Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 322/1986

Gjaldár 1985

Lög nr. 14/1965 — 1. gr., 2. gr., 7. gr., 8. gr   Lög nr. 75/1981 — 96. gr., 99. gr.  

Launaframtal — Launaskattsskylda — Launagreiðandi — Skattskyldur aðili — Rangur skattaðili — Kæra — Málsmeðferð áfátt — Launagreiðandi, erlendur

Kærð er álagning launaskatts og launatengdra gjalda gjaldárið 1985, vegna greiddra launa á árinu 1984, „sem grundvölluð eru á launaframtali sent í nafni S. W. Ltd., þar sem kærandi hefði ekkert haft með rekstur þess fyrirtækis að gera.

Með bréfi dags. 25. mars 1986 krefst ríkisskattstjóri þess fyrir hönd gjaldkrefjenda að „-kærunni verði vísað frá ríkisskattanefnd þar sem hún er sannanlega of seint fram komin.

Eftir því sem næst verður komist um málsatvik barst skattstjóra í kærufresti eftir álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1985 óundirritað og ódagsett launaframtal frá S. W. Ltd. með tilgreindu heimilisfangi á Englandi. Var þar færð sem heildargreiðslur á 8 launamiðum 165.513 kr. sem laun á árinu 1984. Skattstjóri tók launaframtal þetta sem skattkæru frá kæranda og kvað þann 20. nóvember 1985 upp þann úrskurð að hann féllist „á að leggja innsent launaframtal með breytingu til grundvallar álagningu launatengdra gjalda gjaldárið 1985 vegna greiddra launa á árinu 1984. Breyting sú á launaframtalinu, sem skattstjóri kveðst hafa gert, var fólgin í því að færa nafn kæranda á framtalið og telja launagreiðslurnar hafa átt sér stað í nóvember — desember á árinu 1984. Eigi verður séð af gögnum málsins á hverju skattstjóri byggði þá ákvörðun sína að um hafi verið að ræða launagreiðslur kæranda. Af hálfu kæranda hefur ákvörðun skattstjóra verið mótmælt.

Að virtri málsmeðferð skattstjóra, sem eigi er viðhlítandi, er kæran til ríkisskattanefndar tekin til efnismeðferðar og er fallist á framkomnar kröfur.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja