Úrskurður yfirskattanefndar

  • Olíugjald
  • Sekt

Úrskurður nr. 494/2012

Lög nr. 87/2004, 4. gr. 3. mgr., 19. gr. 5. og 6. mgr. (brl. nr. 169/2006, 8. gr.)  

Ríkisskattstjóri gerði kæranda sem skráðum eiganda fólksbifreiðar sekt vegna brota á reglum um olíugjald þar sem í ljós kom við sýnatöku úr eldsneytisgeymi bifreiðarinnar í desember 2010 að lituð olía var notuð á bifreiðina. Yfirskattanefnd taldi þær skýringar kæranda, að mistök við afhendingu söluaðila á olíu haustið 2010 hefðu valdið því að ólituð olía hefði farið á ranga tunnu þar sem leifar af litaðri olíu hefðu verið til staðar, fengju stoð í gögnum málsins. Var krafa kæranda um niðurfellingu sektar tekin til greina.

I.

Með kæru til yfirskattanefndar, dags. 16. febrúar 2012, hefur umboðsmaður kæranda mótmælt ákvörðun ríkisskattstjóra, dags. 2. desember 2012, að gera kæranda sekt að fjárhæð 300.000 kr. samkvæmt 5. mgr. 19. gr. laga nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald, með síðari breytingum, á þeim grundvelli að notkun litaðrar gjaldfrjálsrar olíu á ökutæki kæranda XX-001 hefði verið andstæð lögum nr. 87/2004. Af hálfu kæranda er þess krafist að sektarákvörðun ríkisskattstjóra verði felld niður, þar sem um mistök seljanda olíunnar hafi verið að ræða.

II.

Málavextir eru þeir að samkvæmt skýrslu eftirlitsmanna Vegagerðarinnar, dags. 7. desember 2010, kom í ljós við sýnatöku úr eldsneytisgeymi ökutækisins XX-001 að lituð olía hefði verið notuð á ökutækið. Í skýrslu eftirlitsmanna kemur fram að bifreiðin XX-001 var stöðvuð á Hringvegi við Héraðsvötn í Skagafirði. Kemur fram í skýrslunni að ökumaður hefði sagt að hann hefði aldrei sett litaða olíu á bifreiðina, en hann notaði ólitaða olíu af heimatanki á bifreiðina frá Olíudreifingu ehf.

Í framhaldi af fyrrnefndri skýrslu sendi ríkisskattstjóri kæranda bréf, dags. 3. mars 2011, með yfirskriftinni „Boðun sektar vegna brots á reglum um olíugjald“. Vísaði ríkisskattstjóri til þess að embættið hefði móttekið skýrslu, dags. 7. desember 2010, frá eftirlitsmönnum Vegagerðarinnar um brot á reglum um olíugjald vegna ökutækisins XX-001 sem væri 1.565 kg að heildarþyngd. Kom fram að sýni hefðu verið tekin úr eldsneytistanki bifreiðarinnar og sjónræn niðurstaða gefið til kynna að um litaða olíu væri að ræða. Sýnið hefði verið sent til Efnagreiningar Keldnaholti til athugunar og samkvæmt skýrslu þess aðila, dags. 28. janúar 2011, hefði hlutfall litarefnis í olíunni verið 7,1%, en færi hlutfall litarefnis í ólitaðri olíu yfir 3% teldist olía lituð, sbr. 4. mgr. 11. gr. reglugerðar nr. 283/2005, um litun á gas- og díselolíu. Fylgdu umræddar skýrslur eftirlitsmanna Vegagerðarinnar og Efnagreiningar bréfi ríkisskattstjóra. Kom fram hjá ríkisskattstjóra að samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald, væri óheimilt að nota litaða olíu á skráningarskyld ökutæki, sbr. 63. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, önnur en dráttarvélar samkvæmt 4. tölul. (sic) 1. mgr. og ökutæki samkvæmt 7., 8., og 9. tölul. 1. mgr. 4. gr., og af bréfinu mátti skilja að ökutæki kæranda ætti ekki undir tilgreindar undantekningar. Vísaði ríkisskattstjóri til þess að samkvæmt 5. mgr. 19. gr. laga nr. 87/2004 varðaði það sektum ef lituð olía væri notuð á skráningarskylt ökutæki, sbr. 3. mgr. 4. gr. sömu laga, og næmi sekt 300.000 kr. ef heildarþyngd ökutækis væri 3.500 kg eða þar undir. Tók ríkisskattstjóri ákvæði 3. mgr. 4. gr. og 5. mgr. 19. gr. laga nr. 87/2004 orðrétt upp í bréfinu. Ríkisskattstjóri tók fram að í tilvitnaðri skýrslu Vegagerðarinnar kæmi fram að ökumaður bifreiðarinnar XX-001 teldi sig ekki hafa sett litaða olíu á bifreiðina. Tók ríkisskattstjóri fram af þessu tilefni að samkvæmt 6. mgr. 19. gr. laga nr. 87/2004 yrði skráðum eiganda ökutækis gerð sekt óháð því hvort brot yrði rakið til saknæmrar háttsemi hans eður ei. Vísaði ríkisskattstjóri jafnframt til athugasemda við umrætt ákvæði, sem fylgt hefðu frumvarpi því sem orðið hefði að lögum nr. 169/2006, en með þeim hefði umrætt ákvæði verið lögfest. Þar kæmi fram að lögð væri til hlutlæg ábyrgð skráðs eiganda ökutækis vegna brota sem tilgreind væru í greininni. Ökumaður kynni að vera annar en umráðamaður eða skráður eigandi. Væri fyrirséð að í sumum tilvikum þar sem svo háttaði til að nánast ómögulegt væri að upplýsa um hver þeirra hefði sýnt af sér saknæma háttsemi þótt ljóst væri að brot hefði verið framið. Væri því lagt til að skráður eigandi bæri refsiábyrgð án tillits til þess hvort brot mætti rekja til saknæmrar háttsemi hans. Í ljósi framangreinds og með vísan til 3. mgr. 4. gr., 5. mgr. 19. gr. og 4. mgr. 20. gr. laga nr. 87/2004 væri fyrirhugað að ákvarða kæranda sekt að fjárhæð 300.000 kr. Var kæranda veittur 15 daga frestur til að koma á framfæri athugasemdum vegna hinnar boðuðu sektarákvörðunar.

Með bréfi, dags. 14. mars 2011, mótmælti umboðsmaður kæranda fyrirhugaðri sektarákvörðun ríkisskattstjóra. Í bréfinu kom fram að um óviljaverk hefði verið að ræða, en meðfylgjandi bréf frá Olíudreifingu ehf., dags. 9. mars 2011, kynni að skýra það. Af bréfinu að ráða virtist nokkuð augljóst að lituð olía hefði farið á tunnu sem væri notuð fyrir ólitaða olíu, en bréfið staðfesti að báðar tegundirnar væru keyptar jöfnum höndum. Í tilvitnuðu bréfi frá Olíudreifingu ehf., dags. 9. mars 2011, kom fram að kærandi hefði bæði fengið afgreidda litaða sem og ólitaða olíu, en litaða olían væri sett á sérmerktan tank og ólitaða olían væri sett í tunnur. Á árinu 2010 hefði kærandi tvisvar sinnum fengið afgreidda olíu á tunnur þann 28. maí og 29. september, en í seinna skiptið hefði verið slæmt veður þegar afgreiðslan hefði átt sér stað. Hefði tunnan, sem dælt hefði verið á, legið á jörðinni með öðrum tunnum og hefði bílstjórinn „mögulega“ ekki dælt olíunni á þá tunnu sem kærandi hefði ætlað fyrir ólitaða olíu. Í tunnunni gætu því hafa verið leifar af litaðri olíu án þess að bílstjórinn hefði áttað sig á því.

Með úrskurði, dags. 2. desember 2011, hratt ríkisskattstjóri boðaðri sektarákvörðun í framkvæmd, sbr. 3. mgr. 4. gr., 5. mgr. 19. gr. og 4. mgr. 20. gr. laga nr. 87/2004, og ákvað kæranda 300.000 kr. sekt. Rakti ríkisskattstjóri sem áður málavexti og ítrekaði röksemdir sínar. Vegna athugasemda í bréfi umboðsmanns kæranda, dags. 14. mars 2011, tók ríkisskattstjóri fram að samkvæmt 5. málsl. 5. mgr. 19. gr. laga nr. 87/2004 væri við sérstakar aðstæður heimilt að lækka eða fella niður sekt samkvæmt ákvæðinu. Í athugasemdum með frumvarpi þar sem þetta ákvæði hefði orðið að lögum, sbr. lög nr. 169/2006, hefði komið fram að mat á því hvað teldust vera sérstakar aðstæður væri í höndum þess sem refsingunni beitti. Ríkisskattstjóri legði þann skilning í sérstakar aðstæður samkvæmt þessu að um óviðráðanleg atvik söluaðila þyrfti að vera að ræða og ef kaupandi olíu héldi því fram að mistök væru söluaðila olíu að kenna þyrfti að liggja fyrir með óyggjandi hætti að svo væri og þyrftu gögn, þ.e.a.s. reikningar eða kvittanir, að staðfesta að kaupandi hefði talið sig vera að kaupa gjaldskylda olíu. Tók ríkisskattstjóri fram að ekki kæmi fram með óyggjandi hætti í bréfi Olíudreifingar ehf. eða öðrum gögnum málsins að gjaldskyldri olíu hefði verið dælt á ranga tunnu eða þar sem lituð olía hefði verið fyrir í. Þá væri það skoðun ríkisskattstjóra að það væri á ábyrgð kaupanda olíu að ganga þannig frá tunnum og öðrum aðbúnaði á starfsstöð sinni að lágmarksáhætta væri fyrir hendi að slík mistök gætu átt sér stað sem haldið væri fram í þessu máli. Í ljósi framangreinds yrði kæranda ákvörðuð sekt að fjárhæð 300.000 kr.

III.

Með kæru, dags. 16. febrúar 2012, hefur umboðsmaður kæranda skotið úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 2. desember 2011, til yfirskattanefndar. Kemur fram hjá umboðsmanninum að hann og kærandi hafi talið sig hafa sýnt nægilega fram á að um óviljaverk hafi verið að ræða þegar lituð olía hefði mælst í eldsneytistanki bifreiðar kæranda. Komi fram í hinum kærða úrskurði að ekki hafi verið lögð fram óyggjandi gögn. Séu meðfylgjandi kærunni reikningar vegna kaupa kæranda á olíu á árinu 2010, en það hafi gerst í tvö skipti þann 28. maí og 29. september 2010. Sé það skoðun kæranda að reikningarnir sýni fram á að kærandi hafi talið „vissu fyrir því að hann hefði dælt ólitaðri olíu á bifreið sína“, eins og þar segir. Meðfylgjandi kærunni eru tveir reikningar, dags. 31. maí 2010 og 30. september 2010, vegna kaupa kæranda á ólitaðri gjaldskyldri olíu af Olíuverzlun Íslands hf., 222 lítra í hvort sinn.

IV.

Með bréfi, dags. 13. apríl 2012, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Þess er krafist að úrskurður ríkisskattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.“

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 18. apríl 2012, var kæranda sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og honum gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar. Kærandi hafði samband símleiðis þann 26. apríl 2012 og kvaðst engu hafa að bæta við kæru sína.

V.

Kæra í máli þessu varðar ákvörðun sektar vegna notkunar á litaðri gjaldfrjálsri olíu, en óumdeilt er að ökutækið XX-001, sem er fólksbifreið (M1) af gerðinni Mitsubishi L 200 4WD, árgerð 1992, sbr. skilgreiningu reglugerðar nr. 822/2004, um gerð og búnað ökutækja, uppfyllir ekki skilyrði laga nr. 87/2004 um notkun á litaðri gjaldfrjálsri olíu. Samkvæmt skýrslu eftirlitsmanna Vegagerðarinnar, dags. 7. desember 2010, mældist lituð olía á eldsneytistanki bifreiðar kæranda, en ökumaður bifreiðarinnar, kærandi í máli þessu, neitaði því að hafa dælt litaðri olíu á bifreiðina. Umrædd skýrsla er undirrituð af kæranda. Með hinum kærða úrskurði ríkisskattstjóra var kæranda gert að greiða 300.000 kr. í sekt og miðaði sektin við að þyngd ökutækisins hefði verið 1.565 kg. Af hálfu kæranda og eiganda ökutækisins hefur verið á það bent að um mistök seljanda olíunnar hafi verið að ræða, eins og hann hefur nánar gert grein fyrir, og að enginn ásetningur til brots hafi legið að baki.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 87/2004, eins og ákvæðið hljóðaði á greindum tíma, sbr. síðar breytingar með 18. gr. laga nr. 164/2011 er tóku gildi 1. janúar 2012, skal greiða í ríkissjóð vörugjald af gas- og dísilolíu sem flokkast í tollskrárnúmer 2710.1930 og nothæf er sem eldsneyti á ökutæki. Í 1. mgr. 4. gr. laga nr. 87/2004 kemur fram að gjaldskyldum aðilum samkvæmt 3. gr. sömu laga sé heimilt að selja eða afhenda olíu samkvæmt 1. gr. án innheimtu olíugjalds í tilgreindum tilvikum sem talin eru upp í einstökum töluliðum málsgreinarinnar. Í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 87/2004 kemur fram að skilyrði sölu eða afhendingar olíu án innheimtu olíugjalds samkvæmt 2.-9. tölul. 1. mgr. sé að í olíuna hafi verið bætt litar- og merkiefnum, sbr. 5. gr. laganna. Litaða olíu megi ekki nota sem eldsneyti í öðrum tilvikum en lýst sé í 1. mgr. Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laganna er óheimilt að nota litaða olíu á skráningarskyld ökutæki, sbr. 63. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, önnur en dráttarvélar samkvæmt 5. tölul. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 87/2004 og ökutæki samkvæmt 7., 8. og 9. tölul. 1. mgr. sömu lagagreinar.

Samkvæmt 5. mgr. 19. gr. laga nr. 87/2004 varðar það sektum sé lituð olía notuð á skráningarskylt ökutæki, sbr. 3. mgr. 4. gr. sömu laga, og ræðst sektarfjárhæð af heildarþyngd ökutækis, svo sem nánar er tilgreint í ákvæðinu. Sé heildarþyngd ökutækis 0 til 3.500 kg skal fjárhæð sektar nema 300.000 kr., sbr. hækkun sektarfjárhæðar úr 200.000 kr. í 300.000 kr. með 3. gr. laga nr. 63/2010 er tók gildi 1. október 2010. Sektarfjárhæðina skal lækka hlutfallslega þegar fyrir liggur að ekki hafi verið unnt að nota litaða olíu á skráningarskylt ökutæki, sbr. 3. mgr. 4. gr., á tveggja ára tímabili, talið frá þeim tíma er brot liggur fyrir. Sektarfjárhæð skal að hámarki lækkuð um helming. Við sérstakar aðstæður er heimilt að lækka eða fella niður sekt samkvæmt ákvæðinu, sbr. niðurlag 5. mgr. 19. gr. laganna. Í 6. mgr. 19. gr. kemur fram að skráðum eiganda ökutækis verði gerð sekt samkvæmt 4. og 5. mgr. óháð því hvort brot megi rekja til saknæmrar háttsemi hans. Hafi umráðamaður ökutækis gerst sekur um brot samkvæmt 4. og 5. mgr. sé hann ábyrgur fyrir greiðslu sektarinnar ásamt skráðum eiganda. Í 8. mgr. 19. gr. laga nr. 87/2004 segir að gera megi lögaðila sekt fyrir brot á lögum þessum óháð því hvort brotið megi rekja til saknæms verknaðar fyrirsvarsmanns eða starfsmanns lögaðilans.

Eins og fram er komið er óumdeilt að lituð olía var notuð á ökutæki kæranda og þannig brotið gegn fyrirmælum 3. mgr. 4. gr. laga nr. 87/2004. Samkvæmt því voru lagaskilyrði til beitingar sektar samkvæmt 5. mgr. 19. gr. laga þessara. Eins og fyrr greinir er svo mælt fyrir í 6. mgr. 19. gr. laga nr. 87/2004 að skráðum eiganda ökutækis verði gerð sekt samkvæmt 4. og 5. mgr. lagagreinar þessarar óháð því hvort brot megi rekja til saknæmrar háttsemi hans. Til úrlausnar í málinu er því einungis hvort efni séu til að fella sektarákvörðun ríkisskattstjóra niður eða lækka sektarfjárhæð á grundvelli fyrrgreinds niðurlagsákvæðis 5. mgr. 19. gr. umræddra laga þar sem heimilað er að lækka eða fella niður sekt við sérstakar aðstæður.

Kærandi telur sig hafa leitt sterkar líkur að því að mistök við afhendingu söluaðila, Olíudreifingar ehf., á olíunni haustið 2010 hafi valdið því að ólituð olía hafi farið á ranga tunnu þar sem leifar af litaðri olíu hafi verið til staðar. Fær þetta stoð í fyrirliggjandi staðfestingu Olíudreifingar ehf., dags. 9. mars 2011, sem kærandi hefur lagt fram og gögnum málsins að öðru leyti. Samkvæmt staðfestingunni er talið mögulegt að við afhendingu á ólitaðri olíu hinn 29. september 2010 í illviðri hafi olíubílstjóra orðið á þau mistök að setja ólitaða olíu á ranga tunnu. Að þessu virtu þykir mega fallast á það með kæranda að atvik séu hér með þeim hætti að skilyrði séu til að fella niður sekt, sbr. fyrrgreinda heimild í 5. mgr. 19. gr. laga nr. 87/2004 in fine. Er krafa kæranda því tekin til greina.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Sektarákvörðun ríkisskattstjóra er felld niður.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja