Úrskurður yfirskattanefndar

  • Álag vegna staðgreiðsluskila

Úrskurður nr. 67/2014

Staðgreiðsla 2013

Lög nr. 45/1987, 28. gr. 6. mgr.  

Kröfu kæranda um niðurfellingu álags vegna síðbúinna skila á staðgreiðslu var hafnað, en hin síðbúnu skil áttu rót sína að rekja til mistaka starfsmanna kæranda.

I.

Málavextir eru þeir að af hálfu kæranda var staðgreiðsla opinberra gjalda fyrir greiðslutímabilið maí 2013 að fjárhæð 47.255.324 kr. ekki innt af hendi á eindaga hinn 18. júní 2013. Samkvæmt gögnum málsins voru staðin skil á staðgreiðslunni þann 24. júní 2013. Ríkisskattstjóri ákvarðaði álag samkvæmt 1. og 2. mgr. 28. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, vegna þessara vanskila.

Með bréfi til ríkisskattstjóra, dags. 24. júní 2013, óskaði kærandi eftir því að álag 2.544.255 kr. vegna vangreiddrar staðgreiðslu greiðslutímabilið maí 2013 yrði fellt niður. Í erindinu kom fram að kærandi hefði ávallt greitt staðgreiðslu og tryggingagjald á réttum tíma, en um mistök hefði verið að ræða umrætt greiðslutímabil sem rekja mætti til sumarleyfa starfsmanna og mannabreytinga á skrifstofu kæranda.

Ríkisskattstjóri felldi úrskurð, dags. 2. júlí 2013, um ofangreinda beiðni kæranda og hafnaði henni. Vísaði ríkisskattstjóri til ákvæða 6. mgr. 28. gr. laga nr. 45/1987 og tók fram að samkvæmt greindri málsgrein mætti fella niður álag ef launagreiðandi færði gildar ástæður sér til afsökunar að mati ríkisskattstjóra. Kvaðst ríkisskattstjóri ekki fallast á að atvik í tilviki kæranda hefðu verið með þeim hætti að ómögulegt eða illgerlegt hefði verið að sjá svo um að tilskilin greiðsla hefði verið innt af hendi innan settra tímamarka. Benti ríkisskattstjóri á að eftir eindaga hvers greiðslutímabils birtist krafa í heimabanka með álögðum kostnaði.

II.

Með kæru, dags. 13. september 2013, hefur umboðsmaður kæranda skotið úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 2. júlí 2013, til yfirskattanefndar. Af hálfu kæranda er þess krafist að úrskurðurinn verði felldur úr gildi og að álag á skilaskylda staðgreiðslu verði fellt niður á grundvelli 6. mgr. 28. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda. Til vara er þess krafist að álagið verði lækkað.

Í kærunni er rakið að mistök hafi verið gerð við staðgreiðsluskil fyrir greiðslutímabilið maí 2013, en sumarfrí starfsmanna innan fjármáladeildar kæranda hafi orðið þess valdandi að greiðsla hafi borist of seint, eða þann 24. júní 2013. Í kærunni kemur fram að Y ehf. hafi annast launavinnslu fyrir kæranda og séð um að senda skilagreinar vegna launatengdra gjalda til hlutaðeigandi aðila. Y ehf. hafi sent launafulltrúa á skrifstofu kæranda skjal sem hafi átt að færa í bókhaldskerfið. Við bókun þessa skjals myndist færsla á greiðsluskrá gjaldkera sem birtist í greiðslukerfi hans. Gjaldkeri kæranda notist við greiðslukerfi í bókhaldskerfi, sem hann nýtir til að senda greiðslur á greiðsluskrá, rafrænt á bankareikninga. Gjaldkeri kæranda hafi því ekki getað séð staðgreiðsluskilakröfuna í netbanka. Launafulltrúi, sem venjulega annaðist færslu í bókhaldskerfið, hafi verið í sumarfrí. Samstarfsmaður hans hafi sent skjalið frá Y ehf. áfram á fulltrúa í bókhaldsdeild sem hafi átt að skrá það í bókhaldskerfið. Sá sem tók við skjalinu hafi verið nýráðinn starfsmaður í þjálfun. Hvorki sá sem tók við skjalinu né bókhaldsfulltrúinn hafi gert sér grein fyrir því að bókun skjalsins væri skilyrði þess að greiðslufyrirmæli mynduðust hjá gjaldkera.

Umboðsmaður kæranda telur að staðreyndir málsins lýsi sér í röð óhappatilvika sem leitt hafi til þess að umrædd krafa hafi ekki verið greidd á eindaga. Þessi tilvik hafi varðað samspil utanaðkeyptrar þjónustu við nýráðinn starfsmann og fjarvistir vegna orlofstöku. Að mati umboðsmanns kæranda standi því rök til þess að heimild 6. mgr. 28. gr. laga nr. 45/1987 verði nýtt, enda hafi einarður vilji verið til staðar, af hálfu fyrirsvarsmanna kæranda, að standa skil á réttum degi sem endranær. Vísað er til úrskurðar yfirskattanefndar nr. 392/2003 sem fordæmis.

Varakrafan er studd með þeim rökum að þar sem kærandi hafi átti kröfu á hendur ríkissjóði að fjárhæð 23.269.887 kr. á eindaga staðgreiðsluskila, sé rétt að hún komi til frádráttar þegar vanskil séu reiknuð. Samkvæmt því teljist vanskilafjárhæð 23.985.437 kr. Yfirskattanefnd voru send viðbótargögn þann 24. september 2013 sem vörðuðu greiðslu umræddrar kröfu og forsendur kröfu á hendur ríkissjóði vegna leiðréttinga á virðisaukaskatti.

III.

Með bréfi, dags. 7. október 2013, hefur ríkisskattstjóri gert þá kröfu fyrir hönd gjaldkrefjenda að úrskurður ríkisskattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 9. október 2013, var kæranda sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og honum gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

IV.

Í 3. mgr. 20. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, er mælt svo fyrir að gjalddagi greiðslu samkvæmt 1. mgr. greinarinnar sé 1. hvers mánaðar og eindagi 14 dögum síðar. Þá er boðið að launagreiðandi skuli sæta álagi samkvæmt 28. gr. laganna hafi hann eigi greitt á eindaga. Í 28. gr. laga nr. 45/1987 er síðan fjallað um álag á vanskilafé í staðgreiðslu og beitingu þess. Í 1. mgr. greinarinnar er tekið fram að séu greiðslur launagreiðanda samkvæmt 20. gr. ekki inntar af hendi á tilskildum tíma skuli hann sæta álagi til viðbótar upphæð skilafjárins, eða til viðbótar því skilafé sem honum bar að standa skil á. Sama gildi ef skilagrein hefur ekki verið skilað eða henni verið ábótavant og greiðsluskyld fjárhæð því verið áætluð, sbr. 21. gr., nema launagreiðandi hafi greitt fyrir eindaga upphæð er svarar til áætlunar. Í 2. mgr. 28. gr. eru síðan ákvæði um álag á vanskilafé. Samkvæmt 6. mgr. greinarinnar má fella niður álag samkvæmt 2. mgr. ef launagreiðandi færir gildar ástæður sér til afsökunar og metur ríkisskattstjóri það í hverju einstöku tilviki hvað telja skuli gildar ástæður í þessu sambandi. Samkvæmt 1. gr. og C-lið 2. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 1. og 2. gr. laga nr. 111/1990, um breyting á þeim lögum, tekur staðgreiðsla opinberra gjalda samkvæmt lögunum til tryggingagjalds nema annað sé tekið fram. Samkvæmt þessu og eins og háttað er tengslum laga þessara og laga nr. 113/1990, um tryggingagjald, verður að telja að ákvæði 28. gr. laga nr. 45/1987 gildi um tryggingagjald að undanskildu því álagi sem tilgreint er í 1. tölul. 2. mgr. þessarar lagagreinar, sbr. lokamálslið 1. mgr. 10. gr. laga nr. 113/1990. Niðurfellingarheimild 6. mgr. 28. gr. tekur því til dráttarvaxta vegna vanskila tryggingagjalds í staðgreiðslu (álags), sbr. 2. tölul. 2. mgr. 28. gr. laga nr. 45/1987.

Fyrir liggur að lagaskilyrði voru til beitingar álags samkvæmt 1. mgr. 28. gr. laga nr. 45/1987 þar sem kærandi innti skilaskylda staðgreiðslu opinberra gjalda og tryggingagjald ekki af hendi á gjalddaga vegna greiðslutímabilsins maí 2013. Með hinum kærða úrskurði synjaði ríkisskattstjóri beiðni kæranda um niðurfellingu álags, sbr. bréf kæranda, dags. 24. júní 2013, þar sem greint var frá því að sumarleyfi starfsmanna kæranda og mannabreytingar á skrifstofu kæranda hefðu valdið því að mistök hefðu verið gerð við skil á staðgreiðslu vegna umrædds greiðslutímabils.

Samkvæmt framkomnum skýringum kæranda stafaði greiðsludráttur vegna fyrrgreinds greiðslutímabils staðgreiðslu af mistökum starfsmanna kæranda, svo sem nánar er lýst í kæru til yfirskattanefndar. Því er borið við til stuðnings kröfu um niðurfellingu álags að málsbætur séu til staðar, m.a. þar sem ástæður mistakanna hafi verið sumarleyfi umræddra starfsmanna kæranda, ásamt því að umrædd vika sem greiða hafi átt staðgreiðsluna á eindaga hafi verið frábrugðin hefðbundinni vinnuviku, svo og hafi mistökin verið leiðrétt strax og þau hafi uppgötvast. Þegar virt eru atvik að þeim drætti á staðgreiðsluskilum, sem í málinu greinir, verður að telja að hér sé um að ræða atriði sem kærandi ber einn ábyrgð á og verða ekki að neinu leyti kennd utanaðkomandi og óviðráðanlegum atvikum. Samkvæmt þessu þykir kærandi ekki hafa fært fram gildar ástæður er geti leyst hann undan greiðslu álags samkvæmt 1. og 2. mgr. 28. gr. laga nr. 45/1987. Verður því að hafna kröfu kæranda um niðurfellingu álags.

Varakrafa kæranda í málinu lýtur að lækkun umrædds álags með þeim rökum að rétt sé að inneign kæranda að fjárhæð 23.269.887 kr. í virðisaukaskatti komi til lækkunar á vanskilafjárhæð 47.255.324 kr. þannig að álag reiknist aðeins af 23.985.437 kr. Engin lagaheimild er fyrir ákvörðun álags með þessum hætti, sbr. 28. gr. laga nr. 45/1987. Er varakröfunni því hafnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfum kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja