Úrskurður yfirskattanefndar

  • Álag
  • Framleiðsluréttur í landbúnaði

Úrskurður nr. 234/2015

Gjaldár 2014

Lög nr. 90/2003, 32. gr. (brl. nr. 165/2010, 6. gr.), 95. gr. 1. mgr., 108. gr. 2. mgr.  

Fallist var á kröfu kæranda um niðurfellingu 25% álags vegna óheimillar fyrningar keypts framleiðsluréttar í landbúnaði.

I.

Málavextir eru þeir að í eignaskrá (RSK 4.01) sem fylgdi skattframtali kæranda árið 2014 kom fram að keypt hefðu verið 50 ærgildi fyrir 1.800.000 kr. Jafnframt kom fram að eignin hefði verið færð niður um 20% eða um 360.000 kr. og var sú fjárhæð færð til gjalda í reit 3130 í skattframtalinu.

Með bréfi, dags. 12. febrúar 2015, lagði ríkisskattstjóri fyrir kæranda með vísan til 1. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, að rökstyðja umrædda færslu þar sem ekki væri heimilt að færa niður kaup á framleiðslurétti samkvæmt 32. gr. laga nr. 90/2003.

Í svarbréfi umboðsmanns kæranda, dags. 19. febrúar 2015, kom fram að mistök hefðu verið gerð í fyrningarskýrslu með skattframtali kæranda árið 2014 þar sem framleiðsluréttur í landbúnaði hefði verið færður niður um 20%, eins og heimilt hefði verið fram til ársloka 2010. Var þess farið á leit að innsent skattframtal yrði leiðrétt og afskriftir lækkaðar um 360.000 kr. í samræmi við meðfylgjandi leiðrétt skattframtal og fyrningarskýrslu.

Með bréfi, dags. 2. mars 2015, boðaði ríkisskattstjóri kæranda hækkun á stofni til tekjuskatts gjaldárið 2014. Væri fyrirhugað að lækka gjaldfærðar afskriftir í skattframtali um 360.000 kr. og yrðu hreinar tekjur ársins því 546.222 kr. í stað 186.222 kr. Vísaði ríkisskattstjóri til 32. gr. laga nr. 90/2003. Þá boðaði ríkisskattstjóri beitingu 25% álags samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 á hækkun skattstofna.

Með úrskurði um endurákvörðun, dags. 31. mars 2015, hratt ríkisskattstjóri hinum boðuðu breytingum í framkvæmd og endurákvarðaði opinber gjöld kæranda til samræmis. Hækkaði ríkisskattstjóri tekjuskattsstofn kæranda gjaldárið 2014 um 360.000 kr. að viðbættu 25% álagi að fjárhæð 90.000 kr. Til stuðnings álagsbeitingu tók ríkisskattstjóri fram að vantalinn skattstofn þætti slíkur annmarki á framtalsgerð að ekki stæðu rök til annars en að beita heimild 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003. Ekki lægi fyrir að um hefði verið að ræða óviðráðanleg atvik sem kæranda yrði ekki kennt um, sbr. 3. mgr. 108. gr.

II.

Með kæru, dags. 24. apríl 2015, hefur umboðsmaður kæranda skotið úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 31. mars 2015, til yfirskattanefndar. Er þess krafist að álagsbeiting ríkisskattstjóra verði felld niður að fullu. Til vara er gerð krafa um að álag verði fært niður í 15%. Í kærunni er greint frá málsatvikum og tekið fram að kærandi hafi á árinu 2013 keypt fullvirðisrétt í landbúnaði fyrir 1.800.000 kr. Við gerð skattframtals árið 2014 hafi verið litið til eldra ákvæðis 32. gr. laga nr. 90/2003 þar sem kveðið hafi verið á um að stofnkostnað við kaup á framleiðslurétti í landbúnaði mætti færa niður með jöfnum fjárhæðum á 5 árum. Er óskað eftir niðurfellingu álags í ljósi þess að tekjur hafi ekki verið vantaldar af ásetningi heldur hafi kæranda og aðstoðarmanni félagsins yfirsést breyting á umræddu lagaákvæði. Hafi umboðsmaður kæranda greint frá mistökunum þegar þau hafi orðið ljós eftir ábendingu ríkisskattstjóra og óskað eftir leiðréttingu skattframtalsins með bréfi, dags. 19. febrúar 2014. Er bent á að framtalsforrit sem notað hafi verið við gerð fyrningarskýrslu hafi ekki útilokað umrædda niðurfærslu. Jafnframt er bent á úrskurð yfirskattanefndar nr. 214/2014 þar sem álag hafi verið fellt niður þrátt fyrir hækkun skattstofns, enda hafi verið um leiðréttingu að ræða. Samkvæmt 3. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 beri að fella niður álag hafi skattaðili bætt úr annmörkum eða leiðrétt einstaka liði á framtali sínu. Í því ljósi er gerð krafa um niðurfellingu álags en til vara að álag verði lækkað í 15%, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 en þar segi að bæti skattaðili úr annmörkum eða leiðrétti einstaka liði í skattframtali sínu megi aðeins beita 15% álagi.

III.

Með bréfi, dags. 18. maí 2015, hefur ríkisskattstjóri gert þá kröfu í málinu að álagsbeiting verði staðfest þar sem ekki hafi verið sýnt fram á að tilvik kæranda sé þess eðlis að 3. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, geti átt við. Umboðsmaður kæranda vísi um rökstuðning fyrir kröfu um niðurfellingu álags m.a. til úrskurðar yfirskattanefndar nr. 214/2014. Ríkisskattstjóri telji málavexti í tilvitnuðum úrskurði og máli kæranda ekki sambærilega eða hafa fordæmisgildi um niðurstöðu í máli kæranda.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 21. maí 2015, var kæranda sent ljósrit af umsögn ríkisskattstjóra í málinu og félaginu gefinn kostur á að tjá sig um hana og leggja fram gögn til skýringar.

Með bréfi, dags. 8. júní 2015, hefur kærandi gert grein fyrir athugasemdum sínum. Eru kröfur og sjónarmið kæranda áréttuð og m.a. ítrekað að skattframtalið hafi verið leiðrétt um leið og ríkiskattstjóri hafi bent á annmarka þess.

IV.

Samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, má ríkisskattstjóri bæta 25% álagi við áætlaða eða vantalda skattstofna séu annmarkar á framtali, sbr. 96. gr., eða einstakir liðir ranglega fram taldir. Bæti skattaðili úr annmörkum eða leiðrétti einstaka liði á framtali áður en álagning fer fram, má ríkisskattstjóri þó eigi beita hærra álagi en 15%. Samkvæmt 3. mgr. sömu lagagreinar skal fella niður álag samkvæmt greininni ef skattaðili færir rök að því að honum verði eigi kennt um annmarka á framtali eða vanskil þess, að óviðráðanleg atvik hafi hamlað því að hann skilaði framtali á réttum tíma, bætti úr annmörkum á framtali eða leiðrétti einstaka liði þess.

Eins og greinir í kafla I hér að framan var almenn fyrning keypts framleiðsluréttar á árinu 2013 að fjárhæð 360.000 kr. skýrlega tilgreind í eignaskýrslu (RSK 4.01) með skattframtali kæranda árið 2014. Samkvæmt þessu verður að byggja á því að þessar upplýsingar hafi legið fyrir ríkisskattstjóra fyrir lok almennrar álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2014. Þegar til þessa er litið og að virtri heimild ríkisskattstjóra til leiðréttinga á einstökum liðum skattframtals, sbr. 1. mgr. 95. gr. laga nr. 90/2003, svo sem það ákvæði hefur verið skilið og skýrt í úrskurðaframkvæmd, verður naumast talið að hin kærða ákvörðun ríkisskattstjóra um beitingu álags samkvæmt heimildarákvæði 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 sé nægilega rökstudd. Að því athuguðu og að virtum fram komnum skýringum kæranda þykir mega fallast á kröfu kæranda um niðurfellingu álags.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Hið kærða álag fellur niður.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja