Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 213/1986

Gjaldár 1985

Lög nr. 75/1981 — 1. gr., 69. gr.   Lög nr. 128/1984  

Skattskylda — Heimilisfesti — Lögheimili — Ótakmörkuð skattskylda — Nám — Námsmaður — Úrskurðarvald ríkisskattstjóra — Barnabætur — Barnabótaauki — Barnabætur erlendis — Barnabætur, skerðing — Barnabætur, skipting — Meðalgengi — Útreikningur barnabóta erlendis

Málavextir eru þeir, að kærendur dvöldust í Danmörku vegna náms kæranda, G. Í skattframtali árið 1985 var þess getið í athugasemdadálki, að bréflega hefði verið sótt um það til ríkisskattstjóra, að kærendur héldu skattalegu lögheimili sínu hér á landi þrátt fyrir þessa dvöl í Danmörku. Í málinu liggur fyrir ljósrit af bréfi umboðsmanns kærenda til ríkisskattstjóra, dags. 15. mars 1985, þar sem erindi þetta er lagt fyrir. Þá liggur fyrir ljósrit af úrskurði ríkisskattstjóra, sbr. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, þar sem svo er ákveðið, að kærendur skuli eiga skattalega heimilisfesti hér á landi og bera hér skattskyldu samkvæmt 1. gr. nefndra laga.

Við frumálagningu opinberra gjalda gjaldárið 1985 ákvarðaði skattstjóri kærendum engar barnabætur eða barnabótaauka vegna barns þeirra, R. Umboðsmaður kærenda krafðist þess í kæru til skattstjóra, dags. 20. ágúst 1985, að kærendum yrðu ákvarðaðar barnabætur gjald-árið 1985. Vísaði hann til þess, að ríkisskattstjóri hefði úrskurðað, að kærendur skyldu eiga skattalega heimilisfesti hér á landi og bera ótakmarkaða skattskyldu hér samkvæmt 1. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. og það, sem fram kæmi í 69. gr. sömu laga varðandi greiðslu barnabóta.

Skattstjóri tók kæruna til úrlausnar með úrskurði, dags. 12. september 1985. Hafnaði hann kærunni. Tók hann fram, að lögheimili kærenda væri í Danmörku, en skattalegt lögheimili á íslandi frá árinu 1983 skv. úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 25. mars 1985. Ættu kærendur því rétt á barnabótum samkvæmt íslenskum lögum að frádregnum barnabótum eða hliðstæðum greiðslum, sem þau nytu samkvæmt dönskum lögum vegna lögheimilis síns í Danmörku. Hefðu kærendur hvorki með skattframtali sínu eða kæru gefið upplýsingar um fjárhæð barnabóta þeirra í Danmörku. Væri því að svo stöddu ekki unnt að ákvarða þeim barnabætur á Íslandi.

Kæruúrskurði skattstjóra hefur af hálfu umboðsmanns kærenda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 9. október 1985, og þess krafist, að kærendum verði úrskurðaðar barnabætur og barnabótaauki gjaldárið 1985 í samræmi við skattalög og gögn málsins. Boðað var, að frekari gögn, þ.e.a.s. upplýsingar um barnabætur í Danmörku á árinu 1984, yrðu send um leið og þau bærust. Með bréfi umboðsmanns kærenda, dags. 21. október 1985, fylgdu gögn um barnabætur á árinu 1984 („börnetilskud og/eller ungdomsydelse) frá Danmörku (Social- og sundhedsforvaltningen í Odense). Kæmi þar fram, að barnabætur til kærenda á árinu 1984 hefðu numið 2.316 d.kr.

Með bréfi, dags. 4. mars 1986, fellst ríkisskattstjóri á kröfur kærenda með hliðsjón af framlögðum gögnum.

Kærendur bera ótakmarkaða skattskyldu hér á landi gjaldárið 1985, sbr. úrskurð ríkisskattstjóra um skattalega heimilisfesti, dags. 25. mars 1985, sem fyrir liggur í málinu. Hafa kærendur hagað framtalsgerð sinni í samræmi við þetta. Ber að ákvarða þeim barnabætur skv. 69. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, vegna barns þeirra, R., svo og barnabótaauka skv. lögum nr. 128/1984, um sérstakan barnabótaauka, er verður óskertur í tilviki kærenda eða 15.000 kr. Af hálfu kærenda hefur verið upplýst um hliðstæðar greiðslur vegna barnsins í Danmörku á árinu 1984. Reiknast sú fjárhæð 7.086 kr. skv. meðalgengi og kemur til frádráttar barnabótum 15.000 kr. skv. 69. gr. laga nr. 75/1981, sbr. 2. mgr. greinarinnar. Ákvarðast kærendum því barnabætur og barnabótaauki samtals 22.914 kr., er skiptist milli kærenda, sbr. 5. mgr. 69. gr. nefndra laga.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja