Úrskurður yfirskattanefndar

  • Takmörkuð skattskylda
  • Lífeyrissparnaður

Úrskurður nr. 148/2015

Gjaldár 2014

Lög nr. 90/2003, 3. gr. 2. tölul., 70. gr. 2. tölul. 3. mgr. (brl. nr. 128/2009, 16. gr.).  

Kærandi, sem var búsettur á Möltu, fékk greiddan út lífeyrissparnað á árinu 2013. Fallist var á að kæranda bæri fullur persónuafsláttur til frádráttar álögðum tekjuskatti og útsvari af lífeyristekjunum. Kröfu kæranda um nýtingu persónuafsláttar eiginkonu var hins vegar hafnað þar sem hún hafði engar lífeyristekjur hér á landi á árinu 2013.

I.

Helstu málavextir eru þeir að í skattframtali kæranda árið 2014 var færð til tekna lífeyrisgreiðsla frá Frjálsa lífeyrissjóðnum að fjárhæð 2.800.000 kr. Í athugasemdareit í skattframtalinu kom fram að kærandi væri með skráð lögheimili á Möltu.

Með kæru til ríkisskattstjóra, dags. 21. ágúst 2014, gerði kærandi athugasemdir vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2014. Í kærunni kom fram að kærandi væri búsettur á Möltu og bæri takmarkaða skattskyldu hér á landi samkvæmt 2. tölul. 3. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Gerði kærandi athugasemd við skattlagningu lífeyrisgreiðslu frá Frjálsa lífeyrissjóðnum sem honum virtist skattlögð í 46,15% skattþrepi tekjuskatts án persónuafsláttar. Samkvæmt 3. mgr. 2. tölul. 70. gr. laga nr. 90/2003 skyldi tekjuskattur eftirlauna- og lífeyrisþega sem um ræddi í 2. tölul. 3. gr. sömu laga reiknast af tekjuskattsstofni samkvæmt 1.-3. tölul. 1. mgr. 66. gr. að teknu tilliti til persónuafsláttar samkvæmt A-lið 67. gr. sömu laga. Fór kærandi fram á að álagning opinberra gjalda hans gjaldárið 2014 vegna lífeyristekna yrði endurskoðuð með tilliti til þessa.

Með kæruúrskurði, dags. 24. september 2014, tók ríkisskattstjóri kæru kæranda til afgreiðslu. Í úrskurðinum rakti ríkisskattstjóri efni ákvæðis 3. mgr. 2. tölul. 70. gr. laga nr. 90/2003 varðandi skattlagningu eftirlaunaþega og lífeyrisþega sem bæru takmarkaða skattskyldu hér á landi á grundvelli 2. tölul. 3. gr. sömu laga. Þá kom fram að kærandi hefði fengið greiðslu séreignarsparnaðar í febrúar 2013 og ætti samkvæmt framansögðu rétt á persónuafslætti á móti þeirri greiðslu eða í 28 daga. Við álagningu hefði láðst að reikna kæranda persónuafslátt og væri því fallist á kröfu um leiðréttingu persónuafsláttar. Skattlagning tekna kæranda hefði verið í samræmi við 1. mgr. 66. gr. laga nr. 90/2003, þ.e. stighækkandi skattþrep. Eiginkona kæranda hefði engar tekjur haft hér á landi á árinu 2013 og samkvæmt 3. mgr. 70. gr. laga nr. 90/2003 væri ónýttur persónuafsláttur ekki millifæranlegur milli hjóna nema þau væru bæði lífeyrisþegar. Með vísan til framanritaðs væri fallist á kröfu kæranda um leiðréttingu persónuafsláttar og reiknaðist hann í 28 daga. Að öðru leyti væri kröfum kæranda hafnað.

II.

Með kæru, dags. 22. desember 2014, hefur kærandi skotið úrskurði ríkisskattstjóra til yfirskattanefndar. Í kærunni er þess krafist að úrskurður ríkisskattstjóra verði ógiltur. Þá er þess krafist „að [kæranda] verði gerð álagning sem tekur mið af persónuafslætti fyrir skattárið 2013 og að við ákvörðun viðeigandi skatthlutfalls sé jafnframt tekið mið af heildartekjum ársins [...] en álagning miðist ekki við staðgreiðslu á mánaðargrundvelli“, eins og segir í kærunni. Loks er þess krafist að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði.

Í kærunni er greint frá málsatvikum og ákvæði 66. og 70. gr. laga nr. 90/2003 reifuð, bæði fyrir og eftir breytingar sem gerðar voru á hinni fyrrnefndu lagagrein með lögum nr. 146/2013. Kemur fram að þar sem séreignarsparnaður kæranda hafi verið greiddur út í einu lagi fyrir allt árið 2013 í febrúar á því ári hafi kæranda borið að greiða 22,9% tekjuskatt af greiðslunni samkvæmt bráðabirgðaákvæði LIV í lögum nr. 90/2003 eða 641.200 kr. Umrætt bráðabirgðaákvæði beri að túlka þannig að lífeyrisgreiðslan falli í heild sinni undir 1. tölul. 1. mgr. 66. gr. laga nr. 90/2003, en verði ekki á það fallist verði að líta svo á að 2.760.000 kr. falli undir ákvæðið og 40.000 kr. undir ákvæði 2. tölul. sömu lagagreinar. Þá sé byggt á því af hálfu kæranda að honum beri persónuafsláttur að fjárhæð 581.820 kr., þ.e. fyrir allt tekjuárið, enda skuli samkvæmt 2. mgr. 70. gr. laga nr. 90/2003 taka tillit til persónuafsláttar. Að teknu tilliti til persónuafsláttar nemi tekjuskattur af umræddri greiðslu því 59.380 kr. (641.200 – 581.820). Til stuðings framangreindum sjónarmiðum sé vísað til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 92/2013 (Íslenska ríkið gegn Atla Gunnarssyni) og úrskurðar yfirskattanefndar nr. 127/2013, en í því máli hafi kæranda verði ákvarðaður persónuafsláttur fyrir allt tekjuárið. Loks sé byggt á því af hálfu kæranda að honum beri frádráttur ónýtts persónuafsláttar eiginkonu, B, enda séu kærandi og B bæði lífeyrisþegar, sbr. 3. mgr. 2. tölul. 70. gr. laga nr. 90/2003. Af þessu leiði að tekjuskattur kæranda falli niður og eftirstöðvum óráðstafaðs persónuafsláttar B beri að ráðstafa til greiðslu útsvars af sömu tekjum. Þar sem fjárhæð millifæranlegs persónuafsláttar sé hærri en eftirstöðvar tekjuskatts og útsvars beri að fella álagningu opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2014 niður í heild sinni. Í niðurlagi kærunnar er málskostnaðarkrafa kæranda áréttuð.

III.

Með bréfi, dags. 26. janúar 2015, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn um kæruna og krafist þess að úrskurður ríkisskattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 29. janúar 2015, var kæranda sent ljósrit af umsögn ríkisskattstjóra og honum gefinn kostur á að tjá sig um hana og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

IV.

Kærandi í máli þessu, sem er búsettur á Möltu, fékk greiddan út lífeyrissparnað hjá Frjálsa lífeyrissjóðnum að fjárhæð 2.800.000 kr. á árinu 2013. Er því ljóst að kærandi bar takmarkaða skattskyldu hér á landi gjaldárið 2014 á grundvelli 2. tölul. 3. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, vegna umræddrar lífeyrisgreiðslu. Er við þetta miðað í hinum kærða úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 24. september 2014, þar sem fram kemur m.a. að haga beri álagningu opinberra gjalda kæranda í samræmi við ákvæði 70. gr. laga nr. 90/2003 þar sem mælt er fyrir um tekjuskatt aðila sem bera takmarkaða skattskyldu hér á landi. Samkvæmt 3. mgr. 2. tölul. 70. gr. laganna skal tekjuskattur eftirlaunaþega og lífeyrisþega, sem um ræðir í 2. tölul. 3. gr. laganna, reiknast af tekjuskattsstofni samkvæmt 1.-3. tölul. 1. mgr. 66. gr. að teknu tilliti til persónuafsláttar samkvæmt A-lið 67. gr. laganna. Persónuafsláttur skal í þessum tilvikum einungis dreginn frá tekjuskatti af eftirlaunum og lífeyri viðkomandi aðila og skal ónýttum hluta hans einungis ráðstafað til greiðslu á útsvari af sömu tekjum. Sá hluti persónuafsláttar sem þá er enn óráðstafað fellur niður og er hann ekki millifæranlegur milli hjóna nema þau séu bæði eftirlaunaþegar eða lífeyrisþegar og falli að öðru leyti bæði undir ákvæði þessarar málsgreinar. Með vísan til framangreindra ákvæða verður að telja að kæranda beri fullur persónuafsláttur að fjárhæð 581.820 kr. til frádráttar álögðum tekjuskatti og útsvari af lífeyristekjum sem um ræðir. Er því fallist á kröfu kæranda þar að lútandi.

Vegna kröfu kæranda um nýtingu persónuafsláttar eiginkonu, B, við álagningu gjaldárið 2014 skal tekið fram að ekki verður séð að skilyrði 3. mgr. 2. tölul. 70. gr. laga nr. 90/2003 fyrir millifærslu persónuafsláttar séu uppfyllt í tilviki B, enda hafði hún engar lífeyristekjur hér á landi á árinu 2013. Er þessari kröfu kæranda því hafnað.

Tekið skal fram að með 70. gr. a laga nr. 90/2003, sbr. 11. gr. laga nr. 165/2010, er kveðið á um það að þeir menn sem búsettir eru í aðildarríki á Evrópska efnahagssvæðinu, í aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum og bera takmarkaða skattskyldu hér á landi samkvæmt 3. gr. laga nr. 90/2003, en fá sem nemur eigi minna en 75% heildartekna sinna á tekjuárinu frá Íslandi, eigi rétt á að vera skattlagðir líkt og þeir hefðu verið skattskyldir samkvæmt 1. gr. laganna allt tekjuárið, með þeim réttindum sem heimilisfesti hér á landi veitir samkvæmt lögum þessum og öðrum lögum um opinber gjöld. Fram kemur í kæru kæranda til yfirskattanefndar að hann uppfylli ekki skilyrði umrædds ákvæðis.

Umboðsmaður kæranda hefur gert kröfu um að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum. Samkvæmt úrslitum málsins þykir bera að úrskurða kæranda málskostnað á grundvelli framangreinds lagaákvæðis. Af hálfu kæranda hafa ekki verið lagðir fram reikningar um útlagðan kostnað hans vegna meðferðar málsins, en ætla verður þó að um slíkan kostnað hafi verið að ræða. Með vísan til framanritaðs og lagaskilyrða fyrir greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði þykir málskostnaður kæranda hæfilega ákvarðaður 50.000 kr.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Persónuafsláttur til frádráttar álögðum tekjuskatti og útsvari kæranda ákvarðast 581.820 kr. Málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði ákveðst 50.000 kr. Að öðru leyti er kröfum kæranda hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja