr. í skattframtali árið 2009, 2.314.568 kr. í skattframtali árið 2010 og 1.394.951 kr. í skattframtali árið 2011. Í skýrslunni er tekið fram að gjaldandi hafi ekki verið með opið virðisaukaskattsnúmer á rannsóknartímabilinu og hafi hann því ekki skilað inn virðisaukaskattsskýrslum vegna uppgjörstímabila rekstraráranna 2007 til og með 2010. Er í þessu sambandi rakinn sá framburður gjaldanda við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra 12. apríl 2011 að gjaldandi hafi lokað virðisaukaskattsnúmeri sínu þegar hann hefði ákveðið að hætta öllu svindli og rugli. Hann hefði sjálfur kosið að vera launamaður en kerfið hefði ekki gert sér það kleift. Kvaðst gjaldandi ekki líta á sig sem verktaka því hann hefði ekki gefið út reikninga. Sagði gjaldandi að ekkert nákvæmt bókhald hefði verið skráð vegna tekna hans.

Í kafla um rannsókn á rekstrartekjum er í fyrsta lagi fjallað um rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins á störfum gjaldanda fyrir Y ehf. á árunum 2008, 2009 og 2010. Er í því sambandi greint frá framburði gjaldanda við skýrslutöku 12. apríl 2011 varðandi störf hans hjá umræddu einkahlutafélagi og rakinn framburður B, fyrirsvarmanns Y ehf., við skýrslutöku 23. ágúst 2011. Þá er gerð grein fyrir tölvupóstsamskiptum og öðrum gögnum sem bendi til þess að gjaldandi hafi unnið fyrir Y ehf. á umræddum árum. Byggir skattrannsóknarstjóri ríkisins á því að gjaldandi hafi á þessum árum starfað sem sjálfstæður verktaki og er gerð grein fyrir því mati skattrannsóknarstjóra að vantalin skattskyld velta gjaldanda vegna starfa hans hjá Y ehf. hafi numið 2.698.795 kr. rekstrarárið 2008, 1.799.197 kr. rekstrarárið 2009 og 1.784.861 kr. rekstrarárið 2010.

Í öðru lagi er fjallað um rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins á innborgunum inn á bankareikning gjaldanda. Kemur fram að gjaldandi hafi lagt inn á bankareikning sinn nr. ... í reiðufé 355.900 kr. árið 2007, 8.535.540 kr. árið 2008, 1.001.935 kr. árið 2009 og 1.484.900 kr. árið 2010, eða samtals 11.378.275 kr. Í skýrslunni eru raktar þær skýringar gjaldanda, sem komu fram við skýrslutökur, að innborganir þessar stafi af málningarvinnu og tekjum af pókerspili. Þá er fjallað um innborgun að fjárhæð 232.468 kr. inn á bankareikning gjaldanda frá C 3. júlí 2007, innborgun að fjárhæð 300.000 kr. frá F 13. júní 2008, innborgun að fjárhæð samtals 403.907 kr. frá G 19. júní 2007 og innborgun að fjárhæð 100.000 kr. frá D 10. október 2010. Er í þessu sambandi m.a. rakinn sá framburður C við skýrslutöku hinn 7. nóvember 2011 að gjaldandi hafi málað ... fyrir sig og meðeiganda sinn, G. Þá kemur fram að F hafi greint frá því í símtali við rannsóknarmann að hann teldi greiðslu frá sér vera vegna málunar á húsi hans að ... . Þá er rakið að D hafi við skýrslutöku hinn 10. október 2010 sagt að greiðslan væri vegna útlagðs kostnaðar gjaldanda fyrir vinnu við tilboðsgerð. Við skýrslutöku staðfesti gjaldandi að greiðslur frá F, G og D væru vegna vinnu sinnar en gjaldandi kvaðst ekki muna hver C væri. Staðfesti gjaldandi þó að hafa málað ... þegar hann var spurður um greiðslu frá G. Í skýrslu sinni vefengir skattrannsóknarstjóri ríkisins skýringar gjaldanda þess efnis að hluti innborgana séu vegna pókers. Kemur fram að skattrannsóknarstjóri líti svo á að innborganir, sem gjaldandi hafi skýrt sem greiðslur vegna pókers, séu skattskyld velta sem gjaldandi hefði átt að gera grein fyrir á skýrslum til skattyfirvalda, sem og aðrar greiðslur sem gjaldandi hafi játað að væru vegna málningarvinnu. Samkvæmt því er það niðurstaða skattrannsóknarstjóra ríkisins að vantalin skattskyld velta gjaldanda vegna innborgana á bankareikninga hafi numið 797.008 kr. rekstrarárið 2007, 7.096.819 kr. rekstrarárið 2008, 804.767 kr. rekstrarárið 2009 og 1.262.869 kr. rekstrarárið 2010.

Í niðurlagi umfjöllunar skattrannsóknarstjóra ríkisins um rekstrartekjur og skattskylda veltu gjaldanda kemur fram það mat embættisins að hluti af greiðslum inn á bankareikning gjaldanda frá einstaklingum séu vegna vinnu hans fyrir Y ehf. Í ljósi þess að innborganir á bankareikning gjaldanda séu lægri en andvirði vinnu fyrir Y ehf. rekstrarárin 2009 og 2010 samkvæmt mati skattrannsóknarstjóra ríkisins sé matið látið standa vegna þeirra ára. Samandregið eru niðurstöður um þennan þátt því þær að rekstrartekjur og skattskyld velta hafi verið vantalin um 797.008 kr. (útskattur 195.267 kr.) rekstrarárið 2007, 7.096.819 kr. (útskattur 1.738.721 kr.) rekstrarárið 2008, 1.799.197 kr. (útskattur 440.803 kr.) rekstrarárið 2009 og 1.799.197 kr. (útskattur 440.803 kr.) rekstrarárið 2010. Miðað við forsendur skattrannsóknarstjóra ríkisins hafa fjárhæðir síðasta árið misritast, svo sem fram er komið.

Í kafla um rannsókn á launatekjum gjaldanda kemur fram að gjaldandi hafi staðfest við skýrslutöku 12. apríl 2011 að hann hafi verið á launaskrá hjá X ehf. áður en hann hafi farið að vinna fyrir Y ehf. Kvaðst gjaldandi hafa rekið það fyrirtæki með öðrum en hann hefði hætt að vinna fyrir félagið þegar það var lagt niður. Við skýrslutökuna skýrði gjaldandi greiðslur frá X ehf. sem launagreiðslur. Samkvæmt launamiða námu launagreiðslur frá X ehf. árið 2007 samtals 1.225.000 kr. en þar af var staðgreiðsla 195.015 kr. og afdregið iðgjald í lífeyrissjóð 49.000 kr. Að teknu tilliti til endurgreiðslna á árinu 2008 námu greiðslur til gjaldanda frá X ehf. á árinu 2007 samtals 1.973.289 kr. Í skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins 21. mars 2012 var gjaldandi beðinn að skýra þennan mismun og sagði gjaldandi að greiðslurnar hlytu allar að vera launagreiðslur. Sagði gjaldandi alltaf hafa fengið launaseðla og fengið greitt samkvæmt þeim. Hefði hann sjálfur séð um að greiða launin ásamt félaga sínum. Var gjaldanda gefinn frestur til 28. mars 2012 til að afhenda launaseðla frá X ehf. en engin gögn bárust. Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins er tilgreind sú niðurstaða að gjaldandi hafi vantalið launatekjur sínar um 992.304 kr. tekjuárið 2007.

Í kafla um rannsókn á rekstrargjöldum og innskatti kemur fram að við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins hafi gjaldandi aðspurður sagst stundum hafa lagt til efni sem hann hefði þá staðgreitt. Kvaðst gjaldandi aðspurður ekki ætla að afhenda kostnaðargögn.

Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins er sérstakur kafli um íbúðareign gjaldanda í Tælandi og tekjur gjaldanda af útleigu þeirrar eignar. Í skýrslunni er þess getið að við skoðun á bankareikningi gjaldanda nr. ... hafi komið í ljós kaup gjaldanda á erlendum gjaldeyri að fjárhæð samtals 5.608.800 kr. á árunum 2008 til og með 2010, en samkvæmt gögnum frá Z-banka hf. hafi gjaldeyriskaupin verið vegna kaupa gjaldanda á fasteign í Tælandi. Við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins staðfesti gjaldandi að gjaldeyriskaupin hefðu verið vegna kaupa hans á fasteign í Tælandi. Kvaðst gjaldandi ekki geta afhent pappíra um fasteignakaupin. Hann hefði ekki gert grein fyrir eigninni í skattframtölum sínum þar sem hann hefði ekki haft hugmynd um að hann ætti að gera það. Sagðist gjaldandi dvelja í íbúðinni í þrjá til fimm mánuði á ári en þess á milli reyndi hann að leigja íbúðina út fyrir 100.000 kr. á mánuði. Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins kemur fram sú niðurstaða að gjaldandi hafi átt umrædda fasteign að minnsta kosti frá árinu 2008. Hafi gjaldandi því vantalið eignir sínar um 4.180.560 kr. í skattframtali árið 2009, um 4.500.720 kr. í skattframtali árið 2010 og um 4.594.440 kr. í skattframtali árið 2011. Þá hafi leigutekjur gjaldanda verið vantaldar um 700.000 kr. hvert tekjuáranna 2008, 2009 og 2010.

4. Gjaldandi hefur sem fyrr segir ekki gert athugasemdir í tilefni af sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins og við skýrslutökur, sem fram fóru hjá skattrannsóknarstjóra vegna rannsóknar málins, kom fram viðurkenning hans á því að hann hefði ekki gert grein fyrir öllum tekjum sínum á árunum 2007, 2008, 2009 og 2010 í skattframtölum árin 2008, 2009, 2010 og 2011, svo og að hann hefði ekki staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum og innheimtum virðisaukaskatti vegna seldrar þjónustu á árunum 2007, 2008, 2009 og 2010. Í máli því, sem hér er til meðferðar, er um að tefla kröfugerð um ákvörðun sektar á hendur gjaldanda samkvæmt þar tilgreindum ákvæðum 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sem gera ráð fyrir því að sektarákvörðun sé bundin þeirri skattfjárhæð sem undan var dregin. Verður því að taka afstöðu til þess hvort skattrannsóknarstjóri ríkisins hafi með skattrannsókn sinni sýnt fram á hverju skattfjárhæð, sem undan var dregin, hafi að minnsta kosti numið. Allan vafa í því sambandi verður að meta gjaldanda í hag, sbr. grundvallarreglu 108. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála.

Eins og fram er komið byggja tölulegar niðurstöður skattrannsóknarstjóra ríkisins á rekstrartekjum og skattskyldri veltu gjaldanda rekstrarárin 2007, 2008, 2009 og 2010 á upplýsingum um innborganir inn á bankareikning gjaldanda, svo og á upplýsingum sem fram komu við skýrslutökur af gjaldanda hjá skattrannsóknarstjóra 12. apríl 2011 og 21. mars 2012. Við skýrslutöku 12. apríl 2011 kom fram af hálfu gjaldanda að hann hefði verið á launaskrá hjá Y ehf. árið 2007 en hætt því eftir að hafa fengið bréf um að það ætti að hirða 80% af launum hans vegna „gamalla synda“. Kvaðst gjaldandi ekki hafa unnið fyrir Y ehf. eftir að hafa verið tekinn af launaskrá en hann hefði verið þeim innan handa vegna vinskapar. Fyrir vinargreiða hafi gjaldandi haft prókúru á bankareikning Y ehf. þar sem hann hafi ekki mátt vera með kort sjálfur á tímabili. Kvaðst gjaldandi hafa verið hálfgerður verkstjóri hjá Y ehf. og unnið eða aðstoðað þá öðru hvoru, eða um 20-30 tíma í mánuði. Fram kom að gjaldandi hefði lokið samningi sem málari en hann hefði ekki tekið sveinspróf. Þá hefði hann 12 ára reynslu sem málari. Við skýrslutöku af B, fyrirsvarmanni Y ehf., hinn 23. ágúst 2011 sagði B að gjaldandi hefði hjálpað við rekstur Y ehf. Hefðu þeir gert upp sín á milli með því að hjálpa hvor öðrum með vinnuskiptum og að ef til vill mætti meta vinnu gjaldanda sem hálfa vinnu á árunum 2007 til og með 2010. Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins er gerð grein fyrir tölvupóstsamskiptum milli gjaldanda og formanns Húsfélagsins ... frá árinu 2010 og reikningi úr bókhaldi Y ehf. vegna ... . Við skýrslutöku af B kom fram að hann hefði beðið gjaldanda um að stjórna verkinu fyrir sig. Þá eru í skýrslunni tilgreind tilboðsgögn vegna útboða í málningarvinnu fyrir R árið 2008 sem gjaldandi undirritar fyrir hönd Y ehf. Að virtum þessum gögnum og framburði gjaldanda og B þykir hafið yfir allan vafa að gjaldandi hafi unnið fyrir Y ehf. á árunum 2008, 2009 og 2010. Þá kom fram af hálfu gjaldanda við skýrslutökur af honum að hann hefði tekið að sér verkefni fyrir aðra aðila. Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins er byggt á því að um sjálfstæða starfsemi gjaldanda hafi verið að ræða, bæði í störfum fyrir Y ehf. og aðra aðila. Er vísað til þess að gjaldandi hafi ekki talið sig hafa verið launamann hjá Y ehf. eftir að hann hætti hjá félaginu í árslok 2007. Eins og atvikum er hér háttað og með sérstöku tilliti til þess að gjaldandi hefur samkvæmt gögnum málsins tekið að sér málningarvinnu fyrir ýmsa aðra aðila en Y ehf. á þeim árum sem um ræðir þykir ekki varhugavert að leggja til grundvallar í málinu að tekjur gjaldanda af þessum störfum hafi verið rekstrartekjur hans. Við mat sitt á fjárhæð tekna gjaldanda frá Y ehf. byggði skattrannsóknarstjóri ríkisins á framburði B um að gjaldandi hefði verið í hálfu starfi, þ.e. unnið 80 tíma í mánuði, alla mánuði ársins 2008 og átta mánuði hvort áranna 2009 og 2010. Um tímakaup horfði skattrannsóknarstjóri ríkisins til þess framburðar gjaldanda að fagmenntaður málari væri með um 4.500 kr. á tímann með virðisaukaskatti. Reiknaði skattrannsóknarstjóri ríkisins með 3.500 kr. á tímann án vsk. Ekkert þykir komið fram sem hnekkir þessum þáttum í mati skattrannsóknarstjóra ríkisins á tekjum gjaldanda frá Y ehf. Verður því byggt á niðurstöðum skattrannsóknarstjóra ríkisins að þessu leyti.

Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins kemur fram að gjaldandi hafi lagt inn á bankareikning sinn nr. ... í reiðufé 355.900 kr. árið 2007, 8.535.540 kr. árið 2008, 1.001.935 kr. árið 2009 og 1.484.900 kr. árið 2010. Skattrannsóknarstjóri ríkisins leit svo á að innborganir á árinu 2008 væru að hluta vegna tekna frá Y ehf. og að hið sama gilti um allar innborganir á árunum 2009 og 2010. Við skýrslutöku 12. apríl 2011 kom fram viðurkenning gjaldanda á því að innborganir frá G og C á árinu 2007 og frá F á árinu 2008 væru vegna málningarvinnu sem hann hefði tekið að sér fyrir þessa aðila. Að öðru leyti skýrði gjaldandi innborganir, sem hér um ræðir, þannig að þær væru tekjur hans af málningarvinnu og vinningum í pókerspili. Með því að upplýst er og viðurkennt af hálfu gjaldanda að hann hafi starfað sjálfstætt við húsamálun á greindum árum án þess að sinna tekjuskráningu og færslu bókhalds vegna starfsemi sinnar þykir bera undir gjaldanda að leiða líkur að því að umræddar fjárhæðir, sem hann lagði inn á bankareikning sinn, hafi ekki verið vegna seldrar þjónustu að öllu leyti, en í skýringum gjaldanda felst viðurkenning á því að svo hafi verið að hluta. Þykir ekkert komið fram af hálfu gjaldanda sem gefur tilefni til annars en að taka undir þá ályktun skattrannsóknarstjóra ríkisins að umræddar innborganir beri að öllu leyti með sér rekstrartekjur gjaldanda.

Samkvæmt framansögðu verður byggt á því að rekstrartekjur og skattskyld velta hafi numið 797.008 kr. rekstrarárið 2007, 7.096.819 kr. rekstrarárið 2008, 1.799.197 kr. rekstrarárið 2009 og 1.784.861 kr. rekstrarárið 2010. Þrátt fyrir tilefni hefur gjaldandi enga grein gert fyrir rekstrarkostnaði vegna starfsemi sinnar.

Niðurstöður skattrannsóknarstjóra ríkisins um vantaldar launatekjur gjaldanda frá X ehf. að fjárhæð 992.304 kr. á árinu 2007 byggja á mismun greiðslna frá fyrirtækinu til gjaldanda og launafjárhæðar samkvæmt launamiða, að teknu tilliti til afdreginnar staðgreiðslu og greiðslu í lífeyrissjóð. Við skýrslutökur greindi gjaldandi frá því að allar greiðslur frá X ehf. væru launagreiðslur. Eins og rakið hefur verið var því beint til gjaldanda við skýrslutöku 21. mars 2012 að skýra umræddan mismun og var gjaldanda gefinn frestur til 28. mars 2012 til að afhenda launaseðla frá X ehf. Fram kemur að engin gögn hafi borist skattrannsóknarstjóra ríkisins um þetta atriði. Að svo vöxnu þykir bera að byggja á niðurstöðum í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins um vantaldar launatekjur gjaldanda tekjuárið 2007.

Fram kom við rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins að gjaldandi hefði á árinu 2008 eða fyrr keypt íbúðarhúsnæði í Tælandi. Við skýrslutöku kom fram af hálfu gjaldanda að hann dveldi í íbúðinni í þrjá til fimm mánuði á ári en þess á milli reyndi hann að leigja íbúðina út fyrir 100.000 kr. á mánuði. Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins er byggt á þessum upplýsingum gjaldanda, svo langt sem þær ná, og talið að leigutekjur gjaldanda hefðu numið 700.000 kr. hvert tekjuáranna 2008, 2009 og 2010. Verður ekki annað séð en að byggja megi á þessu í málinu.

Samkvæmt framansögðu verður byggt á því að rekstrartekjur og skattskyld velta gjaldanda hafi numið 797.008 kr. rekstrarárið 2007, 7.096.819 kr. rekstrarárið 2008, 1.799.197 kr. rekstrarárið 2009 og 1.784.861 kr. rekstrarárið 2010. Gjaldandi gerði enga grein fyrir þessum tekjum í skattframtölum sínum árin 2008, 2009, 2010 og 2011. Þá telst gjaldandi hafa vanrækt að gera grein fyrir launatekjum frá X ehf. að fjárhæð 992.304 kr. í skattframtali árið 2008 og vanrækt framtal leigutekna af fasteign í Tælandi að fjárhæð 700.000 kr. í skattframtali árið 2009, 700.000 kr. í skattframtali árið 2010 og 700.000 kr. í skattframtali árið 2011. Ekkert hefur komið fram í málinu sem gefur tilefni til þess að tekið verði tillit til rekstrarkostnaðar og innskatts.

Fullsannað þykir samkvæmt því sem að framan er rakið og að öðru leyti með stoð í gögnum málsins að gjaldandi, A, hafi á saknæman hátt vanrækt að telja fram í skattframtölum sínum árin 2008, 2009, 2010 og 2011 launatekjur og tekjur af atvinnurekstri sínum eða sjálfstæðri starfsemi með fyrrgreindum fjárhæðum sem skattskyldar voru samkvæmt 1. tölul. A-liðar 7. gr. og B-lið 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. og 19. gr. og 21. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga. Telst vanálagður tekjuskattur nema 407.068 kr. gjaldárið 2008, 1.206.117 kr. gjaldárið 2009 og 398.063 kr. gjaldárið 2011, en að teknu tilliti til persónuafsláttar reiknast ekki tekjuskattur gjaldárið 2010 þrátt fyrir vantaldar tekjur. Vanálagt útsvar nam 52.329 kr. fyrsta árið, 924.716 kr. annað árið, 821.775 kr. þriðja árið og 461.904 kr. fjórða árið. Jafnframt telst sannað að gjaldandi hafi á saknæman hátt vanrækt að telja fram í skattframtölum sínum árin 2009, 2010 og 2011 leigutekjur með fyrrgreindum fjárhæðum þannig að fjármagnstekjuskattur hafi verið vanálagður um 70.000 kr. gjaldárið 2009, 70.000 kr. gjaldárið 2010 og 88.200 kr. gjaldárið 2011 auk þess sem fjármagnstekjuskattur hækkar síðasta árið vegna breytingar á ráðstöfun persónuafsláttar 5.967 kr. Hinar röngu upplýsingar í skattframtölum gjaldanda leiddu samkvæmt framansögðu til lægri álagningar opinberra gjalda hans en vera bar gjaldárin 2008, 2009, 2010 og 2011, þannig að brot gjaldanda varða við 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. og 2. mgr. 22. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga.

Þá þykir fullsannað að gjaldandi, sem skyldur var til þess að standa skil á virðisaukaskatti, sbr. 1. mgr. 15. gr. og 1. og 2. mgr. 24. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, hafi vanrækt að standa skil á virðisaukaskatti og virðisaukaskattsskýrslum fyrir uppgjörstímabilið nóvember-desember 2007 og öll uppgjörstímabil virðisaukaskatts árin 2008, 2009 og 2010. Telst gjaldandi hafa vanrækt að gera grein fyrir skattskyldri veltu að fjárhæð 11.492.221 kr. umrædd uppgjörstímabil og virðisaukaskatti til greiðslu að fjárhæð 2.815.594 kr., sbr. sundurliðun í kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins. Þá var leitt í ljós með rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins að gjaldandi vanrækti að tilkynna skattyfirvöldum um virðisaukaskattsskylda starfsemi sína á umræddum árum, þrátt fyrir lagaskyldu samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 50/1988. Framangreind háttsemi varðar gjaldanda sekt samkvæmt 1. og 3. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995, enda verður að telja að huglægum refsiskilyrðum samkvæmt þessum lagaákvæðum sé fullnægt.

Ákvarða ber gjaldanda, A, sekt samkvæmt framangreindum ákvæðum 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003 og 1. og 3. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995. Samkvæmt breytingum á refsiákvæðum skattalaga, sem gerðar voru með lögum nr. 42/1995 og tóku gildi 9. mars 1995, skal sekt aldrei vera lægri en sem nemur tvöfaldri þeirri skattfjárhæð sem undan var dregin, þó að teknu tilliti til álags. Að þessu virtu og málsatvikum að öðru leyti þykir sekt gjaldanda hæfilega ákveðin 10.500.000 kr. til ríkissjóðs og 3.000.000 kr. til borgarsjóðs Reykjavíkur.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Gjaldandi, A, greiði sekt að fjárhæð 10.500.000 kr. til ríkissjóðs og 3.000.000 kr. til borgarsjóðs Reykjavíkur.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja