Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 396/1986

Gjaldár 1985

Reglugerð nr. 145/1982 — 8. gr. — 10. gr.   Lög nr. 14/1965 — 2. gr. 2. mgr.  

Launaskattur — Launaframtal — Launaskattsstofn — Atvinnurekendagjöld — Fæðiskostnaður — Vinnufatakostnaður — Launaskattsskyld hlunnindi — Launaskattsskylda

Málavextir eru þeir, að kærandi skilaði sérstöku framtali til launaskatts árið 1985. Með bréfi, dags. 19. júlí 1985, tilkynnti skattstjóri kæranda, að sú breyting hefði verið gerð á launaframtalinu, að launatengd gjöld væru lögð á fæðiskostnað og vinnufatnað samkvæmt rekstrarreikningi samtals að fjárhæð 882.582 kr., sbr. 10. gr. reglugerðar um launaskatt. Við ákvörðun launatengdra gjalda á álagningarseðli við frumálagningu opinberra gjalda gjaldárið 1985 var tekið tillit til þessarar fjárhæðar í stofni til gjaldanna. Að því er álagningu launaskatts áhrærir var kæranda kunngerð álagning hans með tilkynningu, dags. 17. október 1985.

Með kæru, dags. 12. ágúst 1985, mótmælti umboðsmaður kæranda þeirri breytingu, sem skattstjóri ákvað með bréfi sínu, dags. 19. júlí 1985. Viðvíkjandi fæðiskostnaðinum tók umboðsmaðurinn fram, að starfsmenn greiddu hluta af þeim kostnaði og hefði það að jafnaði verið 80 kr. fyrir máltíðina á árinu 1984. í 10. gr. reglugerðar um launaskatt segði, að fæðishlunnindi skyldi reikna til launa á sama verði og þau væru metin til tekna samkvæmt skattmati ríkisskattstjóra. Það mat hefði verið 76 kr. fyrir máltíðina 1984. Sá fæðiskostnaður, sem tilfærður væri í rekstrarreikningi, væri fæðiskostnaður að frádregnum hluta starfsmanna, þannig að hér væri um að ræða fæðiskostnað umfram hlunnindamat ríkisskattstjóra. Umboðsmaðurinn gaf svofelldar skýringar á vinnufatakostnaðinum: „Liðurinn vinnufatnaður er myndaður af kaupum á vinnusloppum, vinnuvettlingum, vinnugöllum og öryggisskóm til notkunar á efnalofti. Notkun öryggisskóa á efnalofti er fyrirskipuð af Öryggiseftirliti ríkisins, vinnusloppar, gallar og vettlingar eru til notkunar vegna óþrifavinnu og ber vinnuveitanda að leggja þau til skv. kjarasamningum. Hér er eingöngu um að ræða hlífðarföt, sem starfsmenn nota aðeins á vinnustað og ekki verður litið svo á að þau séu þeim á nokkurn hátt til hagsbóta. Við lítum svo á að hér sé ekki um launaskattsskyld hlunnindi að ræða. Með kæru, dags. 30. október 1985, mótmælti umboðsmaður kæranda álagningu launaskatts á umrædda liði með vísan til röksemda í kærunni frá 12. ágúst 1985.

Með úrskurðum, dags. 12. nóvember 1985 og 9. desember 1985, tók skattstjóri ágreiningsefnin til úrlausnar. Í úrskurðinum frá 12. nóvember 1985 varðandi launatengdu gjöldin tók skattstjóri fram, að miðað við þá forsendu, að hinir tilgreindu gjaldaliðir uppfylltu skilyrði 1. tl. 1. mgr. 31. gr. laga nr. 75/1981 til þess að teljast frádráttarbær rekstrarkostnaður, væri það mat skattstjóra, að gjaldaliðir þessir sköpuðu kæranda gjaldskyldu til hinna kærðu gjalda. Vísaði skattstjóri og til 8. og 10. gr. reglugerðar nr. 145/1982, um launaskatt.

Með kærum, dags. 21. nóvember og 27. desember, 1985 hefur umboðsmaður kæranda skotið kæruúrskurðum skattstjóra til ríkisskattanefndar og eru fyrri kröfur ítrekaðar með vísan til áður framkomins rökstuðnings. Varðandi ágreiningsefnin hafði umboðsmaðurinn til viðbótar eftirfarandi fram að færa: „Samkvæmt úrskurðinum virðist túlkun skattstjóra vera sú að þargreindir liðir þurfi að skapa gjaldskyldu til launatengdra gjalda til þess að uppfylla skilyrði 1. tl. 1. mgr. 31. gr. laga nr. 75/1981 þ.e. að geta talist frádráttarbær kostnaður. Við erum ósammála þessari túlkun og viljum nefna sem dæmi kostnað vegna mötuneytis og rekstrarkostnað bifreiðar. Þessir kostnaðarliðir eru frádráttarbærir skv. 31. gr. án þess að þeir myndi stofn til launatengdra gjalda að því marki sem þeir fara fram úr ákveðnu hlunnindamati ríkisskattstjóra sem talíð er launþegum til tekna samkv. launamiðum.

Með bréfi, dags. 8. apríl 1986, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu, að hinir kærðu úrskurðir skattstjóra verði staðfestir með vísan til forsendna þeirra.

Í máli þessu er um það deilt, hvort gjaldfærður vinnufatakostnaður 288.085 kr. og gjaldfærður fæðiskostnaður 594.497 kr. eða samtals 882.582 kr. myndi stofn til launaskatts og launatengdra gjalda kæranda. Álitaefnið er hvort hin umdeildu útgjöld séu launaskattsskyld hlunnindi skv. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 14/1965, um launaskatt, sbr. 4. gr. laga nr. 5/1982, og 8. og 10. gr. reglugerðar nr. 145/1982, um launaskatt. Að því er varðar fæðiskostnaðinn eru þær skýringar gefnar af hálfu kæranda, að starfsmenn hans hefðu greitt að jafnaði 80 kr. fyrir máltíðina á árinu 1984, en hlunnindamat fæðis (ein máltíð á dag) það ár nam 76 kr. skv. skattmati ríkisskattstjóra. Að þessu athuguðu og að virtum málavöxtum að öðru leyti, sbr. og 10. gr. reglugerðar nr. 145/1982, þykir eigi hafa verið sýnt fram á það af hálfu skattstjóra og ríkisskattstjóra, að um launaskattsskyld hlunnindi hafi verið að ræða, en af þeirra hálfu hafa skýringar kæranda eigi verið vefengdar. Þegar virt er lýsing kæranda á þeim vinnufatakostnaði, sem í málinu greinir, og ómótmælt er af hálfu skattstjóra og ríkisskattstjóra þykir eigi nægilega hafa verið sýnt fram á skattskyldu þessa gjaldaliðs til hinna umdeildu gjalda, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 14/1965, um launaskatt, með síðari breytingum, og 8. og 10. gr. reglugerðar nr. 145/1982, um launaskatt. Eru kröfur kæranda í máli þessu því teknar til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja