Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 43/1986

Gjaldár 1983

Lög nr. 75/1981 — 2. gr. 1. mgr. 5. tl., 91. gr., 95. gr. 2. mgr.  

Dánarbú — Lögaðili — Skattskylda dánarbús — Búskipti — Framtalsskylda — Skiptaráðandi — Skiptalok — Áætlun

Kærð er álagning tekjuskatts gjaldárið 1983 og þess krafist að hún verði felld niður. Er krafan studd svofelldum rökstuðningi:

„Málavextir eru þeir, að dánarbú þetta var tekið til opinberra skipta 23. mars 1982 og lauk skiptunum með skiptagerð hinn 21. maí sama ár. Fór undirritaður með búskiptin sem skiptaráðandi í Reykjavík.

Hinn 17. ágúst 1983 barst mér frá einum erfingja dánarbúsins gjaldheimtu- og álagningarseðill 1983, sem er meðal fylgigagna með bréfi þessu, og kærði ég álagninguna samdægurs með bréfi og krafðist þess, að þessi álagning yrði felld niður. Með hinum kærða úrskurði var þeirri kröfu hafnað.

Úrskurður skattstjóra virðist á því byggður, að undirrituðum hafi borið að skila framtali fyrir dánarbúið fyrir tímabilið 1. jan. til 21. maí 1982 og fá álagningu fyrir það brot úr árinu. Þessari „skyldu hafi ekki verið sinnt og því hafi skattstjóra borið að áætla búinu tekjur fyrir þetta tímabil.

Með þessum úrskurði fer skattstjórinn í Reykjavík inn á áður óþekktar brautir varðandi skattalega meðferð dánarbúa. Mörg hundruð dánarbú eru afgreidd hér í Reykjavík árlega, ýmist í einkaskiptum eða opinberum skiptum og fær skattstjóri ávallt í janúar-mánuði eintak af öllum erfðafjárskýrslum næstliðins árs. Hefur það ekki komið fyrir fyrr, svo undirrituðum sé kunnugt, að skattstjóri hafi VILJANDI lagt opinber gjöld á dánarbú vegna áætlaðra tekna þess á því ári, sem skiptameðferð þess lauk.

Því er haldið fram af kæranda, að dánarbúið sé ekki skattskyldur lögaðili árið 1983 og ef skattstjóri vilji leggja tekjuskatt á ætlaðar tekjur þess á árinu 1982 verði hann að beina þeirri skattlagningu að erfingjum þess.

Með bréfi dags. 3. desember 1985 gerir ríkisskattstjóri þær kröfur í málinu að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Samkvæmt ótvíræðu ákvæði 5. tl. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, eru dánarbú sem skipt er hér á landi sjálfstæðir skattaðilar. Skattskyldu dánarbús lýkur við skiptalok. Verður því eigi fallist á þá kröfu kæranda að hinn álagði tekjuskattur verði felldur niður á þeim forsendum að kærandi sé ekki sjálfstæður skattaðili. Af hálfu kæranda sem er dánarbú hefur framtalsskyldu skv. 91. gr. nefndra laga enn eigi verið sinnt. Var skattstjóra rétt að áætla kæranda skattstofna svo ríflega sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 95. gr. sömu laga. Kemur þá til skoðunar hvort áætlaður tekjuskattsstofn hafi verið um skör fram þegar tekið er tillit til þeirra upplýsinga sem liggja fyrir í gögnum málsins. Að öllu virtu þykir sá stofn áætlaður hærri en efni standa til. Þykir hann hæfilega áætlaður með 5.000 kr. og breytist hinn kærði skattur til samræmis.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja