Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 274/1986

Gjaldár 1985

Lög nr. 75/1981 — 30. gr. 1. mgr. D-liður 2. tl., 31. gr. 1. tl.   Lög nr. 61/1942  

Málavextir eru þeir, að kærandi gjaldfærði félagsgjöld að fjárhæð 12.719 kr. á rekstrarreikningi þeim er fylgdi skattframtali hans 1985. Með bréfi dags. 19. júlí 1985 tilkynnti skattstjóri kæranda um breytingu þess efnis að hin gjaldfærðu félagsgjöld hefðu verið færð af rekstrarreikningi í reit 56 á skattframtali hans 1985 á þeirri forsendu að gjöldin væru ekki greidd til félags sem starfaði eingöngu í þágu atvinnurekenda. Hækkaði skattstjóri jafnframt hreinar tekjur kæranda af atvinnurekstri um fyrrgreinda fjárhæð. Þessar breytingar skattstjóra voru kærðar til skattstjóra með kæru dags. 22. ágúst 1985 og boðað að nánari greinargerð yrði send síðar. Með kæruúrskurði uppkveðnum 4. nóvember 1985 synjaði skattstjóri kærunni með því að rökstuðningur fyrir kæruatriðum hefði ekki borist.

Kærandi hefur skotið úrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar með svofelldri kæru:

„Með bréfi dags. 19.7.1985 tilkynnti skattstjórinn í Reykjanesumdæmi þær breytingar á gjaldfærðu félagsgjaldi að fjárhæð kr. 12.719.00, að það var fært af rekstursreikningi í reit 56 á skattframtali, þar sem gjaldið væri ekki greitt til félags sem starfaði einvörðungu í þágu atvinnurekenda.

Hin umdeildu gjöld eru sem hér segir:

Lögmannafélag Íslands Kr. 5.500.00
Verslunarráð Íslands " 6.500.00
Lögfræðingafélag Íslands " 719.00

Kr. 12.719.00

Rökstuðningur: Lögmannafélag Íslands er skyldufélag þeirra sem hafa málflutning að atvinnu skv. 7. gr. l. nr. 61/1942. Félagið sinnir hagsmunum lögmannastéttarinnar og er því atvinnurekstrarfélag.

Verslunarráð Íslands er atvinnurekstrarfélag og starfar í þágu atvinnurekenda og uppfyllir því skilyrði til frádráttar á rekstursreikningi.

Hvað varðar félagsgjald til Lögfræðingafélags Íslands að fjárhæð kr. 719.00, þá fellst ég á að það verði fært í reit 56 á framtali.

Kröfur: að talan í reit 62 á framtali lækki um kr. 12.000.00.

Kröfugerð ríkisskattstjóra f.h. gjaldkrefjenda dags. 24. febrúar 1986 er svohljóðandi:

„Ríkisskattstjóri fellst á að félagsgjöld til Lögmannafélags Íslands séu frádráttarbær skv. 31. gr. laga nr. 75/1981 en að öðru leyti er ekki fallist á kröfur kæranda þar sem hann þykir ekki hafa sýnt fram á frádráttarbærni félagsgjalda til Verslunarráðs Íslands.

Atkvæði meirihluta:
Svo sem fram kemur í kærunni til ríkisskattanefndar er kæranda skylt að vera í Lögmannafélagi Íslands vegna starfsemi sinnar sbr. 7. gr. laga nr. 61/1942, um málflytjendur. Þegar af þeirri ástæðu þykir bera að taka kröfu hans um frádrátt umræddra félagsgjalda til greina. Að öðru leyti er kröfum kæranda hafnað.

Atkvæði minnihluta:
Kærandi þykir eigi hafa sýnt fram á að hin umræddu félagsgjöld til Lögmannafélags íslands séu frádráttarbær í skilningi 1. tl. 31. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt sem rekstrarkostnaður. Er hinn kærði úrskurður skattstjóra því staðfestur að því er þetta kæruatriði varðar. Að öðru leyti fellst ég á atkvæði meirihluta.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja