Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 183/1986

Gjaldár 1984

Lög nr. 75/1981 — 30. gr. 1. mgr. D-liður 1. tl., 106. gr. 2. mgr.  

Lífeyrissjóðsiðgjald — Frádráttur lífeyrissjóðsiðgjalds — Lífeyrissjóðsiðgjald, hámark frádráttar — Viðmiðunarlaun v/frádráttar lífeyrissjóðsiðgjalds — Reiknað endurgjald — Mótframlag atvinnurekanda v/lífeyrissjóðsiðgjalds — Álag — Vantaldir skattstofnar

Málavextir eru þeir, að kærandi færði til frádráttar í reit 55 í skattframtali sínu árið 1984 iðgjaldagreiðslur til Lífeyrissjóðs lækna og Elli- og örorkusjóðs lækna að fjárhæð 44.770 kr. Skattstjóri lækkaði þennan frádráttarlið um 17.738 kr. eða í 27.032 kr. Þá bætti skattstjóri 25% álagi á hinn vantalda skattstofn, sbr. heimildarákvæði 1. ml. 2. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Vísaði skattstjóri til ákvæða 1. tl. D-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Taldi skattstjóri að miða bæri fjárhæð frádráttarbærra iðgjaldagreiðslna við 11% af tilfærðum reiknuðum launum kæranda við sjálfstæða starfsemi 29.249 kr. eða 3.294 kr. og 4% af launatekjum, sem námu 593.713 kr. eða 23.748 kr. Samtals næmi þetta 27.032 kr. í hinum kærða úrskurði, dags. 16. október 1985, kemur m.a. fram af hálfu skattstjóra, að af launatekjum kæranda hafi þegar verið reiknað iðgjald af lífeyristryggingu í samræmi við kjarasamninga. Krafa kæranda er sú, að til frádráttar í reit 55 komi 38.274 kr. Kærandi rökstyður kröfu sína þannig, að greiðslur vinnuveitanda hans á árinu 1983 til lífeyrissjóðs hafi numið 29.211 kr., er séu 5% af 584.220 kr. Greiðslur hans, kæranda, hafi numið 23.370 kr. er séu 4% af 584.220 kr. Hljóti þetta að vera sú fjárhæð, sem notuð sé til viðmiðunar þessum greiðslum. Bendir hann á, að heildargreiðslur hans vegna í lífeyrissjóð nemi aðeins 9% af fullum tekjum hans hjá ríkissjóði. Að auki komi til reiknuð laun af atvinnurekstri 29.249 kr. Heildartekjur til viðmiðunar séu því samkvæmt þessu 613.499 kr. og leyfilegar lífeyrissjóðsgreiðslur af því 11% eða 67.485 kr. Þegar mótframlag vinnuveitanda hafi verið dregið frá eða 29.211 kr. standi eftir 38.274 kr., er hljóti að vera sú upphæð, sem kæranda sé samkvæmt skattalögum heimilt að færa til frádráttar. Kveðst kærandi upphaflega hafa fært til frádráttar 44.770 kr., sem sé sú fjárhæð, sem hann hafi raunverulega greitt, þ.e.a.s. 23.370 kr. til Lífeyrissjóðs lækna og 21.400 kr. til Elli- og örorkusjóðs lækna, en sú upphæð hafi verið lágmarksgjald þess árs. Fellst hann á, að þessi fjárhæð sé hærri en leyfilegt mark samkvæmt skattalögum. Stafi upphafleg færsla af því, að honum hafi verið ókunnugt um fjárhæð framlags vinnuveitanda. Með vísan til þess fer kærandi fram á, að álagi verði ekki beitt á offærða fjárhæð, þ.e. á 6.496 kr.

Með bréfi, dags. 3. febrúar 1986, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu:

„Fallist er á að frádráttur lífeyrisiðgjalda verði kr. 35.057, þ.e. (11% af kr. 584.250)

— 29.211.

Skv. D-lið 1. tl. 30. gr. laga nr. 75/1981 skal frádráttur vegna iðgjalda aldrei vera hærri en 11% af þeim launum sem almennt eru til viðmiðunar slíkum greiðslum. Ríkisskattstjóri lítur svo á að viðmiðunarlaun í tilfelli kæranda séu kr. 584.250. Kemur því ekki til frádráttarbærs iðgjalds af reiknuðum launum kæranda.

Með hliðsjón af aðstæðum er fallist á niðurfellingu álags.

Fyrir liggur, að kærandi hefur greitt hærri fjárhæð í lífeyrissjóði á árinu 1983 en krafist er, að komi til frádráttar í máli þessu. Eins og málið liggur fyrir nú, er deilt um það hvaða fjárhæð beri að hafa til viðmiðunar við ákvörðun þess hámarks, sem greinir í 2. ml. 1. mgr. 1. tl. D-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, þ.e.a.s. sem setur umræddum frádrætti þær skorður, að hann megi ekki vera hærri en 11% af þeim launum, sem almennt séu til viðmiðunar greiðslum iðgjalda til lífeyrissjóðs. Í lokamálslið 1. mgr. 1. tl. D-liðs 1. mgr. nefndrar lagagreinar segir jafnframt, að hafi atvinnurekandi greitt hluta iðgjaldsins skerðist réttur launþega til frádráttar, sem því nemi. Ríkisskattstjóra og kæranda ber á milli í því, að kærandi vill, að til viðmiðunar í þessum efnum verði auk framangreindrar fjárhæðar 584.250 kr. reiknað endurgjald það, sem hann tilfærði í skattframtali sínu 29.249 kr. Í frádrætti nemur þessi munur 3.217 kr. Kærandi hefur innt iðgjaldagreiðslur af höndum í tvo lífeyrissjóði. Þegar litið er til þess, sem upplýst er um í málinu um eðli þeirrar viðmið¬unarfjárhæðar, sem fyrr greinir, þykir með skírskotun til ákvæða 1. tl. D-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981 verða að reikna heildarfjárhæð frádráttarbærra lífeyrissjóðsiðgjalda kæranda á grundvelli þessarar viðmiðunar. Verður því frádráttarbær upphæð sú, sem greinir í kröfugerð ríkisskattstjóra eða 35.057 kr. Álag það, sem skattstjóri bætti við ætlaðan vantalinn skattstofn, er fellt niður, enda kæranda fyrst gerð grein fyrir álagsbeitingunni í endurákvörðun skattstjóra, dags. 6. maí 1985, jafnframt því að efnisrök þykja eigi fyrir beitingu þess.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja