Úrskurður yfirskattanefndar

  • Ívilnun í sköttum

Úrskurður nr. 490/2012

Gjaldár 2011

Lög nr. 90/2003, 65. gr. 1. mgr.  

Kröfu kæranda um ívilnun í sköttum vegna kostnaðar sem hlotist hafði af ferð kæranda með dóttur sinni til Indlands vegna læknismeðferðar dótturinnar þar í landi var hafnað þar sem ekki varð séð að slíkt tilvik félli undir lagaákvæði um ívilnun.

I.

Málavextir eru þeir að skattframtali kæranda árið 2011 fylgdi umsókn um lækkun A (RSK 3.05) þar sem kærandi óskaði eftir lækkun tekjuskattsstofns vegna framfærslu dóttur sinnar, B, á árinu 2010, sbr. 3. tölul. 1. mgr. 65. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Í greinargerð með umsókninni kom fram að B hefði hlotið alvarlegan heilaskaða í umferðarslysi á árinu 2002. Á árinu 2010 hefði B undirgengist stofnfrumumeðferð á Indlandi vegna veikinda sinna. Kom fram að kostnaður vegna meðferðarinnar hefði numið alls 61.500 bandaríkjadölum. Þá hefði kostnaður kæranda vegna flugfargjalda numið 356.043 kr., en kærandi hefði verið aðstoðarmaður dóttur sinnar í ferðunum. Kærandi gat þess að frá og með 1. febrúar 2010 hefði hún ekki notið neinna umönnunarbóta frá Tryggingastofnun ríkisins þrátt fyrir að annast dóttur sína allan ársins hring.

Með bréfi, dags. 20. júlí 2011, tilkynnti ríkisskattstjóri kæranda að umsókn hennar um lækkun tekjuskattsstofn hefði verið hafnað. Í bréfinu reifaði ríkisskattstjóri ákvæði 1. mgr. 65. gr. laga nr. 90/2003 um heimildir til ívilnunar í skattstofnum og tók fram að ákvæðunum væri einkum ætlað að bregðast við skertu gjaldþoli vegna óvæntra og ófyrirséðra útgjalda eða tekjumissis í bráðatilvikum. Varanlegur heilsubrestur til lengri tíma ætti sér hins vegar fremur farveg af hálfu löggjafans í almannatryggingakerfinu. Þá væri það skilyrði fyrir ívilnun samkvæmt 3. tölul. 1. mgr. 65. gr. laga nr. 90/2003 að um skert gjaldhæfi vegna sannanlegra útgjalda og umframkostnaðar af framfærslu vandamanna væri að ræða. Gera þyrfti grein fyrir í hverju útgjöldin væru fólgin og leggja fram gögn þeim til staðfestingar. Sýna þyrfti fram á að vandamaður ætti þess ekki kost að standa undir framfærslu sinni án aðstoðar og væri í því sambandi litið til tekna hans. Aðili sem nyti sambærilegra tekna og eðlilegar teldust frá lífeyris- og almannatryggingakerfi teldist ekki á framfæri annarra nema um aukinn framfærslukostnað væri að ræða vegna sjúkdóms eða sérþarfa og greiðslugeta ekki fyrir hendi til að mæta kostnaði. Beiðni um lækkun gjaldstofna væri því synjað.

Með kæru, dags. 22. júlí 2011, mótmælti kærandi synjun ríkisskattstjóra á beiðni hennar um ívilnun. Í kærunni var gerð grein fyrir högum kæranda og dóttur hennar, heilsubresti dótturinnar vegna slyss á árinu 2002 og árangri af stofnfrumumeðferð á árinu 2010. Var ítrekað að meðferðin væri kostnaðarsöm og af þeirri ástæðu hefði kærandi sótt um ívilnun. Þá kom fram að láðst hefði að senda gögn með umsókn kæranda í skattframtali og var í því sambandi vísað til gagna um kostnað sem fylgdu kærunni.

Með kæruúrskurði, dags. 21. nóvember 2011, hafnaði ríkisskattstjóri kröfum kæranda. Í úrskurðinum vísaði ríkisskattstjóri til ákvæða 3. tölul. 1. mgr. 65. gr. laga nr. 90/2003 og þeirra sjónarmiða sem fram komu í tilkynningu hans, dags. 20. júlí 2011. Þá kom fram að í tilviki dóttur kæranda, B, væri litið til þess að hún hefði á árunum 2003 til 2010 fengið óskattskyldar greiðslur frá tryggingafélagi að fjárhæð 33.156.094 kr. og skattfrjálsar bætur frá Tryggingastofnun ríkisins að fjárhæð 1.200.000 kr. eða samtals skattfrjálsar greiðslur að fjárhæð 34.356.094 kr., sbr. m.a. fyrirliggjandi skattframtöl B. Þá benti ríkisskattstjóri á að Sjúkratryggingum Íslands væri heimilt að greiða fyrir læknismeðferð á sjúkrahúsi erlendis og tæki sérstök nefnd á vegum stofnunarinnar afstöðu til þess hvort greiðsla fyrir læknismeðferð erlendis skyldi samþykkt. Engin gögn lægju fyrir um það hvort og þá með hvaða hætti Sjúkratryggingar Íslands hefðu tekið þátt í kostnaði vegna ferða kæranda og dóttur hennar til Indlands. Einnig væri til þess að líta að dóttir kæranda nyti skattskyldra bóta frá almannatryggingum sem ætlað væri að standa straum af framfærslu hennar. Ívilnunarákvæði skattalaga væru einkum samtímaúrræði til að bregðast við skertu gjaldþoli vegna óvæntra og ófyrirséðra útgjalda eða tekjumissis í bráðatilvikum, sem ekki fengjust bætt með öðrum hætti. Af skattframtölum kæranda yrði ekki ráðið að um tekjuskerðingu milli ára væri að ræða. Með vísan til framangreinds og þess sem lægi fyrir um óskattskyldar bótagreiðslur til dóttur kæranda að fjárhæð 34.356.094 kr. yrði hvorki fallist á að kostnaður vegna ferða til Indlands, sem numið hefði alls 11.817.247 kr. samkvæmt framlögðum gögnum, hefði verið óbættur né að gjaldþol skattaðila hefði verið skert á árinu 2010. Þar sem kærandi hefði ekki sýnt fram á gjaldþolsskerðingu samkvæmt ákvæðum 1. mgr. 65. gr. laga nr. 90/2003 yrði að synja beiðni hennar um lækkun gjaldstofna.

II.

Með kæru, dags. 30. nóvember 2011, hefur kærandi skotið kæruúrskurði ríkisskattstjóra, dags. 21. nóvember 2011, til yfirskattanefndar. Í kærunni kemur fram að ríkisskattstjóri hafi hafnað beiðni kæranda um ívilnun með vísan til þess að dóttir kæranda, B, hafi fengið skattfrjálsar bætur að fjárhæð 34.356.094 kr. frá Tryggingastofnun ríkisins og tryggingafélögum á árunum 2003 til 2010. Það sé rétt, en hafa verði í huga að um níu ár séu liðin frá því dóttir kæranda varð fyrir slysi á árinu 2002. Þá er í kærunni gerð ítarleg grein fyrir afleiðingum slyssins fyrir heilsu dóttur kæranda og ýmsum kostnaði sem fallið hafi til vegna meðferðarúrræða á liðnum árum. Er bent á að stofnfrumumeðferð sem B hafi undirgengist á Indlandi hafi skilað árangri, en vegna mikils kostnaðar sé óvíst hversu lengi henni verði unnt að halda þeirri meðferð áfram.

III.

Með bréfi, dags. 2. mars 2012, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda krafist þess að úrskurður embættisins verði staðfestur.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 7. mars 2012, var kæranda sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og henni gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar.

Með bréfi, dags. 15. mars 2012, hefur kærandi gert grein fyrir athugasemdum sínum. Er í bréfinu vísað til leiðbeininga um ívilnanir á vef ríkisskattstjóra, þar sem fram komi að við mat á ívilnun sé fyrst og fremst litið á þann beina kostnað sem framteljandi hafi orðið fyrir „á tekjuárinu“ og sé umfram fengnar bætur og styrki. Bendir kærandi á að ekkert sé þar minnst á að ívilnun eigi ekki við ef viðkomandi hafi fengið bætur eða hafi haft háar tekjur einhverjum árum áður sem jafnvel sé búið að nota í annað. Ekki sé því viðeigandi að vísa til þess að dóttir kæranda hafi fengið 37 milljónir í bætur á tilteknu árabili. Í málinu sé tekjuárið 2010 til umræðu og það ár hafi ferða- og lækniskostnaður dóttur kæranda sannanlega verið margfalt hærri en bætur, styrkir og aðrar tekjur sem hún hlaut það ár og að mati kæranda langt umfram það sem venjulegt sé. Gjaldþol dóttur kæranda sé vissulega skert þar sem alls óvíst sé hvort hún hafi efni á að ljúka meðferðinni sem nú sé að öllum líkindum hálfnuð miðað við framfarir.

IV.

Samkvæmt 3. tölul. 1. mgr. 65. gr. laga nr. 90/2003 skal ríkisskattstjóri taka til afgreiðslu umsókn manns um lækkun tekjuskattsstofns ef maður hefur foreldra eða aðra vandamenn sannanlega á framfæri sínu. Lögin hafa ekki að geyma nánari ákvæði um ákvörðun ívilnunar við þessar aðstæður. Í reglum ríkisskattstjóra nr. 212/1996, um skilyrði fyrir ívilnun samkvæmt 66. og 80. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, kemur fram að skilyrði fyrir lækkun samkvæmt þessum tölulið séu sannanleg útgjöld vegna framfærslu foreldra eða annarra vandamanna. Gera þurfi grein fyrir í hverju útgjöldin séu fólgin og jafnframt að sýna fram á að framfærslufé foreldris eða vandamanns, þ.e. tekjur, bætur og styrkir, standi ekki undir nauðsynlegum útgjöldum vegna framfærslunnar.

Eins og fram er komið fylgdi skattframtali kæranda árið 2011 umsókn um lækkun A (RSK 3.05) þar sem kærandi óskaði eftir lækkun tekjuskattsstofns vegna framfærslu foreldris eða annars vandamanns á árinu 2010, sbr. 3. tölul. 1. mgr. 65. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Í greinargerð fyrir umsókninni kom hins vegar fram að tilefni beiðninnar væri kostnaður kæranda vegna ferðar hennar með dóttur sinni til Indlands á árinu 2010 þar sem dóttirin, B, hefði undirgengist læknismeðferð vegna slyss, svo sem nánar greindi. Þá var þess getið í greinargerðinni að kærandi hefði ekki fengið greiddar umönnunarbætur frá 1. febrúar 2010 vegna umönnunar dóttur sinnar. Kom fram að óskað væri eftir lækkun á tekjuskattsstofni „bæði vegna ferðakostnaðarins og vegna þess að ég skuli ekki fá umönnunarbætur frá [Tryggingastofnun ríkisins] þrátt fyrir að vera bundin allan ársins hring við umönnun dóttur minnar“, eins og sagði í greinargerðinni. Voru þessi sjónarmið ítrekuð í kæru kæranda til ríkisskattstjóra, dags. 22. júlí 2011, þar sem jafnframt var vísað til meðfylgjandi gagna um kostnað vegna læknismeðferðar B á Indlandi á árinu 2010.

Samkvæmt framansögðu verður ekki séð að beiðni kæranda um ívilnun hafi verið byggð á því að kærandi hefði sinnt framfærslu dóttur sinnar á árinu 2010, sbr. 3. tölul. 1. mgr. 65. gr. laga nr. 90/2003. Þvert á móti kom skýrt fram í beiðninni að tilefni hennar væri kostnaður sem hlotist hefði af ferð kæranda með B til Indlands vegna læknismeðferðar B þar í landi. Ekki verður séð að nein ákvæði 1. mgr. 65. gr. laga nr. 90/2003 geti tekið til slíks tilviks. Rétt er að taka fram, vegna athugasemda kæranda varðandi synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn hennar um greiðslu umönnunarbóta, að um rétt til slíkra bóta fer eftir lögum nr. 99/2007, um félagslega aðstoð, sbr. reglur nr. 407/2002, um maka- og umönnunarbætur. Eru ákvarðanir um slík efni óháðar reglum 65. gr. laga nr. 90/2003 um ívilnun í sköttum og geta ekki gefið sjálfstætt tilefni til ívilnunar.

Með vísan til þess, sem hér að framan greinir, verður að hafna kröfu kæranda um lækkun tekjuskattsstofns gjaldárið 2011.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda um ívilnun í sköttum gjaldárið 2011 er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja